Þingmenn Vinstri grænna gerðu ýmsar athugasemdir við
þingsályktunartillögu að rammaáætlun er hún var lögð fram árin 2016 og 2017. Bentu
þeir á að „algerlega fráleitar“ tveggja til þriggja áratuga gamlar
virkjunarhugmyndir væri m.a. þar að finna sem og hugmynd að nýrri virkjun,
Skrokköldu, sem yrði innan marka hálendisþjóðgarðs sem flokkurinn hafði lagt til að komið yrði á laggirnar. „Það fer engan veginn saman,“ sagði Rósa Björk
Brynjólfsdóttir og Katrín Jakobsdóttir velti því fyrir sér hvort Skrokköldu
ætti ekki að taka út fyrir sviga, setja í biðflokk, á meðan „þau áform væru til
skoðunar að stofna miðhálendisþjóðgarð“.
Vildi allar virkjanahugmyndir á hálendi í verndarflokk
Í umsögn Landverndar um tillöguna árið 2017 lagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þá framkvæmdastjóri samtakanna, sérstaka áherslu á að allar virkjunarhugmyndir inni á miðhálendi Íslands færu í verndarflokk og að þar yrði stofnaður þjóðgarður. Þá taldi hann ekki nægar forsendur fyrir því að flokka svo margar virkjunarhugmyndir í orkunýtingarflokk líkt og tillagan gerir ráð fyrir.
Guðmundur Ingi er nú orðinn umhverfisráðherra og ætlar að leggja þessa sömu tillögu fram á þingi í febrúar. Þar sem hún verður lögð fram í óbreyttri mynd fer hún ekki í umsagnarferli á nýjan leik. Í þeim mánuði gerir hann einnig ráð fyrir því að leggja fram frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs.
Tillagan lögð fram í þriðja sinn
Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þriðji áfangi svonefndrar rammaáætlunar, var fyrst lögð fram á þingi árið 2016 er Sigrún Magnúsdóttir, Framsóknarflokki, var umhverfisráðherra. Tillagan var samhljóma þeirri niðurstöðu sem verkefnastjórn áætlunarinnar hafði sett fram. Sigrún mælti fyrir tillögunni 13. september 2016 og var henni daginn eftir vísað til umfjöllunar í atvinnuveganefnd.
Sigrún sat í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem var mynduð eftir þingkosningar árið 2013. Í kjölfar Panama-skjalanna sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra af sér, og þingkosningum sem fara áttu fram vorið 2017 var flýtt til haustsins 2016. Rúmum mánuði eftir að Sigrún mælti fyrir tillögunni var því kosið og í kjölfarið mynduðu Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð ríkisstjórn.
Í lok febrúar árið 2017 var tillagan svo endurflutt af Björt Ólafsdóttur, Bjartri framtíð, sem þá var umhverfisráðherra. Hún var rædd og svo vísað til annarrar umræðu og til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.
Úr stjórnarandstöðu í stjórn
Ríkisstjórnin sem Björt sat í var hins vegar ekki langlíf. Hún sprakk í september þetta sama ár í kjölfar mála vegna uppreistar æru kynferðisbrotamanna. Kosningar voru haldnar 28. október. Eftir þær var núverandi ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mynduð og Guðmundur Ingi tók við sem umhverfisráðherra.
Þingmenn VG og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, sem höfðu haft margvíslegt út á tillögu að rammaáætlun að setja, voru þar með komin í nýja stöðu: Orðnir ráðherrar og þingmenn í ríkisstjórn.
Hálendisvirkjun og þrenna í Þjórsá í nýtingarflokk
Í rammaáætlun eru virkjunarkostir, samkvæmt lista Orkustofnunar, flokkaðir í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk, allt eftir því hvort lagt er til að viðkomandi landsvæði, þar sem virkjunarkostinn er að finna, verði mögulega tekið undir virkjunarframkvæmd, verði verndað gegn orkuvinnslu eða hvort skoða þurfi viðkomandi kost og landsvæði betur.
Núgildandi áætlun, 2. áfangi, var samþykkt á Alþingi í janúar árið 2013. Verkefnastjórn, sem umhverfisráðherra skipar, hefur umsjón með vinnu að áætluninni, sækir ráðgjöf til faghópa og leitar álits hagsmunaaðila. Verkefnastjórn 3. áfanga var skipuð í mars 2013 og endanlegar tillögur hennar, um flokkun 82 virkjanakosta, voru afhentar umhverfisráðherra í ágúst 2016. Síðan eru liðin rúmlega þrjú ár og sjö ár eru síðan núgildandi áfangi var samþykktur.
Samkvæmt tillögunni, sem nú stendur til að leggja fram í þriðja sinn, er lagt til að Skrokkalda, virkjun sem Landsvirkjun fyrirhugar að reisa á miðhálendinu, fari í nýtingarflokk. Einnig er lagt til að tvær nýjar virkjanir í Þjórsá, Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun, fari í þann flokk, svo dæmi sé tekið. Þá eru í biðflokki hugmyndir á borð við virkjun Hafralónsár í Þistilfirði og Hofsár í Vopnafirði. Um allar þessar hugmyndir höfðu þingmenn VG ýmsar efasemdir er þeir voru í stjórnarandstöðu.
Katrín: Eðlilegt að setja Skrokköldu í biðflokk
Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra, hafði m.a. áhyggjur af Skrokkölduvirkjun. Spurði hún bæði Sigrúnu og Björt út í hvernig þeim fyndist sú virkjun passa við hugmyndir um hálendisþjóðgarð. Sagðist hún helst vilja sjá að Skrokkalda yrði „tekin út fyrir sviga“ á meðan áform um þjóðgarð væru til skoðunar.
„Því hefur verið haldið fram í umræðunni að umhverfisáhrifin af Skrokkölduvirkjun séu óveruleg þegar kemur að því hvernig hún fellur að landslagi og öðru slíku,“ sagði Katrín úr ræðustól Alþingis í mars 2017. „En það breytir því ekki að hún er innan þeirra marka þar sem við höfum viljað sjá miðhálendisþjóðgarð. [...] Skrokkalda er innan þeirrar línu. Ég hefði helst viljað sjá, sérstaklega í ljósi stjórnarsáttmálans þar sem talað er fyrir vernd miðhálendisins, sem er mikilvæg yfirlýsing, að Skrokkalda væri nú tekin út fyrir sviga út frá þeim sjónarmiðum að eðlilegt væri að setja hana í bið á meðan þau áform væru til skoðunar að stofna miðhálendisþjóðgarð.“
Í annarri ræðu ítrekaði hún þessi sjónarmið sín og sagði: „Skrokkalda og málamiðlanir. Vissulega þekkjum við þær öll. En þá má spyrja, í ljósi yfirlýsinga um friðun og vernd miðhálendis, sem er auðvitað gríðarlega stór pólitísk stefnumörkun, hvort ekki sé eðlilegt, því að það er enginn að leggja til, eða ég var að minnsta kosti ekki að gera það endilega, að setja Skrokköldu í verndarflokk, en ég velti fyrir mér hvort þau pólitísku stefnumið sem hafa verið viðruð séu ekki nægjanleg ástæða til þess að Skrokkalda sé sett í biðflokk og hún metin út frá því hver niðurstaðan verður af þeirri stefnumótun sem boðuð hefur verið. Að sjálfsögðu þurfum við líka að horfa til þess [...] að nýtingarflokkinn getum við kallað að einhverju leyti óafturkræfan, sem ekki á við um aðra flokka í þessu.“
Árið 2016 í umræðu um tillöguna sem Sigrún mælti fyrir benti Katrín á að vinna við að skoða stofnun hálendisþjóðgarðs væri hafin í umhverfisráðuneytinu. „En segjum sem svo að hæstvirtur ráðherra komist á þá skoðun, þegar nefndarvinnu í hennar ráðuneyti er lokið, um að hér eigi að setja á laggirnar þjóðgarð. [...] Eigum við þá á sama tíma að ákveða að setja þessa virkjun í nýtingarflokk og hvernig fer það saman við þá vinnu?“
Svandís: Skrokkalda í nýtingarflokki truflar áform um hálendisþjóðgarð
Svandís Svavarsdóttir velti því sama fyrir sér árið 2017. „ Ég held að það hljóti að vera partur af því sem þingið tekur til skoðunar, að minnsta kosti að það sé ekki þannig að við missum, ef svo má að orði komast, Skrokköldu í nýtingarflokk sem verður þá til þess að trufla áform um miðhálendisþjóðgarð.“
Sagði Svandís að það væri hennar skoðun að það væri „algjörlega nóg komið af nýtingu náttúrusvæða í þágu orkuvinnslu, það er það.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði svo m.a.: „Og það er líka mjög áhugavert sem háttvirtur þingmaður Svandís Svavarsdóttir benti á rétt áðan varðandi Skrokköldu og fyrri fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að hefja vinnu við undirbúninginn á vernd miðhálendisins. Það fer engan veginn saman.“
Svandís vildi virkjanir Þjórsár í biðflokk
Árið 2012, er Svandís var umhverfisráðherra, var lögð fram tillaga að 2. áfanga rammaáætlunar. Í henni var ekki að fullu farið eftir tillögum verkefnisstjórnar og nokkrar virkjanahugmyndir færðar úr nýtingarflokki í biðflokk, þeirra á meðal Skrokkalda og þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Tillagan var samþykkt en tveimur árum síðar lagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sem þá var orðinn umhverfisráðherra, til að Hvammsvirkjun í Þjórsá færi í nýtingarflokk og var það samþykkt.
Í umræðum um rammaáætlun á þinginu 2017 velti Svandís líka upp stórum siðferðilegum spurningum og vitnaði til orða samflokks manns síns, Steingríms J. Sigfússonar, hvort núlifandi kynslóð hefði yfir höfuð umboð eða leyfi til þess að taka ákvarðanir um nýtingu langt fram í tímann. „Erum við kynslóðin sem tökum okkur bæði það bessaleyfi að ryðja íslensku samfélagi fram af bjargbrúninni í sögulegu efnahagshruni og takast á við öll þau boðaföll sem því fylgdi og taka svo líka bara landið eins og það leggur sig og leggja rúðustrikað blað yfir það og ákveða hvað má vernda og hvað á ekki að vernda? Við tökum býsna mikið til okkar, okkar kynslóð. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að íhuga hvað í því felst.“
Steingrímur: Gamlar og fráleitar hugmyndir
Steingrímur J. Sigfússon hafði margt út á tillöguna að setja í ræðu sem hann flutti. Helst var það biðflokkurinn sem hann gerði athugasemdir við. „[É]g er afar ósáttur við framgöngu Orkustofnunar hvað varðar viðleitni til að troða eiginlega öllum mögulegum, hugsanlegum virkjunarkostum inn í vinnu verkefnisstjórnar, sem að mínu mati eiga þangað ekkert erindi. [...] Það er á grundvelli tillagna frá Orkustofnun sem þar eru t.d. inni í biðflokknum að mínu mati algerlega fráleitar tveggja til þriggja áratuga gamlar virkjunarhugmyndir, eins og [...] virkjun Hafralónsár [...] sem eyðileggur fjórar laxveiðiár í einu til að skafa upp ein 20–30 megavött með skurðum og lónum þvert yfir heiðar. Hofsárvirkjun, hvað eru menn að pæla? [...] Hvernig dettur mönnum þetta í hug, að vera þarna undir með Hofsá, eina mestu perlu landsins í hópi bergvatnsáa og laxveiðiáa, Vatnsdalsá og Hafralónsá.“ Sagði hann verkefnisstjórnina sem „betur fer“ hafa sett þessar hugmyndir í biðflokk „en það á ekki einu sinni heima þar því að þetta eru perlur sem á að láta í friði.“
Taldi virkjarnir í Þjórsá hafa veruleg áhrif og röskun í för með sér
En svo eru aðrir hlutir sem „eru manni þungbærir,“ sagði Steingrímur og nefndi þá virkjanir í Þjórsá og Skrokköldu. „Það viðkvæma við [Skrokköldu] er hvað hún er langt inni í landinu, inni á sjálfu miðhálendinu og kemur þar með beint inn í hugmyndir um stóran og myndarlegan íslenskan miðhálendisþjóðgarð.“
Þá taldi hann „algerlega ótímabært“ að færa Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun úr bið í nýtingarflokk. Hafði hann sérstakar áhyggjur af laxastofninum sem þar væri að finna og sagði frekari rannsókna þörf. Hann nefndi einnig að virkjanirnar myndu líka hafa veruleg áhrif og röskun í för með sér í byggð, í nærumhverfinu sem og mikil félagsleg og menningarleg áhrif. „Ég tel mjög sterk rök fyrir því að þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, ef við gefum okkur að Hvammsvirkjun sé afgreidd með síðustu afgreiðslu á rammaáætlun, að hinar tvær þá að minnsta kosti færu í bið en helst auðvitað allar þrjár.“
Guðmundur Ingi: Ómetanleiki hálendis
Guðmundur Ingi, núverandi umhverfisráðherra, skrifaði eins og fyrr segir undir umsögn Landverndar um tillögur að rammaáætlun árið 2017. Þar sagði m.a. um Skrokköldu og stækkun Blönduvirkjunar: „Virkjunarhugmyndirnar eru inn á miðhálendinu og virkjun þeirra myndi eyðileggja hið sérstaka mikilvægi og ómetanleika hálendisins sem einnar heildar og skaða almannahagsmuni, þrátt fyrir að rask sé þegar til staðar á báðum svæðunum.“
Í samtali við Kjarnann fyrr í vikunni sagði hann að tillagan sem hann mun leggja fram óbreytta í febrúar væri „klárlega málamiðlun“. Í drögum að frumvarpi um hálendisgarð, sem hann stefnir á að leggja fram á þingi fljótlega, er lagt til að innan hans verði leyfðar þær virkjanir sem verði í nýtingaflokki 3. áfanga rammaáætlunar. Áfram yrði svo opið fyrir þann möguleika að virkjanir í biðflokki færist yfir í orkunýtingarflokk og komi þar með til framkvæmda síðar meir.
Í báðum tilvikum yrðu skilyrði fyrir nýjum virkjunum innan garðsins þó strangari en þau eru almennt í dag.