Breski Íhaldsflokkurinn sigraði í nýafstöðnum kosningum í Bretlandi og hefur nú mikinn meirihluta í neðri deild þingsins þótt hann hafi hlotið minnihluta atkvæða (43,6%). Flokkurinn sigraði með því að lofa að taka Bretland út úr Evrópusambandinu (ESB) og með því að fullyrða að í kjölfarið myndi hagur þjóðarinnar vænkast. Hér verður fjallað um orsakir kosningasigursins, stefnu flokksins og reynt að spá fyrir um framtíðarþróun mála í Bretlandi.
Stefna Íhaldsflokksins hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Í stað þess að leggja megináherslu á einkarekstur, lága skatta, frjáls utanríkisviðskipti og alþjóðlega samvinnu þá er nú sagt að flokkurinn túlki „vilja fólksins“ sem ekki sé skynsamlegt að fara gegn. Þannig var í stefnuræðu stjórnarinnar lögð áhersla á lúta vilja fólksins með því að styrkja heilbrigðiskerfið og löggæslu. Bretland gengur einnig úr Evrópusambandinu til þess að fara að „vilja fólksins“ sem ákvarðaður var í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016 enda þótt rúmlega 48% þeirra sem greiddu atkvæði hafi verið á móti útgöngu. Hinn nýji Íhaldsflokkur sækir þannig umboð sitt beint til fólksins, túlkar óskir þjóðarinnar og hryndir vilja hennar í framkvæmd.
Orsakir og afleiðingar
Orsakir sigursins og þeirra miklu breytinga sem hafa átt sér stað innan Íhaldsflokksins má rekja til nokkurra þátta sem hafa dregið úr trausti á hefðbundnum stjórnmálaflokkum og embættismönnum. Þannig er sterk fylgni á milli vantrausts á stjórnmálastéttinni og vilja til útgöngu úr ESB í Bretlandi og reyndar einnig annars staðar í ESB. Svipaða sögu má segja um Verkamannaflokkinn. Minna traust á hefðbundnum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum getur útskýrt að einhverju leyti af hverju hann hefur færst langt til vinstri undir stjórn Jeremy Corbyn.
Ástæður vantraustsins eru margvíslegar. Hér kemur fyrst í huga misskipting tekna og auðs innan lands en auðlegð Lundúnaborgar sker í augu þeirra sem búa í Norður Englandi við krappari kjör. Hægur kaupmáttarvöxtur bætir ekki úr skák. Kaupmáttur lækkaði frá fjármálakreppunni 2008 fram í lok árs 2014 og hefur aðeins hækkað lítillega síðan. Aðhaldsaðgerðir ríkisstjórnar sem komst til valda um vorið 2010 bitnuðu illilega á fátækustu héruðum Englands og urðu þannig til þess að magna óánægjuna enn meira. Og margir óttast að innflytjendur ógni menningu og siðum innfæddra og innflytjendur taki jafnvel störfin af þeim sem eru fyrir. Til samans verður þetta til þess að kjósendur treysta ekki lengur stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem eru á miðju stjórnmálanna fyrir hagsmunum sínum.
Við þetta bætist að aukin alþjóðaviðskipti og tækniframfarir ógna störfum, þau verða þá mörg mögulega flutt til annarra landa í framtíðinni eða lögð af með bættri tækni. Ótti fólks við framtíðina hefur aukist.
Fjármálakreppur hafa sögulega aukið óánægju með ráðandi stéttir og minnka þá traust enn meira en aðrar kreppur. Ástæðan er sú að þær eru frábrugðnar öðrum kreppum vegna þess að það kenna má einstaklingum um þær: Bankamönnum sem hafa gert mistök og jafnvel hagnast á þeim sjálfir en látið skattgreiðendur greiða fyrir tapið; embættismönnum sem hafa brugðist því hlutverki að hafa eftirlit með bönkum og öðrum fjármálastofnunum og stjórnmálmönnum sem mörkuðu stefnuna, einkavæddu banka í sumum tilvikum og réðu embættismennina til starfa. Fjármálakreppur verða þannig til þess að minnka mikið traust til stofnana samfélagsins og ráðandi stétta og búa til frjóan jarðveg fyrir populisma eða lýðhygli.
Fjármálakreppan í Bretlandi og Bandaríkjum bjó til hallarekstur á ríkissjóði. Í Bretlandi kallaði hallareksturinn á aðhaldsaðgerðir eftir árið 2010 sem bitnuðu illa einmitt á þeim héruðum sem síðar reyndust mest fylgjandi útgöngu úr ESB. Þannig hafði fjármálakreppan mögulega einnig haft óbein áhrif með því að auka á óánægju og þar með stuðning við brotthvarf landsins úr ESB. Niðurskurður ríkisútgjalda í Bretlandi á árunum 2010-2014 var á bilinu 7-10% af vergri landsframleiðslu á ári og mikill hluti niðurskurðarins kom fram í lægri framlögum til sveitarfélaga. Framlögin lækkuðu um tæplega helming fyrir mörg sveitarfélögin, mest hjá þeim sem höfðu lægstar tekjur á mann. Nicholas Crafts hefur sýnt fram á að fylgisaukning Breska Sjálfstæðisflokksins (UKIP) var mest þar sem niðurskurður útgjalda hafði verið mestur. Velgengni UKIP varð síðan til þess að Íhaldsflokkurinn boðaði þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016. Leiða má að því getum að í ljósi þess hve sigur aðskilnaðarsinna (e. leavers) var naumur í kosningum um útgöngu úr ESB í júní 2016 að niðurstaðan hefði farið á hinn veginn ef ekki hefði verið lagt í niðurskurð ríkisútgjalda.
Í Bandaríkjunum hefur Michael Lewis einnig haldið því fram að kosningasigur Donald Trump árið 2016 hafi verið afleiðing af fjármálakreppunni vegna þess að kjósendur hafi sannfærst um að fjármálakerfið væri spillt og það hafi gert þá tilbúna til þess að kjósa óhefðbundinn stjórnmálamann sem forseta sem talaði máli þeirra.
Gömul saga og ný
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að benda á að undirliggjandi orsakir vantraustsins eru ekki nýsprottnar þótt hinar pólitísku afleiðingar séu sumpart annars konar.
Tækniframfarir í Bretlandi á fyrri hluta 19. aldar urðu þess valdandi, svo dæmi sé tekið, að störf í vefnaðariðnaði lögðust af og störfum í landbúnaði fækkaði. Það var hagfræðingurinn David Ricardo sem lýsti hagkvæmni utanríkisviðskipta en einnig nauðsyn þess að bæta upp tjón þeirra sem hlytu skaða af. Þessar sömu raddir heyrast um þessar mundir. Í framhaldinu var brugðist við þessum ójöfnuði með því að fjölga þeim sem hefðu kosningarétt. En með tíð og tíma urðu til störf í iðnaði í borgum Bretlands sem bættu lífskjör almennings. Aukinn hagvöxtur á síðari hluta 19. aldar skapaði aukna sátt í samfélaginu.
Í lok 19. aldar ógnaði erlend samkeppni innlendum atvinnugreinum. Þegar breskur iðnaður fann fyrir samkeppni frá Þýskalandi og Bandaríkjum þá var þrýst á að taka upp verndarstefnu fyrir innlendan iðnað, leggja á innflutningstolla. Feður tveggja forsætisráðherra gengu þar hart fram, þeir Randolph Churchill og Joseph Chamberlain. Sá síðarnefndi vildi leggja tolla á innflutning og nota tekjurnar til þess að fjármagna heilbrigðisþjónustu og menntaþjónustu. Málflutningur Chamberlains minnir sumpart á málflutning aðskilnaðarsinna um þessar mundir – að iðnaðarborgirnar í norðri ættu undir högg að sækja vegna ósanngjarnrar samkeppni frá láglaunalöndum á meðan London blómstraði. Chamberlain var enda fæddur og bjó í iðnaðraborginni Birmingham og var borgarstjóri þar um tíma. Tryggingagjald var lagt á vinnandi fólk og tekjunum varið til þess að greiða fyrir sjúkratryggingar og ellilífeyri .
Svokallaður Fabian félagsskapur, sem hafði sem félaga enga aðra en H.C. Wells og George Bernard Shaw innan borðs, barðist fyrir umbótum sem gætu bæði aukið framleiðni starfsfólks og jöfnuð með lágmarkslaunum og bættri heilsugæslu. Þeir beittu sér einnig fyrir stofnun Verkamannaflokksins. Þær hugmyndir sem þarna komu fram áttu síðar eftir að verða grunnurinn að breska verlferðarkerfi William Beveridge eftir lok síðari heimsstyrjaldar.
Við getum því litið til baka og sagt að svipaðar aðstæður hafi verið fyrir hendi í Bretlandi á síðustu öldum en að það hafi tekist að lækja óánægjuraddir og bæta lífskjör allra þjóðfélagsþegna meðal annars með því að koma á fót velferðarkerfi en viðhalda frelsi í viðskiptum og alþjóðlegu samstarfi og snúast ekki gegn minnihlutahópum. Hagvöxtur kemur svo til bjargar og lyftir öllum bátum. Það sem er frábrugðið nú um þessar mundir eru viðbrögð stjórnmálastéttarinnar sem virðast við fyrstu sýn vera ólíklegri til þess að örva hagvöxt og jafna dreifingu tekna og auðs, einkennast fremur af lýðskrumi og blekkingum.
Viðbrögðin nú
Styrkur lýðræðis og markaðshagkerfis í Bretlandi síðustu tvær aldir ber vitni um styrkar stofnanir lýðræðis og réttarríkis og einnig að einhverju leyti ábyrgðarkennd stjórnmálamanna. Í öðrum ríkjum þar sem stofnanir eru ekki eins sterkar hefur umrót stjórnmálanna oft haft slæmar afleiðingar fyrir lýðræði og efnahagsmál. Stjórnarfar Suður Ameríkuríkja hefur þannig einkennst af lýðhygli en hún er þá afleiðing ójafnrar tekjuskiptingar, efnahagslegs óöryggis og lélegra lífskjara almennings. Einnig má sjá einkenni lýðhygli í ýmsum Evrópuríkjum, jafnvel hér á landi. Núverandi stjórnarfar í Bretlandi og Bandaríkjunum ber merki lýðhygli.
Í stjórnmálafræði hefur lýðhygli verið skilgreind á eftirfarnadi hátt. Í fyrsta lagi er gerður greinarmunur á eigin „þjóð“ og einstaklingum af öðru þjóðerni. Það er þá breytilegt frá einu landi til annars hvernig „þjóðin“ er skilgreind en oft er brugðið á það ráð að finna hópa sem ekki tilheyra þjóðinni og kenna þeim um vandamál hennar. Í Bretlandi er þá talað um innflytjendur frá Evrópu, í Bandaríkjunum um innflytjendur frá Mexíkó og Miðausturlöndum, o.s.fr. Þannig er eitt megineinkenni lýðhygli að skilgreina baráttu á milli „okkar“ og „hinna“, hverjir svo sem það eru. Í öðru lagi er áhersla ekki lögð á stjórnmálaflokk sem samtök fólks heldur er leiðtogi flokksins í hávegum hafður og vilji hans er vilji flokksins og skilgreinir hagsmuni þjóðar. Repúblikanaflokkurinn er þannig fallinn í skuggann af leiðtoga sínum og hið sama má segja um breska Íhaldsflokkinn. Í þriðja lagi er gert lítið úr alþjóðlegu samstarfi og alþjóðastofnunum. Þess í stað er fullyrt að þjóðin geti gert betur ef hún dregur sig út úr þeim án þess að það sé útskýrt nánar. Einnig er mörgum innlendum stofnunum sýnd vanvirðing; fjölmiðlum, fjármálakerfi, háskólum, og sömuleiðis viðteknum staðreyndum eins og um hagkvæmni utanríkisviðskipta, mikilvægi aðahalds í ríkisfjármálum eða hlýnun jarðar. Það er hyggjuvitið sem ræður en ekki skoðanir og niðurstöður fræðinga.
Eitt einkenni til viðbótar er að skilgreina „elítu“ fólks innan lands og fara gegn henni og ráðum hennar. Þetta geta verið stjórnmálamenn í hefbundnum flokkum, embættismenn, vísindamenn, bankamenn o.s.fr. Gefið er í skyn að almenningur geti tekið betri ákvarðanir og skynsamlegri, það sé heilbrigð skynsemi almennings sem trompi sérfræðingum. Þannig sagði Michael Gove, einn foringi íhaldsmanna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu úr ESB að almenningur væri búinn að fá nóg af sérfræðingum.
Populískir stjórnmálamenn leggja áherslu á bein tengsl við kjósendur. Þeir vilja fremur þjóðaratkvæðagreiðslur en fulltrúalýðræði og nýta sér gjarnan nýja tækni til þess að ná tengingu við kjósendur. Á 19. öld notuðu þeir lestir til þess að ferðast á milli borga og bæja í Bandaríkjunum, fasistar á 20. öld lögðu áherslu á að allir ættu útvarp og Bandaríkjaforseti sendir fjölda Twitter skeyta á hverjum degi.
Það sem gerir lýðhygli frábrugðna þeim viðbrögðum stjórnmálastéttarinnar á 19. öld sem lýst var hér að ofan er að erfitt er að sjá hvernig hún getur örvað hagvöxt, bætt lífskjör, jafnað tækifæri, skapað efnahagslegt öryggi o.s.fr. Hún er einnig hættuleg vegna þess að ekki er lögð áhersla á mannréttindi, viðskiptafrelsi, frumkvæði einstaklinga, lög og rétt, heldur er áherslan á beitingu ríkisvalds í þágu „þjóðarhagsmuna“ eins og fámennur hópur skilgreinir þá.
Stjórnmál í anda lýðhygli auka sundrungu í samfélögum með því að skilgreina suma hópa fólks sem óvini, þ.e.a.s. mismuna fólki, og kæfa þær raddir sem ekki henta stjórnvöldum meö þeim rökum að einungis ríkisstjórnin viti hverjir hagsmunir þjóðar séu. Þegar illa gengur er öðrum kennt um.
Boris og Donald
Það eru fá betri dæmi um populista en núverandi forseti Bandaríkjanna. Stjórnmálabarátta hans snýst mikið til um eigin persónu, hann grefur undan alþjóðasamstarfi, segir innflytjendum að fara heim, og vill setja Bandaríkin ofar öllum öðrum þjóðum. Hann gagnrýnir fjölmiðla, viðurkennir ekki staðreyndir og reynir kerfisbundið að laska alþjóðastofnanir eins og ESB og NATO. Halli á ríkissjóð Bandaríkjanna er nú um 1.000.000.000.000 Bandaríkjadala eða ein trilljón dollara í uppsveiflu efnahagslífs, sem mun gera viðbrögð við næstu kreppu erfið, og tollar eru hækkaðir og lækkaðir á víxl til þess að eyða viðskiptahalla Bandaríkjanna sem stafar þó fyrst og fremst af ónógum sparnaði þjóðarinnar sjálfrar, þar með miklum halla á rekstri ríkissjóðs.
Boris gengur ekki eins langt en byggir mestan sinn málflutning á útgöngu Breta úr ESB. Eftir kosningasigurinn segir hann að ríkisstjórn sín verði „stjórn fólksins“ sem ber sterkan keim af lýðhygli.
Vandinn við stjórnmál þeirra félaga er sá að ekki er líklegt að stjórnarstefnan bæti almenna velferð og skapi sátt. Þvert á móti er óánægja stórra hópa kjósenda notuð til þess að búa til enn meiri sundrungu og heift án þess að neinar lausnir séu í boði. Staðreyndin er sú að innflytjendur hafa eflt bæði efnahagslíf Bretlands og Bandaríkjanna. Sjúkrahús í Bretlandi gætu ekki verið án innflytjenda frá Evrópu og þessir innflytjendur eru máttarstólpinn í mörgum öðrum greinum. Lágar tekjur í Norður Englandi stafa ekki af því að störf hafi flust til meginlands Evrópu, þvert á móti er iðnaður drifinn áfram af fjárfestingu evrópskra fyrirtækja (bílaiðnaður gott dæmi) og aðgangi að sameiginlegum markaði Evrópu. Og ekkert af því sem ríkisstjórn Boris Johnson setur í stefnuyfirlýsingu sína væri ekki einnig hægt að framkvæma innan ESB. Það er hægt að fjölga lögreglumönnum innan aðildarríkja sambandsins, verja meira fé í sjúkrahús og herða refsidóma fyrir hryðjuverk. En í málflutningi forsætisráðherrans eru þessi mál tengd við brotthvarf úr ESB þótt í raun sé tengingin engin. Stjórnmál eru blekkingarleikur.
Lokaorð
Bretland hefur áður þurft að kljást við afleiðingar ójöfnuðar, efnahagslegs óöryggis og erlendrar samkeppni. Með aðgerðum stjórnvalda á 19. og 20. öld tókst að koma á meiri sátt en nú er hættan sú að stjórnvöld verði til þess að magna ósætti með því að kljúfa þjóðina niður eftir þjóðerni (Skotar á móti Englendingum, Norður Írar á móti Norður Írum), aldurshópum og búsetu án þess að hafa lausnir á þeim vandamálum sem nauðsynlegt er að leysa, jafna tækifæri og minnka fátækt í þeim héruðum sem verst eru sett.
En nú getur verið að Boris Johnson vendi kvæði sínu í kross og taki upp hefðbundnari gildi og áherslur íhaldsmanna um viðskiptafrelsi, minna regluverk, traust lagaumhverfi, hallalaus fjárlög og efnahagslíf þar sem frumkvöðlar þrífast og hætti að deila og sundra, svíkja og blekkja. Hann gæti bætt við því markmiði að jafna tækifæri svo að möguleikar fólk fari ekki jafnmikið eftir ríkidæmi og menntun foreldra eins og nú er. Þá mundi hagur Bretlands vænkast. Fyrr mun ekki koma í ljós hvort hann er skúrkur eða stórmenni.
Donald Trump mun hins vegar ekki breytast.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu. Hægt er að gerast áskrifandi hér.