Fyrrverandi stjórnarformaður VÍS vildi verða stjórnarformaður á ný
Enn og aftur eru átök í stjórn VÍS. Í gær fór fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, sem er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara í máli sem snýst um meint umboðssvik, mútubrot og peningaþvætti, fram á að taka aftur við formennsku. Sú krafa leiddi til þess að tveir stjórnarmenn sögðu af sér stjórnarmennsku vegna trúnaðarbrests og efa um að „umboðsskyldu stjórnarmanna sé gætt í ákvarðanatöku.“
Ástæða þess að tveir stjórnarmenn, Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson, sögðu sig úr stjórn VÍS í gær er meðal annars sú að Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins og einn stærsti einkafjárfestirinn í VÍS, vildi taka aftur við stjórnarformennsku.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var sú krafa ekki byggð á því að Helga Hlín, sem gegnt hefur stjórnarformennsku frá því í sumar, nyti ekki trausts stjórnar, heldur væri einfaldlega vilji til breytinga hjá meirihluta stjórnar hjá öðrum stjórnarmönnum. Slíkt er þó ekki hægt án þess að afturkalla umboð stjórnarformanns í skráðu félagi til setu og slík afturköllun þarf að byggja á málefnalegum ástæðum. Þegar andstaða kom fram við þessar breytingar hjá Helgu Hlín og Jóni var lögð fram ný tillaga um breytta verkaskiptingu sem í fólst að gera stjórnarmanninn Valdimar Svavarsson að stjórnarformanni. Í kjölfar þess að sú tillaga var lögð fram sögðu Helga Hlín og Jón sig úr stjórninni.
Í yfirlýsingu sem þau sendu á fjölmiðla klukkan 11:05 í gærkvöldi kom fram að ástæðan væri ágreiningur um stjórnarhætti innan stjórnar félagsins ásamt trúnaðarbresti og ágreiningi um umboðsskyldu stjórnarmanna. Þar er haft eftir þeim að nú sé svo komið að „stjórnarhættir innan stjórnar hafa leitt af sér trúnaðarbrests og um leið efa okkar um að umboðsskyldu stjórnarmanna sé gætt í ákvarðanatöku. Undir slíkum kringumstæðum eru forsendur brostnar fyrir því að við getum sinnt skyldum okkar og axlað ábyrgð sem stjórnarmenn.“ Jón var fyrst kjörin í stjórn VÍS í mars á þessu ári en Helga Hlín hefur setið þar frá því í apríl 2016.
Með stöðu sakborninga
Helga Hlín hafði verið stjórnarformaður félagsins frá því að Svanhildur Nanna steig til hliðar sem slíkur í júní síðastliðnum eftir að opinberað var að hún væri með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á meintum skilasvikum, mögulegum mútubrotum og mögulegum brotum á lögum um peningaþvætti á því þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Guðmundur Þórðarson, eiginmaður hennar, er einnig með stöðu sakbornings í málinu, en þau eiga tvö félög, Heddu eignarhaldsfélag og K2B fjárfestingar, sem eiga samtals 7,25 prósent hlut í VÍS. Það gerir þau að stærstu einkafjárfestunum í VÍS.
Hjónin höfðu byrjað að kaupa hlutabréf í VÍS af miklum krafti árið 2015. Í krafti þess eignarhlutar fóru þau síðan fram á stjórnarsetu. Í aðdraganda aðalfundar VÍS í mars 2017 sóttist Svanhildur Nanna eftir því að velta Herdísi Dröfn Fjelsted, þáverandi stjórnarformanni, úr sessi. Herdís Dröfn sat þar meðal annars með stuðningi stærstu lífeyrissjóðanna í eigendahópi VÍS. Þessi aðgerð tókst.
Gildi lífeyrissjóður, sem var einn stærsti hluthafinn í VÍS fyrir þessa óvinveittu yfirtöku á valdataumunum í félaginu, ákvað í kjölfarið að selja sig hratt niður í VÍS. Þegar upp úr sauð átti Gildi ríflega sjö prósent hlut en sjóðurinn í dag 2,78 prósent hlut.
Vék til hliðar á meðan rannsókn stæði yfir
Þegar Svanhildur Nanna steig niður sem stjórnarformaður í sumar, Í kjölfar þess að héraðssaksóknari réðst í umfangsmiklar aðgerðir, meðal annars húsleitir og handtökur, vegna Skeljungsmálsins, var send tilkynning til Kauphallar Íslands þar sem sagt var frá því að hún hefði óskað etir því að „stíga tímabundið niður sem formaður af persónulegum ástæðum.“
Síðar sendi, þegar fjölmiðlar höfðu greint frá aðgerðum héraðssaksóknara, sendi Svanhildur Nanna og Guðmundur frá sér yfirlýsingu þar sem þau höfnuðu öllum ásökunum sem á þau höfðu verið bornar. Í þeirri yfirlýsingu sagði einnig að „Svanhildur Nanna ákvað að láta öðrum eftir stjórnarformennsku í VÍS hf. á meðan rannsóknin stendur yfir.“
Heimildir Kjarnans herma að rannsókn héraðssaksóknara standi enn yfir. Þ.e. hvorki hefur verið fallið frá henni né hefur verið tekin ákvörðun um að setja málið í ákæruferli.
Varamenn taka sæti í stjórn
Helga Hlín og Jón tilkynntu um ákvörðun sína um að segja sig úr stjórn VÍS seint í gærkvöldi. Það voru bæði óháðir stjórnarmenn. Í þeirra stað munu setjast í stjórnina varamennirnir Ólöf Hildur Pálsdóttir, sjálfstætt starfandi viðskiptafræðingur, og Sveinn Friðrik Sveinsson, fjármálastjóri Samtaka fyirrtækja í sjávarútvegi (SFS).
Nýr stjórnarformaður er, líkt og áður sagði, Valdimar Svavarsson. Í tilkynningu sem hann sendi til Fréttablaðsins segir Valdimar að „eftir umræður stjórnar í dag varð ljóst að Svanhildur hugðist ekki stíga aftur inn sem formaður og því þótti rétt að stjórn skipti með sér verkum að nýju[...]Skiptar skoðanir voru um þetta á meðal stjórnarmanna en niðurstaða meirihluta stjórnar var kjósa formann og varaformann að nýju. Það eru mikil vonbrigði að Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson skyldu ákveða að segja sig úr stjórn vegna þessa og harma ég það mjög.“
Lífeyrissjóðirnir stærstu eigendurnir
Stærstu eigendur VÍS eru annars vegar íslenskir lífeyrissjóðir og hins vegar erlendir vogunarsjóðir. Stærsti einstaki eigandinn er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 8,64 prósent hlut en Frjálsi lífeyrissjóðurinn á auk þess 5,61 prósent og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 5,27 prósent. Þá á lífeyrissjóðurinn Brú 4,01 prósent hlut, Stapi lífeyrissjóður 3,87 prósent og Birta lífeyrissjóður 3,28 prósent.
Þegar þessir eignarhlutir eru lagðir saman við áðurnefndar 2,78 prósent hlut Gildis, og 1,55 prósent eignarhlut Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, þá eiga íslenskir lífeyrissjóðir samanlagt að minnsta kosti 35 prósent hlut í VÍS.
Erlendu vogunarsjóðirnir tveir, Landsdowne Partners (7,3 prósent) og breski sjóðurinn CF Miton UK Multi Cap Income (6,19 prósent), eiga síðan samtals 13,49 prósent hlut.
Það hafa hins vegar verið íslenskir einkafjárfestar sem hafa haft tögl og haldir í félaginu undanfarin misseri. Þar erum að ræða Svanhildi Nönnu og Guðmund, sem eiga samtals 7,25 prósent hlut í gegnum tvö félög, og hins vegar félagið Óskabein ehf., sem er sem er m.a. í eigu Gests Breiðfjörð Gestssonar, stjórnarmanns í VÍS, Sigurðar Gísla Björnssonar, Andra Gunnarssonar og Fannars Ólafssonar. Óskabein á í dag 2,05 prósent hlut í VÍS en félagið seldi fyrir 430 milljónir króna í félaginu í síðasta mánuði í hlutalokun á framvirkum samningi.
Auk þess eiga sjóðir sjóðstýringafyrirtækisins Stefnis, sem er í eigu Arion banka, samtals 5,76 prósent hlut í VÍS. Þá á Arion banki í eigin nafni 3,67 prósent hlut.