EPA

Nokkrar jákvæðar fréttir í miðjum faraldri kórónuveiru

Ógnvekjandi fréttir dynja á okkur þessa dagana. Þeim ber að taka alvarlega. En það finnst vonarglæta inn á milli talna um dauðsföll og útbreiðslu veirunnar skæðu.

Yfir hálf milljón manna hefur nú greinst með nýju kórónuveiruna og staðfest dauðsföll af völdum COVID-19 eru yfir 24 þúsund. Faraldurinn er enn í miklum vexti í Bandaríkjunum, á Ítalíu, Spáni og víðar. Og ástandið á eftir að versna áður en það batnar.

En er ekki eitthvað jákvætt að frétta – og þá erum við ekki að tala um jákvæðar niðurstöður úr sýnatökum?

Jú, sitt hvað vitum við nú sem við vissum ekki fyrir nokkrum vikum og mánuðum. Og það er vissulega jákvætt. Hundruð milljóna manna vinna nú heima – sem getur haft góð áhrif á ýmsa þætti tilverunnar.

En byrjum á faraldrinum sjálfum. Má sjá einhver jákvæð teikn? Finnst einhver vonarglæta inn á milli frétta um hraða útbreiðslu veirunnar?

Flestir þeir sem fá COVID-19 ná sér

Vísbendingar eru um að 99% þeirra sem sýkjast nái bata. Sumir sem veikjast finna ekki fyrir  einkennum. Og þó að tölur um dauðsföll hækki dag frá degi er á þessari stundu talið að dánartíðnin sé um eða undir einu prósenti, skrifar læknirinn Robert H.Shmerling, sem starfar hjá Harvard-háskóla. Dánartíðnin virðist því, miðað við fyrirliggjandi gögn, vera mun lægri en í MERS-faraldrinum (34%) eða í SARS-faraldrinum (um 11%). COVID-19 er hins vegar skæðari heldur en árstíðabundin inflúensa þar sem dánartíðnin er um 0,1 prósent að meðaltali.

Fréttir hafa m.a. borist af því að 103 ára kona í Kína hafi náð sér eftir veikindin. Sagt er að hún hafi ekki neina alvarlega undirliggjandi sjúkdóma þrátt fyrir háan aldur. 

Barn í sóttkví í Þýskalandi leikur sér að því að líma regnboga á gluggann.
EPA

Börn virðast sjaldan smitast 

Langflestir sem hafa greinst með veiruna eru á fullorðinsaldri. Börn sem hafa sýkst finna yfirleitt væg einkenni. Engu að síður er mikilvægt að muna að börn geta sýkst og þau geta, fræðilega séð, einnig borið smit í aðra, þó að þau finni sjálf ekki fyrir einkennum. Það er þó ekki talin megin smitleið manna á milli.

Við vitum hvernig er hægt að hægja á útbreiðslu

Almenningur getur dregið úr smithættu með sóttvörnum á borð við ítrekaðan og góðan handþvott með sápu og heitu vatni í að minnsta kosti 20 sekúndur í einu. Veiran kemst inn í líkamann um öndunarfæri og því er gagnlegt að reyna að hætta að snerta á sér andlitið.

Félagsforðun, þ.e. að halda sig frá mannamótum og að halda fjarlægð frá þeim sem maður hittir, dregur einnig úr smithættu.

Við vitum líka að það virðist borga sig að skima rækilega fyrir veirunni, rekja smit og einangra sýkta. Það gerði Suður-Kórea meðal annars og með að því er virðist góðum árangri.

Til að verja sjálfan sig fyrir smiti er nauðsynlegt að þvo hendur oft og vel og gott er að nota spritt þess á milli.
EPA

Tilfellum fækkar þar sem faraldurinn kom fyrst upp

Framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar segir margt benda til þess að faraldurinn sé í rénun í Kína og Suður-Kóreu. Ef tölur um þróun nýrra smita í þessum löndum eru réttar hefur tilfellum fækkað hratt síðustu daga. Bæði þessi lönd gripu til harðra aðgerða til að hemja útbreiðsluna. Sömu sögu er að segja frá Singapúr, Taívan og Hong Kong.

Viðbrögð við faröldrum framtíðar ættu að batna

COVID-19 hefur sýnt að ríki heims eru mörg hver illa undirbúin fyrir faraldra af þessari stærðargráðu. Í kjölfar hans er hins vegar tækifæri til að stilla saman strengi, gera áætlanir sem miða að því að bregðast mun hraðar við.

Sjáum hvað setur í þeim efnum.

Auglýsing

Unnið er að gerð bóluefnis

Vísindamenn vinna nú hörðum höndum að þróun bóluefnis. Því ferli er ekki hægt að flýta mikið og það mun því mögulega ekki koma á markað fyrr en eftir marga mánuði, jafnvel 1-2 ár.

Ítarlegar rannsóknir eru fram undan og svo prófanir til að ganga úr skugga um öryggi efnisins. Þegar eru hafnar prófanir í Kína og í Seattle í Bandaríkjunum.

Heiður himinn yfir London við upphaf hertra aðgerða í Bretlandi þar sem öllum er nú sagt að vera heima.
EPA

Jörðin fær hvíld

Samdráttur í framleiðslu hefur skaðleg áhrif á hagkerfi heimsins eins og þau eru í dag. En á honum eru þó jákvæðar hliðar: Mengun minnkar. Á fyrstu mánuðum ársins dróst útblástur koltvíoxíðs í Kína saman um 25% miðað við sama tímabil í fyrra. Vísindamenn við Stanford-háskóla hafa reiknað út að hreinna loft í Kína gæti bjargað um 77 þúsund mannslífum.

Sama má segja um samgöngur. Verulegur samdráttur hefur orðið í flugi og færri nota einkabílinn. Það leiðir einnig til minni útblásturs.

Þjóðir hjálpast að

Þjóðverjar eru farnirað taka á móti alvarlega veiku fólki frá Frakklandi og Ítalíu þar sem faraldurinn er skæðari en í Þýskalandi.

Kínverjar hafa boðið öðrum löndum aðstoð. Þeir hafa sent lækna sína til annarra landa sem og hlífðarbúnað, svo sem andlitsgrímur.

Á netinu er að finna mikið úrval af jógaæfingum og fleiru sem auðveldlega er hægt að gera heima í stofu.
EPA

Sóttkví þarf ekki að vera einangrandi

Á Íslandi eru yfir 10 þúsund manns í sóttkví og tæplega 800 í einangrun. Fleiri milljónir manna um allan heim eru í sömu sporum. Það er gott að muna að um sameiginlegan vágest er að ræða; við erum öll í þessu saman.

Margir hafa verið mjög hugmyndaríkir þegar kemur að því að vera heima meira en áður og gæta þess að sinna heilsunni.

Á þessum tímum internetsins er líka auðveldara að rjúfa einangrunina. Það er hægt að spjalla við vini og ættingja, úrvalið af heimaæfingum á YouTube er nær endalaust, það er líka hægt að velja úr ógrynni hljóð- og rafbóka að lesa og það þarf varla að nefna allar kvikmyndirnar og sjónvarpsþættina sem flestir hafa aðgang að.

Nú er rétti tíminn til að skemmta sér yfir góðu spili.
EPA

Nú eru dæmi um að saumaklúbbar hittist á ZOOM, í appi þar sem margir geta spjallað saman í einu í mynd. Aðrir hafa farið „á barinn“ með félögunum á Messenger. Og svo mætti áfram telja.

Á Facebook má sjá að Íslendingar eru farnir að huga að kryddjurtum nú þegar sólin hefur hækkað á lofti, aðrir eru að taka til í geymslunni (sem hefur staðið til lengi en alltaf setið á hakanum) og enn aðrir eru að gera trölladeig með börnunum, púsla eða spila.

Það er þó skiljanlegt að fólk finni fyrir áhyggjum og verði jafnvel kvíðið. Rauði krossinn er bæði með hjálparsíma (1717) og netspjall (1717.is) fyrir þá sem vilja ræða áhyggjur sínar og líðan.

Þetta líður hjá

Við vitum að faraldurinn mun ganga yfir. Ástandið sem nú ríkir er tímabundið. Samkvæmt spálíkani vísindamanna við Háskóla Íslands mun faraldurinn ná hámarki fyrstu vikuna í apríl og um mánaðamótin júní-júlí ætti mest allt að vera um garð gengið.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar