Sjávarútvegsfyrirtæki áttu 709 milljarða um síðustu áramót
Frá hruni hefur hagur allra sjávarútvegsfyrirtækja landsins batnað um hátt í 500 milljarða króna. Eigið fé þeirra hefur tífaldast frá árinu 2010 og það jókst um 28,8 milljarða króna í fyrra. Veiðigjöld hafa hins vegar lækkað vegna þess að fjárfesting síðustu ára er dregin frá þegar stofn þeirra er reiknaður.
Eignir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja voru 709 milljarðar króna í lok árs í fyrra. Þær hafa hækkað feikilega í verði á undanförnum árum. Fyrir tveimur áratugum síðan voru þær 182,7 milljarðar króna, 443 milljarðar króna fyrir áratug en 709 milljarðar króna um síðustu áramót. Frá árslokum 2010 hafa þær hækkað um 207 milljarða króna.
Þetta kemur fram í nýjum hagtíðindum Hagstofu Íslands, sem tekur árlega saman yfirlit um rekstur helstu greina sjávarútvegs. Tölurnar ná yfir fleiri fyrirtæki í geiranum en þær sem mynda sjávarútvegsgagnagrunn Deloitte, sem tekinn er saman árlega og kynntur á viðburði á vegum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Sá gagnagrunnur nær yfir rekstur 92 prósent geirans. Kjarninn greindi frá síðustu birtu tölum hans í lok september síðastliðins.
Helstu eignir sjávarútvegsfyrirtækja, sem færðar eru í ársreikninga, eru veiðiheimildir sem þeim er úthlutað, fiskiskip og annar útbúnaður sem er nauðsynlegur til veiða og vinnslu. Hluti þeirra veiðiheimilda sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa fengið úthlutað er veðsettur bönkum.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var eigið fé íslensks sjávarútvegs 297 milljarðar króna í lok síðasta árs. Frá lokum árs 2010 hefur eigið féð tífaldast samkvæmt þessum tölum, en það var þá 28,8 milljarðar króna. Á síðasta ári einu saman jókst eigið féð um 28,1 milljarð króna.
Aukið eigið fé og háar arðgreiðslur
Þegar staðan er skoðuð frá hruni þá hefur eigið fé sjávarútvegs aukist um 377 milljarða króna, en eiginfjárstaða geirans var neikvæð í lok árs 2008 um rúmlega 80 milljarða króna. Í tölum Hagstofunnar er hægt að sjá hverjar arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið á undanförnum árum. Í grunni Deloitte, sem nær líkt og áður sagði yfir 92 prósent geirans og þar með talið allra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna, kemur hins vegar fram að frá árinu 2010 hafi arðgreiðslur numið 92,5 milljörðum króna. Í fyrra greiddu fyrirtækin sér út 12,3 milljarða króna í arð.
Frá árinu 2010 hefur hagur eigenda sjávarútvegarins – aukning í eigin fé auk arðgreiðslna – batnað um tæpan 361 milljarð króna. Frá hruni hefur hann batnað um 470 milljarða króna hið minnsta.
Samherja-samstæðan, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og samanstendur af tveimur félögum, átti ein og sér uppgefið eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok síðasta árs. Hagnaður Samherja vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna. Hagnaður Samherjasamstæðunnar hefur þar með numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka síðasta árs. Hagnaðurinn dróst lítillega saman milli áranna 2017 og 2018, en hann var 14,4 milljarðar króna á fyrra árinu.
Veiðigjöld lækka vegna fjárfestingar
Veiðigjöld, sérstakt gjald sem útgerðir greiða fyrir aðgengi að kvóta, hafa að sama skapi verið að lækka. Þau voru 11,3 milljarðar króna í fyrra, sem eru þau hæstu sem geirinn hefur greitt. Það nánast tvöfölduðust milli ára, úr 6,8 milljörðum króna árið 2017. Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 63,3 milljarða króna í veiðigjöld.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi um síðustu áramót þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Í fjárlagafrumvarpinu sagði að með breytingunum sé dregið úr töf við meðferð upplýsinga um átta mánuði. „Þá er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.
Veiðigjöldin lækka á þessu ári, en áætlað er að þau skili um sjö milljörðum króna í ríkiskassann í ár samkvæmt gildandi fjárlögum. Á næsta ári munu þau hins vegar lækka umtalsvert aftur og verða um fimm milljarðar króna.
Í umræðum um breytt fjárlagafrumvarp vegna ársins 2020 kom ítrekað fram að lækkunin sé að uppistöðu vegna mikillar fjárfestingar í greininni. Um er að ræða skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar.
Frádrætti vegna fjárfestinga var breytt með nýju lögunum sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir og tóku gildi í byrjun árs 2019.
Safnast á fáar hendur
Úthlutaður kvóti hefur safnast á fárra hendur frá því að hann var gerður framseljanlegur á tíunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt lögum mega tengdir aðilar ekki halda á meira en 12 prósent af heildarkvóta hverju sinni. Ríkisendurskoðun benti hins vegar á það í stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu, sem birt var í janúar síðastliðnum, að hún kanni ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum væri í samræmi við lög. Þ.e. að eftirlitsaðilinn með því að enginn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 prósent af heildarafla væri ekki að sinna því eftirliti í samræmi við lög. „Fiskistofa treystir nánast alfarið á tilkynningarskyldu fyrirtækja við eftirlit með samþjöppun aflaheimilda,“ segir í skýrslunni.
Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni að ráðast þyrfti í endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða um „bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Hvað eru tengdir aðilar?
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er líka rakið að Fiskistofa hafi, á árunum 2009 og 2010, framkvæmt frumkvæðisrannsókn á Samherja, Síldarvinnslunni og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar með 34,2 prósent eignarhlut. Gjögur, sem er meðal annars í eigu Björgólfs Jóhannssonar, sitjandi forstjóra Samherja, og systkina hans, heldur einnig á 1,05 prósent alls kvóta um þessar mundir. Björgólfur er auk þess í stjórn Gjögurs. Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja og einn aðaleigenda fyrirtækisins, var auk þess stjórnarformaður Síldarvinnslunnar árum saman, þangað til að hann sagði af sér í síðasta mánuði.
Í september 2019 var Samherji með 7,1 prósent úthlutaðs kvóta. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan heldur á 5,3 prósent allra aflaheimilda og sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar.
Samanlagt er aflahlutdeild þessara aðila er því rúmlega 16,6 prósent, eða langt yfir lögbundnu hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af aflaheimildum myndi safnast á fárra hendur.
Samkeppniseftirlitið ákvað, í kjölfar skoðunar Fiskistofu, að kanna hvort að Samherji, Gjögur og Síldarvinnslan væru ótengd líkt og þau hefðu haldið fram. Þeirri könnun lauk aldrei og var að lokum hætt vegna anna eftirlitsins við önnur störf.
Kjarninn greindi frá því 20. nóvember síðastliðinn að í glærukynningum Samherja, sem eru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks hefur birt á netinu og eru rækilega merktar trúnaðarmál, megi skýrt sjá að erlendis er Síldarvinnslan kynnt sem hluti af Samherjasamstæðunni.
Samherjasamstæðan er ekki sú eina sem liggur undir grun um að vera komin vel yfir 12 prósent aflahlutdeildarmarkið. Raunar liggur fyrir að Brim fór yfir það hámark fyrr í nóvember þegar stjórn þess samþykkti samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum í Hafnarfirði, Fiskvinnslunni Kambi og Grábrók. Samanlagt kaupverð nemur rúmlega þremur milljörðum króna.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á um 46,26 prósent hlut í því félagi eftir að hafa selt stóran hlut til KG Fiskverkunar fyrir skemmstu. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild. Stærstu einstöku eigendur þess eru Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur og forstjóri Brims, og tvö systkini hans með samanlagðan 36,66 prósent endanlegan eignarhlut. Eigandi KG Fiskverkunar er Hjálmar Þór Kristjánsson, bróði Guðmundar.
Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga, sem eru ekki skilgreind sem tengd, var því 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins, og hið minnsta rúmlega 17 prósent eins og er.
Aðrir hópar eru líka stórir. Kaupfélag Skagfirðinga á til dæmis FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja aðila 10,6 prósent.
Vísir og Þorbjörn í Grindavík halda síðan samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum. Þau fyrirtæki eru nú í sameigingarviðræðum. Samanlagt eru þessar fjórar blokkir því með vel yfir helming alls úthlutaðs kvóta, eða tæplega 53 prósent hið minnsta.