Svaf á fjörutíu sentímetra löngum steinbít
Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur er komin suður eftir reglubundna vettvangsferð að vetri í friðlandið á Hornströndum. Hún segir okkur sögur af brimsköflum sem skoluðu reiðinnar býsn af sjávarfangi á land svo refirnir urðu saddir og sælir.
Í kjölfar storms og mikils brims í Hornvík á Hornströndum á dögunum fylltist fjaran af nýdauðum steinbít, krossfiskum og öðru sem lifir á sjávarbotni. Þetta reyndist hinn vænsti fengur fyrir refi sem gengu fjörurnar og tíndu upp ferskan fiskinn, báru upp á sjávarkamb og grófu hér og hvar í snjónum.
„Ég hef ekki áður séð viðlíka reka af steinbít eins og gerðist í þessari heimsókn,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur í samtali við Kjarnann. Hún er nýkomin suður eftir 11 daga ferð á Hornstrandir. Ester fer í slíkar ferðir þrisvar á ári ásamt fleirum á vegum Náttúrufræðistofnunar til að kanna viðkomu refa í friðlandinu á Hornströndum. Í fyrrasumar var ástandið með slakasta móti. Óðul voru færri en venjulega, got sjaldgæfari og yrðlingar fáséðari en áður.
En nú gætir aukinnar bjartsýni hjá Ester og félögum.
„Fyrir refi er þetta krítískur tími fyrir dýr sem hafa lifað af veturinn og eru nú að undirbúa fjölgun,“ segir hún. „Þær læður sem eru sæmilega feitar í mars og fá nægilegt æti fram í maí, ættu að geta eignast yrðlinga í vor. Miðað við hvað tímgun gekk illa á síðasta ári þá er von til þess að í ár verði ástand refanna mun betra, jafnvel eins og best getur orðið.“
Hún nefnir dæmi máli sínu til stuðnings: Árið 2014 var slæmt ár hjá refunum í Hornvík og fáir yrðlingar komust á legg. Ári seinna varð mikill sjófugladauði í mars og mikið af sjóreknum fugli í fjörunni. „Í kjölfarið varð vorið 2015 eitt hið besta sem við höfum séð hvað varðar fjölda yrðlinga í víkinni,“ útskýrir hún. „Þetta er gott dæmi um hversu mikilvægt samband er milli fæðuskilyrða að vetri og tímgunarárangurs refa að vori.“
Ester fer í vettvangsferð til Hornvíkur í mars á hverju ári til að athuga með ástand refanna. Í friðlandinu njóta þeir verndar og hefur svo verið allt frá árinu 1994. Hornstrandir eru eitt mikilvægasta griðland tegundarinnar á Íslandi.
Í ár var ferðin farin dagana 15.-25. mars. Fyrstu tvo sólarhringana var vetrarlegt um að litast og bálhvasst og í kjölfarið fylltist fjaran af nýdauðum fiski og fleiru sem refirnir gerðu sér að góðu.
Mjög góðu reyndar.
Ester lýsir því að ein læðan hafi dregið um 40 sentímetra langan steinbít upp á bjarg og sást svo til hennar efst í Miðdal þar sem hún svaf á fengnum. Eftir góðan lúr vaknaði hún, hristi af sér snjóinn og fékk sér vænan bita af fiskinum áður en hún hélt áfram lengra upp, nær bjargbrúninni.
Ester segir að snjókoma hafi verið flesta daga og kafdjúpt fyrir lágfótu að vaða lausamjöllina. Refir eru harðgerð dýr og virtist allt vera með besta móti hjá þeim flestum. Nokkur þeirra voru í tilhugalífinu og ef allt gengur vel má að sögn Esterar eiga von á því að það verði flest, ef ekki öll pör með got í vor, ólíkt því sem gerðist síðasta sumar þegar aðeins um 25% óðalanna í Hornbjargi voru með yrðlinga.
„Refir sem sáust voru í góðu ástandi, einn var reyndar með lélegan feld en þó enn á lífi og mikið á ferðinni,“ segir Ester. „Það sem vakti athygli var að mikið virtist af nýjum dýrum og vantaði nokkur af þeim sem við þekkjum frá fyrra ári og þar á undan. Endurnýjun er eðlileg en við sjáum gjarnan sömu dýrin ár eftir ár, í allt að 5-6 ár. Ekki er alveg ljóst hvort þessi nýju dýr séu ung dýr af svæðinu eða aðkomudýr og það kemur í ljós í vor hvort við munum sjá nýja ábúendur á óðulum í bjarginu.“
Hvað fuglalífið á svæðinu varðar þá var ekki að sjá að bjargfugl væri kominn að björgunum, fyrir utan fýl. Einn daginn birti til, það hlánaði og sjóinn kyrrði. Þann dag komu stórir hópar af ritu inn í víkina en þær voru farnar aftur daginn eftir þegar tók að hvessa og snjóa á ný. Á heimleiðinni þann 25. mars sáust nokkrar langvíur á sjónum utan við Hælavíkurbjarg en oft eru þar hundruð, jafnvel þúsund fuglar á þessum tíma. „Svartfugl var ekki kominn að björgunum og ég myndi telja að þeir séu óvenju seint á ferðinni þó svo það þýði ekki endilega að þeir séu ekki væntanlegir innan tíðar,“ segir Ester.
Að Horni voru nokkrir hrafnar og sáust þeir flestir 14 saman við Skipaklett, við sömu iðju og refirnir, þ.e. að tína í sig nýmetið sem rak á fjörur þeirra. Nokkrir sendlingar voru einnig í fjörunni og létu brimið lítið trufla sig. Ríflega hundrað æðarfuglar sáust á víð og dreif á sjónum, þrír æðarkóngar þar á meðal, tugir af hávellum, nokkrar teistur og toppendur. Nokkrir hvítmáfar kroppuðu í krossfiska sem rak á land í briminu og stöku svartbakar sáust líka. Við húsin að Horni héldu til ríflega 20 snjótittlingar og einn fálki sást á flugi.
„Nokkrir útselir sáust í sjónum meðan mestu brimskaflarnir gengu yfir og síðar voru landselir að reka upp hausinn af og til en einn þeirra lagði sig á steini við Hornána,“ skrifar Ester um ferðina í færslu á Facebook-síðu Náttúrufræðistofnunar.
Henni lýkur hún með þessum orðum: „Má segja að allt gangi með eðlilegum hætti hvað varðar lífríkið á svæðinu, þrátt fyrir heimsfaraldur og samkomubann víðast hvar.“