Árið 1930 lögðu bandarísku þingmennirnir Reed Smoot og Willis C. Hawley fram frumvarp sem átti að vernda innlenda framleiðslu gegn samkeppni erlendis frá, í ljósi Kreppunnar miklu sem þá herjaði á heiminn. Bandaríkjaþing samþykkti frumvarpið, en í því fólst stórhækkun innflutningstolla á yfir 20 þúsund erlendar vörur.
Í fyrstu virtust tollarnir hafa tilætluð áhrif, þar sem innlend framleiðsla jókst og laun hækkuðu tímabundið. Hins vegar breyttist efnahagsástandið fljótlega til hins verra þegar önnur ríki komu á fót verndartollum á bandarískum útflutningi og leiddi til þess að bæði inn-og útflutningur frá Bandaríkjunum helminguðust og fátækt jókst.
Í dag eru Smoot-Hawley tollarnir svokölluðu skólabókardæmi um neikvæð áhrif einangrunarhyggju í efnahagsmálum, en flestir hagfræðingar telja þá hafa leitt til þess að Kreppan mikla hafi orðið dýpri og lengri en fyrst var talið (1).
Viðvörunarbjöllur víða um heim
Nú, tæpri öld eftir frumvarp Smoot og Hawley og rúmum 7 áratugum af alþjóðavæðingu seinnistríðsáranna, hefur einangrunarhyggjan aftur sótt í sig veðrið í Bandaríkjunum á síðustu misserum. Áherslur Donald Trumps forseta Bandaríkjanna á að vernda innlenda framleiðslu hafa leitt til viðskiptastríðs milli Bandaríkjanna og Kína auk tollahækkana á vörur frá Indlandi, Rússlandi, Evrópusamabandinu, Mexíkó og Kanada. Ásamt því hefur Trump hótað frekari tollalagningu á evrópskar og mexíkóskar vörur, fari löndin ekki eftir settum skilyrðum Bandaríkjanna. Áðurnefnd ríki hafa öll svarað í sömu mynt á síðastliðnum tólf mánuðum og hækkað tolla á bandarískar vörur.
Á meðan Bandaríkin halda sinni einangrunarstefnu til streitu er búist við enn frekari viðskiptahindrunum á Vesturlöndum þegar Bretar segja sig úr Evrópusambandinu. Líkur á útgöngu Breta án samnings hafa farið vaxandi, en með því myndu viðskiptakjör ráðast af reglum frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og tollar hækka umtalsvert á inn-og útflutningi frá Evrópulöndum.
Raftæki, matur og málmar
Fjöldi framleiðsluvara sem hafa orðið fyrir barðinu á nýjum verndartollum nemur þúsundum og inniheldur allt frá hrávörum til fullbúna neysluvara. Frá því í mars í fyrra hefur Bandaríkjastjórn nú fjórum sinnum staðið að tollahækkunum á kínverskum vörum, helst á raftækjum, húsgögnum og bílahlutum, en einnig á efnavörum og innfluttu grænmeti. Kínverjar hafa svarað með tollum á bandarískum bílum og flugvélum, auk ýmissa landbúnaðarvara. Þar að auki hafa Bandaríkin kynnt almenna tolla á innfluttar þvottavélar, sólarrafhlöður, ál og stál, sem Evrópusambandið, Kanada og Mexíkó hafa svarað með tollum á áðurnefnda málma auk ýmissa matvæla og Harley-Davidson mótorhjóla frá Bandaríkjunum.
Sömuleiðis má vænta hærri tolla á innflutning frá Evrópusambandinu til Bretlands ef útgöngusamningur Breta úr sambandinu liggur ekki fyrir í haust. Samkvæmt BBC myndu tollar á landbúnaðarvörur og bíla hækka umtalsvert, en hagsmunasamtök beggja atvinnugreina þar í landi hafa varað við þeirri þróun.
Alþjóðavæðingunni ógnað
Afleiðingar einangrunarhyggjunnar eru nú þegar sjáanlegar, en heimshagkerfið hefur hlotið töluverðan skaða af auknum tollum á undanförnum mánuðum. Samkvæmt nýjustu efnahagsspá OECD hefur vaxandi spenna í alþjóðaviðskiptum dregið úr heildareftirspurn og fjárfestingu og er ein af meginástæðum þess að hagvöxtur muni mælast töluvert undir væntingum í ár. Mynd 1 sýnir þá þróun, en samkvæmt henni hefur vöxtur í viðskiptum milli landa minnkað hratt á síðustu þremur ársfjórðungum og var nánast enginn í vor.
OECD bætir við í spá sinni að umræddar viðskiptahindranir gætu haft alvarleg áhrif á hagvöxt næstu ára, semji löndin ekki um niðurfellingu tolla. Viðskiptastríð Bandaríkjanna við Kína gæti dregið töluvert úr heimshagvexti á næstu þremur árum, auk þess sem alþjóðavæðingu síðustu áratuga sé ógnað með frekari tollum, samkvæmt samtökunum.
Greiningardeild Bloomberg tekur undir þessar áhyggjur og metur það svo að heil 2,3 prósent af heimsframleiðslu séu í hættu vegna einangrunarstefnu Bandaríkjanna og útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Afleidd áhrif töluverð
Þessi áhrif eru víðtæk og ná lengur en til einungis þeirra landa sem ákveða að hækka tolla á innflutningsvörum. Í alþjóðavæddum heimi ganga sömu vörur oft kaupum og sölum milli nokkurra landa og því geta afleidd áhrif af lagningu innflutningstolla verið töluverð. Mynd 2 sýnir verðmæti útflutnings í nokkrum ríkjum sem er í hættu vegna yfirvofandi tollastríðs Bandaríkjanna og Kína. Á henni sést hvernig vörur sem framleiddar eru í Kína og seldar í Bandaríkjunum eru háð viðskipti við ýmis Asíuríki, en áhrif bandarískra tolla á þessar vörur ná einnig til Tævan, Suður-Kóreu, Malasíu og Singapúr.
Álið í hættu
Einnig er hætta á að innflutningstollar til Bandaríkjanna og Kína, sem eru með stærstu viðskiptasvæðum heimsins, dragi niður heimsmarkaðsverð á ýmsum vörum vegna minni heildareftirspurnar. Álframleiðslufyrirtæki eru sérstaklega viðkvæm gagnvart þessum áhrifum, en Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið hafa öll hækkað tolla sína á innfluttu áli töluvert, auk þess sem aðrir tollar á neysluvörur úr áli hafa einnig hækkað.
Samhliða hækkun tolla hefur heimsmarkaðsverð á áli einnig lækkað um rúm 20 prósent á síðustu tólf mánuðum. Framkvæmdastjóri Alcoa, Roy Harvey, hélt því fram að tollastríðið drægi álverðið niður og hafði áhyggjur af áliðnaðinum á heimsvísu, verði tollarnir ekki lækkaðir.
Hagvöxtur hefði stóraukist
Þessi þróun hefur neikvæð áhrif á íslenskan álútflutning, sem nemur jafnan 5 til 6 prósentum af heildarútflutningi landsins. Mynd 3 sýnir hvernig verðmæti álútflutnings hefði þróast ef heimsmarkaðsverð á áli hefði haldist óbreytt frá því í júní í fyrra. Munurinn er töluverður, en undir óbreyttu verðlagi hefði ál verið nær helmingi verðmætara á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til að undirstrika hversu stóran þátt álverðið á í íslenskum efnahag má benda á að hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði nær þrefaldast, úr 1,7 prósentum í 4,5 prósent, ef enn væri hægt að selja ál á sama verði og síðasta sumar.
Vandamál fangans
Einangrunarhyggja í efnahagsmálum er þess eðlis að hún smitar út frá sér. Þótt velferð flestra ríkja myndi aukast ef engra hindrana á alþjóðaviðskiptum nyti við eru innflutningstollar oft gagnlegir, annað hvort sem tæki til að ná sértækum pólitískum markmiðum eða sem vogarafl gegn tollum erlendis frá. Vegna þessa eru tollar á vörur sem ganga kaupum og sölum milli landa gjarnan hærri en æskilegt er og sveiflast eftir viðskiptastefnu annarra ríkja.
Í leikjafræði er þetta samband kallað vandamál fangans (e. Prisoners‘ Dilemma) og leiðir til óhagkvæmrar niðurstöðu fyrir öll lönd vegna þess vantrausts sem ríkir á milli þeirra (2). Þegar Bandaríkin ákváðu að hækka tolla á hinar ýmsu innflutningsvörur var það hinum löndunum í hag að hækka tolla á sinn innflutning líka. Þannig draga tollastríð verulega úr alþjóðaviðskiptum, sem leiðir til þess að allir tapa.
Hærra atvinnuleysi og meiri ójöfnuður
Afleiðingar tollastríðsins gætu þó náð lengra en aðeins til veikari hagvaxtar. Tollar veita ákveðnum framleiðslugreinum skjól undan alþjóðlega samkeppni og gera þeim kleift að hagnast á því, á kostnað neytenda (3). Þannig leiðir álagning innflutningstolla til stöðugrar aukningar í ójöfnuði í ríkum löndum. Til viðbótar, þar sem tollar draga úr heildareftirspurn, gætu fyrirtæki þurft að draga úr framleiðslu sinni og segja því upp hluta starfsmanna sinna, sem leiðir til aukins atvinnuleysis (4).
Í þessu samhengi skiptir þó máli hversu lengi tollastríðið endist. Atvinnuleysi og ójöfnuður eru breytur sem taka tiltölulega hægum breytingum og því mun áhrif innflutningstolla á þær ekki koma í ljós nema að viðskiptahindranirnar haldist í nokkur ár.
Hættuleg almenningi
Verndartollar hljóma oft vel í eyrum stjórnmálamanna þegar innlend framleiðsla er í hættu. Sagan sýnir þó hversu hættulegir þeir geta orðið almenningi ef þeim er haldið til streitu í langan tíma. Nú þegar hefur einangrunarhyggja Bandaríkjanna smitað út frá sér til fjölda landa og meðal annars dregið úr hagvexti á Íslandi, en búist er við meiri tollum ef Bretland segir sig úr Evrópusambandinu án samnings. Langtímaáhrif einangrunarhyggjunnar eru þó mun verri en skammtímaáhrifin og því er mikilvægt að núverandi innflutningstollar lækki fljótt áður en þeir auka ójöfnuð og atvinnuleysi. Afleiðingar Smoot-Hawley tollanna ætti að vera öllum einangrunarsinnum víti til varnaðar í þeim efnum.
Heimildir:
1. Where Is There Consensus Among American Economic Historians? The Results of a Survey on Forty Propositions. Whaples, R. 1, 1995, The Journal of Economic History, 55(1), Vol. 55, pp. 139-154.
2. The Prisoners' Dilemma Posed by Free Trade Agreements: Can Open Access Provisions Provide an Escape? Lewis, M.K. 2, Chicago : Chicago Journal of International Law, 2011, Vol. 11.
3. Does Tariff Liberalization Increase Wage Inequality? Some Empirical Evidence. Milanovic, B. and Squire, L. Cambridge, MA : National Bureau of Economic Research Working Paper, 2005, Vol. 11046.
4. Macroeconomic Consequences of Tariffs. Furceri, D., et al. Cambridge, MA : National Bureau of Economic Research Working Paper, 2018, Vol. 25402.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, 14. júní síðastliðinn. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Höfundur er hagfræðingur.