Mynd: Samsett vís deilur okt 2018
Mynd: Samsett

Fyrrverandi stjórnarformaður VÍS vildi verða stjórnarformaður á ný

Enn og aftur eru átök í stjórn VÍS. Í gær fór fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, sem er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara í máli sem snýst um meint umboðssvik, mútubrot og peningaþvætti, fram á að taka aftur við formennsku. Sú krafa leiddi til þess að tveir stjórnarmenn sögðu af sér stjórnarmennsku vegna trúnaðarbrests og efa um að „umboðsskyldu stjórnarmanna sé gætt í ákvarðanatöku.“

Ástæða þess að tveir stjórn­ar­menn, Helga Hlín Hákon­ar­dóttir og Jón Sig­urðs­son, sögðu sig úr stjórn VÍS í gær er meðal ann­ars sú að Svan­hildur Nanna Vig­fús­dótt­ir, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður félags­ins og einn stærsti einka­fjár­festir­inn í VÍS, vildi taka aftur við stjórn­ar­for­mennsku.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans var sú krafa ekki byggð á því að Helga Hlín, sem gegnt hefur stjórn­ar­for­mennsku frá því í sum­ar, nyti ekki trausts stjórn­ar, heldur væri ein­fald­lega vilji til breyt­inga hjá meiri­hluta stjórnar hjá öðrum stjórn­ar­mönn­um. Slíkt er þó ekki hægt án þess að aft­ur­kalla umboð stjórn­ar­for­manns í skráðu félagi til setu og slík aft­ur­köllun þarf að byggja á mál­efna­legum ástæð­um. Þegar and­staða kom fram við þessar breyt­ingar hjá Helgu Hlín og Jóni var lögð fram ný til­laga um breytta verka­skipt­ingu sem í fólst að gera stjórn­ar­mann­inn Valdi­mar Svav­ars­son að stjórn­ar­for­manni. Í kjöl­far þess að sú til­laga var lögð fram sögðu Helga Hlín og Jón sig úr stjórn­inni.

Í yfir­lýs­ingu sem þau sendu á fjöl­miðla klukkan 11:05 í gær­kvöldi kom fram að ástæðan væri ágrein­ingur um stjórn­ar­hætti innan stjórnar félags­ins ásamt trún­að­ar­bresti og ágrein­ingi um umboðs­skyldu stjórn­ar­manna. Þar er haft eftir þeim að nú sé svo komið að „stjórn­ar­hættir innan stjórnar hafa leitt af sér trún­að­ar­brests og um leið efa okkar um að umboðs­skyldu stjórn­ar­manna sé gætt í ákvarð­ana­töku. Undir slíkum kring­um­stæðum eru for­sendur brostnar fyrir því að við getum sinnt skyldum okkar og axlað ábyrgð sem stjórn­ar­menn.“ Jón var fyrst kjörin í stjórn VÍS í mars á þessu ári en Helga Hlín hefur setið þar frá því í apríl 2016.

Með stöðu sak­born­inga

Helga Hlín hafði verið stjórn­ar­for­maður félags­ins frá því að Svan­hildur Nanna steig til hliðar sem slíkur í júní síð­ast­liðnum eftir að opin­berað var að hún væri með stöðu sak­born­ings í rann­sókn hér­aðs­sak­sókn­ara á meintum skila­svik­um, mögu­legum mútu­brotum og mögu­legum brotum á lögum um pen­inga­þvætti á því þegar olíu­fé­lagið Skelj­ungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Guð­mundur Þórð­ar­son, eig­in­maður henn­ar, er einnig með stöðu sak­born­ings í mál­inu, en þau eiga tvö félög, Heddu eign­ar­halds­fé­lag og K2B fjár­fest­ing­ar, sem eiga sam­tals 7,25 pró­sent hlut í VÍS. Það gerir þau að stærstu einka­fjár­fest­unum í VÍS.

Hjónin höfðu byrjað að kaupa hluta­bréf í VÍS af miklum krafti árið 2015. Í krafti þess eign­ar­hlutar fóru þau síðan fram á stjórn­ar­setu. Í aðdrag­anda aðal­fundar VÍS í mars 2017 sótt­ist Svan­hildur Nanna eftir því að velta Her­dísi Dröfn Fjel­sted, þáver­andi stjórn­ar­for­manni, úr sessi. Her­dís Dröfn sat þar meðal ann­ars með stuðn­ingi stærstu líf­eyr­is­sjóð­anna í eig­enda­hópi VÍS. Þessi aðgerð tókst.

Gildi líf­eyr­is­sjóð­ur, sem var einn stærsti hlut­haf­inn í VÍS fyrir þessa óvin­veittu yfir­töku á valda­taumunum í félag­inu, ákvað í kjöl­farið að selja sig hratt niður í VÍS. Þegar upp úr sauð átti Gildi ríf­lega sjö pró­sent hlut en sjóð­ur­inn í dag 2,78 pró­sent hlut.

Vék til hliðar á meðan rann­sókn stæði yfir

Þegar Svan­hildur Nanna steig niður sem stjórn­ar­for­maður í sum­ar, Í kjöl­far þess að hér­aðs­sak­sókn­ari réðst í umfangs­miklar aðgerð­ir, meðal ann­ars hús­leitir og hand­tök­ur, vegna Skelj­ungs­máls­ins, var send til­kynn­ing til Kaup­hallar Íslands þar sem sagt var frá því að hún hefði óskað etir því að „stíga tíma­bundið niður sem for­maður af per­sónu­legum ástæð­u­m.“

Síðar sendi, þegar fjöl­miðlar höfðu greint frá aðgerðum hér­aðs­sak­sókn­ara, sendi Svan­hildur Nanna og Guð­mundur frá sér yfir­lýs­ingu þar sem þau höfn­uðu öllum ásök­unum sem á þau höfðu verið born­ar. Í þeirri yfir­lýs­ingu sagði einnig að „Svan­hildur Nanna ákvað að láta öðrum eftir stjórn­­­ar­­for­­mennsku í VÍS hf. á meðan rann­­sóknin stendur yfir.“

Heim­ildir Kjarn­ans herma að rann­sókn hér­aðs­sak­sókn­ara standi enn yfir. Þ.e. hvorki hefur verið fallið frá henni né hefur verið tekin ákvörðun um að setja málið í ákæru­ferli.

Vara­menn taka sæti í stjórn

Helga Hlín og Jón til­kynntu um ákvörðun sína um að segja sig úr stjórn VÍS seint í gær­kvöldi. Það voru bæði óháðir stjórn­ar­menn. Í þeirra stað munu setj­ast í stjórn­ina vara­menn­irnir Ólöf Hildur Páls­dótt­ir, sjálf­stætt starf­andi við­skipta­fræð­ing­ur, og Sveinn Frið­rik Sveins­son, fjár­mála­stjóri Sam­taka fyirr­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS).

Nýr stjórn­ar­for­maður er, líkt og áður sagði, Valdi­mar Svav­ars­son. Í til­kynn­ingu sem hann sendi til Frétta­blaðs­ins segir Valdi­mar að „eftir umræður stjórnar í dag varð ljóst að Svan­hildur hugð­ist ekki stíga aftur inn sem for­maður og því þótti rétt að stjórn skipti með sér verkum að nýju[...]­Skiptar skoð­anir voru um þetta á meðal stjórn­ar­manna en nið­ur­staða meiri­hluta stjórnar var kjósa for­mann og vara­for­mann að nýju. Það eru mikil von­brigði að Helga Hlín Hákon­ar­dóttir og Jón Sig­urðs­son skyldu ákveða að segja sig úr stjórn vegna þessa og harma ég það mjög.“

Líf­eyr­is­sjóð­irnir stærstu eig­end­urnir

Stærstu eig­endur VÍS eru ann­ars vegar íslenskir líf­eyr­is­sjóðir og hins vegar erlendir vog­un­ar­sjóð­ir. Stærsti ein­staki eig­and­inn er Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna með 8,64 pró­sent hlut en Frjálsi líf­eyr­is­sjóð­ur­inn á auk þess 5,61 pró­sent og Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins 5,27 pró­sent. Þá á líf­eyr­is­sjóð­ur­inn Brú 4,01 pró­sent hlut, Stapi líf­eyr­is­sjóður 3,87 pró­sent og Birta líf­eyr­is­sjóður 3,28 pró­sent. 

Þegar þessir eign­ar­hlutir eru lagðir saman við áður­nefndar 2,78 pró­sent hlut Gild­is, og 1,55 pró­sent eign­ar­hlut Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna Reykja­vík­ur­borg­ar, þá eiga íslenskir líf­eyr­is­sjóðir sam­an­lagt að minnsta kosti 35 pró­sent hlut í VÍS.

Erlendu vog­un­ar­sjóð­irnir tveir, Lands­dow­ne Partner­s (7,3 pró­sent) og breski sjóð­ur­inn CF Miton UK Multi Cap Income (6,19 pró­sent), eiga síðan sam­tals 13,49 pró­sent hlut.

Það hafa hins vegar verið íslenskir einka­fjár­festar sem hafa haft tögl og haldir í félag­inu und­an­farin miss­eri. Þar erum að ræða Svan­hildi Nönnu og Guð­mund, sem eiga sam­tals 7,25 pró­sent hlut í gegnum tvö félög, og hins vegar félagið Óska­bein ehf., sem er sem er m.a. í eigu Gests Breið­fjörð Gests­son­ar, stjórn­ar­manns í VÍS, Sig­urðar Gísla Björns­son­ar, Andra Gunn­ars­sonar og Fann­ars Ólafs­son­ar. Óska­bein á í dag 2,05 pró­sent hlut í VÍS en félagið seldi fyrir 430 millj­ónir króna í félag­inu í síð­asta mán­uði í hluta­lokun á fram­virkum samn­ing­i. 

Auk þess eiga sjóðir sjóð­stýr­inga­fyr­ir­tæk­is­ins Stefn­is, sem er í eigu Arion banka, sam­tals 5,76 pró­sent hlut í VÍS.  Þá á Arion banki í eigin nafni 3,67 pró­sent hlut.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar