Bensínverð hefur gríðarlega mikil áhrif á buddu landsmanna. Frá því að viðmiðunarverð á bensíni náði lægsta punkti frá október 2009 í krónum talið júlí í fyrra, og var 184,7 krónur, og fram í miðjan september síðastliðinn hefur það hækkað um 38,2 krónur, eða um tæplega 21 prósent á tæpum 15 mánuðum. Þetta má lesa út úr Bensínvakt Kjarnans sem unnin er mánaðarlega í samstarfi við bensínverð.is. Frá áramótum hefur verðið hækkað um næstum 14 prósent.
Vert er að taka fram að viðmiðunarverðið sem hér er stuðst við er með lægstu verðum sem standa til boða og því má reikna með að algengasta verð sé hærra. Ef til dæmis er miðað er við hæsta verð á bensínlítra í dag, sem er 234,4 krónur á lítra, hefur hækkunin numið 27 prósentum frá miðju sumri 2017.
Allar spár gera ráð fyrir því að verðið muni halda áfram að hækka. Það er þó enn töluvert langt frá hæsta punktinum sem það fór í, en um miðjan apríl 2012 var viðmiðunarverð á bensínlítra 268,1 krónur.
Ríkið tekur rúman helming
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 19,78 prósent af verði hans um miðjan september í sérstakt bensíngjald, 12,27 prósent í almennt bensíngjald og 3,7 prósent í svokallað kolefnisgjald, sem er lagt á jarðefnaeldsneyti og jarðgas. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur. Samanlagt fór því 122,8 krónur af hverjum seldum lítra til ríkisins, eða 55,1 prósent. Hæstur fór hlutur ríkisins í 60,26 prósent í júlí 2017.
Til viðbótar eru eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna eldsneytisgjalda 31,2 milljarðar króna á næsta ári. Olíugjaldið hækkar til dæmis úr 11,4 milljörðum króna í 12,1 milljarð króna og bensíngjald verður 13,2 prósent. Á síðustu árum hefur þó kolefnisgjaldið hækkað mest. Frá 2017 hefur það hækkað um 3,2 milljarða króna, en vert er að taka fram að það hækkar lítið á næsta ári, eða um rúmar 300 milljónir króna.
Álagningin sveiflast
Bensínvakt Kjarnans reiknar einnig út hlut olíufélags í hverjum seldum lítra sem afgangsstærð þegar búið er að greina aðra kostnaðarliði. Hlutur olíufélaga, þ.e. álagningin sem fer í þeirra vasa, er nú að minnsta kosti 38,65 krónur á hvern seldan bensínlítra. Hún hefur lækkað umtalsvert á síðastliðnu ári. Í maí 2017 fengu olíufélögin 41,74 krónur í sinn hlut af hverjum seldum lítra.
Olíufélögin taka nú að minnsta kosti 17,34 prósent af hverjum seldum olíulítra. Það hlutfall náði lægsta punkti sínum í september 2017 þegar olíufélögin fengu 11,38 prósent í sinn hlut. Til samanburðar þá fengu þau 21,3 prósent af hverjum seldum lítra í maí 2017.