Mynd: Bára Huld Beck

Ef skipan dómara hefði verið lögmæt hefðu Eiríkur og Jón verið skipaðir í Landsrétt

Héraðsdómur samþykkti að greiða tveimur mönnum sem urðu af embætti dómara í landsrétti vegna saknæmrar og ólögmætrar ákvörðunar dómsmálaráðherra um að skipa þá ekki í Landsrétt. Annar gerði kröfu um 31 milljónir króna í skaðabætur en fékk fjórar milljónir. Hinn sóttist eftir viðurkenningu á bótaskyldu.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málum sem Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson höfðuðu á hendur íslenska ríkinu vegna athafna Sig­ríðar Á. Andersen dóms­­­­mála­ráð­herra þegar hún skip­aði dóm­­­­ara í Lands­rétt er komist að þeirri niðurstöðu að bæði Eiríkur og og Jón hefðu verið skipaðir í Landsrétt ef meðferð málsins hefði verið lögmæt. Því væri ekki „unnt að horfa fram hjá því að af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð viðunandi grein fyrir því hvaða samanburður fór fram á stefnanda og öðrum umsækjendum og hvernig innbyrðis mati þeirra var háttað.“

Þá yrði heldur ekki dregin fjöður yfir það að dómnefnd hafði þegar raðað Eiríki í 7. sæti á lista yfir hæfustu umsækjendur, og Jóni í 11. sæti á listanum. Auk þess búi þeir báðir yfir meiri reynslu af dómsstörfum en nokkrir þeirra umsækjenda sem lagt var til að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt, Sigríður notaði dómarareynslu sem rök fyrir því að breyta röðun á listann yfir þá sem skipaðir.

Héraðsdómur vísar enn fremur til þess að Hæstiréttur hafi þegar hafnað þeim sjónarmiðum að slíkir annmarkar hafi verið á dómnefndaráliti að tilefni hafi verið fyrir ráðherra að víkja frá því. Það var gert í desember 2017.

Í dómum í báðum málunum stendur því orðrétt: „Með vísan til þessara atriða verður að telja að stefnandi hafi leitt nægilega sterkar líkur að því að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt. Er því fallist á málsástæðu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda vegna þess fjárhagslega tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörðunar ráðherra.“

Engir annmarkar á dómnefndaráliti

Héraðsdómur segir að engir annmarkar hafi verið á því dómnefndaráliti sem Sigríður ákvað að víkja frá.

Þeirri skýringu dómsmálaráðherra að henni hefði verið ljóst að listi dómnefndarinnar myndi ekki hljóta samþykki á Alþingi óbreytt, vegna þess að forsvarsmenn samstarfsflokka hennar í ríkisstjórn hefðu gert það ljóst, er auk þess hafnað sem málefnalegri. Dómurinn bendir á að dómsmálaráðherra fór í reynd með vald til skipunar dómara við Landsrétt í samræmi við stöðu hennar sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds og bar að stjórnlögum sérstaka ábyrgð á þeirri skipun. Í báðum dómunum segir samhljóma að ekki sé „unnt að fallast á málsástæðu stefnda sem felur efnislega í sér að ráðherra hafi ekki megnað að koma í veg fyrir þá atburðarás sem átti sér stað með að gengið var fram hjá stefnanda, enda var það hún sem tók þá ákvörðun að taka hann út af listanum frekar en aðra umsækjendur. Ráðherra fór enn fremur bæði með það vald að leggja til umsækjendur og eins að ákveða hvort tillaga um skipun þeirra umsækjenda sem Alþingi hafði samþykkt yrði borin undir forseta Íslands til staðfestingar.“

Fór fram á 30,7 milljónir en fékk fjórar

Jón fór fram á alls 30,7 milljónir króna í skaðabætur vegna málsins. Sú krafa var rökstudd með því að mismunur á launum landsréttardómara og héraðsdómara frá 1. janúar 2018 og þangað til að Jón myndi láta af störfum sjötugur að aldri væri 25,6 milljónir króna. Auk þess fór hann fram á 5,1 milljón króna vegna mismunar á þeim lífeyrisréttindum sem vænta megi að hann hefði aflað ef Jón hefði verið skipaður í Landsrétt umfram það sem hann haldi áfram að starfa sem héraðsdómari.

Héraðsdómur féllst á að slíkur útreikningur gæti haft þýðingu við mat á fjárhæð skaðabóta í málinu en að það yrði að taka tillit til þess að „aðstæður stefnanda eru um margt háðar óvissu og tjón hans kann að takmarkast, til dæmis ef hann yrði síðar skipaður dómari við Landsrétt eða tæki við öðru starfi þar sem laun og lífeyrisréttindi eru hærri en hjá héraðsdómara. Í ljósi þessa verður að telja að bætur til stefnanda fyrir fjárhagslegt tjón séu hæfilega ákveðnar 4 milljónir króna að álitum.“

Auk þess fór Jón fram á að fá greiddar 2,5 milljónir króna í miskabætur en fékk dæmdar 1,1 milljón króna í slíkar.

Telur árlegt tjón sitt vera 11,3 milljónir

Eiríkur Jónsson, hinn umsækjandinn sem dómnefnd hafði metið á meðal þeirra hæfustu en hlaut ekki náð fyrir augum dómsmálaráðherra, setti ekki fram kröfu um skaðabætur heldur fór fram á að fá viðurkennda bótaskyldu. Sú bótaskylda var viðurkennd.

Eiríkur er fæddur árið 1977 og átti því allt að 30 ár eftir af starfsævinni þegar skipað var í Landsrétt.

Í dómnum kemur fram að Eiríkur telur sig hafa orðið fyrir „augljósu og auðsannanlegu“ fjárhagslegu tjóni vegna saknæmar og ólögmætrar ákvörðunar ráðherra að skipa hann ekki sem dómara í Landsrétt. „Hefði stefnandi fengið skipun í embætti landsréttardómara hefði fylgt því umtalsverð tekjuaukning fyrir hann. Stefnandi starfar sem prófessor við lagadeild Háskóla Íslands með kr. 745.318 í grunnlaun á mánuði. Mánaðarlaun landsréttardómara verði samkvæmt ákvörðun kjararáðs 14. desember 2017 samtals kr. 1.692.155. Munurinn nemi kr. 946.837 á mánuði, eða kr. 11.364.044 á ársgrundvelli. Þannig sé ljóst að grunnlaun landsréttardómara séu umtalsvert hærri en grunnlaun stefnanda og tjónið því mikið.“

Verði málunum áfrýjað verða þau næst til meðferðar í Landsrétti.
Mynd: Bára Huld Beck

Eiríkur lagði fram nýjasta launaseðil sinn, skattframtöl sem sýndu tekjur áranna 2015 og 2016 og staðgreiðsluyfirlit ársins 2017 til að sýna enn frekar fram á tjón sitt. Í dómi héraðsdóms segir að þegar litið sé til meðaltals heildartekna Eiríks á mánuði síðastliðin þrjú ár, uppreiknuð með hliðsjón af launavísitölu, sé ljóst „að sú fjárhæð er mun lægri en grunnlaun landsréttardómara. Þannig séu meðaltekjur stefnanda síðustu þrjú almanaksár, að teknu tilliti til allra aukatekna og uppreiknaðar samkvæmt vísitölu, því kr. 513.793 lægri á mánuði en grunnlaun landsréttardómara, eða sem nemur kr. 6.165.516 á ársgrundvelli. Áréttað skal að hluti af heildartekjum stefnanda – þ.e. tekjur sem eru umfram grunnlaun – sé vegna starfa sem stefnandi hefði áfram getað sinnt samhliða störfum sem landsréttardómari.“

Aukatekjur hans umrædd ár voru fyrst og fremst til komnar vegna formennsku Eiríks í Úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingu Íslands. Því starfi hélt Eiríkur áfram þegar hann var settur héraðsdómari í um eitt ár, með samþykki nefndar um dómarastörf, og hefði því getað haldið því starfi áfram samhliða Landsrétti. „Þá vísar stefnandi til þess að þegar hann var settur héraðsdómari var hann samhliða í 30% stöðu við lagadeild Háskóla Íslands, sem hann hefði jafnframt getað gegnt samhliða störfum í Landsrétti. Hann hefði samkvæmt því áfram getað haft nokkrar aukatekjur sem landsréttardómari, rétt eins og í starfi sínu sem prófessor, og eðlilegast að horfa til mismunar á grunnlaunum í hvoru starfi fyrir sig. Allt að einu sé ljóst að meðaltal heildartekna stefnanda á mánuði síðastliðin þrjú ár sé umtalsvert lægri fjárhæð en grunnlaun landsréttardómara og tjón stefnanda því augljóst.“

Bótaskylda ríkisins gagnvart Eiríki var viðurkennd. Eiríkur þarf nú að höfða skaðabótamál til að þær bætur sem hann á rétt á geti verið ákvarðaðar.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar