Alls lækkaði heildarumfang aflandskrónueigna úr 83,2 milljörðum króna hinn 4. mars 2019 í 62 milljarða króna í lok september síðastliðins. Það þýðir að umfang aflandskróna í íslensku hagkerfi hefur dregist saman um 21,2 milljarðar króna frá því í vor.
Alls hefur því um fjórðungur þeirra aflandskróna sem voru hér til staðar í byrjun mars verið færður út úr íslensku hagkerfi eftir að lög voru samþykkt sem gerðu það að verkum að þær væru lausar.
Eigendur meginþorra krónanna hafa valið að fjárfesta áfram á Íslandi. Þær fjárfestingar eru í innlánum og innstæðubréfum Seðlabanka Íslands (43,8 milljarðar króna), ríkisskuldabréfum (12,9 milljarðar króna), öðrum verðbréfum eða hlutdeildarskírteinum í fjárfestingarsjóðum (5,3 milljarðar króna).
Innlendir eiga þorra ríkisskulda
Í greinargerðinni kemur einnig fram að hreint innflæði nýfjárfestinga erlendis frá hafi numið 32 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er þremur milljörðum krónum minna en á sama tímabili 2018. Þessi samdráttur í fjárfestingu átti sér stað þrátt fyrir að sérstök bindiskylda á fjármagnsflæði hafi verið lækkuð í núll krónur í mars síðastliðnum. Í greinargerðinni segir að fjárfesting í ríkisbréfum hafi verið „lítil yfir sumarmánuðina“.
Um þessar mundir eiga erlendir aðilar um 14 prósent ríkisskulda, en það er mjög lágt í sögulegu samhengi. Til samanburðar áttu erlendir aðilar 56 prósent ríkisskulda fyrir áratug síðan.
Áhyggjur ef ekki tækist að breyta lögum
Í lok febrúar stóð til að afgreiða frumvarp sem átti að heimila Seðlabanka Íslands að beita þrenns konar heimildum við losun aflandskrónueigna og fól auk þess í sér breytingar á bráðabirgðaákvæði laga um gjaldeyrismál sem varðaði reglur um bindinu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.
Seðlabanki Íslands skilaði efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um málið seint í þeim mánuði þar sem meðal annars kom fram að mikilvægt yrði að frumvarpið yrði að lögum fyrir 26. febrúar.
Ástæðan væri sú að þá væri gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa. Ef frumvarpið yrði ekki afgreitt fyrir þann tíma myndi umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um næstum 70 prósent eða um 25 milljarða króna.
Málþóf Miðflokksins í febrúar
Miðflokkurinn lagðist í málþóf á Alþingi gegn því að frumvarpið yrði samþykkt og tafði með því afgreiðslu þess. Þingmenn flokksins héldu því fram að með frumvarpinu væri ríkið að gefa eftir tugi milljarða króna og að skapa hættulegt fordæmi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sagði að sú upphæð sem hægt væri að sækja til eigenda þessara eigna gæti hæglega numið tugum milljarða króna.
Málþófið varð til þess að frumvarpið var ekki samþykkt fyrr en 28. febrúar og lögin tóku ekki gildi fyrr en 5. mars.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í atkvæðagreiðslu um frumvarpið að Miðflokkinn hefði staðið fyrir innihaldslausu þvaðri og sögufölsun. Ekkert sannleikskorn væri að finna í fullyrðingum þeirra.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók einnig til máls og sagði að hann undraðist að ekki væri bros á öllum andlitum til að fagna fyrirhugaðri samþykkt. Það væri stórkostlegt að Ísland væri komið í slíka stöðu og allar ríkisstjórnir frá árinu 2008, frá tíma neyðarlaganna, gætu unað vel við sinn hlut.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut í byrjun mars síðastliðins að útflæðisáhyggjurnar hefðu ekki raungerst.
Staðan í lok september var sú að um 75 prósent aflandskrónanna eru hér enn.