Á Íslandi hefur verið hægt að komast upp með það að fela eignarhald félaga, með ýmsum leiðum. Ein sú algeng leið var fólgin í því að láta félög, t.d. eignarhaldsfélög eða rekstrarfélög, vera í eigu erlendra félaga, sem voru síðan í eigu annarra erlendra félaga, sem voru í eigu sjóða í skattaskjólum þar sem engar eða litlar kröfur voru gerðar um skráningar og skil á gögnum. Þannig hefur verið verið hægt að fela hver raunverulegur eigandi (e. beneficial owner) félaga er.
Nú hafa verið stigin skref sem eiga að koma í veg fyrir þetta.
Allir sem eiga félag á Íslandi hafa þurft, frá og með 30. ágúst 2019, að veita fyrirtækjaskrá upplýsingar um nafn, lögheimili, kennitölu, ríkisfang og eignarhlut/tegund eignarhalds. Þá þurfa allir að framvísa gögnum sem staðfesta veittar upplýsingar og sýna fram á að viðkomandi sé raunverulegur eigandi þess félags sem um ræðir.
Þeir sem eru að stofa félag eða tilkynna um breytingar á því þurfa að veita umræddar upplýsingar samhliða því. Aðrir hafa þangað til 1. júní 2020 til að veita upplýsingarnar. Upphaflega átti að gefa þeim frest fram til 1. desember 2019 til að gera það, en efnahags- og viðskiptanefnd ákvað að leggja fram breytingartilögu um að lengja frestinn þegar málið var í meðförum hennar.
Þrýstingur utan frá
Frumvarpið, sem varð að lögum 13. júní síðastliðinn, var annars vegar lagt fram til að innleiða tvær Evróputilskipanir og hins vegar til að bregðast við athugasemdum Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem hótaði að setja Íslands á lista yfir ósamvinnuþýð ríki í fyrravor ef stjórnvöld hér myndu ekki fara í gagngera uppfærslu á vörnum sínum gegn peningaþvætti.
Þrátt fyrir að margt hafi verið lagað sýndi skýrsla FATF sem birt var fyrr í þessum mánuði að Ísland verður áfram í eftirfylgni hjá samtökunum. Kjarninn fjallaði ítarlega um skýrsluna og niðurstöðu hennar í fréttaskýringu sem hægt er að lesa hér.
Dag- og stjórnvaldssektir
Samkvæmt nýju lögunum um raunverulega eigendur þá er hægt að refsa þeim sem ekki fylgja þeim. Ef eigendur félaga upplýsa ekki um hver hinn raunverulegi eigandi er, með framvísun þeirra gagna sem lögin kalla á, þá getur ríkisskattstjóri lagt á tvenns konar sektir á viðkomandi.
Annars vegar er um dagsektir að ræða. Þær geta numið frá tíu þúsund krónum og allt að 500 þúsund krónum á dag. Heimilt er að ákvæða umfang þeirra sem hlutfall af tilteknu stærðum í rekstri viðkomandi. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Dagsektirnar sem verða ákvarðaðar eru aðfararhæfar.
Hins vegar er um stjórnvaldssektir að ræða. Þær er hægt að leggja á þá sem veita ekki upplýsingar eða veita rangar/villandi upplýsingar. Þegar brot á lögunum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. „Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10 prósent af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10 prósent af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu,“ segir í lögunum.