Framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar aukast um 857 milljónir króna á næsta ári miðað við fjárlög ársins í ár. Þau eiga að 2.074 milljónir króna í ár samkvæmt gildandi fjárlögum en hækka í 2.981 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í gær. Þetta er sama upphæð og þjóðkirkjan fékk sem viðbótargreiðslu á fjáraukalögum ársins 2018 og því mun heildarupphæðin sem rennur til kirkjunnar að óbreyttu verða sambærileg á næsta ári og á þessu.
Samkvæmt gildandi fjármálaáætlun eiga framlögin að haldast á þessum slóðum næstu árin. Árið 2021 er áætlað að skattgreiðendur greiði 2.926 milljónir króna til þjóðkirkjunnar og árið eftir 2.871 milljón króna. Þorri þess framlags sem ratar til hennar er vegna reksturs á embætti Biskups Íslands.
Sú mikla hækkun sem á sér stað á framlagi úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar er, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, er til að uppfylla svonefnt kirkjujarðarsamkomulag við hana í „samræmi við niðurstöðu reiknilíkans sem notað er til að reikna út framlög samkvæmt samningi ríkisins og kirkjunnar“.
Til viðbótar við þessi framlög greiðir ríkið sóknargjöld til trúfélaga, en þar er þjóðkirkjan lang fyrirferðamest enda eru tæplega tveir af hverjum þremur landsmönnum í henni. Sóknargjöld næsta árs eru áætluð 2.567 milljónir króna og því má áætla að um 1,7 milljarður króna af þeirri upphæð renni til þjóðkirkjunnar. Þá fær kirkjan greiðslu vegna kirkjumálasjóðs, alls 316 milljónir króna á næsta ári, og vegna jöfnunarsjóðs sókna, alls 404 milljónir króna.
Þingmaður sagði samninginn „hroðalegan“
Framlagið til þjóðkirkjunnar er vegna hins svokallaða kirkjujarðarsamkomulags milli ríkis og kirkju sem gert var 10. janúar 1997. Í því var samið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti mundi ríkissjóður greiða laun biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar og 18 starfsmanna Biskupsstofu, annan rekstrarkostnað prestsembætta og Biskupsstofu, námsleyfi, fæðingarorlof, veikindi og fleira.
Tekist var á um kirkjujarðarsamkomulagið á þingi í nóvember í fyrra. Þar sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, að samið hefði verið um greiðslur til kirkjunnar um ókomna tíð. Verð samninganna væri raunverulega táknað með tölustafnum átta á hlið. „Kirkjujarðirnar eru því bókstaflega óendanlega dýrar,“ sagði Helgi. Hann bætti því við að samningurinn væri hroðalegur.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var til svars og sagði það mikilvægt að ríkið stæði við gerða samninga. Það myndi þurfa „einhverja risastóra upphæð til að gera upp framtíðina“ ef breyta ætti samningnum.
Skömmu síðar ávarpaði hann kirkjuþing. og sagði meðal annars að lítil sanngirni væri í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju. „Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.“
Þriðjungur þjóðar utan þjóðkirkju
Þeim sem eru skráðir í þjóðkirkjuna hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum, þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað umtalsvert. Nú eru 232.040 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna en þeir voru 253.069 árið 2009 þegar fjöldin náði hæstu hæðum. Alls eru 64 prósent þeirra rúmlega 360 þúsund manna sem búa á Íslandi því skráðir í þjóðkirkjuna.
Það þýðir að rúmlega þriðjungur landsmanna er ekki skráður í hana, eða 128.350 manns.
Athugasemd frá Þjóðkirkjunni sem bætt er við klukkan 13:12:
Oft er handagangur í öskjunni þegar fjárlög ríkissjóðs til næsta árs eru tilkynnt. Eins og gefur að skilja í slíkum æsing eru stundum mistök gerð. Ekkert til að erfa – miklu frekar nauðsynlegt að leiðrétta.
Í frétt Vísis og fleiri miðla er fullyrt að aukin framlög til þjóðkirkjunnar nemi 860 milljónum á fjárlögum 2020. Þetta er rangt.
Í fjárlögum ársins 2019, sem blaðamaður ber saman við fjárlög 2020, sem fjármálaráðherra kynnti í morgun, vantaði uppá 854 milljónir vegna Kirkjujarðarsamkomulags. Í viðaukafjárlögum hefur þessi upphæð verið leiðrétt.
Þessi háttur hefur verið hafður á undanfarin ár.
Í fjárlögum ársins 2020 eru fjárframlög til þjóðkirkjunnar óskert og á pari við heildarfjárframlög ársins 2019. Það er því engin framlagaaukning til þjóðkirkju Íslands í fjárlögum 2020. Það er þjóðkirkjunni mikið kappsmál að fara vel með fjármuni kirkjunnar. Þjóðkirkjan vill kappkosta að tryggja að þeir fjármunir efli þjónustu við íbúa þessa lands. Þjóðkirkja Íslands sinnir afar metnaðarfullri og mikilvægri þjónustu um allt land í formi sálgæslu, fræðslu og velferðarþjónustu.
Þjóðkirkjan gerir engan greinarmun á skráðum og óskráðum meðlimum. Allir njóta þessarar þjónustu ef þeir óska. Þessi grunnþjónusta er til grundvallar þegar rýnt er í fjárframlög til þjóðkirkjunnar sem eru óbreytt í fjárlögum ársins 2020 fyrir fyrstu umræðu Alþingis.“
Athugasemd ritstjórnar Kjarnans:
Ekkert í fréttskýringu Kjarnans er rangt né villandi. Skýrt er greint frá þeirri greiðslu sem féll þjóðkirkjunni í skaut á fjáraukalögum síðasta árs í fréttaskýringunni. Sú greiðsla er vegna ársins 2018. Fjáraukalög fyrir árið 2019 hafa ekki verið lögð fram og því ekkert sem staðfestir að framlag úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar verði það sama í ár og það verði á næsta ári. Fyrirsögn hennar vísar til breytinga á greiðslum á milli samþykktra fjárlaga 2019 og fjárlagafrumvarps 2020 og er því rétt.