Milljón múslimar í Kína sendir í „endurmenntunarbúðir“
Sameinuðu þjóðirnar telja að um milljón múslimar hafi verið látnir í endurmenntunarbúðir í Kína á síðustu árum. Talið er að þúsundir þeirra séu í búðunum hverju sinni og þeim sé haldið í þeim án nokkurs dóms og án þess að hafa framið nokkurn glæp.
Kínversk stjórnvöld hafa nú viðurkennt að búðir, sem þau kalla sjálfviljuga menntunar- og starfsþjálfunarkjarna, séu til. Áður höfðu stjórnvöld neitað fyrir tilvist þeirra. Búðirnar eru eingöngu fyrir múslima í Xinjiang (lesið Sinn Dsjang) héraði í Vestur-Kína og talið er að tugir slíkra búða séu til. Múslimum er haldið í búðunum án nokkurs dóms og án þess að hafa framið nokkurn glæp. Talið er að sumir þeirra séu teknir fyrir að læra arabísku eða lesa kóraninn, aðrir fyrir að hafa skegg eða fara í mosku til að biðja.
Í Xinjiang búa um tíu milljónir Úýgúr múslimar. Úýgúrar eru minnihlutahópur í Kína og búa að mestu leyti í Xinjiang héraði. Þrátt fyrir að í Kína búi um 1.4 milljarður manna og Xinjiang sé stærsta hérað Kína, þá búa einungis 24 milljónir í héraðinu, þar af tíu milljónir Úýgúr múslima. Héraðið er afar strjálbýlt og náttúran hrjóstug á svæðinu.
Xinjiang er við landamæri Kasakstan, Kirgistan, Tadsjikistan, Pakistan og Indlands. Xinjiang er gríðarlega stórt hérað, fimm sinnum stærra en Þýskaland, og hafa kínversk stjórnvöld eytt miklu í fjárfestingar til að byggja upp héraðið og hefur mikill fjöldi Han Kínverja flutt til héraðsins í kjölfarið. Tungumál Úýgúra er líkt þeim málum sem töluð eru í Kirgistan og Tadsjikistan og því afar ólíkt mandarín kínversku. Úýgúrar hafa einnig sterk menningarleg og söguleg tengsl við Mið-Asíu. Margir Úýgúrar vilja sjálfstæði frá Kína og stofna sjálfstæða ríkið Austur-Túrkistan eða Úýgúristan.
Úýgúrar og aðrir múslimar hafa sérstaklega verið færðir í búðirnar sem um ræðir, auk þess hafa stjórnvöld rutt niður fjölmörgum moskum.
Réttlætt með vísan í hryðjuverkaárásir
Talið er að þúsundir múslima séu nú í búðunum án nokkurs dóms og án þess að hafa framið nokkurn glæp. Kínversk stjórnvöld viðurkenna að búðirnar séu til en segja þær ekki vera búðir heldur skóla sem berjist gegn hryðjuverkum og trúarlegu ofstæki. Fólk sæki skólana sjálfviljugt til þess að leiðrétta hugsun sína. Í öllu falli eru búðirnar, eða skólarnir, þó einungis fyrir múslimska minnihlutahópa.
Árið 2013 réðust íslamskir ofstækismenn af Úýgúr uppruna á gangandi vegfarendur á Torgi hins himneska friðar í Beijing og létust tveir af sárum sínum. Árásin markaði tímamót í stefnu kínverskra stjórnvalda gagnvart Xinjiang héraði. Árið eftir réðust nokkrir Úýgúr múslimar á almenna borgara í borginni Kunming í Yunnan héraði og létust 31 fórnarlamb af sárum sínum. Auk þess hafa óeirðir brotist út í héraðinu þónokkrum sinnum síðustu ár og eru þessir atburðir notaðir til að réttlæta endurmenntunarbúðirnar.
Ströng öryggisgæsla er í borgum Xinjiang, fjölmargir lögregluþjónar og eru eftirlitsmyndavélar á hverju horni. Jafnframt hafa margir Úýgúrar sem flúið hafa frá Kína haldið því fram að raddir íbúanna hafi verið teknar upp af yfirvöldum og andlit þeirra skönnuð til þess að myndavélar geti greint hverjir segi hvað og við hverja þeir tali.
Milljón múslimum verið haldið í búðunum
Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út að áreiðanlegar heimildir séu fyrir því að kínversk stjórnvöld hafi haldið einni milljón Úýgúr múslima í „endurmenntunar-búðum.“ Kínversk stjórnvöld segja að Xinjiang sé ógnað af öfgafullum íslömskum sjálfstæðissinnum sem leggi á ráðin um hryðujuverkaárásir. Búðunum hafi í kjölfarið verið komið á í nafni baráttu gegn stjórnmálalegu ofstæki og að koma á félagslegum stöðugleika.
Blaðamenn BBC hafa rannsakað málið og borið saman gervihnattarljósmyndir af svæðinu.
Gervihnattamyndirnar sýna uppbyggingu búðanna víða um Xinjiang hérað. Búðirnar geta hýst allt frá nokkrum hundruð manns upp í þúsundir manna. Þær eru afgirtar með múr, sumar hafa einnig gaddavíra og jafnvel varðturna sem fylgjast með.
Fréttamenn BBC benda á að áður hafi kínversk stjórnvöld neitað að búðirnar væru til en núna væri fréttamönnunum veitt leyfi til að heimsækja ákveðnar búðir. Skilaboðin séu þau að um sé að ræða skóla en ekki fangelsi. Fréttamennirnir halda því þó fram að þeim hafi verið meinaður aðgangur að öðrum búðum og aðeins verið sýndar þær búðir sem kínversk stjórnvöld hafi viljað að þeir myndu sjá.
Ég hafði lélegan skilning á lögum [ríkisins]. Ég varð fyrir áhrifum ofstækis og hryðjuverka. Lögreglumaður í þorpinu mínu benti mér á að innrita mig í skólann og breyta hugsunarhætti mínum.
Í þeim búðum sem fréttamennirnir fengu aðgengi að voru „nemendurnir“ sýndir dansandi, lærandi og að spila tónlist. Einn nemandi var spurður af fréttamanni BBC hvort það væri hans val að stunda nám við skólann. Nemandinn, maður á þrítugsaldri, svaraði því játandi. „Ég hafði lélegan skilning á lögum [ríkisins]. Ég varð fyrir áhrifum ofstækis og hryðjuverka. Lögreglumaður í þorpinu mínu benti mér á að innrita mig í skólann og breyta hugsunarhætti mínum.“
Börn aðskilin frá foreldrum sínum
BBC hefur tekið fjölmörg viðtöl við fólk sem hefur verið í búðunum. Þau lýsa barsmíðum, ströngu eftirliti og aðskilnaði frá fjölskyldum sínum. Þau segja jafnframt að þeim hafi verið hótað að þau muni hljóta verra af tali þau við blaðamenn eða segi nokkuð neikvætt um búðirnar. Einnig tóku fréttamenn BBC viðtöl við foreldra hverra börn hafa verið tekin af þeim og þau vita ekki hvar eru niður komin.
The New York Times telur að um sjö þúsund börn séu í búðunum í borginni Kashgar einungis. Sendiherra Kína í Bretlandi svaraði ásökununum og sagði það vera rangt að börn í Xinjiang væru aðskilin frá foreldrum sínum.
Fréttamenn Vice grófu upp opinber kínversk gögn sem sýna að fjöldi „leikskóla“ í Hotan, borg í Xinjiang sem talið er að börnum þeirra fullorðnu sem eru í búðunum sé haldið, hefur margfaldast.
Viðurkenna tilvist búðanna
Kínverskir embættismenn segja að skólarnir séu í raun forvarnaraðgerð til að koma í veg fyrir að fólkið fremji glæpi. Búðirnar séu til þess að aðlaða ungt fólk aftur að samfélaginu og nemendurnir hljóti þar að auki starfsþjálfun, til að mynda að búa um rúm á hótelum og klippa hár.
Í grein Alþýðublaðsins, kínversks ríkisfjölmiðils, kemur fram að kínversk stjórnvöld verji rétt borgara þeirra til trúfrelsis. Þá var gagnrýni bandarískra stjórnmálamannanna varðandi búðirnar tekin fyrir og þeir sagðir lengi hafa breitt út óhróðri um Kína, jafnframt er því haldið fram að orð þeirra séu afskipti af innanríkismálum landsins. Í greininni kemur fram að í Xinjiang séu 24.800 staðir ætlaðir trúarlegum athöfnum, til að mynda moskur, kirkjur og hof. Þar á meðal séu 24.400 moskur sem sé „tvöfalt hærra hlutfall en í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi samanlagt. Það er ein moska á hverja 530 múslima.“
Kínversk stjórnvöld segja að „menntunar- og þjálfunarkjarnar Xinjiang“ séu viðleitni Kína til þess að verja mannréttindi borgara gegn ógnum og ofstæki. Frá því að „miðstöðvunum“ var komið á fyrir þremur árum hafi engin ofbeldisfull hryðjuverkaárás átt sér stað í Xinjiang.
Kínversk stjórnvöld njóta stuðnings Kambódíu, Norður-Kóreu og Mjanmar varðandi búðirnar. Þau ríki segja að búðirnar séu frábær blanda baráttu gegn hryðjuverkum og verndun mannréttinda og eigi stuðning og lof skilið. Jafnframt telji serbnesk, sómölsk og nepölsk stjórnvöld að rangt sé hjá vestrænum miðlum að kalla búðirnar „endurmenntunarbúðir.“
Alls segjast kínversk stjórnvöld hafa samþykkt 284 ráðleggingar, það er 82 prósent allra ráðlegginga Mannréttaráðs SÞ, í mars á þessu ári sem sé með því hærra sem gerist í heiminum. Hins vegar hafi Bandaríkin ákveðið að draga sig úr Mannréttindaráðinu og reki lestina hvað varði mannréttindi borgara sinna.
Kínversk stjórnvöld hafa gefið út hvítbók um Xinjiang hérað, að því er kemur fram í Alþýðublaðinu fyrrnefnda. Þar kemur fram að Xinjiang og íbúar þess séu órjúfanlegur hluti af Kína og að óvinvætt öfl innan og utan Kína, sérstaklega aðskilnaðarsinnar og trúarlegir ofstækismenn, sem vilji skipta Kína upp með því að afskræma söguna og staðreyndir.
Íslam er hvorki upprunaleg né eina trú Úýgúr fólksins. Íslam hefur fest rætur í kínverskri menningu og þróast verulega í Kína.
„Íslam er hvorki upprunaleg né eina trú Úýgúr fólksins. Íslam hefur fest rætur í kínverskri menningu og þróast verulega í Kína,“ segir enn fremur í frétt Alþýðublaðsins. Þá kemur fram að ólga í trúarlegu ofstæki víða um heim hafi valdið auknu trúarlegu ofstæki innan Xinjiang sem hafi aukið tilvik ofbeldis og ógnar.
Eftirlit hert í Xinjiang héraði
Eftirlit hefur verið hert jafnt og þétt í héraðinu síðustu ár. Nú er svo búið að eftirlitsmyndavélum sem geta borið kennsl á andlit einstaklinga hefur verið komið upp á götuhornum, að því kemur fram í frétt BBC. Í fréttinni er haldið fram að löng skegg séu bönnuð ásamt slæðum og refsingar séu við því að gefa börnum nöfn sem eru af trúarlegum toga.
Úýgúr múslimar þurfa að búa við ferðahömlur, bæði innan Xinjiang héraðs og utan. Fregnir hafa borist af því að yfirvöld hafi gert vegabréf einstaklinga af Úýgúr uppruna upptæk. Opinberum starfsmönnum sem einnig eru Úýgúr múslimar sé óleyfilegt að iðka trú sína, þeim sé bannað að fara í moskur og að fasta á meðan ramadan, föstumánuði, stendur.
Samkvæmt Mannréttindavaktinni (Human Rights Watch) er tækni til eftirlits notuð til að fylgjast grannt með almennum borgurum. Samtökin saka kínversk stjórnvöld til að mynda um að nýta sér snjallsímaforrit til þess að fylgjast með borgurum sínum í Xinjiang héraði.
Alþjóðasamfélagið fylgist með
Tuttugu og tvö ríki, Ísland þar á meðal, undirrituðu skriflega yfirlýsingu fyrr í mánuðinum um stöðu mannréttinda í Xinjiang og sendu til forseta mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindavaktin segir að yfirlýsing hinna tuttugu og tveggja ríkja sé fordæmislaus.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hafa gagnrýnt stefnu kínverskra stjórnvalda í Xinjiang. Pompeo hefur kallað aðstæður Úýgúr múslima í Xinjiang „smánarblett aldarinnar“ ásamt því að ásaka kínversk stjórnvöld um að vilja ráða yfir lífum og sálum kínversks almennings. Auk þess sagði hann að málefni Úýgúr fólksins væri „ein mesta mannréttindakrísa okkar tíma.“ Pence segir fólkið í búðunum þurfa að sitja undir sífelldum heilaþvætti.
Kínversk stjórnvöld segja SÞ velkomin til Xinjiang
Kínversk stjórnvöld segja Michelle Bachelet, mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna, velkomna í heimsókn til Xinjiang. Bachelet hefur löngum barist fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar fái að rannsaka aðstæður í Xinjiang og ásakanir um mannhvörf og gerræðislegt varðhald á borgurum.
Alls hafa 37 lönd, til að mynda Pakistan og Sádí Arabía, lýst yfir stuðningi við Kína og segja ásakanirnar vera óhróður.