Óverðtryggð lán sem íslenskir bankar veittu með veði í húsnæði jukust um 80 milljarða króna í fyrra. Alls fór heildarumfang þeirra úr því að vera 289 milljarðar króna í 369 milljarðar króna. Það er aukning upp á tæp 28 prósent.
Á sama tíma drógust verðtryggð lán sem bankarnir eiga saman um 27,3 milljarða króna. Ástæðan fyrir því er meðal annars að finna í að Íbúðalánasjóður ákvað að kaupa 50 milljarða króna safn af verðtryggðum lánum af Arion banka og átti sú sala sér stað í september 2019. Ef lánasafnið hefði ekki verið selt til Íbúðalánasjóðs, sem hefur dregið sig mjög saman á útlánamarkaði á undanförnum árum og lánar einungis verðtryggt, hefði verið aukning á verðtryggðum lánum íslensku bankanna.
Hlutfallið á útlánum banka til húsnæðiskaupa fór því úr að vera 69 prósent verðtryggð lán og 31 prósent óverðtryggð í árslok 2018 í að vera 62 prósent verðtryggð og 38 prósent óverðtryggð.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands um stöðu bankakerfisins á Íslandi.
Aukning í óvertryggðu hjá lífeyrissjóðum
Lífeyrissjóðir landsins eru hinn stóri aðilinn á útlánamarkaði. Þeir bjóða upp á mun betri vaxtakjör en bankarnir en á móti eru mun færri sem uppfylla lántökuskilyrði hjá þeim. Á mannamáli þýðir það að lífeyrissjóðirnir lána lægra lánshlutfall, lægri hámarksupphæð og setja þrengri skorður gagnvart hverjum þeir lána. Lægstu vextirnir sem eru í boði hjá lífeyrissjóðum eru hjá Birtu, sem lánar verðtryggt á 1,69 prósent breytilegum vöxtum, en þar er hámarkslánið reyndar 65 prósent af kaupverði. Til samanburðar býður Landsbankinn best í þeim lánaflokki af öllum bönkunum, 3,2 prósent vexti upp að 70 prósent af kaupverði. Vextir þess banka sem býður best eru því næstum tvisvar sinnum hærri en vextir þess lífeyrissjóðs sem er með lægstu vextina.
Í lok nóvember 2019 höfði þeir lánað 409 milljarða króna í verðtryggð lán til sjóðsfélaga en um 110 milljarða króna í óverðtryggðu. Hlutfallið hjá þeim var því þannig að 21 prósent útlána lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga voru óverðtryggð en 79 prósent verðtryggð.
Alls jukust óverðtryggð lán lífeyrissjóða um 37,5 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins í fyrra en verðtryggðu lánin um 15,8 prósent. Þótt verðtryggðu lánin séu enn mikill meirihluti útlánanna þá er ljóst að þau óverðtryggðu sóttu í sig veðrið.
Athyglisverð þróun
Útlánaaukning lífeyrissjóðanna er athyglisverð af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að það hægði verulega á hækkun húsnæðisverðs í fyrra, en vísitala kaupverðs alls íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,2 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2019. Til samanburðar hækkaði húsnæðiverðið um 13,6 prósent á árinu 2017 og 5,8 prósent á árinu 2018.
Í öðru lagi þá var umtalsverð verðbólga í lok árs 2018 og í byrjun árs 2019 og reis hæst í desember 2018 þegar hún var 3,7 prósent. Verðbólga hefur veruleg áhrif á lánakjör fjölda Íslendinga þar sem flestir þeirra eru með verðtryggð lán. Þegar leið á árið í fyrra lækkaði verðbólgan hins vegar skarpt og í desember 2019 mældist hún tvö prósent, vel undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.
Í þriðja lagi hafa stærstu lífeyrissjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi allir reynt að draga úr eftirspurn eftir sjóðsfélagalánum hjá sér með því að þrengja lánaskilyrði og hækka vexti hjá sér.
Lántakendur sjóða að leita aftur í verðtryggt
Í október 2019 gerðist það í þriðja sinn í sögu íslenska lífeyrissjóðakerfisins að sjóðsfélagar tóku meira að láni óverðtryggt en verðtryggt. Í hin tvö skiptin, í desember 2018 og í janúar 2019, hafði verðbólga hækkað nokkuð skarpt og var á bilinu 3,4 til 3,7 prósent, eftir að hafa verið að mestu undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014. Í október var hún hins vegar 2,8 prósent og spár gerðu ráð fyrir að verðbólgan myndi fara við og jafnvel undir 2,5 prósent verðbólgumarkmið í nánustu framtíð. Það gerðist síðan, líkt og áður sagði, í desember þegar skörp lækkun skilaði verðbólgunni niður í tvö prósent.
Þessar væntingar skiluðu því að algjör viðsnúningur varð í lántökum sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna á ný. Alls voru 65 prósent nýrra útlána í nóvember 2019 verðtryggð.