Verðtryggð lán lífeyrissjóða og innlánsstofnana, banka og sparisjóða, eru mun lægra hlutfall lána lífeyrissjóða og fjármálastofnana til húsnæðiskaupa en þau hafa nokkru sinni áður verið. Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands voru 78,7 prósent útlána lífeyrissjóða til sjóðsfélaga sinna verðtryggð lán í október síðastliðnum en 62,9 prósent útlána innlánsstofnana, sem eru að uppistöðu stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Til samanburðar hófu lífeyrissjóðirnir ekki að bjóða óvertryggð lán fyrr en í október 2015 og því hefur breytingin á útlánum þeirra á síðustu fjórum árum. Hjá bönkunum voru 72 prósent allra útlána sem voru með veði í íbúð verðtryggð í október 2015 en í dag er það hlutfall komið niður í 62,9 prósent.
Aldrei lánað meira en í október
Kjarninn greindi frá því 6. desember síðastliðinn að lífeyrissjóðir landsins hefði aldrei lánað sjóðsfélögum sínum meira í húsnæðislán en þeir gerðu í október síðastliðnum. Þá námu sjóðsfélagslán sjóðanna 13,9 milljörðum króna og jukust um 65 prósent á milli mánaða. Fyrra útlánamet lífeyrissjóðanna var sett í júní 2017 þegar þeir lánuðu rúmlega ellefu milljarða króna til húsnæðiskaupa. Því voru útlánin í október 26 prósent hærri en í fyrri metmánuði.
Auk þess hafa aldrei verið tekin fleiri lán hjá lífeyrissjóðum en í tíunda mánuði ársins 2019, þegar þau voru 1.144 talsins. Fyrra metið var sett í ágúst 2017 þegar útlánin voru 789 talsins. Útlánin í október voru því 45 prósent fleiri en í fyrri metmánuði. Allt ofangreint bendir til þess að töluvert líf sé í húsnæðismarkaðnum um þessar mundir.
Í þriðja sinn í sögunni
Í október gerðist það í þriðja sinn í sögu íslenska lífeyrissjóðakerfisins að sjóðsfélagar tóku meira að láni óverðtryggt en verðtryggt. Í hin tvö skiptin, í desember 2018 og í janúar 2019, hafði verðbólga hækkað nokkuð skarpt og var á bilinu 3,4 til 3,7 prósent, eftir að hafa verið að mestu undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014. Í október var hún hins vegar 2,7 prósent og spár gerðu ráð fyrir að verðbólgan myndi fara við og jafnvel undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið í nánustu framtíð.
Ástæðan fyrir þessari þróun er meðal annars sú að stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa markvisst verið að reyna að draga úr útlánum til sjóðsfélaga sinna frá því á síðasta ári. Ástæðan er sú að ásókn í lánin, sem eru á umtalsvert betri kjörum en bjóðast hjá bönkum, hefur verið gríðarleg og hlutfall sjóðsfélagslána af heildareignum margra lífeyrissjóða er nú komið upp að þeim mörkum sem þeir telja skynsamlegt að teknu tilliti til áhættudreifingar.