Hvað?
„Ég mun ekki gera það. Ég hef ekki ástæðu til þess.“ Þetta sagði Sigríður Á. Andersen, þá dómsmálaráðherra,Í hádegisfréttum RÚV þriðjudaginn 12. mars 2019 þegar hún var spurð hvort hún myndi segja af sér vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu sem birtur hafði verið um morguninn.
Rúmum sólarhring síðar, klukkan 13:49 síðdegis miðvikudag 13. mars, var boðað til blaðamannafundar í dómsmálaráðuneyti sem skyldi hefjast 41 mínútu síðar. Á þeim fundi lýsti Sigríður afstöðu sinni til Landsréttarmálsins í löngu máli, sagði að niðurstaðan hefði komið henni „verulega á óvart“ og að hún ætlaði að stíga til hliðar sem ráðherra á meðan að verið væri að fjalla meira um Landsréttarmálið og vinna úr þeirri stöðu sem upp var komin. Hún hefði skynjað að hennar persóna kynni að hafa truflandi áhrif á frekari meðferð málsins.
Það er hins vegar ekki hægt að stíga til hliðar tímabundið sem ráðherra. Stjórnskipun landsins gerir einfaldlega ekki ráð fyrir því. Sigríður var að segja af sér embætti.
Af hverju?
Dómur Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu fól í sér áfellisdóm fyrir bæði Sigríði og Alþingi fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017. Gagnvart Sigríði fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig.
Niðurstaðan var skýr. Í dómnum var fallist á það dómararnir fjórir sem bætt var á listann væru ólöglega skipaðir og gætu þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, þar sem ólöglega skipaðir dómarar gætu ekki tryggt réttláta málsmeðferð. Ferlið sem beitt var við skipun dómaranna við Landsrétt hafi orðið „til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“
Hver var niðurstaðan?
Kjarninn greindi frá því 13. mars að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði lagt línurnar um að Sigríður þyrfti að segja af sér. Hún kom sjónarmiðum sínum, um að dómsmálaráðherra yrði að axla ábyrgð á þeirri óvissu sem upp væri komin í dómskerfinu eftir dóminn skýrt á framfæri við formenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á fundi formannanna að morgni 13. mars.
Eftir sem áður var ekki endanlega ljóst, að Sigríður Á. Andersen myndi segja af sér, fyrr en hún gerði það sjálf á blaðamannafundi í dómsmálaráðuneytinu, sem hófst klukkan 14:30 þann sama dag.
Á þeim tímapunkti - það er þegar blaðamannafundurinn fór fram - kom til greina að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu ef Sigríður myndi ekki segja af sér og axla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp væri komin í starfi Landsréttar, eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók tímabundið við sem dómsmálaráðherra en sinnir áfram fyrri ráðherrastörfum líka. Búist er við því að nýjum ráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins verði bætt við ríkisstjórnina á næstu vikum.
Þann 9. apríl síðastliðinn ákvað íslenska ríkið að óska eftir endurskoðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu á dómnum sem féll 12. mars. Líklegt er að niðurstaða um það hvort yfirdeildin taki dóminn til endurskoðunar fáist innan fárra mánaða.
Í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sagði forsætisráðherra að ekki væri hafið yfir allan vafa hvort að niðurstaða Mannréttindadómstólsins ætti bara við um þá fjóra dómara sem voru skipaðir ólöglega af þáverandi dómsmálaráðherra, eða alla dómara við réttinn. Það þyrfti meiri skýrleika í niðurstöðuna.