Mynd: EPA

Bandaríkin gætu reynst Íslandi erfið innan Norðurskautsráðsins vegna loftslagsmála

Bandaríkin neituðu að skrifa undir viljayfirlýsingu ráðsins vegna klausu um loftslagsbreytingar. Loftslagsmál eru hins vegar hornsteinn stefnu Íslands í nýju formennskusæti innan ráðsins.

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er hornsteinn formennskuáætlunar Íslands í Norðurskautsráðinu. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna neitaði að skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu ráðsins í maí síðastliðnum vegna þess að þar var minnst var á loftslagsbreytingar. Því er ljóst að Bandaríkin gætu reynst Íslandi fjötur um fót þegar kemur að stefnu Íslands á norðurslóðum.

Ísland tók við formennsku til tveggja ára í Norðurskautsráðinu 7. maí síðastliðinn þegar Ísland tók við af Finnlandi og verður við formennsku næstu tvö árin. Í kynningarræðu sinni á formennskuáherslum Íslands sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, málefni norðurslóða vera forgangsatriði utanríkisstefnu Íslands.

Norðurskautsráðið skipa átta aðildarríki, það eru Norðurlöndin fimm, Bandaríkin, Rússland og Kanada, auk sex samtaka frumbyggja á norðurslóðum. Enn fremur eiga þrettán ríki áheyrnaraðild að ráðinu auk fjölmargra samtaka og stofnana. 

Hvað ætlar Ísland að gera?

Ljóst er að hlutverk norðurslóða í lífi Íslendinga mun stækka á næstu árum. Það er einna helst vegna vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hopunar íss. Hopun íss auðveldar skipaflutninga um norðurslóðir sem gæti stytt flutningstíma vara frá Asíu til Evrópu til muna. Kínversk fyrirtæki eru til að mynda farnir að huga að frekari siglingum um norðurslóðir.

Áherslumál Íslands í formennskusæti eru þrjú: loftslagsmál og grænar orkulausnir, málefni hafsins og að lokum fólkið og samfélög á norðurslóðum. Enn fremur verður sérstaklega unnið að því að styrkja Norðurskautsráðið.

Í formennskuáætlun Íslands segir að Ísland muni leggja áherslu á greiningu og vöktun á breytingunum, enda valdi hlýnun „nú þegar áþreifanlegum og víxlverkandi breytingum á náttúrufari. Nefna má hopun íss og snævar, innstreymi ferskvatns til Norður-Íshafsins og súrnun sjávar” sem hafi bæði áhrif á samfélög og efnahagslíf á svæðinu. Enn fremur sé mikilvægt að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Hvað varðar málefni hafsins ætla íslensk stjórnvöld að efna til alþjóðlegrar vísindaráðstefnu í Reykjavík vorið 2020. Meginefnið verður eðli og útbreiðsla plastmengunar í sjó, áhrif á lífríkið og mögulegar lausnir. 

Áherslumál Íslands í formennskusæti eru þrjú: loftslagsmál og grænar orkulausnir, málefni hafsins og að lokum fólkið og samfélög á norðurslóðum. Enn fremur verður sérstaklega unnið að því að styrkja Norðurskautsráðið.
Mynd: Bára Huld Beck

Í áætluninni segir varðandi fólkið á norðurslóðum að umhverfisbreytingar orki „með margvíslegum hætti á samfélög og lífsafkomu þeirra. Styrkja verður viðnámsþol viðkvæmra byggða í norðri en samfélög frumbyggja eru að ýmsu leyti berskjaldaðri en önnur fyrir þessum breytingum.“

Því er hægt að segja að öll áherslumálum formennskuáætlunar Íslands í Norðurskautsráðinu við komi loftslagsmálum.

Hvernig munu íslensk stjórnvöld tækla Bandaríkin?

Vaninn innan Norðurskautsráðsins er að gefa út sameiginlega formlega yfirlýsingu allra meðlimaríkja ráðsins við lok formennsku ríkis. Við lok formennsku Finna í Norðurskautsráðinu í maí síðastliðnum var hins vegar staðan önnur því ekki var skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu. Í staðinn var gefin út yfirlýsing formannsins og ráðherrayfirlýsing. Aldrei hefur það gerst áður að ekki hafi náðst samkomulag um ályktun af þessu tagi.

Ástæðan var sú að Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, neitaði að skrifa undir yfirlýsingu sem nefndi loftslagsbreytingar. 

Í viðtali við Morgunblaðið sagði Guðlaugur Þór að ekki væri hægt að taka við Norðurskautsráðinu á meiri krefjandi tíma heldur en núna. Þegar hann var spurður út í yfirlýsinguna sem ekki var gefin út sagði hann að niðurstaðan væri sú „að fara þessa leið að vera með sam­eig­in­lega ráðherra­yf­ir­lýs­ingu, sömu­leiðis var yf­ir­lýs­ing frá for­manni og við höf­um fengið mjög góð viðbrögð við okk­ar áhersl­um. Þannig að þetta er gott vega­nesti fyr­ir okk­ur næstu árin.“

Ekki ástæða að gera of mikið úr ágreiningi

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að innan Norðurskautsráðsins sé sneitt hjá þeim málefnum sem vitað er að aðildarríkin deila um og fiskveiðar og hernaðaröryggi tekin sem dæmi. Alþjóðlegt samstarf um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda færi ekki fram á vettvangi ráðsins, að því er segir í svarinu. Fremur miði starf ráðsins sem tengist loftslagsbreytingum að vakta breytingar á svæðinu og miðla upplýsingum.

Ekki er því ástæða til að gera of mikið úr ágreiningi þar enda eru aðildarríkin átta og frumbyggjasamtökin í grunninn sammála um að stuðla að sjálfbærri þróun á norðurslóðum og hagsæld íbúanna sem þar búa

Varðandi Bandaríkin segir í svarinu að „allar ákvarðanir Norðurskautsráðsins eru teknar með samhljóða samþykki og þegar átta ríki eiga í hlut blasir við að gera þarf málamiðlanir til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Á ráðherrafundinum í Rovaniemi í Finnlandi 6.-7. maí sl. undirrituðu allir utanríkisráðherrar Norðurskautsráðsins sameiginlega yfirlýsingu og samþykktu verkefnaáætlanir sem m.a. gera Íslandi kleift að framkvæmda formennskuáætlun Íslands. Afstaða Bandaríkjamanna í loftslagsmálum sem fram kom á fundinum í Rovaniemi breytir engu þar um. Ekki er því ástæða til að gera of mikið úr ágreiningi þar enda eru aðildarríkin átta og frumbyggjasamtökin í grunninn sammála um að stuðla að sjálfbærri þróun á norðurslóðum og hagsæld íbúanna sem þar búa.“

Í svari utanríkisráðuneytisins segir enn fremur að enn sé of snemmt að segja til um hvort og þá hvaða málamiðlanir verði gerðar við lok formennsku Íslands. Enn fremur sé Ísland sannarlega ekki að sneiða hjá umræðu um loftslagsbreytingar á þessum vettvangi. 

Andstaða gegn umræðu um loftslagsmál ekkert nýtt

Andstæða stjórnar Trump við nokkru sem við kemur loftslagsbreytingum er ekki nýtt af nálinni. Trump dró Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum og hefur Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna lagt bann við að minnast á loftslagsbreytingar í opinberum skjölum.

Í öllu falli er ljóst er að samskipti Bandaríkjanna og Íslands eru enn sterk. Til að mynda kom utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, í óvænta heimsókn til Íslands í febrúar síðastliðnum. Ræddi hann við Guðlaug Þór um norðurslóðir, öryggi, varnir og viðskipti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar