Refafjölskylda á hrakhólum vegna ferðamanna með stórar myndavélalinsur

Það er eitthvað á seyði meðal refanna í friðlandinu á Hornströndum. Í fyrra voru óðul færri en venjulega, got sjaldgæfari og yrðlingar fáséðari en áður. Þrjár skýringar þykja líklegastar. Ein þeirra snýr að ferðamönnum.

Refur á Hornströndum.
Refur á Hornströndum.
Auglýsing

Í mars benti ekkert til annars en að refirnir á Hornströndum ættu hefðbundið sumar fram undan. Dýrin virtust heilbrigð í tilhugalífinu og eftir norðanrok báru þau í land fugla sem virtust hafa rotast í briminu. Þó svartfugl hafi verið seinn í bjargið var fýll sestur upp og rita komin að björgunum og reiðubúin að setjast upp fljótlega.

Annað átti eftir að koma á daginn.

Viðkoma refa á Hornströndum var með slakasta móti árið 2019. Óðul voru færri en venjulega, got sjaldgæfari og yrðlingar fáséðari en áður. Þetta kemur fram í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um vöktun refa á Hornströndum árið 2019 sem Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur ritar.

Auglýsing

En hvað kom fyrir refina? Að því er fram kemur í skýrslunni beinist grunur að þremur meginþáttum: Auknum áhuga og viðveru ferðamanna við greni á viðkvæmu tímaskeiði, breytingum í fæðuframboði vegna ástandsbreytinga hjá stofnum bjargfugla og í þriðja lagi að mengun fæðu, til dæmis vegna kvikasilfurs.

Eina innlenda landspendýrið

Refur eða melrakki eins og hann er stundum kallaður er eina innlenda landspendýrið á Íslandi. Tegundin er í útrýmingarhættu á hinum Norðurlöndunum. Í íslenska stofninum hefur refum fækkað um 19% á síðustu 15 árum.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur.

Refaveiðar eru stundaðar um allt land. Á Hornströndum hefur refurinn notið friðhelgi allt frá því að villidýralögin svonefndu voru samþykkt árið 1994. Í skýrslunni kemur fram að Hornstrandir séu mikilvægasta griðland tegundarinnar á Íslandi. Refir gegna mikilvægu hlutverki sem toppafræningjar í vistkerfinu þar. Þegar illa gengur hjá þeim getur það bent til hnignunar hjá bráðartegundum.

En á Hornströndum fara fram fáar reglubundnar rannsóknir á náttúru og dýralífi svæðisins fyrir utan vettvangsferðir sem Ester leiðir árlega.

Rannsóknir í þrjá áratugi

Sumarið 1999 var farið á 172 þekkt greni innan friðlands Hornstranda til að athuga með ábúð og skrá staðsetningu grenja. Hluti svæðisins hafði áður verið heimsóttur í sama tilgangi 1992, 1993 og 1998. Ester tók þátt í þessum ferðum og hefur æ síðan einbeitt sér að athugunum á refum á afmörkuðum svæðum innan friðlandsins, mest í Hornvík og nálægum víkum.

Hún leiddi rannsóknarleiðangra um svæðið í mars, júní og ágúst á síðasta ári og er skýrslan byggð á niðurstöðum þeirra ferða. Um ferðina í mars stendur m.a. í skýrslunni:

 „Tvö mórauð dýr sáust strax fyrsta daginn, þau héldu til við húsin að Horni og var þetta sama par og árið áður. Undir lok vikunnar kom svo að því að þau mökuðust, fyrst á sjávarbakkanum við húsin en svo færðist leikurinn niður í fjöru. Þar voru þau föst saman í um það bil 2 klst. og það var snjóbylur allan tímann. 

Eftir mökunina varð gjörbreyting á hegðun beggja dýranna. Hann rölti niður að sjávarmáli, tók upp fiskhaus og fór að éta hann þar en gaf henni ekki með sér. Þau fóru svo einn hring um heimasvæði sitt, upp með Miðfelli, meðfram brúninni til suðurs, svo niður aftur Múlaaxlir og niður að sjó, meðfram fjörunni og aftur upp. Þetta var eins og þau væru að merkja sér svæðið eða láta vita að þau væru búin að staðfesta.“


Í júní var ljóst að vetrarævintýri parsins hefði borið ávöxt og það sást með yrðlinga. En yrðlingar voru hins vegar aðeins í tveimur grenjum í Hornbjargi í stað fimm til sex að jafnaði. Engir yrðlingar voru í Innstadal en þar voru fimm fullorðin dýr saman á óðali sem er mjög óvenjulegt.

Af þeim sjö yrðlingum sem voru á óðalinu í Miðdal í júní voru aðeins fjórir eftir í ágúst. „Hjá parinu á láglendinu að Horni, þar sem voru sex yrðlingar í júní, var einn yrðlingur eftir í ágúst en sú fjölskylda var mjög þaulsetin af ferðamönnum með stórar myndavélalinsur. Voru þau stöðugt á hrakhólum og fluttu sig að minnsta kosti tvisvar um set, líklega vegna truflunar,“ stendur í skýrslunni.

Eitthvað kom upp á

Í skýrslunni kemur fram að erfitt sé að átta sig á því hvers vegna svo fá pör voru með yrðlinga í júní. Í mars hafi ekkert bent til annars en að tímgun yrði með eðlilegu móti, dýrin virtust heilbrigð og fæða næg. „Svo virðist sem eitthvað hafi komið upp á meðan á meðgöngu stóð, frá seinni hluta mars til maíloka.“

„En hvað getur skýrt mikil afföll yrðlinga yfir sumarið?“ spyr skýrsluhöfundur og heldur áfram:

„Á greninu uppi í Miðdal eru búsetuúrræði góð, þar geta yrðlingar falið sig víða og foreldrar þurfa ekki að vera eins mikið á verði ef þeir verða fyrir ónæði. Þau misstu þó þrjá yrðlinga af sjö, þrátt fyrir að hafa stærra óðal og meira svæði til að afla fæðu en áður. Foreldrar yrðlinganna niðri á láglendinu að Horni misstu fimm yrðlinga af sex þrátt fyrir að þau væru bæði harðdugleg við veiðar og að færa björg í bú.“

Hvíti steggurinn á Hesteyri 2017 (t.v) og 2019 (t.h.). Ljósm.: Phil Garcia.

Ester skrifar að ljóst sé að mikið álag hafi verið á þessum dýrum, sérstaklega vegna ljósmyndara sem dvöldu löngum stundum mjög nálægt yrðlingunum. Á þeim 10 árum sem fylgst hefur verið með samskiptum ferðamanna og refa hefur komið í ljós að viðvera fólks við greni getur orðið til þess að mæður mjólka ekki yrðlingum sínum nægilega oft og báðir foreldrar koma sjaldnar heim með fæðu. „Þetta gæti verið ein orsök þess að lífslíkur yrðlinga að sumarlagi eru lágar á þessu svæði.“

Þrjá metra frá greni í tíu klukkutíma

Í skýrslunni er haft eftir fólki sem hefur sumardvöl á svæðinu að síðasta sumar hafi óvenju margir gestir með stórar myndavélarlinsur verið ferjaðir í land. Samkvæmt einni frásögn sem vitnað er til var hópur ljósmyndara í um þrjá metra frá einu greni í tíu klukkustundir samfellt.

Ný stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hornstrandir tók gildi á síðasta ári. Í þeim eru strangar reglur settar þeim sem vinna við gerð heimildamynda um dýralífið. Sækja þarf um leyfi til að kvikmynda nærri greni og þeir sem fá það þurfa að vinna undir eftirliti. „Sömu ströngu reglur þyrftu að gilda fyrir aðra ferðamenn sem augljóslega koma á svæðið til að taka myndir af refum,“ skrifar Ester.  

Birta myndir á samfélagsmiðlum

Haft hefur verið samband við fólk sem hefur birt myndir af refum á Hornströndum á samfélagsmiðlum. Í skýrslunni segir að flestir hafi svarað og lýst því að þeir virði náttúru og dýralíf en átti sig kannski ekki á því að fleiri gætu fylgt þeirra dæmi. Ester bendir á að þær leiðbeiningar sem settar hafa verið leyfi aðgang allt að 40 metra frá greni og viðveru í allt að 40 mínútur. „Ljóst er að þetta er mikil nálægð og langur tími, sérstaklega þegar margir koma í kjölfarið til að sjá sömu dýrin. Þess vegna er mikilvægt að dýrin fái frið yfir kvöld og nætur til að sinna afkvæmum sínum, hvílast  og fara til veiða.“

Í skýrslunni segir einnig að ef neikvæð áhrif mælist áfram meðal refa í Hornvík þurfi að beita öðrum aðferðum en hingað til, „því mikilvægt er að þar sé sannarlega stunduð sjálfbær náttúruskoðun og ferðaþjónusta“. Rík ástæða sé til að koma á heildstæðri vöktun á lífríki og vistkerfum innan Hornstranda. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent