Það hefur verið gríðarlegur uppgangur í íslensku efnahagslífi á síðustu árum. Hann hefur skilað því að eigið fé landsmanna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010 í að vera 4.103 milljarðar króna um síðustu áramót. Því hafa orðið til 2.538 nýir milljarðar króna á umræddu tímabili. Þeir hafa skipst misjafnlega niður á landsmenn.
Auður ríkasta eins prósents landsmanna, alls 2.290 fjölskyldna, hefur til að mynda aukist um 270 milljarða króna frá árslokum 2010, sem þýðir að tæplega ellefu prósent nýs auðs hefur farið til þess hluta landsmanna. Alls átti þessi hópur 719 milljarða króna í lok árs 2017.
Þegar enn minni hópur, 0,1 prósent ríkustu fjölskyldur landsins, alls 229 slíkar, er skoðaður kemur í ljós að hann á tæplega 237 milljarða króna. Auður þeirra sem tilheyra þessu ríkasta lagi þjóðfélagsins hefur aukist um tæpa 75 milljarða króna frá árslokum 2010. Meðaleign hverrar fjölskyldu sem tilheyrir þessum hópi er því rúmur milljarður króna. Og hver og ein þeirra jók eign sína að meðaltali um 328 milljónir króna á tímabilinu. Á árinu 2017 einu saman jókst auður þessa hóps um 35,3 milljarða króna, eða um 154 milljónir króna á hverja fjölskyldu.
Eiga meira en hagtölur segja til um
Eignir þessa hóps eru vanmetnar í þessum tölum, þar sem eign í hlutabréfum er færð til eignar á nafnvirði, ekki markaðsvirði, sem er vanalega miklu hærra. Sem dæmi er nafnvirði allra hlutabréfa í Icelandair Group um 4,8 milljarðar króna en markaðsvirði félagsins er vel yfir 50 milljarðar króna. Það þýðir að sá sem á t.d. hlutabréf í Icelandair sem eru að nafnvirði skráð á 100 milljónir króna gæti selt sömu bréf á yfir einn milljarð króna.
Efsta lag landsmanna á nær öll verðbréf sem eru í eigu einstaklinga hérlendis. Ríkustu tíu prósent þeirra eiga til að mynda 87 prósent allra slíkra verðbréfa. Vert er að taka fram að lífeyrissjóðir landsins eru langstærstu eigendur verðbréfa – þeir eiga tæplega 70 prósent markaðsskuldabréfa og víxla hérlendis – og eign þeirra er ekki talin með í ofangreindum tölum.
Þá vantar líka inn í tölurnar allar þær eignir sem Íslendingar eiga erlendis, og eru ekki taldar fram til skatts hérlendis. Í skýrslu sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið, og birt var í janúar 2017, kom meðal annars fram að aflandsfélagavæðing íslensks fjármálakerfis hefði haft tugi milljarða króna af íslenskum almenningi í vangoldnum skattgreiðslum og búið til gríðarlegan aðstöðumun þeirra sem hafa, bæði löglega og ólöglega, getað falið fé í erlendum skattaskjólum þegar illa árar í íslensku efnahagslífi en stýrt fé aftur heim til að kaupa eignir á brunaútsölu í niðursveiflum.
Þeir sem hagnast í uppsveiflum og á niðursveiflum
Þetta er yfirstétt landsins. Hún hefur hagnast mikið á örfáum árum, og hefur raunar tilhneigingu til að koma betur úr bæði hæðum og lægðum í efnahagslífinu. Ríkasta 0,1 prósent landsmanna næstum þrefaldaði til að mynda eigið fé sitt í góðærinu fyrir bankahrun. Á meðan að verðbólga og gengisfall brenndi upp eignir launamanna á Íslandi eftir hrunið héldust eignir þessa hóps nokkuð stöðugar. Og síðustu þrjú ár hafa þær vaxið hratt. Aldrei þó hraðar en á árinu 2017 þegar heilir 35,3 milljarðar króna bættust við eign hópsins. Það þýðir að tæplega helmingur alls þess nýja auðs sem safnast hefur saman hjá 0,1 prósent ríkustu Íslendingunum frá árslokum 2010, féll til í fyrra. Sú upphæð var líka tæplega fimm prósent af öllum nýjum auð sem varð til í landinu, og dreifðist til einstaklinga, á árinu 2017.
Innan þessa hóps er fólkið sem kann á íslenskt efnahagskerfi. Sem veit hvenær það á að koma eignum sínum í skjól utan lands áður en að krónan byrjar að síga og hvenær á að koma með þær aftur til baka til að innleysa gengishagnað og kaupa eignir á afslætti.
Vert er að taka fram að ríkasta eitt prósent, eða 0,1 prósent, þjóðarinnar er ekki föst breyta. Þetta er ekki alltaf saman fólkið, þótt að gera megi ráð fyrir því að lítil breyting sé á því hverjir séu í þessu efsta lagi milli ára. Samhliða því að Íslendingum hefur fjölgað þá hefur eðlilega fjölgað í hverjum eignarbilshópi.
Hlutfallslegur jöfnuður
Einfaldur samanburður á eignastöðu fólks á Íslandi er flókinn. Sérstaklega vegna þess að þær hagtölur sem safnað er saman mæla ekki að öllu leyti heildareignir fólks né taka tillit til hlutdeildar þess í eignum lífeyrissjóðakerfisins. Í þessari fréttaskýringu er fyrst og síðast horft á hann út frá því hvernig krónur skiptast á milli hópa.
Sumir greinendur kjósa að horfa einungis á hlutfallstölur þegar þeir skoða slíkar tölur, og hvort ójöfnuður hafi aukist. Ef horft er á slíkar, sérstaklega á afmörkuðum tímabilum, er mjög auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að eignajöfnuður sé að minnka. Til að mynda áttu ríkustu fimm prósent landsmanna 56,3 prósent alls eiginfjár í eigu einstaklinga árið 2010. Um síðustu áramót hafði það hlutfall lækkað niður í 42 prósent. En taka verður tillit til þess að árið 2010 höfðu eignir annarra Íslendinga rýrnað mjög vegna hrunsins á meðan eignir ríkustu fimm prósenta landsmanna, um 11.450 fjölskyldur, héldust nokkuð stöðugar í gegnum storminn. Sama má segja um eignir ríkasta eins prósents landsmanna (voru 28,3 prósent 2010 en eru nú 18,3 prósent) og ríkasta 0,1 prósent þeirra (voru 10,2 prósent en eru nú sex prósent).
Ef hins vegar er horft lengra aftur í tímann, og enn haldið sig við hlutföll, þá áttu ríkustu fimm prósent landsmanna 37,2 prósent heildareiginfjár einstaklinga á Íslandi á árinu 2005, áður en mesti fyrirhruns góðærishitinn færðist yfir þjóðina. Ríkasta eitt prósentið átti á 16,6 prósent og ríkasta 0,1 prósentið 5,2 prósent. Þessi skipting hafði verið nokkuð stöðug hlutfallslega frá árinu 1997 þrátt fyrir umtalsverðan efnahagsuppgang á Íslandi.
Þessi fréttaskýring er að mestu unnin upp úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um ástæður stéttastríðs á Íslandi, sem birt var á föstudagsmorgun.