Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um 9,42 prósent í virði það sem af er degi. Tvennt gerðist um helgina sem er líklegt til að vera áhrifavaldur á gengi bréfa í félaginu. Annars vegna hrapaði Boeing 737 MAX 8 vél í Eþíópu um helguna með þeim afleiðingum að 157 fórust. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem vél af þessari tegund hefur farist, en samskonar vél fórst í Jakarta í fyrrahaust.
Icelandair á þrjár MAX 8 vélar og á von á fleirum í nánustu framtíð. Kínversk loftferðaryfirvöld hafa gripið til þess ráðs að kyrrsetja allar vélar af MAX 8 gerð sem kínversk flugfélög um ótiltekin tíma, eða þar til að ástæður slysanna tveggja liggja fyrir. Cayman Airlines hefur tekið sömu afstöðu varðandi vélar af MAX 8 gerðinni sem það félag á. Icelandair ætlar hins vegar ekki að kyrrsetja sínar vélar.
WOW air í öndunarvél, en á lífi
Hin tíðindin sem urðu um helgina og snerta Icelandair snúast um fjárhagslega endurskipulagningu samkeppnisaðilans WOW air. Á laugardag sendi WOW air frá sér tilkynningu til skuldabréfaeigenda sinna um nýja skilmála sem Indigo Partners hefur farið fram á að þeir samþykki til að aðkoma þeirra að WOW air geti gengið eftir.
Indigo hefur hug á að fjárfesta allt að 90 milljónir dala, um ellefu milljarða króna, í WOW air en forsvarsmenn Indigo vilja að eigendur skuldabréfaflokks, sem var gefinn út í september í fyrra samþykki margþættar breytingar á skilmálum hans sem feli í sér að endurheimtur þeirra verða bundnar rekstrarframmistöðu fyrirtækisins á næstu árum. Þannig geti endurheimtur þeirra orðið 50 til 100 prósent af upphaflegu virði bréfanna. Jafnframt er óskað eftir því að vextir skuldabréfanna verði lækkaðir úr 9 prósent í 7 prósent. Auk þess verði lengt í skuldabréfunum, í stað þriggja ára eins og upphaflega var lagt upp með er nú miðað við að bréfin endurgreiðist nú á fimm árum. Farið er fram á að ábyrgðir tengdar skuldabréfunum verði felld niður auk þess að skuldabréfin verði afskráð. Breytingar sem skuldabréfaeigendurnir höfðu áður samþykkt runnu úr gildi um síðustu mánaðamót. Samkvæmt hinum nýju skilmálum gæti hlutur Skúla Mogensen, stofnanda og eina eiganda WOW air, orðið á bilinu 0 til 100 prósent allt eftir því hvernig félaginu reiðir af á komandi árum. Fjárfesting Indigo mun fela í sér, að hann eignist hlutabréf í félaginu en veiti því einnig lán með breytirétti sem síðari geti orðið stofn að hlutafé í félaginu.
Enn fremur kveðið á í tilkynningunni að víkjandi lán sem fjárfestingarfélag Skúla Mogensen, Títan, veitti WOW air og stefnt var að yrði endurgreitt verði afskrifað. Fjárhæð lánsins sem nú er afskrifað nam 6 milljónum dollara, jafnvirði tæplega 730 milljóna króna.
Skuldabréfaeigendur eiga enn eftir að samþykkja hina breyttu skilmála, en stærstur þeirra er bandaríska eignastýringarfyrirtækið Eaton Vance. Skúli Mogensen keypti auk þess hluta bréfanna sjálfur og það gerðu sjóðir í stýringu hjá GAMMA líka. Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, sagði í viðtali við RÚV i gær að nýju skilmálarnir væru ákveðin vonbrigði en að niðurstaðan væri þó skárri en hann hafði óttast.
Miklar sveiflur í gengi yfir lengri tíma
Sveiflur á gengi bréfa í Icelandair hafa verið tíðar undanfarin misseri. Ástæðan fyrir miklum sveiflum á gengi bréfa félagsins á undanförnum mánuðum má að miklu leyti rekja til tíðinda af WOW air og rekstrarerfiðleikum Icelandair, sem gaf út afkomuviðvaranir á síðasta ári þegar ljóst var að áætlanir voru ekki að fara að standast.
Markaðsvirði Icelandair hrundi til að mynda niður um 16 prósent eftir að uppgjör félagsins var birt snemma í febrúar, en félagið tapaði alls 6,7 milljörðum króna á síðasta ári. Eigið fé Icelandair var 56,5 milljarðar króna í lok síðasta árs en markaðsvirði félagsins við opnum markaða í dag var einungis 39,8 milljarðar króna. Gera má ráð fyrir því að um tæplega fjórir milljarðar króna hafi skafast af virðinu það sem af er degi.
Markaðsvirði Icelandair fór yfir 180 milljarða króna í apríl 2016 og því hefur virði félagsins dregist saman um rúmlega 140 milljarða króna á tæplega þremur árum.