Í hádeginu í dag höfðu alls 735.560 manns á heimsvísu greinst með COVID-19. Af þeim voru 34.830 manns látin, en 156.380 manns búin að jafna sig, samkvæmt samantekt á vef John Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum. Það þýðir að dánartíðni vegna sjúkdómsins er um 4,7 prósent, sem er ógnvekjandi tala.
En er veiran virkilega svona mannskæð, hlutfallslega? Í raun liggur í augum uppi að svo er ekki, þar sem ótilgreindur hluti þeirra sem fá COVID-19 sýkjast vægt, jafnvel án allra einkenna og fara ekki í próf þannig að smit þeirra ná aldrei inn í opinbera gagnagrunna.
Sem dæmi má nefna að í Þýskalandi hefur verið skimað fyrir veirunni víðar í samfélaginu en í mörgum öðrum ríkjum og þar er dánartíðnin innan við 1 prósent samkvæmt nýjustu tölum, en 455 einstaklingar hafa látist vegna COVID-19 þar í landi af yfir 57 þúsund smituðum.
„Þetta er ný veira og COVID-19 er nýr sjúkdómur sem okkur vantar meiri upplýsingar um,“ sagði Alma D. Möller landlæknir við þjóðina á upplýsingafundi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag. „En það samt allur heimurinn að hjálpast að við að afla þeirra upplýsinga,“ bætti hún við.
Bjartsýnisspá
Upplýsingarnar sem koma fram geta þó verið misvísandi. Rannsókn frá Oxford-háskóla, sem birt var í síðustu viku, vakti töluverða athygli og var niðurstöðum hennar víða slegið upp í fjölmiðlum, enda sögðu vísindamennirnir sem hana unnu að mögulegt væri að yfir helmingur bresku þjóðarinnar væri þegar verið búinn að smitast af COVID-19, án einkenna eða mjög vægt.
Þessum niðurstöðum úr líkaninu við Oxford hefur verið tekið af varfærni og forsendum niðurstöðunnar hreinlega mótmælt af ýmsum sérfræðingum, auk þess sem varað hefur verið við því að framsetningin gæti orðið til þess að bæði einstaklingar og stjórnvöld myndu freistast til að taka óábyrgar ákvarðanir.
Niðurstöðurnar frá Oxford eru enda í nær algjörri þversögn við skýrslu frá rannsakendum við Imperial College í Lundúnum, sem sögðu að ef ekkert yrði að gert mætti búast við því að 500.000 manns létust vegna kórónuveirunnar í Bretlandi og 2,2 milljónir manna í Bandaríkjunum.
Skýrslan frá Imperial College og aðrar svipaðar hafa verið hafðar til hliðsjónar þegar ýmis ríki, þeirra á meðal bæði Bandaríkin og Bretland, ákváðu að herða tilmæli til almennings vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Aðgerðir sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu veirunnar og fletja kúrfuna eru þegar byrjaðar að valda djúpum efnahagslegum þrengingum um nær allan heim, ofan á þær heilsufarslegu hörmungar sem veiran er að valda víða. Eflaust óska sér þess flestir að hægt verði að vinda ofan af hörðum aðgerðum stjórnvalda sem fyrst.
Sennilega of gott til að vera satt
Tim Harford, hagfræðingur og dálkahöfundur hjá Financial Times, er einn þeirra og fjallaði um málið í pistli fyrir helgi. Hann sagði þar að það væri sennilega „of freistandi“ að leggja trú á ályktanirnar frá Oxford, þrátt fyrir að það væri vissulega frábært ef rétt reyndist að meirihluti Breta væri þegar búinn að fá veiruna og því orðinn ónæmur fyrir henni. Það gæti hins vegar varla staðist.
Harford benti á að sýni sem tekin voru úr þeim erlendu ríkisborgurum sem fluttir voru til heimalanda sinna frá Wuhan í Kína þegar faraldurinn geisaði þar í janúar og febrúar hefðu sýnt að einungis lítill hluti hefði verið smitaður og hluti þeirra vissulega einkennalaus, en ekki sá mikli meirihluti sem byggt var á í reiknilíkaninu við Oxford.
Þá nefndi Harford einnig að í bænum Vò á Ítalíu hefðu íbúar ítrekað verið prófaðir fyrir veirunni og þrátt fyrir að um helmingur smitaðra þar hefðu verið án einkenna væri það hlutfall langan veg frá því að standast það sem haldið er fram í Oxford-kenningunni.
Annað dæmi sem dregur bjartsýnustu ályktanirnar úr Oxford-líkaninu í efa eru niðurstöðurnar úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem einungis um 1 prósent þeirra sem hafa komið í sýnatöku hafa reynst smitaðir af veirunni og um helmingur smitaðra án einkenna, rétt eins og í Vò.
Harford segir í pistli sínum að faraldsfræðingar séu að gera sitt besta, en þeir séu þó ekki alltsjáandi. Þeir þurfi staðreyndir og þær fáist ekki nema með því að prófa, prófa, prófa, eins og Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hefur brýnt fyrir ríkjum heims að gera.
Þangað til meira sé vitað með vissu um það hversu skæð veiran er ætti fólk því að hlýða Víði, vera heima og hjálpa til við að fletja kúrfuna og heilbrigðiskerfin að búa sig undir verstu mögulegu sviðsmyndir, þrátt fyrir að mögulega byggi þær á ófullkomnum gögnum.