Mynd: Landsvirkjun

Umdeild græn skírteini skila 850 milljónum í hagnað á ári

Upprunaábyrgð raforku, eða svokölluð græn skírteini, hefur verið hampað sem ein af lykilstoðunum í baráttunni við loftslagsbreytingar og lastað sem aflátsbréf í loftslagsmálum.

Græn skírteini, eða upprunaábyrgð raforku, eru afar umdeild. Þeim hefur ýmist verið hampað sem eitt af lykilatriðunum í baráttunni við loftslagsbreytingar eða gagnrýnd fyrir að vera eins konar aflátsbréf í loftslagsmálum. Gagnrýnendur telja að skírteinin geti skaðað ímynd Íslands erlendis þar sem á bókhaldi raforkureikninga komi út eins og Ísland noti kjarnorku. 

Fylgjendur grænna skírteina telja þó að það sé aðeins um bókhald raforku að ræða, ekki raunverulega notkun, og að grænu skírteinin séu Íslandi jákvæð, auk þess sem þau hafi skilað um 850 milljónum í hagnað á ári.

Yfirlýstur tilgangur skírteinanna er að hvetja til framleiðslu grænnar orku. Fyrirtæki geta keypt græn skírteini til þess að sýna fram á að þau styðji við uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa. Þar með getur fyrirtæki í Evrópu, þar sem öll orka blandast saman inn á sama flutningsnetið, það er kolaorka, græn orka og kjarnorka, keypt grænu skírteinin til þess að styðja við umhverfisvænni orkuframleiðslu. Þar með verður fjárhagslegur hvati til að framleiða græna orku sem yfir lengri tíma muni fækka kola- og kjarnorkuverum og auka framleiðslu grænnar orku. 

Skírteinin umdeild á Íslandi

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Fjarðaáls sagði í viðtali við RÚV í júní sölu á grænu skírteinum frá landinu virka eins og aflátsbréf í loftslagsmálum. Hann sagði stimpilinn um græna orku vera seldan til annarra landa sem gæti seinkað úrbótum þar. 

„Það má segja að með þessu séu Íslendingar að selja erlendum fyrirtækjum aflátsbréf sem gerir þeim kleift að fresta sínum umbótum í loftslagsmálum. Þetta getur verið ímyndarmál fyrir Ísland og nokkuð sem ég myndi beina til stjórnvalda hvort að við getum verið stolt af því framlagi til loftslagsmála á heimsvísu,“ sagði Magnús jafnframt í viðtalinu.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, sagði í samtali við RÚV það vera misskilning að sala á upprunaábyrgðum virki eins og aflátsbréf heldur væri markmiðið með grænu skírteinunum að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu og það væri jafn mikilvægt á Íslandi og í öðrum löndum. 

Samkvæmt skýrslu um upprunaábyrgðir unna fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið af Hrafnhildi Bragadóttur og Birnu S. Hallsdóttur kaupa mörg fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar upprunaábyrgðir til að styðja við endurnýjanlega orkuframleiðslu. Tilgangurinn sé oft að bæta ímynd sína og sýna fram á umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð. Til að mynda hafi stórfyrirtækin IKEA, Lego og Google vottað sína framleiðslu. Í sumum Evrópuríkjum séu upprunaábyrgðir eina fullnægjandi staðfestingin á notkun endurnýjanlegrar orku. 

Sumir gagnrýnendur telja að með því að nota endurnýjanlega orku á Íslandi og kaupa græn skírteini sé líkt og að borga tvisvar fyrir græna orku. „Þetta er tvennt ólíkt, þau [fyrirtæki] kaupa rafmagn eins og aðrir. Þetta kerfi breytir því aldrei að íslenskt rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ef þú vilt fá það vottað og geta sannað það að þú kaupir endurnýjanlega orku þá gildir sama um grænu skírteinin og aðrar vottanir,“ segir Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku, í samtali við Kjarnann. „Ef þú séð ekki hag í því þá þarftu ekki að kaupa þetta,“ bætir hún við. 

Hreinleikinn söluvara

Á vef Samorku má nálgast upplýsingar um græn skírteini. Græn skírteini, eða kerfi upprunaábyrgða, gerir „kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku.“ Ísland sé jafnframt hluti af innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn og þar af leiðir hluti af kerfinu fyrrnefndra. Kerfinu er ætlað „að sporna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum í krafti aukins hvata til orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Upprunaábyrgðina geta raforkukaupendur í Evrópu jafnt sem á Íslandi keypt og fengið vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli. Þar sem nánast öll íslensk raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum geta íslenskir orkuframleiðendur selt grænu skírteinin.

Lovísa segir grænu skírteinin vera aþjóðlegt kerfi og krafan um vottun og uppruna sé að verða háværari. Neytendur séu sífellt að vera meðvitaðri um að umhverfismál og um að framleiðsla vara sé samfélagslega ábyrg. Hún bendir á að aðrar vottanir, til að mynda Svanurinn eða Fairtrade, krefjist einnig gjalds. 

Þetta er tekið upp til að gera þennan hreinleika að söluvöru

Lovísa bendir á að til að mynda séu ýmsar ívilnanir og skattlagning, langtímasamningar og fleira sem eigi að reyna að auka hlut endurnýjanlegrar orku í Evrópu. „Þetta er tekið upp til að gera þennan hreinleika að söluvöru,“ segir hún. Þar með umbuni kerfið framleiðendum sem framleiði með endurnýjanlegum hætti.   

Gífurlegar fjárhæðir við útgáfu grænna skírteina

Árið 2018 seldi Landsvirkjun græn skírteini fyrir 600 milljónir og nær upphæðin í tvo milljarða sé litið til síðastliðinna átta ára. Lovísa segir heildarupphæðina vera mun hærri. „Þetta eru 800 til 850 milljónir á ári og verðið er alltaf að hækka. Þetta getur hækkað umtalsvert og mun hækka umtalsvert,“ segir hún. „Græn skírteini skila miklum ávinningi í háum fjárhæðum og gjaldeyristekjum[...]Við fáum mikla fjármuni úr þessu og erum að gera vel.“

Ásókn í grænu skírteinin hefur aukist undanfarin ár og er nú nánast öll framleiðsla frá vottuðum virkjunum gefin út samkvæmt upplýsingum á vef Landsnets.

Heildarfjöldi útgefinna grænna skírteina eftir árum.
Mynd: Landsnet

„Stórfyrirtæki eins og Google, Ikea og Sony hafa skuldbundið sig til að nota einungis græna orku innan ákveðins tíma og það er ekki hægt að gera það nema með þessum hætti því þau hafa ekki aðgengi að grænni orku í sínu heimalandi,“ segir Lovísa. Með kerfinu aukist smám saman hluti endurnýjanlegrar orku í Evrópu og eru grænu skírteinin einn liður af mörgum. 

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, bendir á í samtali við Kjarnann að í fyrra hafi Landsvirkjun selt fyrir 600 milljónir úr landi. „Landsvirkjun seldi græn skírteini í fyrra fyrir 600 milljónir, Landsvirkjun er í eigu ríkisins, í eigu íslensku þjóðarinnar og  ber að hámarka arðsemi auðlindanna. Ísland á rétt á þessum greiðslum, svo mikið er víst, vegna þess að við höfum verið að virkja okkar auðlindir til þess að framleiða orku. Nú, meðal annars vegna þessa hvatakerfis sem er verið að innleiða um allan heim, ekki aðeins í Evrópu, er orkan okkar orðin en verðmætari en áður,“ segir Stefanía.

Mynd: Landsnet
Þá spyr maður sig hvort það sé ekki sjálfsagt að þegar Íslendingar eru búnir að beisla þessar orkuauðlindir, nýta þær, er ekki sjálfsagt að við fáum hærra verð fyrir það inn í okkar þjóðarbú? Af hverju ættum við að sleppa því?

„Þessi sala er að skila auknum tekjum til íslenskra orkufyrirtækja. Loksins erum við að fá auknar tekjur og aukalega greitt fyrir græna þáttinn í okkar endurnýjanlegu orkuvinnslu. Við erum ekki bara með samkeppnishæft raforkuverð heldur erum við með forskot þar sem öll okkar framleiðsla er frá endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir Stefanía.

„Þá spyr maður sig hvort það sé ekki sjálfsagt að þegar Íslendingar eru búnir að beisla þessar orkuauðlindir, nýta þær, er ekki sjálfsagt að við fáum hærra verð fyrir það inn í okkar þjóðarbú? Af hverju ættum við að sleppa því?“ spyr Stefanía.

Stórnotendur á Íslandi, til að mynda álverin, hafa hingað til ekki keypt græn skírteini af íslenskum orkusölum. „Þar sem stórnotendamarkaðurinn kaupir þetta ekki á Íslandi, þá geta orkufyrirtækin selt  16 teravattsstundir úr landi í grænum skírteinum,“ segir Stefanía

Þó geta stórnotendur á Íslandi keypt skírteinin og styrkt þar með framleiðslu grænnar orku ásamt því að geta vottað sína framleiðslu sem græna. „Stórnotendur á Íslandi hafa val um að kaupa græn skírteini en hafa ekki gert það,“ bætir Stefanía við.

Ekki hægt að velja hvernig orku maður fær þegar stungið er í samband

Stefanía segir orðið „upprunaábyrgð“ geta virkað ruglandi. „Grænu skírteinin eru kölluð upprunaábyrgðir sem ruglar fólk stundum en það er einfaldlega ekki hægt að vita uppruna raforku sem neytandi. Þegar við stingum í samband á Íslandi  þá vitum við ekki  hvort orkan sé upprunin úr vatnsafli eða jarðvarma, og ef þú stingur í samband í Danmörku, þá færðu kolaorku, kjarnorku, þú færð vatnsafl og vindorku, óháð upprunalandi“ því öll orkan blandast saman í dreifikerfinu. 

„Þetta er í rauninni eina leiðin sem hefur verið fundin þar sem hægt er að tengja saman grænar lausnir og raforkuframleiðenda og áhuga eða ávinning neytenda,“ segir hún.

Stefanía segir endurnýjanlega orkugjafa stjórnast af náttúrunni sem sé afar flókið. „Það er flókið vegna þess að stundum blæs vindurinn og stundum er logn, stundum eru lónin full, stundum ekki, stundum er sól og stundum er skýjað. Hvernig ætlarðu þá að vera alltaf með tiltæka orku?“ Evrópa hafi áður leyst það með því að kveikja upp í kolaverum þegar orku hafi vantað.

Mynd: Landsvirkjun

Íslensk fyrirtæki og heimili vannýta tækifærin

Bæði Stefanía og Lovísa benda á að íslensk fyrirtæki á smásölumarkaði og heimili fái græn skírteini með raforku sinni. „Heimili og fyrirtæki fá þetta endurgjaldslaust á Íslandi. Þau mættu nýta sér það að fá það endurgjaldslaust,“ bendir Lovísa á. 

„Hver einasti garðyrkjubóndi ætti að geta sett límmiða á tómatana sína „gert með 100 prósent grænni orku.“ Íslensk fyrirtæki hafi ekki verið að nýta þetta forskot sem græn skírtein á heildsölumarkaði gefa þeim. Kannski er það vegna þess að umræðan hefur verið svolítið skekkt í þjóðfélaginu um þetta,“ segir Stefanía.

Íslensk orka á reikningi í Belgíu

Í skýrslu Stjórnarráðsins um upprunaábyrgðir raforku í íslensku samhengi kemur fram að eftirliti og upplýsingagjöf um græn skírteini mætti skýra betur. Þar kemur fram að sala upprunaábyrgða úr landi geti skaðað ímynd Íslands og þá ímynd að orkuframleiðsla landsins sé hrein og endurnýjanleg. Það sé vegna þess að þegar upprunaábyrgðir vegna framleiðslu á endurnýjanlegri orku eru seldar frá Íslandi til Evrópu þurfi við framsetningu gagna vegna raforkusölu á Íslandi að taka inn í útreikninga hér á landi samsvarandi magn af raforku sem seld er í Evrópu. Er það gert til að koma í veg fyrir tvítalningu. Þar með verði kjarnorka og jarðefnaeldsneyti hluti af framsetningu á uppruna raforku á Íslandi.

Í skýrslunni er jafnframt bent á að birting upplýsinga af hálfu orkusala í samhengi við upprunaábyrgðir hafi oft verið tilefni til gagnrýni. Það sé vegna þess að upplýsingar birtast á raforkureikningi sem varða orkuframleiðslu í fjarlægum hlutum Evrópu. Til að mynda hafi íslensk orka birst á reikningi í Belgíu árið 2013 sem hafi vakið furðu margra þar í landi. 

Í skýrslunni segir enn fremur, til „skýringar hefur kerfi með upprunaábyrgðir verið líkt við bankakerfi og bent á að neytendur séu löngu orðnir vanir hugmyndinni um að geta tekið peninga út úr hraðbanka hvar sem er í Evrópu óháð því hvar peningarnir voru settir inn í kerfið. Hið sama ætti að gilda um upprunaábyrgðir. Ógerningur sé að rekja rafeindir í flutningskerfi raforku frá framleiðslustað þangað til þær berast neytendum. Því sé ekkert óeðlilegt við að upplýsingar um eiginleika orkunnar séu afhentar á grundvelli sérstakra samninga án þess að þær þurfi að fylgja rafeindunum sem þær tengdust upphaflega.“

Mynd: úr safni

Lovísa segist ekki kannast við að íslensk raforka sé flokkuð sem kjarnorka vegna þessa kerfis. „Okkur ber skylda til að birta yfirlit um hvernig raforka er framleidd í heild sinni í Evrópu, þess vegna kemur kjarnorka inn á íslenska yfirlitið vegna þess að raforka er framleidd með kjarnorku annars staðar í Evrópu,“ segir Lovísa. „Græn skírteini breyta engu um framleiðslu rafmagns á íslandi, þetta er bókhaldsleg samsetning orkunnar á íslandi.“

Lovísa bendir á að ef grænt skírteini sé selt til fyrirtækis í öðru landi sem noti raforku sem framleidd er með kolum þá þurfi að gefa út sameiginlegt bókhald um orkunotkun fyrir bæði löndin. Íslensk stjórnvöld þurfi að gefa bókhald út einu sinni á ári til að sýna  samsetningu þeirra landa sem taka þátt á hverju ári. Hún segir einnig að ef innlend stóriðja myndu kaupa íslensku skírteinin þá myndi kjarnorka ekki koma inn á reikninginn. 

Við getum við ekki valið úr hvað hentar okkur og ekki þegar kemur að alþjóðlegum loftslagsaðgerðum

„Þetta er alþjóðleg loftslagsaðgerð sem Ísland á að taka þátt í. Við eigum ekki að velja hverju við tökum þátt í þó þetta komi skringilega út í þessu bókhaldi. Ísland er einstakt, það er ekkert annað land sem framleiðir úr 100 prósent úr endurnýjanlegri raforku,“ segir hún. „Ef þau vilja segja það upphátt og auglýsa það þurfa þau að borga fyrir það[...]Við getum við ekki valið úr hvað hentar okkur og ekki þegar kemur að alþjóðlegum loftslagsaðgerðum,“ segir Lovísa. 

RE100 fyrirtækin. Þau ætla sér að kaupa græn skírteini fyrir 100 prósent eða meira af allri sinni orkunotkun í grænum skírteinum.
Mynd: Landsvirkjun

Hver segir að hér verði alltaf endurnýjanleg orka?

„Evrópusambandið hefur lagt áherslu á  að framleiðsla endurnýjanlegrar orku í Evrópu aukist með því að setja á fót hvatakerfi eins og græn skírteini, en einnig með gjaldtöku á orkuframleiðslu sem mengar,“ segir Stefanía. „Hver segir að hér verði alltaf bara endurnýjanleg orka? Af hverju er það endilega gefið? Er það ekki rétt að Ísland eigi líka að fá auknar tekjur fyrir sína grænu framleiðslu svo við getum alveg örugglega haldið henni áfram? Það hjálpar í alþjóðlegu samhengi líka,“ segir hún.

Stefanía bendir á að enn fremur sé ekki nóg að einungis kolefnisjafna íslenska framleiðslu. „Ef við ætlum að minnka losun þá er ekki nóg að kolefnisjafna bara á móti. Það er ekki hægt. Þú þarft að raunverulega minnka losun. Að minnka losun þýðir raunverulega að draga úr,“ segir Stefanía.

Hún bendir á að minnka úr losun sé stórt verkefni sem krefjist þess að losun minnki á mörgum vígstöðvum. „Ef við ætlum að minnka losun um að minnsta kosti 40 prósent miðað við 1990 þá verður sú minnkun að koma frá öllum fyrirtækjum, frá fiskiskipaflotanum, frá heimilunum, samgöngum og öllu því. Þó svo að álverin lækki sína losun breytir það ekki neinu um hvort að við náum Parísarsamkomulaginu, því þau eru í öðru kerfi.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar