Mynd: Kirkjan.is Merki kirkjunnar - kirkjan.is .JPG
Mynd: Kirkjan.is

Teymi þjóðkirkjunnar hætt að kanna mál konu sem ásakaði prest um kynferðisbrot

Kona sem segir prest innan þjóðkirkjunnar hafa beitt sig kynferðisofbeldi fyrir ellefu árum síðan leitaði til teymis kirkjunnar vegna þess í nóvember í fyrra. Presturinn var sendur í leyfi í kjölfarið. Í sumar óskaði hún eftir því að könnun á málinu yrði hætt þar sem hún teldi teymið ekki óháð og að hún bæri ekki traust til þess.

Teymi þjóð­kirkj­unnar um aðgerðir gegn ein­elti, kyn­ferð­is­legri áreitni, kyn­bund­inni áreitni, ofbeldi og um með­ferð kyn­ferð­is­brota innan kirkj­unnar hefur hætt könnun á máli konu sem segir prest hafa beitt sig kyn­ferð­is­of­beldi árið 2011 þegar hún var starfs­maður í sókn hans um tíma. Í kjöl­far þess að konan til­kynnti málið til teym­is­ins var prest­ur­inn leystur tíma­bundið frá störfum á meðan að það var til skoð­unar hjá teym­inu. Hann er enn í leyfi sam­kvæmt upp­lýs­ingum á heima­síðu þeirrar kirkju sem hann starfar hjá.

Ástæða þess að teymið hætti könnun máls­ins er sú að konan bað um það. Hún telur teymið ekki vera óháð í störfum sínum og treystir því ekki. Í tölvu­pósti sem hún sendi á teymið í sumar segir að hún muni „ekki hafa sam­band meira og lít á vinnu ykkar sem lokna af minni hálfu. Ég læt ykkur ekki koma fram við mig eins og ykkur sýn­ist ég er búin að fá nóg af því frá hendi kirkj­unnar fólki og þið eruð algjör­lega fram­leng­ing af kirkj­unnar fólki og ekk­ert ann­að.“

Sagði fyrst frá í byrjun árs 2019

Kjarn­inn fjall­aði ítar­lega um málið í frétta­skýr­ingu í des­em­ber í fyrra. Kon­an, sem vill ekki koma fram undir nafni, var kölluð Anna í umfjöll­un­inn­i.  

Þar kom fram að hún hafi fyrst sagt frá hinu meinta kyn­ferð­is­of­beldi í byrjun árs 2019. Þá leit­aði hún til ann­ars prests og djákna sem hún treysti. Mannauðs­stjóri var í kjöl­farið kall­aður til og sagt að það þyrfti að láta Agn­esi M. Sig­urð­ar­dótt­ur, biskup Íslands, vita af mál­in­u. 

Anna treysti sér ekki til að fara sjálf á fund Agn­­esar bisk­­ups. Hún treysti því ekki að biskup myndi trúa henni eða taka orð hennar alvar­­lega. Prest­­ur­inn og djákn­inn sem hún leit­aði til virtu þá ósk hennar og fóru þau á fund bisk­­ups fyrir hennar hönd í byrjun árs 2019 til þess að láta biskup vita af ásök­un­un­­um. Anna fékk afhent ábyrgð­­ar­bréf frá bisk­­upi í lok apríl sama ár.

Árið 2019 tók teymi þjóð­­­kirkj­unn­­ar við umsjón og aðgæslu „fagráðs“ sem var ábyrgt fyrir mál­efn­inu frá árinu 1998. Um er að ræða teymi sem á að vera óháð kirkj­unni og hefur það yfir­lýsta hlut­verk að stuðla að aðgerðum gegn ein­elti, kyn­­ferð­is­­legri áreitni, kyn­bund­inni áreitni, ofbeldi og veita stuðn­­ing og ráð­­gjöf við með­­­ferð kyn­­ferð­is­brota er kunna að koma upp innan þjóð­­kirkj­unn­­ar.

Teymi þjóð­­­kirkj­unnar er ein­ungis skipað fag­­­fólki og engum full­­­trúa kirkj­unnar – enda er teymið sjálf­­­stæður vett­vangur utan kirkj­unn­­­ar, sam­­kvæmt upp­­lýs­ingum frá Bisk­­ups­­stofu. Starfs­­­fólk þjóð­­­kirkj­unn­­­ar, þar með bisk­­­up, hafi ekki annað aðgengi að teym­inu en að vísa málum þang­að í ferl­ið.

Anna treysti ekki fagráð­inu áður en því var breytt af þeirri ástæðu að í því sat alltaf prestur og vegna fyrri reynslu treysti hún ekki presti til að taka fag­­lega á hennar máli.

Við­tal fékk hana til að leyta til teym­is­ins

Þjóð­­kirkjan hefur sætt gagn­rýni í gegnum tíð­ina fyrir að taka illa á kyn­­ferð­is­af­brota­­málum innan kirkj­unn­ar.

Pétur Georg Markan sam­­skipta­­stjóri Bisk­­ups­­stofu sagði í sam­tali við Kjarn­ann þann 22. októ­ber í fyrra að það væri skylda kirkj­unnar að læra af þeirri sögu. Í við­tal­inu greindi Pétur einnig frá því að eitt mál hefði borist inn á borð bisk­ups sem Agnes hefði beint í form­legt ferli. Mál Önn­u. 

Við­talið við Pétur fékk Önnu til að leita til hins nýja teymis þjóð­kirkj­unnar og hún fund­aði með því 29. nóv­em­ber í fyrra. 

Anna var svo kölluð á ný á fund teym­is­ins 27. jan­úar í ár þar sem hún veitti frek­ari upp­lýs­ingar um atvik máls­ins. Í kjöl­farið hófst form­leg með­ferð þess hjá teym­inu og var stefnt að því að ljúka gerð álits um málið fyrir 1. maí. Í sam­ræmi við verk­lags­reglur boð­aði það umræddan prest á fund sinn til að bera ásak­anir kon­unnar undir hann. Á meðan að á könnun máls­ins stóð sendi Anna líka tugi tölvu­pósta á teymið með við­bót­ar­upp­lýs­ingum um mál­ið. Þar gagn­rýndi hún líka störf teym­is­ins og setti fram efa­semdir um að það bæri hag hennar fyrir brjóst­i. 

Þegar leið á vorið varð teym­inu ljóst að það myndi ekki ná að ljúka vinn­unni fyrir til­sett tíma­mörk og 25. apríl óskaði það eftir því við Bisk­ups­stofu að leyfi prests­ins frá störfum yrði fram­lengt til 1. júlí. 

Við þeirri beiðni var orð­ið. 

Telur teymið ekki óháð og treystir því ekki

Í pósti sem for­maður teymis þjóð­kirkj­unn­ar, lög­mað­ur­inn Bragi Björns­son, sendi kon­unni snemma í sumar segir að í því við­tali sem tekið hafi verið við prest­inn sem hún sakar um að hafa beitt sig kyn­ferð­is­of­beldi fyrir ell­efu árum síðan hafi komið fram upp­lýs­ingar sem teymið taldi rétt að fá við­brögð hennar við. Í við­tal­inu sagði prest­ur­inn meðal ann­ars að hann og konan hefðu átt í kyn­ferð­is­sam­bandi um nokk­urt skeið fyrir mörgum árum síðan en neit­aði því stað­fast­lega að hafa beitt hana ofbeldi og ásak­aði kon­una þess í stað um að beita sig and­legu ofbeldi með ýmsum hætti.

Konan sendi síðan tölvu­póst á teymið 2. júní síð­ast­lið­inn og til­kynnti þeim þar að hún vildi að það hætti vinnu við hennar mál. Hún teldi það ekki óháð í störfum sínum og að traust hennar á teym­inu væri ekk­ert. Þá sagði konan að hún teldi fram­komu for­manns teym­is­ins í sinn garð ófor­svar­an­lega „Ég mun ekki hafa sam­band meira og lít á vinnu ykkar sem lokna af minni hálfu. Ég læt ykkur ekki koma fram við mig eins og ykkur sýn­ist ég er búin að fá nóg af því frá hendi kirkj­unnar fólki og þið eruð algjör­lega fram­leng­ing af kirkj­unnar fólki og ekk­ert ann­að.“

Í tölvu­pósti sem for­maður teym­is­ins sendi henni degi síðar sagði hann að teymið hefði staðið í þeirri trú að Anna vildi ekki koma til við­tals til að veita andsvör við þeim upp­lýs­ingum sem prest­ur­inn hefði veitt í við­tali sínu og því ynni það að áliti í mál­inu sem byggði á fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ing­um. Það stæði þó til boða að konan kæmi til við­tals ef hún kysi svo.

Ekki á færi teym­is­ins að taka afstöðu

Þann 9. júní til­kynnti teymið kon­unni að það hefði, í sam­ræmi við beiðni henn­ar, hætt könnun máls­ins og lokið því form­lega með ritun bréfs þar sem til­kynnt yrði um mála­lok og ástæður þeirra. 

Í loka­sam­an­tekt um málið sem konan fékk senda, og er dag­sett 28. júní, segir það liggi fyrir að það væri ekki á færi teym­is­ins að taka afstöðu til ásak­ana kon­unnar um að umræddur prestur hafi beitt hana kyn­ferð­is­of­beldi þar sem slík hátt­semi varð­aði við hegn­ing­ar­lög og rann­sókn slíkra saka­mála væri í höndum lög­reglu. Þá yrði ekki séð að aðrar ávirð­ingar hennar á hendur prest­inum „er varða slæma fram­komu hans í hennar garð og hunsun séu þess eðlis að þær falli undir starfs­svið teym­is­ins“. Var þar vísað í að ávirð­ingar kon­un­anar ættu rætur í „per­sónu­legum sam­skiptum þeirra á milli í einka­lífi en snúa ekki að hegðun X í starfi sem prests“.

Við það lauk könnun teym­is­ins á erindi kon­unn­ar. Umræddur prestur er enn í leyfi sam­kvæmt upp­lýs­ingar á heima­síðu þeirrar kirkju sem hann starfar hjá. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar