Mynd: Jakup Kapusnak/Unsplash

Sjávarútvegur hefur hagnast um tæpa 400 milljarða á áratug

Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja hafa numið 92,5 milljörðum króna frá árinu 2010. Á sama tímabili hafa þau greitt 65,6 milljarða króna í veiðigjöld. Eigið fé geirans er nú 276 milljarðar króna og hagur hans hefur vænkast um tæpa 450 milljarða króna frá bankahruni.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga eigið fé upp á 276 milljarða króna. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.

í lok árs 2008 var eiginfjárstaða geirans neikvæð en er nú, líkt og áður sagði jákvæð um 276 milljarða króna. Hún batnaði um 14 milljarða króna á árinu 2018.

Þetta kemur fram í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte fyrir árið 2018 sem kynntur var í gær. Hann nær yfir rekstur 92 prósent allra fyrirtækja í íslenska sjávarútvegsgeiranum. 

Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur. 

Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út síðasta ár, eða á einum áratug.

Skuldir hækkuðu lítillega

Í gagnagrunninum kemur fram að tekjur sjávarútvegsfyrirtækjanna sem hann nær til hafi alls muni 247 milljörðum króna í fyrra og aukist um 22 milljarða króna á milli ára. EBIDTA-hagnaður þeirra, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta, var 53 milljarðar króna og jókst um 13 milljarða króna. Endanlegur hagnaður var 27 milljarðar króna, sem er sami hagnaður og geirinn skilaði árið 2017. 

Auglýsing

Samtals hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hagnast um 396 milljarða króna eftir hrun. 

Skuldir geirans hækkuðu á milli ára í 389 milljarða króna en þegar skuldirnar eru reiknaðar sem hlutfall á móti EBITDA-hagnaði lækka þær. Ný langtímalán umfram afborganir námu 13 milljörðum króna. Hægst hefur á fjárfestingum í sjávarútvegi. Þær námu 18 milljörðum króna í fyrra, en 20 milljörðum króna árið áður. 

Veiðigjöld munu lækka á þessu ári

Veiðigjöld voru 11,3 milljarðar króna í fyrra, sem eru þau hæstu sem geirinn hefur greitt. Það nánast tvöfölduðust milli ára, úr 6,8 milljörðum króna árið 2017. Samtals frá árinu 2011, og út síðasta ár, greiddi sjávarútvegurinn 63,3 milljarða króna í veiðigjöld. 

Veiðigjöldin lækka á þessu ári, en áætlað er að þau skili um sjö milljörðum króna í ríkiskassann í ár og nánast sömu upphæð á árinu 2020, samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi. Ný lög um veiði­gjald tóku gildi um síð­ustu ára­mót þar sem meðal ann­ars var settur nýr reiknistofn sem bygg­ist á afkomu við veiðar hvers nytja­stofns. Í fjár­laga­frum­varp­inu sagði að með breyt­ing­unum sé dregið úr töf við með­ferð upp­lýs­inga um átta mán­uði. „Þá er veiði­gjaldið nú ákveðið fyrir alm­an­aksár í stað fisk­veiði­ár­s. 

Auglýsing

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja sem gagnagrunnur Deloitte nær yfir voru 21,4 milljarðar króna í fyrra að veiðigjöldunum meðtöldum. 

Geta seilst til áhrifa í óskyldum geirum

Sjávarútvegsfyrirtækin hafa því samandregið átt ótrúlegri rekstrarlegri velgengni að fagna á undanförnum árum. Hagnaður hefur verið gríðarlegur og upp hefur byggst ákafaflega sterk eiginfjárstaða þrátt fyrir miklar arðgreiðslur til eigenda. 

Þess utan geta stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi fjármagnað sig og gert upp í öðrum myntum en íslensku krónunni, sem tryggir þeim mun betri lánakjör en þeim bjóðast á innlendum markaði. 

Það gerir það að verkum að fjárfestingageta þeirra hefur aukist feykilega mikið og þau hafa mörg hver fjárfest umtalsvert í öðrum og óskyldum geirum. Kjarninn greindi til að mynda frá því um miðjan þennan mánuð að eigið fé Samherja, stærstu sjávarútvegssamstæðu landsins, hefði verið 111 milljarðar króna í lok síðasta árs. Sú samstæða hefur ein og sér hagnast um 112 milljarða króna á átta árum. 

Helstu eig­endur og stjórn­endur Sam­herja eru frænd­­­­urn­ir, for­­­­stjór­inn Þor­­­­steinn Már Bald­vins­­­­son og útgerð­­­­ar­­­­stjór­inn Krist­ján Vil­helms­­­­son. Þeir eiga sam­tals 65,4 pró­sent í sam­stæð­unni. Helga S. Guð­munds­dótt­ir, fyrr­ver­andi eig­in­kona Þor­steins Más, á 21,3 pró­sent. 

Þessir þrír ein­stak­lingar eiga því 86,7 pró­sent í Sam­herja, hér heima og erlend­is, sem á eigið fé upp á tæp­lega 111 millj­arða króna.

Félögin tvö sem mynda Samherjasamstæðuna stunda ekki einungis viðskipti með sjávarafurðir. Sam­herji hf. á til að mynda stóran hlut í smá­­söluris­­anum Hög­um, en það er fjórði stærsti hlut­hafi þess með 9,26 pró­­sent eign­­ar­hlut. Sam­herji Holding ehf. er síðan stærsti ein­staki eig­andi hluta­bréfa í Eim­­skip, með 27,1 pró­­sent eign­­ar­hlut. 

Kjarninn fjallaði ítarlega um vöxt stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins í fréttaskýringu sem birtist 13. september síðastliðinn. Hægt er að lesa hana hér að ofan.

Í upphafi árs 2020

Við á Kjarnanum göngum bjartsýn og einbeitt inn í nýtt ár og þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar