Mynd: EPA

Samkvæmisdans Trump og Kim nær nýjum hæðum

Óvænt heimsókn Bandaríkjaforseta til Norður-Kóreu er annaðhvort hyllt sem sögulegt afrek eða fordæmd sem lélegt leikhús fyrir ljósmyndara.

„Trump forseti gekk yfir aðgreiningarlínuna rétt í þessu. Hann er þar með fyrsti forseti Bandaríkjanna til að heimsækja land okkar [...] ég trúi, bara með því að horfa á gjörðir hans, að þetta sé tjáning vilja hans að eyða allri óheppilegri fortíð og opna á nýja framtíð.“

„Ég vil bara segja að þetta er minn heiður. Ég bjóst eiginlega ekki við þessu. Við vorum í Japan fyrir G20 fundinn, við komum yfir og ég sagði „Hey, ég er hérna, mig langar að hringja í Kim formann“ og við gátum hist og að stíga yfir þessa línu var mikill heiður. Miklar framfarir hafa átt sér stað, mikill vinskapur hefur myndast og þetta hefur verið sérstaklega frábær vinskapur. Þannig að mig langar að þakka þér, þetta var stuttur fyrirvari og ég vill þakka þér.“

Slík voru orð Kim Jong-Un, forseta Norður-Kóreu, og Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, á sögulegum fundi þeirra á sunnudaginn síðastliðinn. Trump steig yfir línuna sem aðgreinir einskismannslandið á milli Norður-Kóreu og Suður-Kóreu og varð hann þar með fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til að stíga fæti á Norður-kóreska grundu.

Auglýsing

Áður hafa Jimmy Carter og Bill Clinton heimsótt Norður-Kóreu, en það var eftir að kjörtímabili þeirra sem forsetar Bandaríkjanna lauk. Obama, George W. Bush og Reagan heimsóttu aðgreiningarlínuna en stigu ekki yfir landamærin til Norður-Kóreu, samkvæmt umfjöllun The New York Times.

Boðskort á Twitter - Eigum við að hittast(?)!

Líkt og Trump benti á var aðdragandinn að heimsókninni afar stuttur. Föstudaginn síðastliðinn birti Trump færslu á Twitter síðu sinni þar sem hann sagðist vera í Suður Kóreu. Hann skrifaði að ef Kim sæi færsluna hans, hvort þeir ættu að hittast á landamærum Norður- og Suður-Kóreu, heilsast og segja halló. Því má segja að boðskortið, ef kalla má það slíkt, hafi borist á Twitter.

Kim varð augljóslega við beiðninni og var mikið fjölmiðlafár á fundinum sjálfum. Nýr fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Stephanie Grisham, lenti í stimpingum með norður-kóreskum öryggisvörðum þegar hún reyndi að hleypa inn bandarísku fjölmiðlafólki á fjölmiðlafund forsetanna tveggja. Grisham, sem tók við starfinu fyrir einungis nokkrum dögum, var marin eftir ryskingarnar.

Starfsfólk Trump var óundirbúið undir heimsóknina, að því er kemur fram í umfjöllun The New York Times. Þurfti það að hafa sig allt við að hafa öryggis- og skipulagsmál á hreinu á einungis örfáum dögum sem vanalega tekur vikur.

Þrátt fyrir gagnrýni að einungis hafi verið um leikrit að ræða virðist eitthvað hafa komið úr samræðum heljarmannanna tveggja. Ákveðið var að viðræður á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um afvopnun kjarnorkuvopna hins síðarnefnda muni halda áfram.  Margir sérfræðingar telja það þó ólíklegt að Norður-Kórea eyði öllum sínum kjarnorkuvopnum líkt og Trump hefur krafist.


Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, steig yfir línuna sem aðgreinir einskismannslandið á milli Norður-Kóreu og Suður-Kóreu og varð hann þar með fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til að stíga fæti á Norður-kóreska grundu.
EPA

Pennavinirnir Kim og Trump

Trump og Kim hafa á síðustu vikum skipst á bréfum og kallaði Kim eitt þeirra „frábært.“ Hann hrósaði enn fremur Trump fyrir mikið hugrekki. Trump kallaði bréf sem hann fékk frá Kim „fallegt“ ásamt því sem hann fékk afmæliskort frá Kim 14. júní síðastliðinn.
Xi Jinping, forseti Kína, sótti Norður-Kóreu heim vikuna áður. Xi eyddi tveimur dögum í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, og er það fyrsta heimsókn kínversks leiðtoga til landsins í 14 ár. Mikill skrúður var við heimsókn Xi þar sem flutt var tónlist og dansað var fyrir Xi og aðra 110 þúsund gesti á stórum leikvelli í Pyongyang

Auglýsing

Trump hefur vegið hart að bæði Xi og Kim frá því að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Til að mynda eiga Kína og Bandaríkinn enn í viðskiptaerjum og hótar Trump reglulega að hækka tolla á kínverskar vörur. Eftir fundi Bandaríkjanna og Kína á hann það þó til að segja að allt hafi gengið framar hans óskum og að von sé á að samskiptin þiðni.

Hvað næst?

Enn hefur enginn fréttaflutningur af fundi Trump og Kim átt sér stað í Norður-kóreskum fréttamiðlum. Sumir sérfræðingar telja að í raun hafi fundurinn ekki haft neina þýðingu á meðan aðrir benda á að fundurinn tákni að hægt sé að semja að nýju, samkvæmt fréttaflutningi BBC.

Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar