Erlendum ríkisborgurum sem búsettir eru á Íslandi fjölgaði um 820 á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2019. Þeir voru alls 45.130 í byrjun þessa mánaðar. Til samanburðar þá fjölgað erlendum ríkisborgurum með búsetu á Íslandi um 1.620 á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018. Því virðist allt stefna í að mun færri erlendir ríkisborgarar muni flytja til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en gerðu það á sama tímabili í fyrra.
Á árunum 2017 og 2018 átti sér stað metfjölgun erlendra ríkisborgara sem koma hingað til lands til að búa hér. Á því tímabili fjölgaði þeim um alls 13.930, eða um tæp 46 prósent.
Ástæðan er sú að á Íslandi var mikill efnahagsuppgangur og mikill fjöldi starfa var að fá samhliða þeim uppgangi, sérstaklega í þjónustustörfum tengdum ferðaþjónustu og í byggingaiðnaði. Nú þegar hagkerfið er farið að kólna og spenna að losna þá fækkar erlendum ríkisborgurum sem sækja hingað til lands samhliða.
Þetta er hægt að lesa út úr tölum frá Hagstofu Íslands og Þjóðskrá Íslands.
Nær allir nýir skattgreiðendur útlendingar
Fjöldi erlendra ríkisborgara sem flutt hafa hingað til lands í þeirri efnahagsuppsveiflu sem verið hefur á undanförnum árum hefur gjörbreytt mörgu hérlendis. Í ítarlegri grein eftir Pál Kolbeins rekstrarhagfræðing í síðasta tölublaði Tíundar, fréttablaði ríkisskattstjóra þar sem hann greinir álagningu einstaklinga vegna tekna ársins 2017, kom meðal annars fram að erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatta á Íslandi hafi fjölgað um 9.782 milli áranna 2016 og 2017, eða um 27,9 prósent. Á sama tíma fjölgaði þeim íslensku ríkisborgurum sem greiða skattahérlendis um 1.166 talsins.
Alls greiddu 44.850 erlendir ríkisborgarar skatta á Íslandi á árinu 2017 og voru þeir þá 15,1 prósent allra skattgreiðenda. Árið áður voru þeir 12,2 prósent þeirra einstaklinga sem skráðir voru í skattgrunnskrá.
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði því rúmlega 60 sinnum hraðar og átta sinnum meira en íslenskum á skrá. Erlendir ríkisborgarar voru um 89,3 prósent fjölgunar á skrá árið 2017.
Ástæðan þess að fleiri útlendingar greiða skatt hérlendis en þeir sem eru skráðir hér með búsetu samkvæmt Hagstofu Íslands eða Þjóðskrá Íslands er að hluti þeirra sem hingað koma á vegum starfsmannaleiga eru ekki skráðir með búsetu hérlendis.
Mikil breyting á skömmum tíma
Flestir þeirra erlendu ríkisborgara sem búa á Íslandi koma frá Póllandi. Í byrjun marsmánaðar voru þeir 19.466 talsins sem þýðir að 43 prósent allra erlendra ríkisborgara sem hér búa eru upprunalega frá Póllandi.
Í lok síðasta árs bjuggu langflestir erlendu ríkisborgararnir sem búa hérlendis í Reykjavík, eða 18.470 talsins. Á þeim tíma bjuggu því alls um 42 prósent þeirra í höfuðborginni, og tæp 62 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Frá byrjun árs 2015 hefur fjöldi erlendra ríkisborgara í Reykjavík aukist um 80 prósent.
Mest hefur aukningin hins vegar verið á Suðurnesjum, og þá sérstaklega í Reykjanesbæ. Sú aukning tengist beint auknum umsvifum vegna fjölgunar ferðamanna sem koma til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll. Í byrjun árs 2015 bjuggu þar 1.590 erlendir ríkisborgarar. Í upphafi þessa árs voru þeir orðnir 4.590 og fjöldi þeirra því næstum þrefaldast á örfáum árum. Erlendir ríkisborgarar voru 10,6 prósent íbúa í Reykjanesbæ í byrjun árs 2015 en 24,2 prósent þeirra í byrjun árs 2019.