Í fréttaflutningi og opinberri umræðu er yfirleitt lögð áhersla á það sem miður fer. Á undanförnum árum hefur umræðan um ríki Evrópusambandsins (ESB) verið í þessum anda. Flestar fréttir hafa verið af efnahagsvandræðum Grikklands og nú síðustu mánuði Ítalíu. Í þessari grein verður hins vegar varpað ljósi á sumt sem betur hefur gengið.
Aðild að Evrópusambandinu hefur í för með sér ýmis konar hagræði fyrir aðildarríkin. Í fyrsta lagi fær aðildarríki aðgang að sameiginlegum markaði með vörur, þjónustu, fjármagn og vinnuafl. Í öðru lagi fær það reglur og lög um þessa markaði sem hvert ríki verður að innleiða. Og með sameiginlegu regluverki og löggjöf öðlast ríkið aukinn trúverðugleika í augum þeirra sem vilja fjárfesta í rekstri fyrirtækja. Upptaka evru sem gjaldmiðils eyðir síðan gjaldmiðilsáhættu og eykur þannig samþættingu á innri markaði.
Ísland nýtur þess að vera á innri markaði ESB og að hafa sameiginlegt regluverk og löggjöf um þessa fjóra markaði; markað með þjónustu, vörur, fjármagn og vinnuafl, þótt landið sé ekki fullur aðili að ESB og geti þess vegna ekki tekið upp evru sem mynt þótt vilji væri til þess.
Hagstæð þróun í Austur-Evrópu
Á síðustu áratugum hefur orðið stöðugt meiri sameining og samruni í Evrópu. Evrópubandalagið var stofnað árið 1957 en síðan var sambandið dýpkað með ákvörðun af frumkvæði Breta um sameiginlegan markað í Maastricht árið 1992. Ný aðildarríki bættust við; Austurríki, Finnland og Svíþjóð árið 1995 og svo, aftur að frumkvæði Breta, mörg Austur Evrópuríki; Rúmenía, Búlgaría og Króatía árið 2000 og síðan fjöldi annarra árið 2004. Evran var svo tekin upp árið 1999 en nokkur aðildarríki ákveðu að halda í eigin gjaldmiðli, m.a. Bretland, Svíþjóð og Danmörk. Góðu fréttirnar eru þær að þótt sameiginlegur gjaldmiðill hafi haft ýmsar ófyrirséðar afleiðingar sem ekki sér fyrir enda á að ríkjum Austur Evrópu hefur vegnað vel á árunum frá því að þau gengu í sambandið.
Í töflunni hér að neðan er sýndur hlutfallslegur munur á vergri landsframleiðslu (VLF) á mann í hverju landi og í Þýskalandi árið 1999 (mismunur sem hlutfall af VLF hvers lands) og svo árið 2014. Árið 1999 voru Austur Evrópuríkin þau fátækustu í Evrópu og mörg þeirra eru það enn árið 2014. En ýmislegt hefur breyst. Bilið á milli Þýskalands og hvers þessara ríkja hefur minnkað, því meira sem löndin voru lengra á eftir til að byrja með og einnig kemur í ljós að þau þessara landa sem urðu aðildarríki að ESB hafa einnig vaxið hraðar en þau sem stóðu utan sambandsins.
VLF á mann í Þýskalandi var 152% hærri en í Rúmeníu árið 1999, 141% hærri í Búlgaríu, 118% hærri í Lettlandi, 113% hærri í Litháen og 108% í Eistlandi en bilið hefur minnkað og er nú 79% í Rúmeníu, 97% í Búlgaríu, 66% í Lettlandi, 49% í Litháen og 48% í Eistlandi. Litlu munar nú á sumum Austur- og Mið-Evrópuríkjum og mörgum ríkjum Vestur Evrópu, munurinn er einungis 37% á Þýskalandi og Tékklandi, svo dæmi sé tekið, sem er minni munur en á milli Þýslands og Portúgals, Grikklands, Kýpur og sá sami og Möltu. Þannig er VLF á mann í ríkustu Austur Evrópulöndunum að taka fram úr VLF á mann í fátækari ríkjum Vestur Evrópu.
Greinin er aðeins birt hér að litlum hluta. Greinin í heild sinni birtist Vísbendingu síðastliðinn föstudag, 2. nóvember. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.