Aðsendar myndir

The Winner takes it all – ábyrgðarlaus hugleiðing um blygðunarfrelsið

Rithöfundarnir Auður Jónsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson voru leynilega tekin upp í karíókísveiflu nú á dögunum þegar þau sungu The Winner Take It All. Þau veltu fyrir sér leynilegum upptökum á fylleríshjali, Nietzche og pistli Þórlindar Kjartanssonar um subbutal og persónvernd í Fréttablaðinu meðan þau skrásettu eigið Klausturtal.

Á sólríkum sunnudagsmorgni, rétt fyrir hádegi, vaknaði undirrituð við vondan draum. Skilaboð frá undirrituðum spurðu: Ertu búin að kíkja á Facebook?

Undirrituð skjögraði fram úr og beint í tölvuna, kveikti á alnetinu og dó. Smá. Á alnetinu blasti við myndband af undirritaðri og undirrituðum klukkan að ganga þrjú nóttina áður í djúpri innlifun og óheftri tjániningu að syngja í karíókímaskínu The Winner takes it all!

Taugakerfi undirritaðrar var ekki í fullkomnu jafnvægi á þessu augnabliki en fyrsta spurning undirritaðs var: Er þetta ekki brot á fyrstu siðareglu Karíókí-samfélagsins?

Tilfinningarlegt hefndarklám – var það fyrsta sem flögraði að undirritaðri sem hafði notið sín til fulls í tjáningunni nokkrum klukkustundum fyrr. En! Þetta er hinn flæðandi nútími. Alltaf nokkrum klukkustundum á undan manni. Þessi atburðarás var nokkuð kaldhæðnisleg í ljósi heitra umræðna nóttina áður (sem sagt nokkrum klukkustundum fyrr) þar sem undirrituð og undirritaður voru á töluverðu trúnói um Klaustursmálið, ekki síst út frá pistli Þórlindar Kjartanssonar, Meira af miðaldra drengjum, í Fréttablaðinu þar sem Þórlindur hafði reynt hið ómögulega; að skoða báðar hliðar málsins. Hann hnýtti í fyllerísraus hinna miðaldra þingmanna – tal sem bæri með sér valdahroka, kven- og mannfyrirlitningu – og sagði að þeir ættu að sýna þá ábyrgð að segja af sér. Eins fannst honum að manneskjan á Klausturbar (Bára) hefði gert rétt með því að taka upp talið þegar henni blöskraði og senda til fjölmiðla til að vega það og meta. Hvernig fjölmiðlar hefðu unnið úr því væri svo annað mál, á gráu svæði og mætti hafa ólíkar skoðanir á.

En hann velti líka upp almennum spurningum um hvar mörk einkalífsins liggi; að undir venjulegum kringumstæðum þætti alvarlegt brot að taka leynilega upp fyllerístal fólks og birta í fjölmiðlum – og lögmætt að spyrja hvort réttlætanlegt hefði verið að taka upp samtalið og birta það. Í þessum pælingum velti hann upp flóknum spurningum. En þar sem Þórlindur viðraði þarna tvö sjónarhorn í sömu ritsmíð hlaut hið óhjákvæmilega að gerast: Hann hafði fengið þrjú læk – þegar undirrituð kíkti á pistilinn töluvert eftir birtingu. Undirritaðri og undirrituðum varð svo mikið um þetta, að í hita leiksins, skömmu áður en þau lögðu í Abba-lagið, létu þau sig dreyma blauta drauma í þá veruna að skrifa grein um þessi þrjú læk Þórlindar. Það bara yrði að gerast.

Læk í svarthvítum heimi

Þarna í djúpi partísins (er það opinber vettvangur?) varð undirrituðum að orði: Læk lúta sömu lögmálum og Abbalagið The Winner takes it all.

Það er ómögulegt er að læka nokkuð nema það sem þú telur endanlegan sannleika, hélt hann áfram. Hina endanlegu lausn. Læk virka í svarthvítum heimi þar sem hlutir eru af eða á. Það er dálítið óhugnarlegt. Og það gerir mann stundum svolítið skelkaðan, í ljósi þess að flestir hlutir í lífi manns gerast á gráu svæði; þannig er oft afstætt og ekki algerlega á hreinu hvað er rétt og rangt. Eitt af því sem hræðir mig við Facebook er hversu auðvelt það er að koma sér upp réttri skoðun með einu músarklikki. Síðan er líka svo auðvelt að verða háður því að hafa rétta skoðun. Sérstaklega þegar skoðun þinni er á þennan hátt útvarpað yfir allan heiminn. Undirrituð hikstaði þá, með ögn rauðvínssprengdar varir: Já, svolítið eins og í stórmarkaði, þú getur gripið réttu skoðunina.

Undirritaður, líka með rauðvínstrant, sagði þá: Já, og svo er það svo skuggalega furðulegt kikk að hafa rétta skoðun. Ég verð skíthræddur við mig þegar ég er viss um að ég hafi rétta skoðun.

Þarna vorum við stödd á okkar Klausturbar, ögn upptekin af eigin visku, og töluðum frjálslega, enda höfðum við á þessum tímapunkti ekki hugmynd um að í hinum enda hvíta herbergisins, í skuggsælu horni, stóð þögull karlmaður. Hann lét lítið á sér bera en var hins vegar tilbúinn að munda símamyndavélina og taka upp á band okkar frjálslegu tjáningu. Og því sagði undirritaður, í skjóli ímyndaðrar friðhelgi: Fólk hefur auðvitað rétt á að vera fávitar. Jafnvel andstyggilegt. En svo er líka satt, að það má ekki beina kerfisbundnu hatri að fólki – þetta er alltaf pirrandi mikið grátt svæðið. Það eru alltaf þessar tvær hliðar á sama peningnum; þú mátt vera asnalegur eða andstyggilegur, það er frelsi þitt. Ábyrð þín er síðan að taka því ef aðrir sjái þig sem asnalega eða andstyggilega manneskju. Þú verður að þola það!

Sigmundur Davíð og Friedrich Nietzsche

Þarna sátum við, tveir veðraðir listamenn, og í ljósi starfs okkar sérstaklega meðvituð um ógnina sem stafar af því þegar tjáningarfrelsið er skert. Við höfum séð það í gegnum áratugina, árhundruðin, jafnvel árþúsundirnar, að sjaldnast veit á gott þegar hvort sem er múgur eða stjórnvöld byrja að þagga niður í fólki sem – samkvæmt þeirra bókum – er talið vera með rangar skoðanir eða bara illa innrætt.

Í Menningarbyltingunni í Kína áttu börnin að koma upp um foreldra sína ef þau hugsuðu ekki rétt. Í Stasi-landi var njósnari í hverri fjölskyldu, tilgangurinn helgaði öll meðul til að komast að því „hvern mann fólk hefði í raun að geyma“ ... En svona segir fólk bara í skjóli friðhelgi, á ímynduðu frísvæði, eftir nokkur rauðvínsglös. Hvorugt okkar hefði, undir nokkrum kringumstæðum, lækað þennan málflutning okkar á samfélagsmiðlum daginn eftir, en þarna í hita leiksins var undirritaður, fjálgur af eigin tali, samt eiginlega byrjaður læka sjálfan sig í huganum þegar hann sagði: Listamennirnir sem enduðu á gapastokknum voru þeir sem hugsuðu út fyrir rammann, sprengdu siðvenjur og gengu berhögg við siðferði síns tíma: Þeir voru oftar en ekki „vondir menn“ og „vondar konur.“

Já! samsinnti undirrituð.

Í framhaldi af upphrópunarmerkinu fylgdi nokkuð löng þögn á meðan bæði undirrituð og undirritaður gerðu sitt besta til að sjá eitthvað sameiginlegt með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og öllum þessum djörfu og framsæknu listamönnum.

Nietzsche myndi segja: Láttu þinn innri mann vera fyrir augum allra. Útvarpaðu öllum þínu fyllerísröfli. Ekkert hulið. Syngdu Abba í karíókíi (í rangri tóntegund) og lifðu það til fulls. Segðu alls konar sem öðrum finnst rangt. En þorðu að standa með frelsinu. Ekki fyllast skömm við viðbrögðum annarra.

En þar með er ekki sagt að umræddur Nietzsche hafi verið sérstaklega viðkunnanlegur maður, einhver sem maður myndi vilja deila stigagangi með eða kjósa á þing.

En samt þurfum við kannski að finna dropa af Nietzsche í okkur í þessum flæðandi nútíma þar sem allt flæðir í nýjum skilningi og sífellt meiru er útvarpað einhver staðar. Við höfum ekki ráðrúm og andrými til að taka íhugaða afstöðu til allra upplýsinganna sem berast okkur á ofurhraða svo eðlilega fálmum við eftir ríkjandi skoðun, þeirri sem virkar vatnsheldust í augnablikinu. „Ég er ekki alveg viss“ eða „Ég er að hugsa málið“, það teljast ekki skoðanir. Það er ekki tími til að leyfa rykinu að setjast, eins gott að hafa afdráttarlausa skoðun með hraði því hvað veit maður, kannski er einhver að taka upp á næsta borði eða í skuggsælu horni. Svo margt viðkvæmt í mannlegum samskiptum er skyndilega komið í kastljós opinberrar endurskoðunar. Allskonar hlutir sem fyrri kynslóðum þótti sjálfsagt atferli þykja það ekki lengur. Meira segja fyrsta siðaregla kareókí-samfélagsins er langt frá því að vera álitin heilög lengur.

Ódýrasta trikkið

Undirrituðum varð að orði: Á tímum sem þessum vantar takka á Facebook við hlið þumalsins þar sem upphrópunarmerki og spurningarmerki væru samtvinnuð í eitt tákn á daufum mánudags-gráum hnappi. Merkingin væri: Humm, umhugsunarvert, ég er ekki alveg viss en ...

Krafan í dag er alltaf: Ertu með eða á móti. Ertu með Báru eða á móti? Með eða á móti Sigmundi? Á móti stríðinu gegn hryðjuverkum? Ef þú ert ekki með okkur, þá ertu á móti okkur. Skoðanir eru stór hluti af sjálfsmynd okkar. Hvað finnst mér, hver er ég?

Og svo erum við samfélagsdýr, lifum í félagslegu umhverfi. Það er staðreynd, og það skiptir engu hvað Nietszche finnst um það. Það hefur áhrif á okkur hvernig annað fólk sér okkur, við viljum að samfélagið samþykki okkur. En hvernig samfélag á að samþykkja okkur?

Við búum til samfélagið okkar, viðmið þess og það sem telst viðeigandi. Við skilgreinum það, meðal annars með öllum lækunum okkar og upphrópununum. Með okkar oft tilfinningaþrungna málflutningi í hversdeginum.

Undirritaður var hugsi, fyllti aftur á glösin á borðinu: Listamenn vita það að auðveldasta leiðin til að hreyfa við fólki er að toga í tilfinningar þess; að fá það til að hata eða elska, það er ódýrasta trikkið – og í raun skít-einfalt. Og þess vegna varast maður það. Fyrr á tímum var dagleg opinber umræðan ekki svo tilfinningadrifin og en nú þrífst hún á því. Og lækin fylgja, næstum ósjálfrátt.

Undirrituð hikstaði þá: Og það er ákveðin manipúlasjón fólgin í því. Við erum manipúleruð svo lúmskt að viðbrögð okkar verða ósjálfráð. Þau verða bara eitthvað flökt í tíðaranda. Jú, sagði undirritaður og hikstaði líka smá: Mér fannst svo sláandi að viðbrögð Sigmundar Davíðs við viðtali Lilju menningar- og menntamálaráðherra í Kastljósi voru einhvern vegin á þá leið að honum hefði aldrei sárnað eins mikið. Hann væri tilfinningalega særður.

Ó já, hikstaði undirrituð aftur: Aldrei myndi Angela Merkel segja þetta! Ég held að enginn viti hvernig Angelu Merkel hefur liðið – nokkur tímann.

Að þessu mæltu fann hún til nokkurs svima.

Ýtt á „rec“

Á meðan á þessu tali stendur bíður karlinn í skugganum þolinmóður en gerir sig kláran þegar skemmtanastjórinn kallar á okkur. Nú er komið að þessu: The Winner takes it all! – taparinn stendur eftir smættaður.

Þegar við tökum upp míkrafónana hlæjum við kaldranlega að því að við séum bæði tilnefnd í sama flokki til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Annað gæti sigrað, mögulega bæði tapað.

En þangað til syngjum við eins og sigurvegarar og göngum síðan út í vetrarnóttina, alveg grunlaus um að karlinn í skuggahorninu hafi ýtt á „rec“ og kveikt á upptökunni. Og enn grunlausari um það að í ljós muni koma að við séum sjálf svo vitlaus að setjast niður viku síðar og skrásetja stafrænt okkar eigið Klausturröfl. En okkur er nokkuð í mun að verja rétt okkar til að vera vitlaus og asnaleg, á gráu svæði jafnvel. Ekki svo að skilja; við förum ekki fram á við þig að þú lækir þessa grein. Við erum ekki viss um að við myndum gera það sjálf. Satt að segja er það eiginlega bara frekar ólíklegt.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit