Mynd: WOW air

Eina leiðin til að bjarga WOW air

WOW air hefur sagt upp hundruð starfsmanna, hættir að fljúga til Indlands og Los Angeles og mun hafa fækkað vélum sínum úr 24 í 11 á mjög skömmum tíma. Forstjórinn viðurkennir að rangar ákvarðanir í rekstri séu ástæða stöðunnar. Áður hafði félagið sagt að skaðleg umfjöllun og erfiðar ytri aðstæður væru meginástæða stöðunnar.

„Í stuttu máli misstum við einbeitinguna og byrjuðum að hegða okkur eins og hefðbundið flugfélag. Þessi mistök hafa næstum því kostað okkur fyrirtækið þar sem tapið árið 2018 hefur stigmagnast undanfarna mánuði vegna slæmrar fjárhagslegrar afkomu. Það er afar mikilvægt að taka fram að ég kenni engum nema sjálfum mér um þessi mistök.“

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tölvupósti sem Skúli Mogensen, forstjóri, stofnandi og eigandi WOW air, sendi á starfsfólk sitt fyrr í dag. Þetta er annar tónn en hefur verið í yfirlýsingum Skúla og WOW air undanfarið. Í fréttatilkynningu vegna níu mánaða uppgjörs félagsins kom fram að rekstrinum kom fram að skaðleg umfjöllun í kringum, og í tengslum við, skuldabréfaútboð WOW air í september hefði haft mikið að segja um stöðuna ásamt erfiðum ytri aðstæðum. Nú segir Skúli að rangar ákvarðanir stjórnenda ráði þar mestu um.

Ástæður þess að Skúli sendi póstinn er ákvörðun um að draga starfsemi félagsins verulega saman. Vélum hefur nú fækkað úr 24 í ellefu á mjög skömmum tíma, áfangastöðum fækkað og hundruð manns munu missa vinnuna. Þar ef eru 111 fastráðnir starfsmenn auk hlutastarfsmanna og verktaka. Talið er að heildarfjöldi þeirra sem missi vinnuna séu um 350 talsins. Starfsmenn WOW air eftir endurskipulagninguna verða um eitt þúsund talsins.

Í póstinum rekur Skúli þær ákvarðanir sem WOW air tók sem orsakað hafa þá stöðu sem er uppi. Þær helstu eru, að mati Skúla, að flækja reksturinn með því að bæta við breiðþotum og bæta við Premium- og Comfy- vörum sem hafi verið fjarri upprunalegri hugsjón hans um ofurlágfargjaldarfélag.

Legið í loftinu mánuðum saman

Það hefur legið í loftinu að gripið yrði til drastískra aðgerða hjá WOW air um nokkurra mánaða skeið. Eftir margra ára sigurför, þar sem WOW air óx á ógnarhraða ár frá ári, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir íslenskt efnahagslíf, varð þeim sem til þekkja, eða þurfa að hafa eftirlit með starfseminni, ljóst fyrir um ári síðan að fjárhagsstaðan var í besta falli viðkvæm. WOW air átti einfaldlega ekki laust fé til að takast á við sveiflur í rekstri sínum og hækkanir á heimsmarkaðsverð á olíu, hærri launakostnaðar vegna gengis krónunnar, og hörð samkeppni sem hélt verði niðri unnu saman að því að gera stöðuna enn verri.

Félagið réðst í skuldabréfaútboð sem áttu að klárast í ágúst. Þegar skilmálar þess útboðs voru birtir af íslenskum fjölmiðlum, meðal annars Kjarnanum, var fjárhagsstaða WOW air í fyrsta sinn opinberuð að hluta. Fram að þeim tíma hafði félagið, sem er ekki skráð á markað og lýtur því ekki sömu skyldum varðandi upplýsingagjöf og t.d. Icelandair, getað valið þær upplýsingar sem birtar voru hverju sinni. Líkt og oft vill verða í þannig tilfellum voru jákvæðu upplýsingarnar, sem snérust t.d. um vöxt í fjölda farþega, ofan á þegar sendar voru út fréttatilkynningar. Þann 17. september birtist svo viðtal við Skúla í Financial Times þar sem hann sagðist ætla að skrá félagið á markað og selja helming innan við helming þess í gegnum slíkt hlutafjárútboð fyrir allt að 33 milljarða króna. Daginn eftir var tilkynnt um að

skuldabréfaútboðinu væri lokið. Niðurstaðan var þess eðlis að fáir höfðu trú á að það myndi duga til að bjarga WOW air.

Skúli keypti sjálfur í útboðinu

Alls kyns fyr­ir­varar voru settir inn í end­an­lega skil­mála sem fólu meðal ann­ars í sér að WOW air þyrfti að stand­ast reglu­leg álags­próf sem þurftu að sýna að eigið fé félags­ins ekki lægra en 25 millj­ónir dala fyrstu tólf mán­uð­ina eftir útgáf­una og 30-35 millj­ónir dala eftir það. Auk þess kom fram að vaxta­greiðslum sem féllu til vegna skulda­bréfa­út­boðs­ins yrðu færðar á fjár­vörslu­reikn­ing. Og vextirnir sem WOW air samþykkti að greiða voru hærri en vextir í útboðum annarra evrópska flugfélaga sem farið hafa fram á undanförnum árum, eða um níu prósent ofan á þriggja mán­aða Euribor vexti.

Það kom enda síðar á daginn að eftirspurnin eftir þátttöku í útboðinu, sem átti að skila um 60 milljónum evra í hús, var ekki eins og látið hafði verið með hana. Skúli Mogensen keypti meðal annars sjálfur í útgáfunni fyrir um 770 milljónir króna.

Icelandair ætlaði að kaupa en hætti svo við

Fyrstu helgina í nóvember var vandinn orðinn þannig að ekki var við unað. Skúli Mogensen leitaði til helsta keppinautarins, Icelandair, og bað þá um að kaupa WOW air. Kaupsamningur, með fjölmörgum fyrirvörum, var undirritaður 5. nóvember. Uppgefið kaupverð, sem átti að greiða með hlutum í Icelandair, var um tveir millj­arðar króna miðað gengi Icelandair þegar til­kynnt var um kaup­in. Það gat þó lækkað ef áreið­an­leika­könnun sýndi aðra stöðu en gengið var út frá, sem varð nið­ur­stað­an.

29. nóvember var birt tilkynning um að Icelandair væri hætt við kaupin. Grein­ingar og áreið­an­leikakann­anir sem Icelandair hafði látið fram­kvæma vegna fyr­ir­hug­aðra kaupa á WOW air höfðu einfaldlega leitt í ljós að við­skiptin stóð­ust ekki þær for­sendur sem gerðar voru við und­ir­ritun kaup­samn­ings­ins.

Helstu for­sendur kaup­samn­ings Icelandair WOW air voru þær að sam­komu­lag myndi nást við leigu­sala WOW air, að stað­fest­ing myndi fást á því að for­gangs­réttur flug­manna myndi ekki eiga við um flug­menn WOW air og að sam­komu­lag myndi nást við skulda­bréfa­eig­endur WOW air. Ekk­ert af þessu var leitt til lykta áður en að ákveðið var að hætta við kaup­in. Þá var sér­stakur fyr­ir­vari um nið­ur­stöðu áreið­an­leika­könn­un­ar, sem Deloitte og Logs fram­kvæmdu. Það grunn­mat liggur fyrir en er trún­að­ar­mál en í kynn­ing­unni segir að „fyrstu nið­ur­stöður gáfu til kynna meiri fjár­þörf en gert var ráð fyrir auk ann­arra atriða.“

Mikið tap og hliðarviðræður við annan fjárfesti

Ljóst var að áhyggjur voru þegar farnar látnar á sér kræla á meðal þeirra sem áttu í við­skiptum við WOW air áður en tilkynnt var um að kaupin myndu ekki ganga eftir. Félagið þurfti til að mynda að skila fjórum Airbus vélum til leigu­sala sinna nokkrum dögum áður. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans var það skýrt merki um að ótti var til staðar við það að WOW air myndi fara í greiðslu­þrot sem gæti leitt til þess að flug­vellir gætu kyrr­sett vélar félags­ins vegna vangoldinna lend­ing­ar­gjalda.


WOW air tap­aði alls 33,6 millj­­ónum dala, sem jafn­­­gildir um 4,2 millj­­arði króna, á fyrstu níu mán­uðum árs­ins. Á sama tíma­bili í fyrra nam tap félags­­ins 13,5 millj­­ónum dala, jafn­­virði tæp­­lega 1,7 millj­­arða króna miðað við núver­andi gengi. EBITDA félags­­ins fór úr því að vera jákvæð um 8,8 millj­­ónir dala fyrstu níu mán­uði síð­­asta árs í að vera nei­­kvæð um 18,9 millj­­ónir dala nú, sem er um 2,3 millj­­arða íslenskra króna.

Sama dag og Icelandair hætti við kaupin þá var tilkynnt um að bandaríska félagið Indigo Partners hefði náð samkomulagi um fjárfestingu í WOW air. Sú tilkynning kom verulega á óvart, sérstaklega vegna þess að eina leiðin sem var til staðar til að fá sam­þykki Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins fyrir sam­runa Icelandair og WOW air var sú að þau kaup þyrftu að vera eini mögu­leik­inn í stöð­unni. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans fóru við­ræður við eft­ir­litið fram á þeim grund­velli að WOW air væri fyr­ir­tæki á fallandi fæti.

Því vakti það furðu þegar Skúli Mogensen greindi frá því að hann hefði  verið í viðræðum við annan fjársterkan aðila um fjárfestingu í WOW air samhliða viðræðum við Icelandair.

Flotinn nú tæplega helmingur af því sem hann var

Fyrr í vikunni greindi Samuel Engel, pistlahöfundur Forbes á sviði flug­mála,  frá því að líklegt yrði að Indigo Partners, sem myndi alltaf verða ráðandi aðili í eignarhaldi WOW air ef það fjárfesti í félaginu, myndi beita sér með þeim hætti að WOW air myndi leggja niður kostn­að­ar­söm flug og hag­ræða mikið í rekstri, meðal ann­ars með því að vera með starfs­fólk sem er með lág laun.

Í pistl­inum nefndi hann að sýnin sem Bill Franke, hinn 81 árs gamli stofn­andi og helsti eig­andi Indigo Partners, sé með sé sú að skera niður kostnað eins og hægt er, vera með hag­kvæman flug­véla­flota, og vera síðan með góða sam­legð í rekstr­in­um. Þetta hafi verið gert með Wizz Air og Frontier, með góðum árangri.


WOW air gæti þar með endað sem sýndarflugfélag, þ.e. flugfélag sem selji miða í gegnum gott vörumerki en síðan séu önur félög sem fljúgi flugvélunum á áfangastaði.

Segja má að hluti af þessari spá Engel hafi ræst í dag þegar WOW air tilkynnti um að vélum félagsins muni fækka enn frekar, og verði í nánustu framtíð ellefu eftir að hafa verið 24 fyrir nokkrum vikum síðan. Fjöldauppsagnir eru þegar hafnar og hætt hefur verið við kostnaðarsöm flug, meðal annars til Indlands, en jómfrúarferð WOW air þangað var farin um síðustu helgi. Samkvæmt tilkynningu verður síðasta flug frá Nýju Delí  20. janúar næstkomandi og frá Los Angeles í Bandaríkjunum 14. janúar 2019.

Í tölvupósti Skúla Mogensen til starfsmanna sem sendur var fyrr í dag segir að nú muni WOW air snúa aftur til róta sinna og einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni sem hafi reynst vel fram til ársins 2017. Flækjur á rekstrinum síðan séu orsök þeirrar stöðu sem nú er uppi. „Þetta er ákaflega sársaukafullur lærdómur vegna þess að á sama tíma höfum við byggt upp eitthvað einstakt með Wow air og þó að þetta krefjist þess að við tökum eitt erfitt skref aftur á bak til skamms tíma litið er ég sannfærður um að það geri okkur kleift að taka tvö skref áfram til lengri tíma litið og tryggi að Wow air dafni til framtíðar.

Að þeim líkindum að við fáum Indigo Partners sem fjárfesti vil ég hverfa aftur til upphaflegrar hugsjónar okkar og sýna fram á að við getum sannarlega byggt upp frábært lágfargjaldafélag á lengri leiðum.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar