Mynd: Birgir Þór Harðarson

Tekist á um milljarða almannahagsmuni

Átök Landsbankans og Borgunar, og fyrrverandi forsvarsmanna félagsins, fyrir dómstólum, hafa að miklu leyti farið leynt þar sem málsaðilar hafa neitað að láta af hendi upplýsingar um málaferlin. Ljóst er þó, á nýjustu tíðindum úr þeim, að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir almenning, enda eru fyrirtækin að stóru leyti í almannaeigu.

Íslenska ríkið á ríflega 98 prósent hlut í Landsbankanum og Íslandsbanka að öllu leyti. Meðal eignarhluta Íslandsbanka er meðal annars 63,5 prósent hlutur í Borgun. Aðrir eigendur fyrirtækisins eru Eignarhaldsfélagið Borgun slf. (EB), 32,4 prósent, og BPS ehf., 2 prósent.

Sala Landsbankans á 31,2 prósent hlut i Borgun, til EB fyrir 2,2 milljarða króna, undir lok árs 2014, hefur dregið mikinn dilk á eftir sér sem nú er deilt um fyrir dómstólum.

Eins og Kjarninn greindi frá, þá var hluturinn seldur í lokuðu söluferli og ekki auglýstur til sölu.

Auglýsing

Mikill titringur var vegna þessa, og var meðal annars skipt um stóran hlut af bankaráði bankans og Steinþór Pálsson forstjóri, lét einnig af störfum. Þáverandi formaður bankaráðs Landsbankans, Tryggvi Pálsson, sagði bankann hafa gert mistök, og var ferlum við sölu á eignum bankans breytt eftir þessi viðskipti.

Bak við luktar dyr

Í síðustu ræðu sinni sem formaður bankaráðsins, á aðalfundi bankans, gerði hann Borgunarmálið að umtalsefni og sagði meðal annars: „Aðalatriði svonefnds Borgunarmáls eru í raun einföld eins og þau snúa að Landsbankanum. Við hefðum betur selt hlutinn í opnu söluferli og séð fyrir mögulega hlutdeild Borgunar í söluandvirði Visa Europe. Mikilvægast er að engir annarlegir hvatar lágu að baki þeirri ákvörðun bankans að selja hlutinn á þann hátt sem gert var, heldur einvörðungu hagsmunir Landsbankans eins og þeir voru metnir á þeim tíma. Landsbankinn er búinn að birta opinberlega þær upplýsingar sem að honum snúa og Fjármálaeftirlitið og Bankasýsla ríkisins hafa fjallað um það og sagt sitt álit. Framundan er umbeðin úttekt Ríkisendurskoðunar. Bankinn hefur dregið lærdóm af þeirri umræðu sem varð í kjölfar umræddra viðskipta og allt verklag þessu tengt er í endurskoðun. Fyrir tveimur vikum síðan breytti Landsbankinn með samhljóða ákvörðun bankaráðs stefnu sinni um sölu eigna og skilgreindi nýja stefnu vegna orðsporsáhættu.“

Tryggvi Pálsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans.
Mynd: Skjáskot/Youtube

Ríkisendurskoðun gerði úttekt á því hvernig Landsbankinn hefði staðið að eignasölu, og gagnrýndi bankann nokkuð harkalega í skýrslu. Í niðurstöðukafla skýrslunna sagði að bankinn hefði í mörgum tilvikum selt eignir, fyrir tugi milljarða króna, í lokuðu söluferli þar sem ekki var rennt að hámarka virði eigna bankans. „Ríkisendurskoðun gagnrýnir einkum hvernig Landsbankinn stóð að sölu eignarhluta sinna í Vestia hf. (2010), Icelandic Group hf. (2010), Promens hf. (2011), Framtakssjóði Íslands slhf. og IEI slhf. (2014), Borgun hf. (2014) og Valitor hf. (2014). Allar þessar sölur fóru fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum fékkst líklega lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu,“ sagði í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Það sem var þó gagnrýnt mest af öllu var hvernig Landsbankinn missti af miklum hagnaði, meðal annars vegna atriða sem ekki var gaumgæfilega hugað að í söluferli.

Var þar meðal annars fjallað um hagnaðarvon vegna aðildar að Visa Europe. Viðskipti með það félag leiddu svo til mikils hagnaðar fyrir Borgun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er meðal annars fjallað um stöðu mála þegar Landsbankinn átti einnig hlut í Valitor, sem nú er dótturfélag Arion banka.

Að mati Ríkisendurskoðunar var vitneskja um hagnaðarvon bankans vegna Visa Europe, í tilfelli Valitor, en það hafi ekki verið vitað af sömu hagnaðarvon í tilviki Borgunar.

Bankasýslan hafnaði málsvörn Landsbankans - Þrýstingur frá ráðherra

Banka­sýsla rík­is­ins taldi rök­stuðn­ing banka­ráðs Lands­bank­ans og stjórn­enda hans fyrir sölu á 31,2 pró­sent hlut í Borgun á 2,2 millj­arða króna í nóv­em­ber 2014 vera ófull­nægj­andi, en þetta kom fram í bréfi Bankasýslunnar sem birt var opinberlega. Bankasýslan hafði þá spurt ítarlega um söluferlið, eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafði formlega þrýst á um að komist yrði til botns í því, hvernig á því stóð að Landsbankinn hefði selt hlutinn í Borgun með þeim hætti sem gert var.

Í ítar­legu svar­bréfi sem stofn­un­in sendi banka­ráði Lands­bank­ans var nær öllum rök­semd­ar­færslum sem Lands­bank­inn hafði þá teflt fram sér til varnar í Borg­un­ar­mál­in­u hafn­að. Þar sagði enn fremur sagt að svör Lands­bank­ans við þeirri gagn­rýni sem ­sett hefur verið fram á fram­göngu hans hafi „ekki verið sann­fær­and­i“.

Banka­sýslan gagn­rýndi til að mynda rök­stuðn­ing bank­ans fyr­ir­ því að selja hlut­inn í lok­uðu sölu­ferli, verk­lag við samn­ings­gerð, mál­flutn­ing hans um mein­tan sölu­þrýst­ing frá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu, verð­mat á eign­ar­hlutn­um í Borgun og að Lands­bank­inn hafi komið sér í þá stöðu að eini við­semj­andi hans hafi verið hópur fjár­festa sem inni­hélt meðal ann­ars stjórn­endur Borg­un­ar. Það má að lokum nefna að upp­lýs­inga­skortur selj­anda ætti að vera rök­stuðn­ing­ur ­fyrir því að fara með eign­ar­hlut í opið sölu­ferli. „Í þessu máli var það meira að­kallandi en ella, þar sem stjórn­endur Borg­unar voru hluti af kaup­enda­hópn­um, og opið sölu­ferli hefði að ein­hverju leyti getað jafnað samn­ings­stöðu aðila. Þá má einnig benda á að þrátt fyrir að Lands­bank­inn hafi borið fyrir sig ­upp­lýs­inga­skorti virð­ist bank­inn aldrei hafa látið á það reyna hvort að það væri erf­ið­leikum bundið að afla upp­lýs­inga um Borgun áður en úti­lokað var að fara með eign­ar­hlut­inn í opið sölu­ferli,“ sagði meðal annars í bréfinu.

„Þeir starfsmenn Landsbankans sem komu að sölu eignarhlutarins í Borgun vissu að aðildarfélög Visa Europe áttu tilkall til hugsanlegs hagnaðar af áðurnefndum valrétti. Allt frá því í janúar 2013, þ.e. ári áður en bankinn hóf viðræður um sölu á eignarhlut sínum í Borgun, vissi bankinn líka að valrétturinn fól í sér veruleg verðmæti. Sérfræðingar hans um greiðslukortaviðskipti upplýstu bankaráðið á fundi þess 17. janúar 2013 að hagnaður Valitors af valréttinum gæti orðið allt að 10 milljarðar króna, yrði hann nýttur. Fulltrúar Landsbankans segjast ekki hafa vitað um aðild Borgunar að Visa Europe og þar með mögulegan ávinning félagsins af áðurnefndri sölu. Aðildin hafði þó staðið frá árinu 2010 og var raunar forsenda þess að Borgun sinnti færsluhirðingu vegna Visakorta en þá þjónustu hafði fyrirtækið veitt um árabil. Þá gerði Borgun Landsbankanum tilboð í útgáfu Visakorta vorið 2014 og tók þar sérstaklega fram að fyrirtækið gæti boðið upp á það vörumerki. Um þetta vissu a.m.k. sérfræðingar bankans í greiðslukortamálum en til þeirra var ekki leitað við sölu Borgunar. Vitneskja Landsbankans um aðild Borgunar að Visa Europe hefði hugsanlega einnig fengist ef þeir starfsmenn bankans sem stóðu að sölunni hefðu gert svokallaða laga og tæknilega áreiðanleikakönnun með því að skoða þau gögn um fyrirtækið sem bæði bankinn og fulltrúar kaupenda fengu aðgang að í rafrænu gagnaherbergi,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Inn á borð dómstóla

Eftir úttektir Fjármálaeftirlitsins og Ríkisendurskoðunar, hálfgerðar hreinsanir á fólki úr æðstu stjórn Landsbankans, og mikla yfirlegu, ákvað Landsbankinn að höfða mál gegn Borgun, fyrrverandi forstjóra félagsins Hauki Oddssyni, og síðan eignarhaldsfélögunum tveimur sem eru meðal hluthafa félagsins, á móti Íslandsbanka.

Salan á Borgun hefur haft margháttaðar afleiðingar. Ein var sú að Steinþór Pálsson missti starf sitt sem bankastjóri Landsbankans.
Mynd: Úr safni

Í lok árs 2016 var málið fyrst tekið fyrir og hefur verið til meðferðar dómstóla síðan.

Í málinu gerir Landsbankinn þær dómkröfur að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu á tjóni Landsbankans vegna söluhagnaðar sem hann hefði notið hefði hann selt 31,2% eignarhlut sinn í Borgun hf. að teknu tilliti til upplýsinga sem stefndu bjuggu yfir við kaupin en létu Landsbankanum ekki í té um hlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. og þá væntu hlutdeild er honum fylgdi í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu fyrrnefnds valréttarsamnings Visa Inc. og Visa Europe Ltd.

Þá er krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt málskostnað. Allir stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

Í tilkynningu vegna málsóknarinnar sagði bankinn að ekki hefðu fengist upplýsingar um að Borgun ætti hlut í Visa Europe og gæti fengið hlutdeild í milljarða hagnaði vegna viðskipta með félagið. „Bank­inn fékk ekki upp­lýs­ing­ar sem stefndu bjuggu yfir um að Borg­un hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og rétt­indi sem fylgdu hlutn­um, þ. á m. mögu­lega hlut­deild í sölu­hagnaði Visa Europe Ltd. við nýt­ingu sölu­rétt­ar í val­rétt­ar­samn­ingi Visa Inc. og Visa Europe Ltd,“ sagði í til­kynn­ingu Lands­bank­ans í des­em­ber.

Auglýsing

Eftir að málareksturinn hófst fyrir dómstólum hefur hins vegar ekki svo mikið komið fram um framvindu mála, en aðilar málsins hafa ekki viljað afhenda gögn. Þannig hefur Kjarninn óskað eftir því við Landsbankann að fá að sjá greinargerðir og önnur gögn, sem skipta máli í málsókninni, og meðal annars höfðað til þess að íslenska ríkið eigið bankann að fullu og miklir almannahagsmunir séu undir í málinu. En allt hefur komið fyrir ekki. Bankinn mun ekki láta nein gögn frá sér um málið, sagði Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðsins, þegar spurst var formlega fyrir um málið.

Málið er þó rekið fyrir opnum tjöldum, í þeim skilningi, að dómsniðurstöður eru opinberar og það má greina það að nokkuð harkalega hefur verið tekist á um málin, enda miklir hagsmunir í húfi.

Strax á upphafsstigum málsins mótmæltu hinir stefndu málsókninni, og kröfðust frávísunar. Hinn 30. júní 2017 var því hafnað í héraði, og ákveðið að málið myndi fá efnismeðferð. Málið er í því ferli núna.

Landsréttur staðfesti í 30. október síðastliðinn þá kröfu Landsbankans að fá dómkvadda matsmenn til að meta ársreikninga Borgunar, og þá ársreikninginn frá árinu 2013 sérstaklega þar sem hann lá til grundvallar viðskiptunum árið 2014, en tekist er á um það í málinu, hvort réttar upplýsingar hafi komið fram í ársreikningum Borgunar varðandi fyrrnefnda hagsmuni vegna Visa Europe, og hvernig upplýsingar um þetta voru kynntar.
Stefndu mótmæltu þessari beiðni Landsbankans, meðal annars vegna þess að þeir töldu beiðnina hafa komið of seint fram og að hún snéri að endurskoðendum ársreikninga Borgunar sem ættu ekki aðild að málinu, en á þessi sjónarmið var ekki fallist.

Milljarðahagsmunir eru í húfi.

Borg­un fékk um 6,2 millj­arða fyr­ir söl­una á Visa Europe, en í úr­sk­urði héraðsdóms varðandi mats­beiðnina kem­ur fram að Lands­bank­inn telji að í árs­reikn­ing Borgunar hafi vantað upp­lýs­ing­ar um mögu­leg­an hagnað upp á þrjá millj­arða. Á sama tíma var allt eigið fé Borg­un­ar þrír millj­arðar.

Landsbankinn telur því að þarna hafi verið dulin verðmæti í efnahag félagsins sem æðstu stjórnendur félagsins og sumir hluthafar, hafi vitað af, en ekki upplýst um þegar bankinn seldi hlut sinn.

Lögmaður Landsbankans í málinu er Ólafur Eiríksson hrl., lögmaður BPS ehf. Reimar Pétursson hrl., lögmaður Eignarhaldsfélagsins Borgunar Kristinn Hallgrímsson hrl. og lögmaður Borgunar og Hauks Oddssonar, fyrrverandi forstjóra, er Gestur Jónsson hrl.

Auglýsing

Um hvað er nú deilt fyrir dómstólum?

Spurningarnar, sem matsmenn þurfa að svara, fjalla að miklu leyti um hvernig staðið var að reikningsskilum Borgunar. Landsbankinn vill fá fram upplýsingar frá matsmönnum þar sem hægt er að greina meint tjón bankans af sölunni afdrifaríku á 31,2 prósent hlutnum í lok árs 2014. Ársreikningurinn frá árinu 2013 skiptir máli þess vegna, þar sem hann var grundvallargagn í málinu.

1. Hvaða reglur giltu um gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

2. Að teknu tilliti til þágildandi reglna, sbr. svar við matsspurningu 1, hvernig átti að ákvarða mikilvægi (e. materiality) við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

3. Hver hefði verið fjárhæð mikilvægis við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013 ef beitt er þeirri aðferðafræði sem lýst er í svari matsmanna við spurningu 2?

4. Að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna um matsspurningar 1-3, hefðu upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. til Visa Inc., getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

5. Að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna um matsspurningar 1-3, hefðu upplýsingar um skilmála valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. til Visa Inc., getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

6. Að teknu tilliti til niðurstöðu matsmanna um matsspurningar 1-3, hefðu upplýsingar um möguleika á því að Borgun hf. kynni að fá greiðslur á grundvelli valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. til Visa Inc., getað talist mikilvægar við gerð, framsetningu og endurskoðun ársreiknings Borgunar hf. fyrir árið 2013?

7. Var Borgun hf. skylt að birta í ársreikningi sínum fyrir árið 2013 (þ.m.t. í skýrslu stjórnar) einhverjar upplýsingar, og ef svo er hverjar, um eignarhlut sinn í Visa Europe Ltd. og/eða valréttinn um kaup og sölu á þeim eignarhlut til Visa Inc., á grundvelli reglna sem giltu um gerð og framsetningu ársreikningsins?

8. Uppfyllti ársreikningur Borgunar hf. fyrir árið 2013 (þ.m.t. skýrsla stjórnar) allar kröfur um upplýsingagjöf sem áttu við um eignarhlut Borgunar hf. í Visa Europe Ltd. og/eða um valréttinn um kaup og sölu á þeim eignarhlut til Visa Inc. samkvæmt þágildandi lögum nr. 3/2006 um ársreikninga og alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og þeir voru samþykktir af Evrópusambandinu (þ.m.t. kröfur um upplýsingagjöf samkvæmt liðum (a) til (d) í 30. gr. staðals IFRS 7 Fjármálagerningar: Upplýsingagjöf)?“

Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar