Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þriðjungur þjóðar ekki í þjóðkirkjunni

Hlutfall landsmanna sem er skráð í þjóðkirkjuna hefur aldrei verið lægra. Í síðasta mánuði fór einungis þriðja hver hjónavígsla á Íslandi fram innan þjóðkirkjunnar. Meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju og mikill minnihluti treystir henni. Kjarninn heldur áfram að gera upp árið 2018.

Í stjórn­­­ar­­skrá Íslands segir að hin evang­el­íska lút­­erska kirkja skuli vera þjóð­­kirkja á Íslandi og að rík­­is­­valdið eigi bæði að styðja hana og vernda. Auk þess er í gildi hið svo­­kall­aða kirkju­jarð­­ar­­sam­komu­lag frá árinu 1997, sem í felst að þjóð­­kirkjan afhenti rík­­inu um 600 jarðir til eignar en á móti átti ríkið að greiða laun presta og starfs­­manna Bisk­­ups­­stofu.

Á grunni þessa er þjóð­kirkjan á fjár­lögum og fær umtals­verða fjár­muni úr rík­is­sjóði. Frá árinu 1998 nemur sú upphæð 42 milljörðum króna.

Af fjár­lögum er greitt fram­lag til Bisk­­ups Íslands, í Kirkju­­mála­­sjóð og Jöfn­un­­ar­­sjóð sókna.

Sam­tals er áætlað að þessi upp­­hæð verði 2.830 millj­­ónir króna í ár. Til við­­bótar fær þjóð­­kirkjan greidd sókn­­ar­­gjöld í sam­ræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upp­­hæð verði yfir 1,7 millj­arðar króna í ár.

Í nýsamþykktum fjáraukalögum vegna ársins 2018 var fjárheimild til trúmála hækkuð um 820 milljónir króna. Þessi hækkun skýrist annars vegar af því að framlag til þjóðkirkjunnar  verður aukið um 857 milljónir króna og hins vegar lækka framlög vegna sóknargjalda um 37 milljónir króna vegna endurmats á fjölda einstaklinga í skráðum trúfélögum. Því má ætla að samanlagður kostnaður þjóðarinnar á árinu 2018 vegna rekstur þjóðkirkjunnar verði tæplega 5,5 milljarðar króna.

„Óendanlegur“ kostnaður

Framlagið til þjóðkirkjunnar er vegna hins svokallaða kirkjujarðarsamkomulags milli ríkis og kirkju sem gert var 10. janúar 1997. Í því var samið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti mundi ríkissjóður greiða laun biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar og 18 starfsmanna Biskupsstofu, annan rekstrarkostnað prestsembætta og Biskupsstofu, námsleyfi, fæðingarorlof, veikindi og fleira.

Tekist var á um kirkjujarðarsamkomulagið á þingi í nóvember. Þar sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, að samið hefði verið um greiðslur til kirkjunnar um ókomna tíð. Verð samninganna væri raunverulega táknað með tölustafnum átta á hlið. „Kirkjuj­arðirn­ar eru því bók­staf­lega óend­an­lega dýr­ar,“ sagði Helgi. Hann bætti því við að samningurinn væri hroðalegur.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var til svars og sagði það mikilvægt að ríkið stæði við gerða samninga. Það myndi þurfa „ein­hverja risa­stóra upp­hæð til að gera upp framtíðina“ ef breyta ætti samningnum. Skömmu síðar ávarpaði hann kirkjuþing. og sagði meðal annars að lítil sann­girni væri í mál­flutn­ingi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju. „Oft virð­ist manni sem mál­flutn­ingur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálu­sorgun og ýmis konar félags­þjón­ust­u.“

Fækkar á hverju ári

Fram hjá því verður þó vart litið flótti stendur yfir úr þjóðkirkjunni. Frá árinu 2009 hefur með­­­limum þjóð­­­kirkj­unnar fækkað á hverju ári. Alls hefur þeim fækkað um 20.164 frá þeim tíma og ekk­ert af þeirri hröðu fjölgun íbúa sem verið hefur á land­inu síðan þá – lands­menn eru nú 36.252 fleiri en í byrjun árs 2009 – hefur skilað sér til þjóð­kirkj­unn­ar.

Þann 1. desember síðastliðinn voru 232.672 landsmenn skráðir í þjóðkirkjuna og hafði fækkað um 2.419 á einu ári. Alls eru 65,4 prósent þjóðarinnar skráð í kirkjuna, sem þýðir að rúmlega einn þriðji hluti þeirra sem búa á Íslandi eru ekki í henni. Hlutfall þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur aldrei verið lægra.

Alls standa 122.948 manns utan þjóðkirkjunnar. Fjöldi þeirra sem kjósa að gera slíkt er nú tvöfalt hærri en fyrir tæplega áratug síðan.

Þá eru merki um að þjóðin sé að nota þjónustu kirkjunnar í minna mæli en áður. Í nýlegri frétt Þjóðskrár Íslands kom fram að rúmlega helmingur þeirra landsmanna sem gengu í hjónaband í nóvembermánuði, eða 50,4 prósent, gerðu slíkt hjá sýslumanni. Einungis þriðjungur þeirra sem gifti sig í þeim mánuði gerði það í þjóðkirkjunni.

Í þeirri frétt kom einnig fram að hlutur Þjóðkirkjunnar í hjónavígslum hafi farið hratt minnkandi um árabil. Um aldarmótin var hlutur hennar í slíkum 71 prósent en á árinu sem senn fer að ljúka er hann kominn niður fyrir 50 prósent.

Meirihluti þjóðar hlynntur aðskilnaði

Þá liggur fyrir að meirihluti hefur verið fyrir því á meðal þjóðarinnar frá árinu 2009 að kirkjan og ríkið verði aðskilin. Í þjóð­ar­púlsi Gallup sem birtur var 23. októ­ber síð­ast­lið­inn, kom fram að meiri­hluti Íslend­inga, eða 54 pró­sent, er hlynntur aðskiln­aði ríkis og kirkju.

Þar kom líka fram að þriðjungur þjóð­­ar­innar ber mikið traust til þjóð­­kirkj­unn­­ar, sem er tíu pró­­sent­u­­stigum færri en sögð­ust bera mikið traust til hennar ári áður. Þeir sem treysta þjóð­­kirkj­unni eru nú tæp­­lega helm­ingi færri en gerðu það árið 1999.

Alls sögð­ust 39 pró­­sent lands­­manna bera lítið traust til þjóð­­kirkj­unn­­ar. Mjög skýr munur var á afstöðu til hennar eftir aldri. Þannig sögð­ust ein­ungis 17 pró­­sent Íslend­inga á aldr­inum 18-30 ára að þeir beri mikið traust til þjóð­­kirkj­unnar en 55 pró­­sent þess ald­­ur­s­hóps treystir henni ekki. Traustið fer svo vax­andi upp alla ald­­ur­s­hópa og nær hámarki hjá 60 ára og eldri þar sem 47 pró­­sent segj­­ast treysta kirkj­unni en 26 pró­­sent treysta henni ekki.

Í könn­un­inni kom líka fram að mik­ill munur er á afstöðu til kirkj­unnar eftir því hvaða stjórn­­­mála­­flokk við­kom­andi kýs. Kjós­­endur Sjálf­­stæð­is­­flokks (52 pró­­sent segj­­ast treysta þjóð­­kirkj­unni) og kjós­­endur Mið­­flokks­ins (48 pró­­sent segj­­ast treysta þjóð­­kirkj­unni) skáru sig úr hvað varðar traust á meðan að kjós­endur Pírata (71 pró­­sent van­­traust), Við­reisnar (52 pró­­sent van­­traust) og Sam­­fylk­ingar (50 pró­­sent van­­traust) voru algjör­­lega á hinum pólnum hvað varðar afstöðu til þjóð­­kirkj­unn­­ar.

Þjóð­ar­púls­inn mældi einnig ánægju með störf bisk­­ups Íslands. Hún hefur aldrei verið minni en ein­ungis 14 pró­­sent aðspurðra sagð­ist ánægt með störf henn­­ar. Raunar hefur ánægja með störf bisk­­ups ekki mælst jafn lág á þeim rúmum tveimur ára­tugum sem hún hefur verið mæld hjá Gallup. Alls sögð­ust 44 pró­­sent aðspurðra vera óánægðir með störf bisk­­ups.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar