Mynd: Birgir Þór Harðarson

Tekist á um milljarða almannahagsmuni

Átök Landsbankans og Borgunar, og fyrrverandi forsvarsmanna félagsins, fyrir dómstólum, hafa að miklu leyti farið leynt þar sem málsaðilar hafa neitað að láta af hendi upplýsingar um málaferlin. Ljóst er þó, á nýjustu tíðindum úr þeim, að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir almenning, enda eru fyrirtækin að stóru leyti í almannaeigu.

Íslenska ríkið á ríf­lega 98 pró­sent hlut í Lands­bank­anum og Íslands­banka að öllu leyti. Meðal eign­ar­hluta Íslands­banka er meðal ann­ars 63,5 pró­sent hlutur í Borg­un. Aðrir eig­endur fyr­ir­tæk­is­ins eru Eign­ar­halds­fé­lagið Borgun slf. (EB), 32,4 pró­sent, og BPS ehf., 2 pró­sent.

Sala Lands­bank­ans á 31,2 pró­sent hlut i Borg­un, til EB fyrir 2,2 millj­arða króna, undir lok árs 2014, hefur dregið mik­inn dilk á eftir sér sem nú er deilt um fyrir dóm­stól­um.

Eins og Kjarn­inn greindi frá, þá var hlut­ur­inn seldur í lok­uðu sölu­ferli og ekki aug­lýstur til sölu.

Mik­ill titr­ingur var vegna þessa, og var meðal ann­ars skipt um stóran hlut af banka­ráði bank­ans og Stein­þór Páls­son for­stjóri, lét einnig af störf­um. Þáver­andi for­maður banka­ráðs Lands­bank­ans, Tryggvi Páls­son, sagði bank­ann hafa gert mis­tök, og var ferlum við sölu á eignum bank­ans breytt eftir þessi við­skipti.

Bak við luktar dyr

Í síð­ustu ræðu sinni sem for­maður banka­ráðs­ins, á aðal­fundi bank­ans, gerði hann Borg­un­ar­málið að umtals­efni og sagði meðal ann­ars: „Aðal­at­riði svo­nefnds Borg­un­ar­máls eru í raun ein­föld eins og þau snúa að Lands­bank­an­um. Við hefðum betur selt hlut­inn í opnu sölu­ferli og séð fyrir mögu­lega hlut­deild Borg­unar í sölu­and­virði Visa Europe. Mik­il­væg­ast er að engir ann­ar­legir hvatar lágu að baki þeirri ákvörðun bank­ans að selja hlut­inn á þann hátt sem gert var, heldur ein­vörð­ungu hags­munir Lands­bank­ans eins og þeir voru metnir á þeim tíma. Lands­bank­inn er búinn að birta opin­ber­lega þær upp­lýs­ingar sem að honum snúa og Fjár­mála­eft­ir­litið og Banka­sýsla rík­is­ins hafa fjallað um það og sagt sitt álit. Framundan er umbeðin úttekt Rík­is­end­ur­skoð­un­ar. Bank­inn hefur dregið lær­dóm af þeirri umræðu sem varð í kjöl­far umræddra við­skipta og allt verk­lag þessu tengt er í end­ur­skoð­un. Fyrir tveimur vikum síðan breytti Lands­bank­inn með sam­hljóða ákvörðun banka­ráðs stefnu sinni um sölu eigna og skil­greindi nýja stefnu vegna orð­spors­á­hætt­u.“

Tryggvi Pálsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans.
Mynd: Skjáskot/Youtube

Rík­is­end­ur­skoðun gerði úttekt á því hvernig Lands­bank­inn hefði staðið að eigna­sölu, og gagn­rýndi bank­ann nokkuð harka­lega í skýrslu. Í nið­ur­stöðukafla skýrslunna sagði að bank­inn hefði í mörgum til­vikum selt eign­ir, fyrir tugi millj­arða króna, í lok­uðu sölu­ferli þar sem ekki var rennt að hámarka virði eigna bank­ans. „Rík­is­end­ur­skoðun gagn­rýnir einkum hvernig Lands­bank­inn stóð að sölu eign­ar­hluta sinna í Vestia hf. (2010), Icelandic Group hf. (2010), Promens hf. (2011), Fram­taks­sjóði Íslands slhf. og IEI slhf. (2014), Borgun hf. (2014) og Valitor hf. (2014). Allar þessar sölur fóru fram í lok­uðu ferli og í sumum til­vikum fékkst lík­lega lægra verð fyrir eign­ar­hlut­ina en vænta mátti miðað við verð­mætin sem þeir geymd­u,“ sagði í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­un­ar.

Það sem var þó gagn­rýnt mest af öllu var hvernig Lands­bank­inn missti af miklum hagn­aði, meðal ann­ars vegna atriða sem ekki var gaum­gæfi­lega hugað að í sölu­ferli.

Var þar meðal ann­ars fjallað um hagn­að­ar­von vegna aðildar að Visa Europe. Við­skipti með það félag leiddu svo til mik­ils hagn­aðar fyrir Borg­un. Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar er meðal ann­ars fjallað um stöðu mála þegar Lands­bank­inn átti einnig hlut í Valitor, sem nú er dótt­ur­fé­lag Arion banka.

Að mati Rík­is­end­ur­skoð­unar var vit­neskja um hagn­að­ar­von bank­ans vegna Visa Europe, í til­felli Valitor, en það hafi ekki verið vitað af sömu hagn­að­ar­von í til­viki Borg­un­ar.

Bankasýslan hafnaði málsvörn Landsbankans - Þrýstingur frá ráðherra

Banka­sýsla rík­is­ins taldi rök­stuðn­ing banka­ráðs Lands­bank­ans og stjórn­enda hans fyrir sölu á 31,2 pró­sent hlut í Borgun á 2,2 millj­arða króna í nóv­em­ber 2014 vera ófull­nægj­andi, en þetta kom fram í bréfi Bankasýslunnar sem birt var opinberlega. Bankasýslan hafði þá spurt ítarlega um söluferlið, eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafði formlega þrýst á um að komist yrði til botns í því, hvernig á því stóð að Landsbankinn hefði selt hlutinn í Borgun með þeim hætti sem gert var.

Í ítar­legu svar­bréfi sem stofn­un­in sendi banka­ráði Lands­bank­ans var nær öllum rök­semd­ar­færslum sem Lands­bank­inn hafði þá teflt fram sér til varnar í Borg­un­ar­mál­in­u hafn­að. Þar sagði enn fremur sagt að svör Lands­bank­ans við þeirri gagn­rýni sem ­sett hefur verið fram á fram­göngu hans hafi „ekki verið sann­fær­and­i“.

Banka­sýslan gagn­rýndi til að mynda rök­stuðn­ing bank­ans fyr­ir­ því að selja hlut­inn í lok­uðu sölu­ferli, verk­lag við samn­ings­gerð, mál­flutn­ing hans um mein­tan sölu­þrýst­ing frá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu, verð­mat á eign­ar­hlutn­um í Borgun og að Lands­bank­inn hafi komið sér í þá stöðu að eini við­semj­andi hans hafi verið hópur fjár­festa sem inni­hélt meðal ann­ars stjórn­endur Borg­un­ar. Það má að lokum nefna að upp­lýs­inga­skortur selj­anda ætti að vera rök­stuðn­ing­ur ­fyrir því að fara með eign­ar­hlut í opið sölu­ferli. „Í þessu máli var það meira að­kallandi en ella, þar sem stjórn­endur Borg­unar voru hluti af kaup­enda­hópn­um, og opið sölu­ferli hefði að ein­hverju leyti getað jafnað samn­ings­stöðu aðila. Þá má einnig benda á að þrátt fyrir að Lands­bank­inn hafi borið fyrir sig ­upp­lýs­inga­skorti virð­ist bank­inn aldrei hafa látið á það reyna hvort að það væri erf­ið­leikum bundið að afla upp­lýs­inga um Borgun áður en úti­lokað var að fara með eign­ar­hlut­inn í opið sölu­ferli,“ sagði meðal annars í bréfinu.

„Þeir starfs­menn Lands­bank­ans sem komu að sölu eign­ar­hlut­ar­ins í Borgun vissu að aðild­ar­fé­lög Visa Europe áttu til­kall til hugs­an­legs hagn­aðar af áður­nefndum val­rétti. Allt frá því í jan­úar 2013, þ.e. ári áður en bank­inn hóf við­ræður um sölu á eign­ar­hlut sínum í Borg­un, vissi bank­inn líka að val­rétt­ur­inn fól í sér veru­leg verð­mæti. Sér­fræð­ingar hans um greiðslu­korta­við­skipti upp­lýstu banka­ráðið á fundi þess 17. jan­úar 2013 að hagn­aður Valitors af val­rétt­inum gæti orðið allt að 10 millj­arðar króna, yrði hann nýtt­ur. Full­trúar Lands­bank­ans segj­ast ekki hafa vitað um aðild Borg­unar að Visa Europe og þar með mögu­legan ávinn­ing félags­ins af áður­nefndri sölu. Aðildin hafði þó staðið frá árinu 2010 og var raunar for­senda þess að Borgun sinnti færslu­hirð­ingu vegna Visa­korta en þá þjón­ustu hafði fyr­ir­tækið veitt um ára­bil. Þá gerði Borgun Lands­bank­anum til­boð í útgáfu Visa­korta vorið 2014 og tók þar sér­stak­lega fram að fyr­ir­tækið gæti boðið upp á það vöru­merki. Um þetta vissu a.m.k. sér­fræð­ingar bank­ans í greiðslu­korta­málum en til þeirra var ekki leitað við sölu Borg­un­ar. Vit­neskja Lands­bank­ans um aðild Borg­unar að Visa Europe hefði hugs­an­lega einnig feng­ist ef þeir starfs­menn bank­ans sem stóðu að söl­unni hefðu gert svo­kall­aða laga og tækni­lega áreið­an­leika­könnun með því að skoða þau gögn um fyr­ir­tækið sem bæði bank­inn og full­trúar kaup­enda fengu aðgang að í raf­rænu gagna­her­berg­i,“ segir í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­un­ar.

Inn á borð dóm­stóla

Eftir úttektir Fjár­mála­eft­ir­lits­ins og Rík­is­end­ur­skoð­un­ar, hálf­gerðar hreins­anir á fólki úr æðstu stjórn Lands­bank­ans, og mikla yfir­legu, ákvað Lands­bank­inn að höfða mál gegn Borg­un, fyrr­ver­andi for­stjóra félags­ins Hauki Odds­syni, og síðan eign­ar­halds­fé­lög­unum tveimur sem eru meðal hlut­hafa félags­ins, á móti Íslands­banka.

Salan á Borgun hefur haft margháttaðar afleiðingar. Ein var sú að Steinþór Pálsson missti starf sitt sem bankastjóri Landsbankans.
Mynd: Úr safni

Í lok árs 2016 var málið fyrst tekið fyrir og hefur verið til með­ferðar dóm­stóla síð­an.

Í mál­inu gerir Lands­bank­inn þær dóm­kröfur að við­ur­kennd verði með dómi skaða­bóta­skylda stefndu á tjóni Lands­bank­ans vegna sölu­hagn­aðar sem hann hefði notið hefði hann selt 31,2% eign­ar­hlut sinn í Borgun hf. að teknu til­liti til upp­lýs­inga sem stefndu bjuggu yfir við kaupin en létu Lands­bank­anum ekki í té um hlut Borg­unar hf. í Visa Europe Ltd. og þá væntu hlut­deild er honum fylgdi í sölu­hagn­aði Visa Europe Ltd. við nýt­ingu fyrr­nefnds val­rétt­ar­samn­ings Visa Inc. og Visa Europe Ltd.

Þá er kraf­ist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefn­anda óskipt máls­kostn­að. Allir stefndu krefj­ast sýknu af kröfum stefn­anda og máls­kostn­aðar úr hans hendi.

Í til­kynn­ingu vegna mál­sókn­ar­innar sagði bank­inn að ekki hefðu feng­ist upp­lýs­ingar um að Borgun ætti hlut í Visa Europe og gæti fengið hlut­deild í millj­arða hagn­aði vegna við­skipta með félag­ið. „Bank­inn fékk ekki upp­­lýs­ing­ar sem stefndu bjuggu yfir um að Borg­un hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og rétt­indi sem fylgdu hlutn­um, þ. á m. mög­u­­lega hlut­­deild í sölu­hagn­aði Visa Europe Ltd. við nýt­ingu sölu­rétt­ar í val­rétt­­ar­­samn­ingi Visa Inc. og Visa Europe Ltd,“ sagði í til­­kynn­ingu Lands­­bank­ans í des­em­ber.

Eftir að mála­rekst­ur­inn hófst fyrir dóm­stólum hefur hins vegar ekki svo mikið komið fram um fram­vindu mála, en aðilar máls­ins hafa ekki viljað afhenda gögn. Þannig hefur Kjarn­inn óskað eftir því við Lands­bank­ann að fá að sjá grein­ar­gerðir og önnur gögn, sem skipta máli í mál­sókn­inni, og meðal ann­ars höfðað til þess að íslenska ríkið eigið bank­ann að fullu og miklir almanna­hags­munir séu undir í mál­inu. En allt hefur komið fyrir ekki. Bank­inn mun ekki láta nein gögn frá sér um mál­ið, sagði Helga Björk Eiríks­dótt­ir, for­maður banka­ráðs­ins, þegar spurst var form­lega fyrir um mál­ið.

Málið er þó rekið fyrir opnum tjöld­um, í þeim skiln­ingi, að dóms­nið­ur­stöður eru opin­berar og það má greina það að nokkuð harka­lega hefur verið tek­ist á um mál­in, enda miklir hags­munir í húfi.

Strax á upp­hafs­stigum máls­ins mót­mæltu hinir stefndu mál­sókn­inni, og kröfð­ust frá­vís­un­ar. Hinn 30. júní 2017 var því hafnað í hér­aði, og ákveðið að málið myndi fá efn­is­með­ferð. Málið er í því ferli núna.

Lands­réttur stað­festi í 30. októ­ber síð­ast­lið­inn þá kröfu Lands­bank­ans að fá dóm­kvadda mats­menn til að meta árs­reikn­inga Borg­un­ar, og þá árs­reikn­ing­inn frá árinu 2013 sér­stak­lega þar sem hann lá til grund­vallar við­skipt­unum árið 2014, en tek­ist er á um það í mál­inu, hvort réttar upp­lýs­ingar hafi komið fram í árs­reikn­ingum Borg­unar varð­andi fyrr­nefnda hags­muni vegna Visa Europe, og hvernig upp­lýs­ingar um þetta voru kynnt­ar.

Stefndu mót­mæltu þess­ari beiðni Lands­bank­ans, meðal ann­ars vegna þess að þeir töldu beiðn­ina hafa komið of seint fram og að hún snéri að end­ur­skoð­endum árs­reikn­inga Borg­unar sem ættu ekki aðild að mál­inu, en á þessi sjón­ar­mið var ekki fall­ist.

Millj­arða­hags­munir eru í húfi.

Borg­un fékk um 6,2 millj­­arða fyr­ir söl­una á Visa Europe, en í úr­sk­­urði hér­aðs­dóms varð­andi mats­beiðn­ina kem­ur fram að Lands­­bank­inn telji að í árs­­reikn­ing Borg­unar hafi vantað upp­­lýs­ing­ar um mög­u­­leg­an hagnað upp á þrjá millj­­arða. Á sama tíma var allt eigið fé Borg­un­ar þrír millj­­arð­ar.

Lands­bank­inn telur því að þarna hafi verið dulin verð­mæti í efna­hag félags­ins sem æðstu stjórn­endur félags­ins og sumir hlut­haf­ar, hafi vitað af, en ekki upp­lýst um þegar bank­inn seldi hlut sinn.

Lög­maður Lands­bank­ans í mál­inu er Ólafur Eiríks­son hrl., lög­maður BPS ehf. Reimar Pét­urs­son hrl., lög­maður Eign­ar­halds­fé­lags­ins Borg­unar Krist­inn Hall­gríms­son hrl. og lög­maður Borg­unar og Hauks Odds­son­ar, fyrr­ver­andi for­stjóra, er Gestur Jóns­son hrl.

Um hvað er nú deilt fyrir dómstólum?

Spurningarnar, sem matsmenn þurfa að svara, fjalla að miklu leyti um hvernig staðið var að reikningsskilum Borgunar. Landsbankinn vill fá fram upplýsingar frá matsmönnum þar sem hægt er að greina meint tjón bankans af sölunni afdrifaríku á 31,2 prósent hlutnum í lok árs 2014. Ársreikningurinn frá árinu 2013 skiptir máli þess vegna, þar sem hann var grundvallargagn í málinu.

1. Hvaða reglur giltu um gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

2. Að teknu tilliti til þágildandi reglna, sbr. svar við matsspurningu 1, hvernig átti að ákvarða mikilvægi (e. materiality) við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

3. Hver hefði verið fjárhæð mikilvægis við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013 ef beitt er þeirri aðferðafræði sem lýst er í svari matsmanna við spurningu 2?

4. Að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna um matsspurningar 1-3, hefðu upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. til Visa Inc., getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

5. Að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna um matsspurningar 1-3, hefðu upplýsingar um skilmála valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. til Visa Inc., getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

6. Að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna um matsspurningar 1-3, hefðu upplýsingar um möguleika á því að Borgun hf. kynni að fá greiðslur á grundvelli valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. til Visa Inc., getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

7. Var Borgun hf. skylt að birta í ársreikningi sínum fyrir árið 2013 (þ.m.t. í skýrslu stjórnar) einhverjar upplýsingar, og ef svo er hverjar, um eignarhlut sinn í Visa Europe Ltd. og/eða valréttinn um kaup og sölu á þeim eignarhlut til Visa Inc., á grundvelli reglna sem giltu um gerð og framsetningu ársreikningsins?

8. Uppfyllti ársreikningur Borgunar hf. fyrir árið 2013 (þ.m.t. skýrsla stjórnar) allar kröfur um upplýsingagjöf sem áttu við um eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. og/eða um valréttinn um kaup og sölu á þeim eignarhlut til Visa Inc. samkvæmt þágildandi lögum nr. 3/2006 um ársreikninga og alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir voru samþykktir af Evrópusambandinu (þ.m.t. kröfur um upplýsingagjöf samkvæmt liðum (a) til (d) í 30. gr. staðals IFRS 7 Fjármálagerningar: Upplýsingagjöf)?“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar