Aðsendar myndir

The Winner takes it all – ábyrgðarlaus hugleiðing um blygðunarfrelsið

Rithöfundarnir Auður Jónsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson voru leynilega tekin upp í karíókísveiflu nú á dögunum þegar þau sungu The Winner Take It All. Þau veltu fyrir sér leynilegum upptökum á fylleríshjali, Nietzche og pistli Þórlindar Kjartanssonar um subbutal og persónvernd í Fréttablaðinu meðan þau skrásettu eigið Klausturtal.

Á sól­ríkum sunnu­dags­morgni, rétt fyrir hádegi, vakn­aði und­ir­rituð við vondan draum. Skila­boð frá und­ir­rit­uðum spurðu: Ertu búin að kíkja á Face­book?

Und­ir­rituð skjögraði fram úr og beint í tölv­una, kveikti á alnet­inu og dó. Smá. Á alnet­inu blasti við mynd­band af und­ir­rit­aðri og und­ir­rit­uðum klukkan að ganga þrjú nótt­ina áður í djúpri inn­lifun og óheftri tján­in­ingu að syngja í karíókíma­sk­ínu The Winner takes it all!

Tauga­kerfi und­ir­rit­aðrar var ekki í full­komnu jafn­vægi á þessu augna­bliki en fyrsta spurn­ing und­ir­rit­aðs var: Er þetta ekki brot á fyrstu siða­reglu Karíókí-­sam­fé­lags­ins?

Til­finn­ing­ar­legt hefnd­arklám – var það fyrsta sem flögraði að und­ir­rit­aðri sem hafði notið sín til fulls í tján­ing­unni nokkrum klukku­stundum fyrr. En! Þetta er hinn flæð­andi nútími. Alltaf nokkrum klukku­stundum á undan mann­i. Þessi atburða­rás var nokkuð kald­hæðn­is­leg í ljósi heitra umræðna nótt­ina áður (sem sagt nokkrum klukku­stundum fyrr) þar sem und­ir­rituð og und­ir­rit­aður voru á tölu­verðu trúnói um Klaust­urs­mál­ið, ekki síst út frá pistli Þór­lindar Kjart­ans­son­ar, Meira af mið­aldra drengj­um, í Frétta­blað­inu þar sem Þór­lindur hafði reynt hið ómögu­lega; að skoða báðar hliðar máls­ins. Hann hnýtti í fyll­er­ís­raus hinna mið­aldra þing­manna – tal sem bæri með sér valda­hroka, kven- og mann­fyr­ir­litn­ingu – og sagði að þeir ættu að sýna þá ábyrgð að segja af sér. Eins fannst honum að mann­eskjan á Klaust­ur­bar (Bára) hefði gert rétt með því að taka upp talið þegar henni blöskr­aði og senda til fjölmiðla til að vega það og meta. Hvernig fjöl­miðlar hefðu unnið úr því væri svo annað mál, á gráu svæði og mætti hafa ólíkar skoð­anir á.

En hann velti líka upp almennum spurn­ingum um hvar mörk einka­lífs­ins liggi; að undir venju­legum kring­um­stæðum þætti alvar­legt brot að taka leyni­lega upp fyll­er­ís­tal fólks og birta í fjöl­miðlum – og lög­mætt að spyrja hvort rétt­læt­an­legt hefði verið að taka upp sam­talið og birta það. Í þessum pæl­ingum velti hann upp flóknum spurn­ing­um. En þar sem Þór­lindur viðr­aði þarna tvö sjón­ar­horn í sömu rit­smíð hlaut hið óhjá­kvæmi­lega að ger­ast: Hann hafði fengið þrjú læk – þegar und­ir­rituð kíkti á pistil­inn tölu­vert eftir birt­ing­u. Und­ir­rit­aðri og und­ir­rit­uðum varð svo mikið um þetta, að í hita leiks­ins, skömmu áður en þau lögðu í Abba-lag­ið, létu þau sig dreyma blauta drauma í þá ver­una að skrifa grein um þessi þrjú læk Þór­lind­ar. Það bara yrði að ger­ast.

Læk í svart­hvítum heimi

Þarna í djúpi partís­ins (er það opin­ber vett­vang­ur?) varð und­ir­rit­uðum að orði: Læk lúta sömu lög­málum og Abbalagið The Winner takes it all.

Það er ómögu­legt er að læka nokkuð nema það sem þú telur end­an­legan sann­leika, hélt hann áfram. Hina end­an­legu lausn. Læk virka í svart­hvítum heimi þar sem hlutir eru af eða á. Það er dálítið óhugn­ar­legt. Og það gerir mann stundum svo­lítið skelk­að­an, í ljósi þess að flestir hlutir í lífi manns ger­ast á gráu svæði; þannig er oft afstætt og ekki alger­lega á hreinu hvað er rétt og rangt. Eitt af því sem hræðir mig við Face­book er hversu auð­velt það er að koma sér upp réttri skoðun með einu mús­arklikki. Síðan er líka svo auð­velt að verða háður því að hafa rétta skoð­un. Sér­stak­lega þegar skoðun þinni er á þennan hátt útvarpað yfir allan heim­inn. Und­ir­rituð hikstaði þá, með ögn rauð­víns­sprengdar var­ir: Já, svo­lítið eins og í stór­mark­aði, þú getur gripið réttu skoð­un­ina.

Und­ir­rit­að­ur, líka með rauð­vín­strant, sagði þá: Já, og svo er það svo skugga­lega furðu­legt kikk að hafa rétta skoð­un. Ég verð skít­hræddur við mig þegar ég er viss um að ég hafi rétta skoð­un.

Þarna vorum við stödd á okkar Klaust­ur­bar, ögn upp­tekin af eigin visku, og töl­uðum frjáls­lega, enda höfðum við á þessum tíma­punkti ekki hug­mynd um að í hinum enda hvíta her­berg­is­ins, í skugg­sælu horni, stóð þög­ull karl­mað­ur. Hann lét lítið á sér bera en var hins vegar til­bú­inn að munda síma­mynda­vél­ina og taka upp á band okkar frjáls­legu tján­ing­u. Og því sagði und­ir­rit­að­ur, í skjóli ímynd­aðrar frið­helgi: Fólk hefur auð­vitað rétt á að vera fávit­ar. Jafn­vel and­styggi­legt. En svo er líka satt, að það má ekki beina kerf­is­bundnu hatri að fólki – þetta er alltaf pirr­andi mikið grátt svæð­ið. Það eru alltaf þessar tvær hliðar á sama pen­ingn­um; þú mátt vera asna­legur eða and­styggi­leg­ur, það er frelsi þitt. Ábyrð þín er síðan að taka því ef aðrir sjái þig sem asna­lega eða and­styggi­lega mann­eskju. Þú verður að þola það!

Sig­mundur Davíð og Friedrich Nietzsche

Þarna sátum við, tveir veðraðir lista­menn, og í ljósi starfs okkar sér­stak­lega með­vituð um ógn­ina sem stafar af því þegar tján­ing­ar­frelsið er skert. Við höfum séð það í gegnum ára­tug­ina, árhund­ruð­in, jafn­vel árþús­und­irn­ar, að sjaldn­ast veit á gott þegar hvort sem er múgur eða stjórn­völd byrja að þagga niður í fólki sem – sam­kvæmt þeirra bókum – er talið vera með rangar skoð­anir eða bara illa inn­rætt.

Í Menn­ing­ar­bylt­ing­unni í Kína áttu börnin að koma upp um for­eldra sína ef þau hugs­uðu ekki rétt. Í Stasi-landi var njósn­ari í hverri fjöl­skyldu, til­gang­ur­inn helg­aði öll meðul til að kom­ast að því „hvern mann fólk hefði í raun að geyma“ ... En svona segir fólk bara í skjóli frið­helgi, á ímynd­uðu frí­s­væði, eftir nokkur rauð­víns­glös. Hvor­ugt okkar hefði, undir nokkrum kring­um­stæð­um, lækað þennan mál­flutn­ing okkar á sam­fé­lags­miðlum dag­inn eft­ir, en þarna í hita leiks­ins var und­ir­rit­að­ur, fjálgur af eigin tali, samt eig­in­lega byrj­aður læka sjálfan sig í hug­anum þegar hann sagði: Lista­menn­irnir sem end­uðu á gapa­stokknum voru þeir sem hugs­uðu út fyrir rammann, sprengdu sið­venjur og gengu ber­högg við sið­ferði síns tíma: Þeir voru oftar en ekki „vondir menn“ og „vondar kon­ur.“

Já! sam­sinnti und­ir­rit­uð.

Í fram­haldi af upp­hrópun­ar­merk­inu fylgdi nokkuð löng þögn á meðan bæði und­ir­rituð og und­ir­rit­aður gerðu sitt besta til að sjá eitt­hvað sam­eig­in­legt með Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni og öllum þessum djörfu og fram­sæknu lista­mönn­um.

Nietzsche myndi segja: Láttu þinn innri mann vera fyrir augum allra. Útvarp­aðu öllum þínu fyll­er­ís­röfli. Ekk­ert hul­ið. Syngdu Abba í karíókíi (í rangri tón­teg­und) og lifðu það til fulls. Segðu alls konar sem öðrum finnst rangt. En þorðu að standa með frels­inu. Ekki fyll­ast skömm við við­brögðum ann­arra.

En þar með er ekki sagt að umræddur Nietzsche hafi verið sér­stak­lega við­kunn­an­legur mað­ur, ein­hver sem maður myndi vilja deila stiga­gangi með eða kjósa á þing.

En samt þurfum við kannski að finna dropa af Nietzsche í okkur í þessum flæð­andi nútíma þar sem allt flæðir í nýjum skiln­ingi og sífellt meiru er útvarpað ein­hver stað­ar. Við höfum ekki ráð­rúm og and­rými til að taka íhug­aða afstöðu til allra upp­lýs­ing­anna sem ber­ast okkur á ofur­hraða svo eðli­lega fálmum við eftir ríkj­andi skoð­un, þeirri sem virkar vatns­held­ust í augna­blik­inu. „Ég er ekki alveg viss“ eða „Ég er að hugsa mál­ið“, það telj­ast ekki skoð­an­ir. Það er ekki tími til að leyfa ryk­inu að setj­ast, eins gott að hafa afdrátt­ar­lausa skoðun með hraði því hvað veit mað­ur, kannski er ein­hver að taka upp á næsta borði eða í skugg­sælu horni. Svo margt við­kvæmt í mann­legum sam­skiptum er skyndi­lega komið í kast­ljós opin­berrar end­ur­skoð­un­ar. Alls­konar hlutir sem fyrri kyn­slóðum þótti sjálf­sagt atferli þykja það ekki leng­ur. Meira segja fyrsta siða­regla kareókí-­sam­fé­lags­ins er langt frá því að vera álitin heilög leng­ur.

Ódýrasta trikkið

Und­ir­rit­uðum varð að orði: Á tímum sem þessum vantar takka á Face­book við hlið þum­al­s­ins þar sem upp­hrópun­ar­merki og spurn­ing­ar­merki væru sam­tvinnuð í eitt tákn á daufum mánu­dags-gráum hnappi. Merk­ingin væri: Humm, umhugs­un­ar­vert, ég er ekki alveg viss en ...

Krafan í dag er alltaf: Ertu með eða á móti. Ertu með Báru eða á móti? Með eða á móti Sig­mundi? Á móti stríð­inu gegn hryðju­verk­um? Ef þú ert ekki með okk­ur, þá ertu á móti okk­ur. ­Skoð­anir eru stór hluti af sjálfs­mynd okk­ar. Hvað finnst mér, hver er ég?

Og svo erum við sam­fé­lags­dýr, lifum í félags­legu umhverfi. Það er stað­reynd, og það skiptir engu hvað Nietszche finnst um það. Það hefur áhrif á okkur hvernig annað fólk sér okk­ur, við viljum að sam­fé­lagið sam­þykki okk­ur. En hvernig sam­fé­lag á að sam­þykkja okk­ur?

Við búum til sam­fé­lagið okk­ar, við­mið þess og það sem telst við­eig­andi. Við skil­greinum það, meðal ann­ars með öllum læk­unum okkar og upp­hróp­un­un­um. Með okkar oft til­finn­inga­þrungna mál­flutn­ingi í hvers­deg­in­um.

Und­ir­rit­aður var hugsi, fyllti aftur á glösin á borð­inu: Lista­menn vita það að auð­veldasta leiðin til að hreyfa við fólki er að toga í til­finn­ingar þess; að fá það til að hata eða elska, það er ódýrasta trikkið – og í raun skít-ein­falt. Og þess vegna var­ast maður það. Fyrr á tímum var dag­leg opin­ber umræðan ekki svo til­finn­inga­drifin og en nú þrífst hún á því. Og lækin fylgja, næstum ósjálfrátt.

Und­ir­rituð hikstaði þá: Og það er ákveðin man­ipúla­sjón fólgin í því. Við erum man­ipúleruð svo lúm­skt að við­brögð okkar verða ósjálf­ráð. Þau verða bara eitt­hvað flökt í tíð­ar­anda. Jú, sagði und­ir­rit­aður og hikstaði líka smá: Mér fannst svo slá­andi að við­brögð Sig­mundar Dav­íðs við við­tali Lilju menn­ing­ar- og mennta­mála­ráð­herra í Kast­ljósi voru ein­hvern vegin á þá leið að honum hefði aldrei sárnað eins mik­ið. Hann væri til­finn­inga­lega særð­ur.

Ó já, hikstaði und­ir­rituð aft­ur: Aldrei myndi Ang­ela Merkel segja þetta! Ég held að eng­inn viti hvernig Ang­elu Merkel hefur liðið – nokkur tím­ann.

Að þessu mæltu fann hún til nokk­urs svima.

Ýtt á „rec“

Á meðan á þessu tali stendur bíður karl­inn í skugg­anum þol­in­móður en gerir sig kláran þegar skemmt­ana­stjór­inn kallar á okk­ur. Nú er komið að þessu: The Winner takes it all! – tap­ar­inn stendur eftir smætt­að­ur.

Þegar við tökum upp míkra­fón­ana hlæjum við kaldr­an­lega að því að við séum bæði til­nefnd í sama flokki til Íslensku bók­mennta­verð­laun­anna. Annað gæti sigr­að, mögu­lega bæði tap­að.

En þangað til syngjum við eins og sig­ur­veg­arar og göngum síðan út í vetr­ar­nótt­ina, alveg grun­laus um að karl­inn í skugga­horn­inu hafi ýtt á „rec“ og kveikt á upp­tök­unni. Og enn grun­laus­ari um það að í ljós muni koma að við séum sjálf svo vit­laus að setj­ast niður viku síðar og skrá­setja staf­rænt okkar eigið Klaust­ur­röfl. En okkur er nokkuð í mun að verja rétt okkar til að vera vit­laus og asna­leg, á gráu svæði jafn­vel. Ekki svo að skilja; við förum ekki fram á við þig að þú lækir þessa grein. Við erum ekki viss um að við myndum gera það sjálf. Satt að segja er það eig­in­lega bara frekar ólík­legt.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit