Netógnir nýrrar aldar: Árásir á lýðræðið
Það er ekki lengur tekist á um það af neinni alvöru að netárásir eru notaðar til að hafa áhrif á hið lýðræðislega ferli og til að grafa undan lýðræðislegum stofnunum. Það hefur gerst í hverju landinu á eftir öðru. Þórlaug Ágústsdóttir vann nýverið meistaraverkefni um netárásir Rússa á vestrænt lýðræði og reifar hér atburði og afleiðingar þessara aðgerða í fyrstu grein af nokkrum um netógnir nýrrar aldar.
Árið 2016 mun í sögulegu samhengi marka vatnaskil í mannkynssögunni sem árið þegar Rússar hökkuðu lýðræðið og árið þegar netheimar urðu formlega til sem sérstakt hernaðarsvæði.
Netöryggi spilar mun meiri þátt í lífi okkar en flestir gera sér grein fyrir. Flestar netárásir eru ekki tilkynntar heldur tæklaðar af einkaaðilum í kyrrþey og komast einungis í fréttir þegar afleiðingarnar eru uppgötvaðar. Netógnir hafa verið hluti Internetsins frá upphafi en árið 2016 markar skil í sögu netheima sem árið þegar netátök breyttust úr skæruhernaði og skemmdarverkum yfir í markvissan nethernað og valdajafnvægi netheima breyttist til frambúðar.
Annars vegar áttu sér stað mikilvægar formbreytingar á nálgun Alþjóðasamfélagsins til netheima og hins vegar kerfisbundnar netárásir á lýðræðisríki þar sem veikleikar opins Internets voru nýttir gegn sköpurum sínum með afdrifaríkum afleiðingum.
Fyrstu formlegu merkin um breytingar í netheimum má telja í Ise-Shima yfirlýsingunni sem var samþykkt á reglubundnum fundi G7 í maí 2016 þar sem stærstu iðnríki heims, nú að Rússum undanskildum, samþykktu einstaka yfirlýsingu um frjálst, öruggt og opið Internet þar sem þau skuldbundu sig til að styðja fjölhaghafa-valddreifingu netheima (Multistakeholder módelið) og að virða einkalíf, gagnavarnir og netöryggi eigin borgara og annarra.
Mánuði síðar breytti NATO formlegri stefnu sinni um netheima í nokkrum mikilvægum skrefum. Á leiðtogafundi sambandsins í júní 2016 tilkynnti Jens Stoltenberg aðalritari sambandsins að netárásir á einstök ríki gætu orðið til þess að sambandsríkin virkjuðu fimmta ákvæði varnarsamningsins um sameiginlegar hernaðaraðgerðir sem andsvar við árás. Þessi yfirlýsing endurspeglar mikilvæga breytingu í hernaði heimsins og þeim hættum sem steðja að almennum borgurum og framtíð lýðræðisins. Það að netárásir geti komið af stað viðbrögðum utan netheima er ekki nytt, en það að netárásir leiði til beinna hernaðaraðgerða í raunheimum markar óneitanleg vatnaskil.
Á leiðtogafundi NATO 2016 var skipulagi varnarbandalagsins breytt þannig að Cyberspace – netheimar voru teknir inn sem sérstakt rými hernaðar til jafns við landhernað, lofthernað og sjóhernað. Þar með voru netheimar formlega viðurkenndir sem sérstakt svæði þar sem fólk býr, verst og grípur til vopna alveg eins og á landi lofti og sjó.
Þessar formlegu breytingar hjá stærsta varnarbandalagi jarðar voru viðbrögð við þá (og enn) yfirstandandi tækni- og áróðursstíði sem fór fram í netheimum tengt mikilvægum kosningum hjá tveimur stofnríkjum sambandsins: annarsvegar höfðu Bretar, eftir margra ára vafstur og vangaveltur, sæst á að halda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í júní um veru sambandsríkisins í Evrópusambandinu og í byrjun nóvember kusu Bandaríkjamenn sér nýjan forseta til að taka við af Barack Obama.
Báðar kosningarnar voru afskaplega tæpar, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og niðurstöðurnar eftir því; Bretar samþykktu naumlega að yfirgefa ESB með tæplega 52% atkvæða; Englendingar og Walesverjar vildu fara en Skotar og N-Írar vera áfram. Niðurstaðan á Brexit kosningunum fyrir Bretland varð pólitísk og efnahagsleg ringulreið sem enn sér ekki fyrir endann á. Í byrjun nóvember var Donald Trump svo kosinn forseti Bandaríkjanna með minnihluta greiddra atkvæða þar sem hann vann kosningarnar með 77 þúsund atkvæða mun í 3 fylkjum en vegna kjörmannakerfisins tapaði Hillary Clinton þrátt fyrir að hafa fengið yfir 3 milljónum fleiri atkvæði í heildina. Kjörmannakerfið umdeilda hefur nú kostað tvo Demókrata sigurinn; Donald Trump árið 2016 og George Bush yngri sem sigraði Al Gore árið 2000 með minnihluta kjósenda á bak við sig en Hillary Clinton sagði sjálf í viðtali nokkrum dögum eftir kosningarnar að tölvuhakk og lekar hafi kostað sig sigurinn.
Heill her sérfræðinga hefur reynt að útskýra af hverju þessar fyrir fram ólíklegu niðurstöður urðu reyndin og vísað í óánægju kjósenda með eigin hag, andstöðu við alþjóðavæðingu og fjölgun innflytjenda en þar til nýlega, eftir tilkomu Mueller skýrslunnar, hafa fáir viljað ræða alvarlega sönnunargögnin sem benda skýrt á áhrif rússneskrar hakk- og netáróðurs-maskínu í útkomu beggja kosninga og áratugalöng en misjöfn afskipti Rússa af kosningum í öðrum löndum.
Væringar á samfélagsmiðlum
Veturinn 2015 til 16 urðu margir netverjar varir við undarlega og frekar pirrandi hluti í netheimum sem virtust varla nógu merkilegir til að gera veður yfir þeim. Spjallsvæði í netheimum hafa frá upphafi verið plöguð af einstaklingum sem ekki geta fylgt eðlilegum samskiptareglum en þennan vetur tók steininn úr í fjölda trölla sem hleyptu upp umræðunni og (ró)botta sem dreifðu efni á samfélagsmiðlum sem við nánari skoðun reyndist haugalygi.
Margir talsmenn frjálsra netheima héldu því fram að hér væri ekkert nýtt á ferð og engin ástæða væri til að hafa áhyggjur. Þeir héldu því fram að netnotendur væru nógu greindir til að sjá í gegnum lygafréttir og að smá troll skipti engu máli, þvert á móti ættu viðkvæmu snjókornin sem kvörtuðu yfir net-ofbeldi að læra að harka af sér. Þessi afneitun á andlegum áhrifum áróðurs og netofbeldis á hugsanagang og hegðun fólks var ekki bara röng heldur drap mikilvægri umræðu á dreif og kom í veg fyrir að þjónustuveitendur uppfylltu eigin loforð og lagalegar skyldur gagnvart notendum.
Gögn sem síðar hafa komið fram vegna leka og þrýstings frá stjórnmálamönnum hafa sýnt að samfélagsmiðlafyrirtækin voru óviðbúin, vanbúin og óviljug til að taka á ólöglegum afskiptum af kosningabaráttu á netinu.
Í öllum lýðræðisríkjum gilda lög um framkvæmd kosninga, til dæmis um opið bókhald, um hámarkseyðslu, um upprunastaðfestingu, um sannleiksgildi o.s.frv. Kjósendur um allan heim fá fréttir um stjórnmál í síauknum mæli í gegnum netið, þar fer stjórnmælaumræðan fram og margir taka pólitískar ákvarðanir út frá þeirri mynd sem netheimar birta. Á samfélagsmiðlum eiga að gilda sömu lög og í raunheimum en það var ekki gert í reynd. Samfélagsmiðlafyrirtækin fylgdust ekki með því hvort auglýsingarnar fylgdu lögum í hverju landi, heldur færðu neytendum það hlutverk að reporta óviðeigandi efni og gerðu afskaplega litlar kröfur til þess efnis sem var hleypt í gegn til tilvonandi kjósenda. Með því að taka ekki tillit til sérstöðu pólitískra auglýsinga og auglýsenda komu samfélagsmiðlar fram við pólitíska auglýsendur eins og aðra auglýsendur - en bara þegar svo hentaði.
Facebook sá sæng sína upp reidda við að ná til sín pólitísku auglýsingafé, en einn stærsti þröskuldurinn í framkvæmd var að fræða þá sem stjórnuðu eyðslu hvers frambjóðanda um mikilvægi samfélagsmiðla til að hafa áhrif á kjósendur. Í stað þess að búa til betra kennsluefni, senda sölupósta og fá kynningarfundi einfaldaði Facebook söluferlið og bauð frambjóðendum „upon request“ eigin starfsmann til vinnu á staðnum til að sjá um að bóka auglýsingar og kenna starfsmönnum kosningabaráttunnar hvernig þeir fengu mest út úr miðlinum. Þessi þjónusta var í boði í fjölmörgum löndum án þess að allir frambjóðendur vissu af möguleikanum að biðja um Facebook starfsmann að láni.
Erfitt er að sanna bein áhrif ákveðinna net-markaðsaðgerða í auknu fylgi kjósenda en þau gögn sem hafa verið tekin saman um þessa þjónustu Facebook sýna óyggjandi fylgni milli þess að frambjóðandi náði kjöri og þess að Facebook veitti viðkomandi sérfræðiþekkingu á staðnum. Með því að senda ákveðnum pólitískum frambjóðendum sérfræðiþekkingu í miðlun pólitískra skilaboða í gegnum samfélagsmiðla er meira en líklegt að Facebook hafi vísvitandi haft áhrif á val kjósenda og með aðgerðum sínum tekið virkan þátt í heimspólitíkinni.
Í gegnum samstarf Facebook, frambjóðandans og pólitískra starfsmanna myndaðist samband sem fyrirtækið nýtti sér síðar í pólitískum tilgangi, til dæmis þegar viðkomandi land hugðist setja reglur um starfsemi fyrirtækisins. Fyrirkomulagið og sú nána samvinna og tenging samfélagsmiðla sem myndaðist við einstaka frambjóðendur hefur verið harðlega gagnrýnd, sér í lagi í Evrópu. Í fyrra breytti Facebook pólitískri þjónustu sinni og aflagði persónulega aðstoð á staðnum og bjóðast öllum frambjóðendum nú sömu upplýsingarnar.
Það hefur tekið samfélagsmiðlafyrirtækin langan tíma að viðurkenna ábyrgð sína á samfélagsumræðunni þrátt fyrir að lúra eins og ormur á gulli á ógnarstórum gagnasöfnum sem sýna að tilfinningar smitast um netheima. Innanhússgögn fyrirtækjanna sýna kerfisbundna andstöðu samfélagsmiðlarisanna á hverskonar lagasetningu varðandi starfsemi fyrirtækisins, sérstaklega Facebook/Instagram samstæðunnar sem hýsir persónuleg gögn yfir fjórðungs mannkyns.
Línuveiðar og hakk
Í lok júní 2016 vöruðu fulltrúar Upplýsingasamfélagsins (e. The Intelligence Community) Obama við að Rússar hefðu hefðu bæði brotist inn í tölvukerfi Demókrata og hakkað sig inn í kosningabaráttu og tölvupóstkerfi Hillary Clinton og væru búnir að koma gögnunum áfram. Þá um vorið hökkuðu Rússar sig inn í stóra hluta af tölvukerfi Repúblíkanaflokksins og stálu þaðan upplýsingum sem enn hafa ekki sést opinberlega og höfundur telur útskýra tryggð Repúblíkanskra þingmanna við Trump. Tölvupóstar frá Demókrötum og Clinton voru hinsvegar birtar í lok júlí í gegnum Wikileaks, sem Trump mærði mikið á þessum tíma en vill nú ekki kannast við, en það er seinni tíma saga.
Aðferðafræðin sem Rússar beittu í það sinn er kölluð phishing og mætti líkja við línuveiðar þar sem Rússar höluðu út beitu þar sem þeir sendu ákveðnu fólki eða hópi fólks tölvupósta sem líktu eftir þekktum þjónustum til þess að fá viðkomandi til að opna slóðir og skjöl sem Rússar nýttu sér til að komast inn í tölvukerfi viðkomandi kosningabaráttu eða stjórnmálaflokks. Þannig var kosningastjóri Hillary Clinton gabbaður til að opna exel skrá um skoðanir kjósenda á frambjóðandanum sem hleypti Rússum inn í alla tölvupósta og gögn kosningabaráttunnar.
27 júlí 2016 bað Donald Trump Rússland um að hakka Hillary Clinton til að finna „týnda“ 30.000 tölvupósta sem áttu að sanna þátttöku hennar í hinum ýmsu meintu lögbrotum en hafði verið eytt sem persónulegum gögnum af starfsmönnum hennar. Sama dag réðust Rússar inn í tölvukerfi Clinton kosningabaráttunnar, en sá gjörningur var að stærstum hluta sjónarspil því Rússar voru búnir að hakka sig inn mörgum mánuðum áður og settu nú af stað leikrit með Trump kosningabaráttunni til að hámarka áhrifin og ná höggi á Hillary Clinton. Í framhaldinu komu Rússar tölvupóstum og skjölum yfir til Wikileaks sem birtu gögnin í nokkrum gusum frá júlí fram í október 2016.
Þrátt fyrir sannanir um tölvuinnbrot og afskipti Rússa af kosningunum var Obama ragur við að grípa til aðgerða af nokkrum ástæðum. Ráðgjafar hans áttu erfitt með að koma sér saman um viðbrögð og sjálfur vildi hann ekki að það liti út eins og hann væri að skipta sér af kosningabaráttunni. Hluti vandamálsins var að Bandaríkin voru svo vön því að hafa hernaðarlega yfirburði í netheimum að þeir gerðu sér ekki grein fyrir þeim andlegu áhrifum sem hakkið hafði. Þar að auki óttaðist hann að aðgerðir sínar yrðu til þess að koma af stað skriðu hefndaraðgerða sem ekki sæi fyrir endann á. Netöryggissérfræðingar telja að það ríki einskonar ógnarjafnvægi í netheimum sem minni um margt á kalda stríðið að því leiti að báðir/allir aðilar hafi tækigetu til að slökkva á rafmagni og tölvukerfum hins aðilans, en að afleiðingarnar yrðu svo alvarlegar að það gæti kollvarpað heimsfriðnum. Samfara aukinni notkun gervigreindar í hernaði hafa líkurnar á því að sjálfvirk varnarviðbrögð valdi gagnverkun stigvaxandi ógnar einnig aukist. Af þessum ástæðum ákvað Obama að grípa til pólitískra vopna, gefa leyfi fyrir takmörkuðum cyber gagnárásum en auka vægið á varnir og pólitíska samstöðu bandamanna gegn Rússlandi.
Í Muller skýrslunni segir að Rússar hafi ráðist fumlaust og kerfisbundið á Bandaríkin „in a swift and systematic manner“ en rannsóknarskýrslur sýna líka að árás Rússa fór fram með tveimur samþættum aðgerðum; annars vegar með hakki og innbrotum í tölvukerfi og hins vegar áróðursmaskínu sem nýtti sér gögnin og skapaði falskan netveruleika fyrir hluta kjósenda.
Kærleikskveðjur frá Rússlandi
Innlimun Krímskagans í Rússland 2014 var einungis æfingarleikur fyrir Rússnesku áróðursmaskínuna þar sem ráðist var á Úkraínu bæði í netheimum og í raunheimum með hefðbundnum hernaði. Fyrst hökkuðu Rússar raforkukerfið og slökktu á landinu og rússneskumælandi ómerktir „grænir kallar“ réðust inn í landið og þánæst tóku þeir yfir fjölmiðlun í landinu og voru með her manna í vinnu við að búa til ringulreið á netinu, setja inn falskar upplýsingar og búa til sundrungu meðal heimamanna. Samtímis voru innlendir Rússneskir fjölmiðlar nýttir til að efla lögmæti aðgerðanna og auka vinsældir Pútín, sem notaði innrásina til að styrkja eigin stöðu.
Næst snéri rússneska netárásarteymið sér að vestrænum andstæðingum þar sem blönduðum netárásum var beitt. Annars vegar einbeitti hakkteymi sér að því að opna dyr með því að ráðast á kjörna fulltrúa, flokka og frambjóðendur með línuveiðum og hins vegar voru reknar sérstakar einingar sem einbeittu sér að því að vinna úr gögnunum og stunda „óhefðbundna pólitíska markaðssetningu“.
Þannig einbeittu Rússar sér að því að hakka kosningar og þingmenn um alla Evrópu með sérstakan fókus á lönd sem eiga landamæri að Rússlandi og svo þau lönd sem töluðu fyrir efnahagslegum þvingunum gegn rússum og rússneskum fyrirtækjum eftir Krím innrásina.
Árið 2016 kom svo tækifæri til að hafa áhrif á tvo stærstu óvini Rússlands. Rússar hökkuðu sig inn í tölvupósta 91 breskra þingmanna og reyndu samtímis með ‚að hafa bein og óbein áhrif á Brexit umræðuna með því að beina lygum og efni sem vekur upp tilfinningaviðbrögð á ákveðna hópa til að reyna að ýta undir sundrungu. Í Bretlandi tókst Rússum einungis að tryggja sér samvinnu minniháttar spámanna við mótun umræðunnar, ruglinginn sáu breskir stjórnmálamenn sjálfir um. Gögn sem síðar hafa komið fram sýna að Rússar deildu milljónum punda til breskra samtaka sem töluðu fyrir EU útgöngu auk þess að reka áróðursteymi sem framleiddi lygafréttir og auglýsingar sem bent var til vel-valinna hópa.
Aðal skotmarkið var hins vegar Bandaríkin þar sem gögnin benda til umtalsverðrar samvinnu milli Trump kosningabaráttunnar og hinna ýmsu útsendara Pútínskra stjórnvalda. Þegar þessi orð eru rituð hafa verið gefnar út 137 ákærur á 34 einstaklinga og 3 fyrirtæki í rannsókninni á málinu, þar með talið IRA. Þrír nánir samstarfsmenn Trumps hafa verið dæmdir fyrir lygar eða að neita að segja sannleikann í tengslum við málið, fyrstur Paul Manafort fyrrverandi kosningastjóri, þá næst Michael Cohen fyrrverandi lögfræðingur Trump og nú nýlega Michael Flynn skammsætur þjóðaröryggisfulltrúi Trump, að ógleymdum hinum litríka Roger Stone sem bíður síns dóms.
Spezpropaganda, dezinformatsiya og samfélagsauður
Netrannsóknarstofnunin IRA (The Internet Research Agency) er eitt þriggja rússneskra fyrirtækja og 34 einstaklinga sem hafa verið ákærð fyrir óeðlileg afskipti af bandarísku forsetakosningunum 2016. IRA var stofnað 2014 og rekið frá Sankti Pétursborg sem einkafyrirtæki og er eitt af nokkrum netáróðursfyrirtækjum sem Rússar stofnuðu um og uppúr innrás Rússa í Úkraínu og innlimun Krímskagans veturinn 2013 til 14.
Rússneska áróðursmaskínan var stofnuð með fjármagni frá nokkrum vellauðugum óligörkum tengdum valdakjarna Pútín. Þekktasta dæmið er IRA sem var stofnað af Yevgeni Prygozhin vorið 2014 og hleypt af stokkunum eins og hverju öðru nýmiðlunar og markaðsfyrirtæki í netheimum þar sem tæknifólk, forritarar, „blaðamenn“, grafíkerar og netáróðursmeistarar unnu saman að því að búa til falskan veruleika fyrir netnotendur annarra landa með það fyrir augum að hafa áhrif á kosningahegðun þeirra.
Aðferðirnar sem var beitt eru fjölbreyttar og lyginni líkastar; sambland af ríkisáróðri, spezpropaganda, afvegaleiðandi hálfsannleik dezinformatsiya og kompromat, efni sem er notað til að kúga fólk til hlýðni. Dæmi um áhrifaríka aðferð var að afrita erlendar fréttasíður með grafík, fréttum og myndefni sem var óþekkjanlegt frá upprunasíðunni og var sett upp á léni sem líktist hinu upphaflega s.s. abvnews eða hufingtonpost þar sem raunverulegum fréttum miðilsins var blandað saman við áróðursefni sem Rússarnir skrifuðu sjálfir og innihéldu hraðfrystar lygar, hálfsannleik og afbakanir á raunveruleikanum. Rússar eru taldir hafa rekið tuga slíkra fréttamiðlara sem dældu út efni til tug milljóna vestrænna netnotenda, en engar opinberar upplýsingar hafa fengist um umfangið þótt samfélagsmiðlafyrirtækin hafi síðar verið neydd til að upplýsa um hversu margar auglýsingar og efni ákveðnir aðilar hafi dreift.
Aðrir starfsmenn áróðursvélarinnar unnu við að búa til memes, til dæmis af Trump í hlutverki Jesú í sjómann við Hillary Clinton í hlutverki djöfulsins þar sem einungis takmörk ímyndunaraflsins réðu því hvaða lygar voru fundnar upp. Aðrir hlutar samsteypunnar einbeittu sér að framleiðslu á myndbandsklippum þar sem myndir af Clinton voru klipptar til svo hún liti sem heimskulegust eða illgjörnust út. Rússar fengu gögn um veikleika Hillary Clinton frá stolnum gögnum frá hennar eigin kosningabaráttu og frá herbúðum Trump sem brutu lög þegar þeir sýndu rússneskum fulltrúum kosningagögn og kannanir þá um sumarið.
Hvar svo sem veikleika mátti finna í bandarísku samfélagi voru Rússar mættir yfir netið til að höggva í knérunn og beittu sérstaklega aðferðum í miðlun sem notfæra sér veikleika í mannlegri skynjun og ákvarðanatöku. Rússar styðjast við vísindalegar rannsóknir og raungögn af netinu við bestun á skilaboðunum, þeir reyndu ekki að nota rök og útskýringar heldur magna upp tilfinningar eins fordóma, reiði og hræðslu hjá fólki sem væri líklegt til að „gera eitthvað í málunum“.
Með dyggri aðstoð Trump og samvinnu við bandaríska fréttamiðla eins og Breitbart og FOX samsteypuna varð úr geysisterk áróðursmaskína sem spilar stóran þátt í því að hatursfull orðræða jókst stórkostlega og hatursglæpum fjölgaði um mörg hundruð prósent. Áróðursmaskínan hætti ekki störfum þegar Trump komst til valda heldur hefur eflst síðan með fjöldaráðningum Rússa á fólki til að framleiða þýskt, franskt og spænskt netefni.
Það er erfitt að sanna bein áhrif þessa orðfæris en markmiðið er að brjóta upp samfélagsauð andstæðinganna og skapa sog inn í neikvætt samfélagssvarthol. Árið 2017 reyndist eitt blóðugasta ár bandaríkjanna í áratugi þar sem hvítir karlmenn drápu vel yfir hundrað manns í skotárásum sem var sérstaklega beint að börnum, trúarsamkomum, kynfrjálsum og konum.
Sömu hópar voru skotmark í netheimum og reyndu Rússar að koma sér fyrir inni í baráttuhópum á netinu til að reyna að fá þá til að grípa til gagnaðgerða og til að skapa sundrungu á milli þeirra. Fréttir hafa verið fluttar af því erlendis hvernig Rússar markvisst ólu á sundrungu svartra Bandaríkjamanna og reyndu bæði að fá þá til að sýna borgaralega óhlýðni við lögregluna og skapa þar með atvik sem gætu undið upp á sig, og hvöttu þá jafnframt til að sniðganga forsetakosningarnar til að sýna óánægju sína með kerfi sem stæði gegn þeim.
Annað dæmi sem hefur farið mun hljóðar er barátta Rússa til að egna femínista upp í slag við samfélagið, bæði með því að ala á óánægju kvenna og beina til þeirra skilaboðum um hræðilega ofbeldisglæpi og með því að búa til myndbönd af fölskum femínistum að valda usla t.d. með myndbandi þar sem „femínisti“ slettir meintum klór á mann sem var að dreifa of mikið úr sér í lest. Því myndbandi var dreift til milljóna netnotenda, aðallega ungra karlmanna, í gegnum netauglýsingar sem enginn fylgist með og er 14 ára sonur höfundar á meðal þeirra sem trúði því að um raunverulegt myndband væri að ræða.
Annað átak Rússa gegn kvennabaráttunni náði hingað til landsins þar sem íslenskar konur voru farnar að senda sín á milli í skilaboðum á Facebook skilaboð sem hvatti konur til að sýna samstöðu og mótmæla óljósu óréttlæti samfélagsmiðla með því að taka sig af netinu í tvo sólarhringa og setja upp svarta prófílmynd í leiðinni sem merki um að þær væru í mótmælum. Hverju þetta „female media blackout“ átti að skila var óljóst, en skilaboðin voru send af stað haustið 2017 þegar #metoo bylgjan stóð sem hæst og fór af stað aftur ári síðar í kringum ásakanir í garð Brett Kavanaugh sem þá stóð til að samþykkja inn í Hæstarétt Bandaríkjanna. Einhverjar konur féllu fyrir skilaboðunum en flestar sáu þær ekki ástæðu til að taka sig af netinu á sama tíma og rödd kvenna þurfti að heyrast í netheimum. Hoaxkill síður sem rekja uppi falskar sögusagnir í netheimum úrskurðuðu víralskilaboðin fölsk en meðal þeirra gagna sem Facebook birti síðar um upplýsingaumsvif Rússa eru nær samhljóða póstar þar sem aðrir hópar voru hvattir til að mótmæla óréttlæti með samfélagsmiðlaþögn og svartri prófílmynd.
Rússar hafa beitt svipuðum aðferðum frá því löngu fyrir tilkomu Internetsins þegar þeir stunduðu ekki bara að lauma sér inn í hópa til að skipuleggja falskar andspyrnuaðgerðir heldur sáu til þess að mótmælendur auðgreindu sig á einhvern hátt t.d. með klæðaburði til að auðveldara væri að koma auga á þá. Þannig eru dæmi um að KGB hafi boðað til mótmæla fyrir utan sendiráð í Moskvu og austantjaldsríkjunum til þess eins að senda herlið á staðinn og framkvæma skjótar fjöldahandtökur á mótmælendum sem ekkert hefur síðan spurst til.
Átöppun gamalla meðala á nýjar flöskur er eitt af sérsviðum Rússa og óhætt er að segja að árásin á Bandaríkin hafi verið vel heppnuð.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars