Mynd: EPA

Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi

Arion banki var skráður á markað um mitt ár. Þar með var hann fyrstur bankanna þriggja sem endurreistir voru á rústum þeirra sem hrundu í október 2008 að losna að fullu úr viðjum ríkisins og komast í almenna eigu. En árið hefur ekki bara verið dans á rósum fyrir bankann. Ýmsir viðskiptavinir hans hafa glímt við rekstrarvanda, sem hefur haft áhrif á afkomu Arion banka.

Lokakafl­inn í flétt­unni um fram­­tíð Arion banka, eina stóra við­­skipta­­bank­ans á Íslandi sem er ekki að meiri­hluta í rík­­i­s­eigu, fór fram á fyrri hluta árs.

Hann hófst þegar líf­eyr­is­­sjóðum lands­ins var boðið að kaupa allt að fimm pró­­sent hlut í bank­an­­um. Sjóð­irnir höfðu til 12. febr­­úar að svara til­­­boð­inu. Þeir sögðu pass hver á fætur öðr­­um.

Í kjöl­farið var þeim skila­­boðum komið til Banka­­sýslu rík­­is­ins að vilji væri hjá Kaup­skil­um, félagi í eigu Kaup­­þings þar sem vog­un­­ar­­sjóðir eru stærstu hlut­haf­­arn­ir, að virkja kaup­rétt á 13 pró­­sent hlut rík­­is­ins í Arion banka og greiða um 23 millj­­arða króna fyrir 13 pró­­sent hlut rík­­is­ins.

Sam­hliða fór fram stjórn­­­ar­fundur hjá Kaup­­þingi sem, sam­­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans, stóð fram á nótt. Nið­­ur­­staða hans var meðal ann­­ars sú að tveir af erlendum hlut­höfum bæði Kaup­­þings og Arion banka, Attestor Capi­tal og fjár­­­fest­ing­­ar­­bank­inn Gold­man Sachs, myndu kaupa 2,8 pró­­sent hlut í Arion af Kaup­­þingi til við­­bótar við það sem þeir áttu. Auk þess keyptu rúm­­lega 20 sjóðir í stýr­ingu fjög­­urra af stærstu sjóðs­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tækjum Íslands: Stefn­is, Íslands­­­sjóða, Lands­bréfa og Júpít­­er, sam­tals 2,54 pró­­sent hlut. Sam­an­lagt kaup­verð var um 9,5 millj­­arðar króna.

Gátu miðað við gam­alt upp­gjör

Ástæða þess að salan á hlutnum var keyrð í gegn þennan dag var ein­­föld: þá var hægt að miða kaup­verðið við níu mán­aða upp­­­gjör Arion banka. Miðað við það er verðið sem greitt var fyrir 0,805 krónur á hverja krónu af eigin fé sem bank­inn á. Ef verðið hefði farið niður fyrir 0,8 krónur hefði for­­kaups­­réttur rík­­is­ins á hlutnum virkj­­ast. Ef við­­skiptin hefðu farið fram 14. febr­­úar hefði það gerst.

15. febr­­úar var sam­­þykkt að Arion banki myndi kaupa 9,5 pró­­­sent hlut í sjálfum sér af Kaup­skil­um, félagi í eigu Kaup­­­þings, stærsta eig­anda bank­ans. Um er að kaup á eigin bréfum í sam­ræmi við ákvörðun hlut­hafa­fund­­ar. Til við­­bótar var greidd arð­greiðsla upp á 7,9 millj­­arða króna.

Mikil póli­­tísk átök urðu um ofan­­greindar vend­ing­­ar. Hluti þing­­manna vildi að stjórn­­völd myndu grípa inn í ferlið með ein­hverjum hætti, annað hvort með því að nýta for­­kaups­rétt sinn á hlutum í Arion banka eða með því að hafna nýt­ingu Kaup­­þings á kaup­rétt­inum á hlut rík­­is­ins. Ástæðan var meðal ann­ars sú að umfjöllun fjöl­miðla, m.a. Kjarn­ans, hafði sýnt fram á að það var mikið falið virði í Arion banka. Stjórn­­völd töldu hvor­ugt ger­­legt, enda engar for­­sendur til staðar til nýt­ingar á for­­kaups­rétt­inum og nýt­ing kaup­réttar í sam­ræmi við gerða samn­inga. Auk þess er það skoðun margra ráða­­manna að æski­­legt sé að ríkið selji að minnsta kosti hluta þeirra banka­­eigna sem það á.

Skráður á markað

Um miðjan maí til­kynnti Arion banki að hann ætl­aði að efna til útboðs á hluta­bréfum í bank­an­um. Jafn­framt var greint frá því að ætl­unin væri að skrá bréfin í kaup­höll bæði á Íslandi og í Sví­þjóð. Til sölu yrði að minnsta kosti 25 pró­sent hlutur en í mesta lagi 40 pró­sent.

Síð­asta upp­gjör Arion banka fyrir skrán­ingu þótti ekki mjög gott.  Hagn­aður sam­­­stæðu bank­ans á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2018 nam 1,9 millj­­­örðum króna sam­an­­­borið við 3,4 millj­­­arða króna á sama tíma­bili 2017. Arð­­­semi eigin fjár var aðeins 3,6 pró­­sent sam­an­­­borið við 6,3 pró­­sent fyrir sama tíma­bil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóð­­­legum sam­an­­­burð­i.

Hlutabréf í Arion banka voru tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands 15. júní 2018.
Mynd: Nasdaq Iceland.

Í skrán­ing­­ar­lýs­ing­u bank­ans sagði að Arion banki teldi að rekstur hans hefði þró­­ast með jákvæðum hætti frá því í lok mars 2018. „Hreinar vaxta­­tekjur juk­ust í apr­íl, að hluta til vegna auk­innar verð­­bólgu, sem hefur jákvæð áhrif á vaxta­mun bank­ans þar sem hann á meiri verð­­tryggðar eignir en skuld­­ir. Hreinar vaxta­­tekjur juk­ust einnig vegna end­­ur­greiðslu á skulda­bréfi á fyrsta árs­fjórð­ungi 2018 sem bar til­­­tölu­­lega háa vexti, sem dró úr vaxta­­kostn­aði. Lána­­safn bank­ans hefur stækkað í sam­ræmi við vöxt­inn á fyrsta árs­fjórð­ungi með áfram­hald­andi vexti í hús­næð­is­lán­um, lánum til lít­illa og með­­al­stórra félaga og útlánum til fyr­ir­tækja. Trygg­inga­­starf­­semi bank­ans hefur batnað eftir erf­iðan fyrsta árs­fjórð­ung. Kostn­að­­ar­grunnur hefur fylgt sam­­bæri­­legri þróun og fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2018 og virð­is­rýrnun útlána hefur verið að mestu óbreytt frá lokum fyrsta árs­fjórð­ungs. Verk­efna­­staða á útlána­sviðum og í fyr­ir­tækja­ráð­­gjöf eru í góðum far­­veg­i.“

Í til­­kynn­ingu sem birt var um miðjan maí, þar sem útboðið var boð­að, sagði að mark­mið Arion banka sé að vera með arð­­semi eigin fjár sem sé yfir tíu pró­­sent. Til að ná því er lík­­­legt að breyta þurfi fjár­­­mögnun bank­ans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkj­andi lán (sett mark­mið er að minnka eig­in­fjár­­hlut­­fall úr 23,6 pró­­sent í 17 pró­­sent), minnka rekstr­­ar­­kostnað umtals­vert (kostn­að­­ar­hlut­­fall er nú 70,8 pró­­sent en sett mark­mið er að ná því undir 50 pró­­sent) t.d. með því að fækka starfs­­fólki og ná hóf­­legum vexti í útlánum sem sé í takti við vöxt í þjóð­­ar­fram­­leiðslu á Íslandi í nán­­ustu fram­­tíð.

Arion banki var svo skráður á markað í júní. Fyrsta stóra bank­anum sem hafði verið reistur á bruna­rústum þeirra sem orsök­uðu banka­hrunið hafði verið skilað á markað tæpum tíu árum eftir að hrunið átti sér stað. Páll Harð­ar­son, for­stjóri Kaup­hallar Íslands, sagði þó í við­tali við sjón­varps­þátt­inn 21 á Hring­braut síðla árs að hann von­að­ist til þess að hinir tveir myndu fylgja honum þangað í nán­ustu fram­tíð.

Í dag er eign­ar­hald Arion banka með þeim hætti að Kaup­þing ehf. er enn stærsti eig­and­inn með 32,67 pró­sent. Þá á Arion banki 9,31 pró­sent hlut í sjálfum sér. Vog­un­ar­sjóð­irnir Taconic Capi­tal (tíu pró­sent), Attestor Capi­tal (7,31 pró­sent) og Och-Ziff Capi­tal (6,58 pró­sent) koma þar næst. Stærsti inn­lendi fjár­festir­inn í bank­anum er Gildi líf­eyr­is­sjóður með 2,47 pró­sent hlut.

Flug­fé­lögin lita stöðu Arion banka

Vend­ingar í flug­heim­inum hafa haft nei­kvæð áhrif á rekstur Arion banka á síð­ari hluta árs. Bank­inn átti umtals­verða hags­muni undir hjá bæði Pri­mera Air og WOW air, en Pri­mera fór í þrot í byrjun októ­ber­mán­aðar og WOW air hefur háð dauða­stríð mán­uðum saman sem enn sér ekki fyrir end­ann á.

Arion banki sendi frá sér afkomu­við­vörun 2. októ­ber, sama dag og Pri­mera óskaði eftir greiðslu­stöðv­un. Þar sagði að vegna ófyr­ir­séðra atburða gerði bank­inn ráð fyrir því að nið­ur­færa lán og greiða út ábyrgðir sem myndu hafa nei­kvæð áhrif á rekstr­ar­af­komu hans á þriðja árs­fjórð­ungi 2018. Áhrifin áttu að verða allt að 1,8 millj­arðar króna.

Aug­ljóst var að þarna var um áhrif af gjald­þroti Pri­mera að ræða, þótt það væri ekki sagt berum orð­um.

Þegar afkoma þriðja árs­fjórð­ungs var kynnt var greint frá því að hún væri undir vænt­ing­um. Arð­­semi eig­in fjár var 2,3 pró­­sent á þriðja árs­fjórð­ungi, sem telst lítil arð­­semi í alþjóð­­legum sam­an­­burði.

Bank­inn hóf auk þess sölu­ferli á Valitor á árinu og samdi við Citigroup um miðjan nóv­em­ber um ráð­gjöf vegna þeirrar sölu. Til stendur að selja meiri­hluta eða allt hlutafé í greiðslu­miðl­un­ar­fyr­ir­tæk­inu.

Vand­ræðin í Helgu­vík

Önnur vand­ræða­eign Arion banka er kís­il­mál­verk­smiðja United Sil­icon í Helgu­vík. Bank­inn tók yfir verk­smiðj­una snemma árs, stofn­aði félagið Stakks­berg utan um hana, ætlar sér að koma henni aftur í starf­semi og svo selja hana.

Mikil and­staða er hins vegar við þau áform hjá íbúum Reykja­nes­bæjar og félaga­sam­tökin „And­stæð­ingar stór­iðju í Helgu­vík“ hafa staðið fyrir und­ir­skrifta­söfnun til að m.a. aft­ur­kalla starfs­leyfi Stakks­berg. Sam­tökin vilja að íbúar sveita­fé­lags­ins fái að kjósa um það hvort þeir kæri sig yfir­höfuð um stór­iðju­upp­bygg­ingu í Helgu­vík.

Kjarn­inn greindi frá því um miðjan des­em­ber að lög­maður félags Arion banka hefði sent Skipu­lags­stofnun bréf þar sem kom fram að hann teldi að íbúa­kosn­ing um breyt­ingar á skipu­lagi á svæð­inu sem félagið hefur óskað eftir að láta vinna sé ekki lög­mæt.

Í bréf­inu sagði lög­maður Stakks­berg að þegar hafi verið fall­ist á starf­sem­ina sem hafi fengið öll leyfi og sé meðal ann­ars með gilt starfs­leyfi. „Verk­smiðjan hefur þegar verið byggð á lóð­inni fyrir um 22 millj­arða króna. Um er að ræða rétt­indi sem njóti verndar eign­ar­rétt­ar­á­kvæðis 72. gr. stjórn­ar­skrár­innar og atvinnu­rétt­indi sem njóti verndar 75. gr. stjórn­ar­skrár. Um slík rétt­indi verði ekki kosið í almennum kosn­ingum að mati Stakks­berg ehf.“

Verði kosið um mál­ið, og nið­ur­staða þeirrar kosn­ingar verði sú að starf­semi kís­il­málm­verk­smiðj­unnar verði hafn­að, þá telur Stakks­berg Reykja­nesbæ hafa bakað sér bóta­skyldu. „Í þessu sam­bandi er minnt á að þegar unnin fjár­fest­ing í verk­smiðju Stakks­berg nemur um 22 millj­örðum króna.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar