Græðgi og spilling kemur enn upp í huga almennings - Bankasala framundan
Kannanir sem gerðar voru fyrir starfshóp stjórnvalda sem skilaði af sér Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið benda til þess að hrun fjármálakerfisins sé enn ferskt í minni almennings. Framundan er mikilvæg vinna við að endurskipuleggja eignarhald fjármálakerfisins.
Græðgi, spilling, hrun, okur. Þetta eru orðin sem koma upp í hugann hjá þjóðinni ennþá, rúmum tíu árum eftir hrun fjármálakerfisins, neyðarlög og setningu fjármagnshafta.
Kannanir sem unnar voru fyrir starfshópinn sem skilaði í vikunni frá sér Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið leiða þetta í ljós. Þrátt fyrir allt þá hefur traust á fjármálakerfinu hægt og bítandi farið upp á við, en um 20 prósent segjast berast traust til fjármálakerfisins þessi misserin. Algengasta ástæðan sem fólk nefndi, þegar það var spurt út í það hvernig mætti auka traust á fjármálakerfinu, var oftast nefnt að bæta mætti kjörin og þjónustuna. Einfaldlega að lækka vexti og bæta þjónustu.
Um 26,4 prósent svarenda nefndu að bæta mætti vaxtakjörin og rúmlega 20 prósent að draga þyrfti úr græðgi og spillingu.
Svart og hvítt
En hefur eitthvað breyst? Er fjármálakerfið ennþá fjandsamlegt almenningi eins og það var fyrir hrun þess?
Í stuttu máli sagt, þá er fjármálakerfi landsins þessi misserin, gjörólíkt því sem hrundi eins og spilaborg, dagana 7. til 9. október 2008. Íslenska ríkið er með það að mestu í fanginu, ef Arion banki er undanskilinn og síðan önnur minni fjármálafyrirtæki, eins og Kvika banki.
Íslandsbanki er 100 prósent í eigu ríkisins, Landsbankinn rúmlega 98 prósent og Íbúðalánasjóður 100 prósent. Hlutdeild ríkisins á markaðnum er á milli 70 og 80 prósent. Það sem er síðan merkilegast við stöðuna, sé litið til alþjóðlegs samanburðar, er að starfsemi íslensku bankanna er svo til ekkert alþjóðleg.
Þeir þjónusta fyrst og fremst íslenskan vinnumarkað og heimili. Á Íslenska vinnumarkaðnum eru um 200 þúsund einstaklingar og heimilin eru um 140 þúsund, og Íslendingar alls um 350 þúsund. Heildarstærð markaðssvæðisins er því minna en algengt markaðssvæði staðbundinna sparisjóða erlendis.
En verðmætin eru mikil, og kerfislægt mikilvægi sömuleiðis. Samanlagt eigið fé Landsbankans og Íslandsbanka er um 450 milljarðar króna. Samanlagðar arðgreiðslur bankanna til ríkisins nema nálægt 200 milljörðum, sé horft til síðustu sex ára.
Þetta þýðir það meðal annars, að áhætta í fjármálakerfinu eru mun minni nú en hún var áður. Hrunið - og hvernig brugðist var við því með neyðarlögum og fjármagnshöftum - fól í sér róttæka og mikla tiltekt á fjármálakerfinu, þar sem ónýt útlán fóru af efnahagsreikningi bankanna og staðan var skýrari en hún var.
Helsti fjármögnunaraðili íslenska fjármálakerfisins nú er fyrst og fremst almenningur í landinu, með sparnaði sínum. Þau skref sem bankarnir hafa stigið á erlenda fjármálamarkaði, með útgáfu skuldabréfa, hafa verið varfærin en hafa heppnast vel, þar sem lánsfé á þokkalega samkeppnishæfum kjörum hefur verið í boði.
Í stuttu máli sagt, þá er fjármálakerfið núna í samanburði við það sem var fyrir hrunið, eins og svart og hvítt. Það gæti ekki verið mikið ólíkara. Í þeim mikla efnahagslega uppgangi sem verið hefur undanfarin ár, einkum frá 2014 og fram á þetta ár, hefur það styrkst töluvert líkt að staða heimila og fyrirtækja.
Fjármálakerfið núna er ekki rekið eins og spilavíti fyrir eigendur bankanna, eins og það var fyrir hrunið, heldur er tiltölulega einfalt og skýrt, og ekki eins áhættumikið og það var. Enginn þarf heldur að velta fyrir sér hvort það er ríkisábyrgð á starfsemi Íslandsbanka og Landsbankans eða ekki, þar sem það liggur alveg fyrir þar sem ríkið á bankanna.
Hefja ferlið
Starfshópurinn sem skrifar Hvítbókina um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið var skipaður Lárusi L. Blöndal, formanni, Guðjóni Rúnarssyni, Guðrúnu Ögmundsdóttur, Kristrúnu Tinnu Gunnarsdóttur og Sylvíu K. Ólafsdóttur, en hún var í starfshópnum fram í september á þessu ári.
Skýrslan er yfirgripsmikið upplýsingarit um stöðu mála í íslensku fjármálakerfi, tæplega 300 blaðsíður að lengd.
Hver eru helstu tíðindin í skýrslunni? Eðlilegt að spurt sé að því. Eins og oft er með upplýsingarit fyrir stjórnvöld, þá er erfitt að taka út eitt atriði umfram önnur.
Það sem er merkilegt - og kannski merkilegast af öllu - er að útgáfa Hvítbókarinnar markar tímamót fyrir stjórnvöld, þar sem þau munu þurfa að ákveða hvernig eigi að hafa skipulag eignarhaldsins á íslensku fjármálakerfi til framtíðar litið. Það eru kannski stærstu tíðindin; að nú standi stjórnvöld frammi fyrir því að hefja pólitíska stefnumörkun fyrir fjármálaþjónustu í landinu, með yfirgripsmikið upplýsingarit fyrir framan sig.
Reynt að finna erlenda kaupendur að tveimur bönkum
Eftir hrun þá lentu allir þrír stóru og nýju bankarnir beint eða óbeint í höndum ríkisins. Ríkið átti Landsbankans en réð afdrifum hinna tveggja, Arion banka og Íslandsbanka, að stóru leyti eftir að þeir voru endurfjármagnaðir með aðkomu kröfuhafa.
Á árunum eftir hrun voru gerðar nokkrar tilraunir til að „finna“ hentuga eigendur að Íslandsbanka og Arion banka. Ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur beitti sér mjög í því máli. Steingrímur hafði sérstakan áhuga á því að að minnsta kosti annar bankanna yrði seldur til norræns banka. Hann nýtti meðal annars sterk sambönd sín í norskri pólitík til ýta undir þann áhuga. Auk þess reyndi hann að fá Svein Harald Øygard, sem til skamms tíma var settur seðlabankastjóri á Íslandi, til að vinna málinu brautargengi fyrir sig. Svissneski bankinn UBS var fenginn til að vera milliliður í þessum umleitunum og hafa umsjón með söluferli ef slíkt myndi skapast. Um tíma, í lok árs 2011 og byrjun árs 2012, leit út fyrir að ýtni Steingríms ætlaði að bera árangur. DnB, stærsti banki Noregs, virtist vera áhugasamur um að kaupa Íslandsbanka.Steingrímur fylgdist mjög vel með því ferli og átti meðal annars leynifund með UBS í New York til að reyna að sigla málinu í höfn. DnB er í rúmlega þriðjungseigu norska ríkisins og því hefði óneitalega skapast sérkennileg staða ef kaupin hefðu gengið eftir. Erlent þjóðríki hefði þá orðið óbeinn eigandi að íslenskum banka. Á endanum kólnaði þó áhuginn.
Leitað hefur verið til fleiri aðila en aðeins DnB. Aðrir norrænir bankar hafa verið beðnir að skoða möguleikann á því að kaupa annað hvort Arion banka, áður en hann var síðar skráður á markað, eða Íslandsbanka. Kanadískir bankar þóttu einnig álitlegur kostur. Engin þessara umleitana skilaði tilætluðum árangri. Íslenskir bankar, fastir inn í höftum, gerðir upp í krónum, að mestu fjármagnaðir af innlánum og lengi vel með Icesave-málið hangandi yfir sér voru einfaldlega ekki spennandi fjárfestingakostir.
Ætluðu að kaupa á „svívirðilega lágu verði“
Áfram var samt reynt. Sú leið sem unnið var að í stýrinefnd um afnám gjaldeyrishafta, sem leidd var af Katrínu Júlíusdóttur þáverandi fjármálaráðherra, á fyrstu mánuðum ársins 2013 var að ríkið myndi kaupa bankana báða til baka á því sem er ekki hægt að kalla annað en svívirðilega lágu verði. Með því var átt við að greitt yrði 20-30 prósent af bókfærðu innra virði bankanna fyrir þá. Heillavænlegast var talið að fá lífeyrissjóði landsins með í þetta samkomulag, þeir myndu kaupa hluta af bönkunum á móti ríkinu gegn því að þeir flyttu hluta af erlendum eignum sínum heim til að greiða fyrir þann hluta. Í kjölfarið var hugmyndin sú að gera uppgjörssamning milli ríkisins og lífeyrissjóðanna og skipta á milli þeirra ágóðanum. Þegar vinstri stjórnin fór frá í maí 2013 var þessi leið enn sú sem þótti æskilegast að fara.
En þá var skipt um gír og öll áhersla lögð á að ljúka heildaruppgjöri við kröfuhafanna sem áttu Íslandsbanka og að uppistöðu Arion banka.
Haldið áfram að reyna selja
Á meðan að á þeirri störukeppni, sem lauk árið 2015 með gerð stöðugleikasamninganna sem færðu íslenska ríkinu meðal annars allt eignarhald yfir Íslandsbanka, heldur kröfuhafar Glitnir og og Kaupþings þó áfram að þreifa fyrir sér um mögulega losun á íslensku viðskiptabönkunum sem þeir áttu. Kröfuhafa Glitnis vildi áfram selja bankann til erlendra aðila og fá gjaldeyri fyrir. Sumarið 2015 var undirrituð viljayfirlýsing við áhugasaman kaupendahóp eftir að viðræður við nokkra hópa höfðu staðið yfir í nokkra mánuði. Þeir sem sýndu mesta áhuga komu annars vegna frá löndum löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var um að ræða stór fyrirtæki sem eiga þegar hluti í alþjóðlegum bönkum.
Í október 2015 varð ljóst, þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um að ríkið væri að eignast Íslandsbanka sem hluta af stöðugleikasamningunum, að þessi leit að nýjum erlendum eiganda myndi hætta. Að minnsta kosti tímabundið. Þó hefur verið heimild í lögum árum saman til að selja Íslandsbanka, án þess að ráðist hafi verið í neitt formlegt eða opinbert söluferli.
Annað atriði sem kemur upp í hugann, er hvernig skuli standa að því að selja hluti í ríkisbönkunum, og hvernig staðan á Íslandi sé í samanburði við önnur lönd. Lesa má út úr skýrslunni að það gæti orðið erfitt að selja annan bankann, t.d. Íslandsbanka, í heilu lagi til erlends banka, þar sem áhugi hefur ekki verið nægilega mikill á slíku. Auk þess eru margir bankar í Evrópu ekki á þeim buxunum að kaupa aðra banka og stækka hratt, eins og reyndin var á árunum 2005 til 2008. Þvert á móti eru bankar reknir með minni arðsemiskröfu á eigin fé, og minni áhersla á vöxt en áður.
Að þessu leyti eru markaðsaðstæður erlendis ekki endilega góðar til að selja banka í heilu lagi. Auk þess sem smæð íslensku bankanna er ekki til þess fallin að vekja áhuga hjá fjárfestum erlendis sem horfa til þess að fyrirtæki geti vaxið og farið inn á ný markaðssvæði.
Búið að brjóta ísinn
Tvíhliða skráning Arion banka á markað í Svíþjóð og á Íslandi var mikilvæg, til að kanna áhugann á íslensku endurreistu bönkunum, og um leið opna dyrnar enn frekar að alþjóðlegum mörkuðum. Í Hvítbókinni kemur fram að margir fjárfestar hafi ekki tekið þátt í útboði bankans vegna smæðar en hins vegar hafi móttökurnar verið góðar miðað við aðstæður. Verðmiðinn á Arion banka er ekki sérlega hár, í alþjóðlegum samanburði, eða um 0,7 til 0,8 sinnum eigið fé, en algengt verð er á bilinu 0,9 til 1,3 sinnum eigið fé. Verðmiðinn á bönkum þar sem ríkið er meirihlutaeigandi er oftar en ekki mun lægri, eða í kringum 0,5 sinnum eigið fé.
Einn áhættuþátturinn, ef stjórnvöld ætla sér að selja bankanna á næstu misserum, snýr einmitt að verðinu, og hvernig verði mögulegt að hámarka það.
Skráning á markað er gagnsæ leið til að selja, en hún getur líka verið áhættumikil, þar sem ekki er á vísan að róa hvað varðar verðið. En annar vandi sem snýr að sölu á ríkisbönkunum, er að meta hverjir það séu, sem geti talist æskilegir eigendur bankanna.
Gera má ráð fyrir að það muni nást þverpólitískur meirihluti um það á Alþingi, að hleypa ekki þeim, sem voru stærstu eigendur bankanna fyrir hrunið, að kötlunum í þetta skiptið. Það eru því aðrir fjárfestar sem koma til greina.
En hverjir væru það á Íslandi sem gætu haft bolmagn í að kaupa stóra eignarhluti í Íslandsbanka og Landsbankanum? Það er stórt spurt og ekki augljóst hvernig eigi að svara þeirri spurningu, enda þurfa þeir sem eru hluthafar í bönkum, og eigendur virkra eignarhluta, að undirgangast mat Fjármálaeftirlitsins (FME) á hæfi til að fara með hlutinn.
Lífeyrissjóðirnir kæmu til greina, sé horft til innlendra fjárfesta, og sterkefnað fólk, ekki síst eigendur útgerða í sjávarútvegi. Í ljósi þess hve umfang sölu ríkisbankanna er mikið verður vafalítið horft til þess að hafa dreifða eignaraðild af bönkunum, nema að það takist að fá norræna banka til landsins, til að kaupa Íslandsbanka. En eins og að framan var rakið, þá gæti það verið erfitt.
Horft hefur verið til þess, að ríkið haldi 30 til 40 prósent eignarhlut í Landsbankanum, en aðrir eignarhlutir verði seldir.
Lækkun skatta og sterkari innviðir
Eitt af því sem starfshópurinn fjallar um í Hvítbókinni, er að bæta þurfi rekstrarskilyrði íslenska fjármálakerfisins, meðal annars með því að lækka skatta og samræma þá við það sem þekkist erlendis. Þessi munur lendi í raun á lántakendum, það er almenningi, þegar reikningurinn sé gerður upp á endanum.
Ef skattarnir yrðu lækkaðir niður að því sem þekkist erlendis, meðal annars á Norðurlöndum, þá myndi það jafngilda hagræðingu upp á um 400 starfsgildi á ársgrundvelli. Á móti myndi minna skila sér í ríkiskassann - sem á síðan stóran hluta af fjármálakerfinu, eins og áður segir. Þannig að skattalækkunin yrði mun frekar aðgerð til að samræma regluverkið að því sem þekkist erlendis, og tryggja þannig samkeppnishæf rekstrarskilyrði.
Annað sem starfshópurinn fjallar um, er að styrkja megi innviðina í bankakerfinu, meðal annars með því að koma upp miðlægum skuldagagnagrunni, sem ekki yrði persónugreinanlegur, þar sem hægt væri að sjá skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja á hverjum tíma. Er þetta sagt geta styrkt fjármálakerfið og stuðlað að meiri skilvirkni, og minni áhættu.
Kínverjarnir komu
Á fyrstu mánuðum ársins 2013 varð þó vart við áður óþekktan áhuga á að kaupa íslensk fjármálafyrirtæki. Þessi erlendi áhugi er mestur hjá einum aðila, fjárfestingaarmi kínverska seðlabankans People´s Bank of China. Fulltrúar kínverska bankans settu sig í samband við slitastjórnir Glitnis og Kaupþings með það fyrir augum að kaupa í Íslandsbanka og/eða Arion banka. Sá áhugi var það mikill að slitastjórnirnar kynntu hann fyrir íslenskum ráðamönnum snemma árs 2013. Vinstri stjórnin sem þá sat við völd hvatti slitastjórnirnar til að fara afar varlega í að hleypa Kínverjunum að sér. Það yrði pólitískt erfitt að láta slíka sölu ganga upp og henni myndi fylgja mikil óvissa.
Það sem slitastjórnirnar sáu sem helstu kosti þess að selja til Kínverjanna var að verðið virtist ekki skipta þá neinu máli. Aðalatriðið var staðsetningin. Kínverjar eru mjög opinskáir með að þjóðin ætli sér að hafa áhrif á Norðurslóðum í framtíðinni og Ísland er þar klárlega undir. Það að Ísland hafi, fyrst allra Evrópulanda, gert fríverslunarsamning við asíska stórveldið í apríl 2013 sýnir vel hversu raunverulegur áhugi Kínverja á Íslandi er.Kínverski bankinn vildi þó einungis hreyfa sig í þessum efnum ef það yrði gert í sátt við íslensk stjórnvöld. Þess vegna var hann tilbúinn til að búa til breiðari hóp til að kaupa íslensku bankana, meðal annars með íslenskum lífeyrissjóðum. Ef tækist að tryggja velþóknun íslenska ríkisins og aðkomu íslenskra lífeyrissjóða að kaupunum voru Kínverjarnir til í að ráðast í þau strax um vorið 2013.
Af þessu varð ekki, meðal annars vegna tortryggni íslenskra ráðamanna gagnvart áformunum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði