EPA

Nokkrar jákvæðar fréttir í miðjum faraldri kórónuveiru

Ógnvekjandi fréttir dynja á okkur þessa dagana. Þeim ber að taka alvarlega. En það finnst vonarglæta inn á milli talna um dauðsföll og útbreiðslu veirunnar skæðu.

Yfir hálf milljón manna hefur nú greinst með nýju kór­ónu­veiruna og stað­fest dauðs­föll af völdum COVID-19 eru yfir 24 þús­und. Far­ald­ur­inn er enn í miklum vexti í Banda­ríkj­un­um, á Ítal­íu, Spáni og víð­ar. Og ástandið á eft­ir að versna áður en það batn­ar.

En er ekki eitt­hvað jákvætt að frétta – og þá erum við ekki að tala um jákvæðar nið­ur­stöður úr sýna­tök­um?

Jú, sitt hvað vitum við nú sem við vissum ekki fyrir nokkrum vikum og mán­uð­um. Og það er vissu­lega jákvætt. Hund­ruð millj­óna manna vinna nú heima – sem getur haft góð áhrif á ýmsa þætti til­ver­unn­ar.

En byrjum á far­aldr­inum sjálf­um. Má sjá ein­hver jákvæð teikn? Finnst ein­hver von­ar­glæta inn á milli frétta um hraða útbreiðslu veirunn­ar?

Flestir þeir sem fá COVID-19 ná sér

Vís­bend­ingar eru um að 99% þeirra sem sýkj­ast nái bata. Sum­ir ­sem veikj­ast finna ekki fyr­ir  ein­kenn­um. Og þó að tölur um dauðs­föll hækki dag frá degi er á þess­ari stundu talið að dán­ar­tíðnin sé um eða undir einu pró­senti, skrifar lækn­ir­inn Robert H.Sh­merl­ing, sem starfar hjá Harvar­d-há­skóla. Dán­ar­tíðnin virð­ist því, miðað við ­fyr­ir­liggj­andi gögn, vera mun lægri en í MER­S-far­aldr­inum (34%) eða í SAR­S-far­aldr­in­um (um 11%). COVID-19 er hins vegar skæð­ari heldur en árs­tíða­bundin inflú­ensa þar ­sem dán­ar­tíðnin er um 0,1 pró­sent að með­al­tali.

Fréttir hafa m.a. borist af því að 103 ára kona í Kína hafi ­náð sér eftir veik­ind­in. Sagt er að hún hafi ekki neina alvar­lega und­ir­liggj­and­i ­sjúk­dóma þrátt fyrir háan ald­ur. 

Barn í sóttkví í Þýskalandi leikur sér að því að líma regnboga á gluggann.
EPA

Börn virð­ast sjald­an smitast 

Lang­flestir sem hafa greinst með veiruna eru á full­orð­ins­aldri. Börn sem hafa sýkst finna yfir­leitt væg ein­kenni. Engu að ­síður er mik­il­vægt að muna að börn geta sýkst og þau geta, fræði­lega séð, einnig borið smit í aðra, þó að þau finni sjálf ekki fyrir ein­kenn­um. Það er þó ekki talin megin smit­leið manna á milli.

Við vitum hvernig er hægt að hægja á útbreiðslu

Almenn­ingur getur dregið úr smit­hættu með sótt­vörnum á borð við ítrek­aðan og góðan hand­þvott með sápu og heitu vatni í að minnsta kosti 20 ­sek­úndur í einu. Veiran kemst inn í lík­amann um önd­un­ar­færi og því er gagn­legt að ­reyna að hætta að snerta á sér and­lit­ið.

Félags­forð­un, þ.e. að halda sig frá manna­mótum og að halda fjar­lægð frá þeim sem maður hitt­ir, dregur einnig úr smit­hættu.

Við vitum líka að það virð­ist borga sig að skima ræki­lega ­fyrir veirunni, rekja smit og ein­angra sýkta. Það gerði Suð­ur­-Kórea með­al­ ann­ars og með að því er virð­ist góðum árangri.

Til að verja sjálfan sig fyrir smiti er nauðsynlegt að þvo hendur oft og vel og gott er að nota spritt þess á milli.
EPA

Til­fellum fækkar þar sem far­ald­ur­inn kom fyrst upp

Fram­kvæmda­stjóri Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­un­ar­innar segir margt benda til þess að far­ald­ur­inn sé í rénun í Kína og Suð­ur­-Kóreu. Ef töl­ur um þróun nýrra smita í þessum löndum eru réttar hefur til­fellum fækkað hratt ­síð­ustu daga. Bæði þessi lönd gripu til harðra aðgerða til að hemja út­breiðsl­una. Sömu sögu er að segja frá Singapúr, Taí­van og Hong Kong.

Við­brögð við far­öldrum fram­tíðar ættu að batna

COVID-19 hefur sýnt að ríki heims eru mörg hver illa und­ir­búin fyrir far­aldra af þess­ari stærð­argráðu. Í kjöl­far hans er hins veg­ar tæki­færi til að stilla saman strengi, gera áætl­anir sem miða að því að bregðast mun hraðar við.

Sjáum hvað setur í þeim efn­um.

Auglýsing

Unnið er að gerð bólu­efnis

Vís­inda­menn vinna nú hörðum höndum að þróun bólu­efn­is. Því ­ferli er ekki hægt að flýta mikið og það mun því mögu­lega ekki koma á mark­að ­fyrr en eftir marga mán­uði, jafn­vel 1-2 ár.

Ítar­legar rann­sóknir eru fram undan og svo próf­anir til að ­ganga úr skugga um öryggi efn­is­ins. Þegar eru hafnar próf­anir í Kína og í Seattle í Banda­ríkj­un­um.

Heiður himinn yfir London við upphaf hertra aðgerða í Bretlandi þar sem öllum er nú sagt að vera heima.
EPA

Jörðin fær hvíld

Sam­dráttur í fram­leiðslu hefur skað­leg áhrif á hag­kerf­i heims­ins eins og þau eru í dag. En á honum eru þó jákvæðar hlið­ar: Meng­un minnk­ar. Á fyrstu mán­uðum árs­ins dróst útblástur koltví­oxíðs í Kína saman um 25% miðað við sama tíma­bil í fyrra. Vís­inda­menn við Stan­for­d-há­skóla hafa reiknað út að hreinna loft í Kína gæti bjargað um 77 þús­und manns­líf­um.

Sama má segja um sam­göng­ur. Veru­legur sam­dráttur hefur orð­ið í flugi og færri nota einka­bíl­inn. Það leiðir einnig til minni útblást­urs.

Þjóðir hjálp­ast að

Þjóð­verjar eru farnirað taka á móti alvar­lega veiku fólki frá Frakk­landi og Ítalíu þar sem far­ald­ur­inn er skæð­ari en í Þýska­landi.

Kín­verjar hafa boðið öðrum löndum aðstoð. Þeir hafa sent lækna sína til ann­arra landa sem og hlífð­ar­bún­að, svo sem and­lits­grím­ur.

Á netinu er að finna mikið úrval af jógaæfingum og fleiru sem auðveldlega er hægt að gera heima í stofu.
EPA

Sótt­kví þarf ekki að vera ein­angr­andi

Á Íslandi eru yfir 10 þús­und manns í sótt­kví og tæp­lega 800 í ein­angr­un. Fleiri millj­ónir manna um allan heim eru í sömu spor­um. Það er gott að muna að um sam­eig­in­legan vágest er að ræða; við erum öll í þessu sam­an.

Margir hafa verið mjög hug­mynda­ríkir þegar kemur að því að vera heima meira en áður og gæta þess að sinna heils­unni.

Á þessum tímum inter­nets­ins er líka auð­veld­ara að rjúfa ein­angr­un­ina. Það er hægt að spjalla við vini og ætt­ingja, úrvalið af heima­æf­ingum á YouTube er nær enda­laust, það er líka hægt að velja úr ógrynn­i hljóð- og raf­bóka að lesa og það þarf varla að nefna allar kvik­mynd­irnar og sjón­varps­þætt­ina ­sem flestir hafa aðgang að.

Nú er rétti tíminn til að skemmta sér yfir góðu spili.
EPA

Nú eru dæmi um að sauma­klúbbar hitt­ist á ZOOM, í appi þar ­sem margir geta spjallað saman í einu í mynd. Aðrir hafa farið „á bar­inn“ með­ ­fé­lög­unum á Messen­ger. Og svo mætti áfram telja.

Á Face­book má sjá að Íslend­ingar eru farnir að huga að krydd­jurtum nú þegar sólin hefur hækkað á lofti, aðrir eru að taka til í geymsl­unni (sem hefur staðið til lengi en alltaf setið á hak­an­um) og enn aðr­ir eru að gera trölla­deig með börn­un­um, púsla eða spila.

Það er þó skilj­an­legt að fólk finni fyrir áhyggjum og verð­i ­jafn­vel kvíð­ið. Rauði kross­inn er bæði með hjálp­ar­síma (1717) og net­spjall (1717.is) ­fyrir þá sem vilja ræða áhyggjur sínar og líð­an.

Þetta líður hjá

Við vitum að far­ald­ur­inn mun ganga yfir. Ástandið sem nú ­ríkir er tíma­bund­ið. Sam­kvæmt spálík­ani vís­inda­manna við Háskóla Íslands mun far­ald­ur­inn ná hámarki fyrstu vik­una í apríl og um mán­aða­mótin jún­í-júlí ætt­i ­mest allt að vera um garð geng­ið.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar