Hugfangin af jöklum og kvikunni sem kraumar undir
Hún gekk í geimbúningi á Vatnajökli og er með gasgrímu og öryggishjálm til taks í vinnunni. Hún heldur sig þó heima þessa dagana enda „verður maður að hugsa um landlækni,“ segir eldfjallafræðingurinn Helga Kristín Torfadóttir, dóttir Ölmu Möller.
Þegar jörð skelfur á Reykjanesi og óvissustigi almannavarna er lýst yfir hækkar spennustigið á annarri hæðinni í vesturenda náttúrufræðahússins Öskju. Óvenjulegt landris og kvikusöfnun á þessum yngsta hluta landsins hefur haldið öllum við efnið frá því í byrjun janúar og einn þeirra vísindamanna sem þar starfar og fylgist með framvindunni er Helga Kristín Torfadóttir, doktorsnemi í eldfjallafræði.
Þessa dagana er hún reyndar að mestu heimavinnandi, eins og svo margir aðrir. Hún býr í foreldrahúsum og þar er jarðfræðin oft til umræðu. En það er neyðarstig á öðrum vígstöðvum hjá fjölskyldunni því móðir Helgu er Alma Möller landlæknir. Fleira en eldgosavá er því rædd við kvöldverðarborðið á því heimili. „Ég held mig mest heima þessa dagana,“ segir Helga, „svo ég sé nú ekki að bera smit í mömmu. Maður verður að hugsa um landlækni.“
Áður en samkomubann var sett á bauð Helga blaðamanni Kjarnans í heimsókn í vinnuna á Jarðvísindastofnun Íslands. Dagana á undan, líkt og síðustu daga, hafði enn ein jarðskjálftahrinan gengið yfir á Reykjanesi.
Hún var á leið á skrifstofu sína sem er inn af rannsóknarstofu Jarðvísindastofnunar þegar Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur og annar leiðbeinandi hennar í doktorsverkefninu, stoppaði hana á ganginum og spurði um „gosnæmi“ og fleira sem hljómar eins og latína í eyrum þeirra sem ekki eru innvígðir í vísindaheiminn. Í hópinn bættist svo prófessorinn Þorvaldur Þórðarson, sem einnig er leiðbeinandi hennar. Þarna voru þau að ræða um tölvulíkön sem daglega eru keyrð til að spá fyrir um eldgos og hvert hraun myndi renna ef til þess kæmi þar sem skjálftavirknin er mest hverju sinni.
Það er ekki endilega von á gosi á næstunni, jafnvel ekki einu sinni á næstu árum eða áratugum, en Helga og samstarfsmenn hennar vilja vera við öllu búin. Á rannsóknarstofunni er því búið að raða upp margvíslegum búnaði sem hægt er að grípa til með stuttum fyrirvara. Þar er til dæmis að finna gasgrímur, öryggishjálma með höfuðljósum, hamra, gasmæla, nákvæm GPS-tæki og sýnapoka.
Þetta er þó ekki sá búnaður sem Helga er hvað þekktust fyrir. Hún komst í fréttir á síðasta ári eftir að hafa verið valin til að prófa nýjasta geimbúning NASA við krefjandi aðstæður á Vatnajökli. Með þátttöku sinni skrifaði hún nafn sitt í sögubækurnar því hún varð fyrst í heimi til að stunda ísklifur í geimfarabúningi.
Verkefnið var ekki aðeins myndrænt og spennandi heldur einnig mikilvægur þáttur í undirbúningi fyrir hvorki meira né minna en ferðalög til Mars í framtíðinni. Þangað er Helga þó ekki að fara – þótt geimferðir heilli hana og hún myndi vissulega fagna tækifæri til slíkra ferðalaga. En í augnablikinu heldur hún sig á jörðinni, jörðinni sem hana þyrstir í að læra meira um og rannsaka.
Helga Kristín er fædd í Reykjavík árið 1992. Foreldrar hennar eru læknahjónin Alma Möller og Torfi Jónsson. Hún á einn bróður, Jónas Má, og hundinn Móberg sem hún segir vissulega hluta af fjölskyldunni.
Hún á ættir að rekja til Siglufjarðar í móðurætt og svo austur á land í föðurættina. Og þó að fjöllin og jöklarnir heilli segist hún mikið borgarbarn.
Ung að aldri flutti hún með foreldrum sínum til Svíþjóðar þar sem þeir námu læknisfræðina. Þar dvaldi fjölskyldan í tæplega ellefu ár. „Ég var sem sagt mest alla grunnskólagönguna í Svíþjóð og smitaðist mjög af sænskunni,“ segir Helga. „Ég mun örugglega aldrei tala íslensku fullkomlega rétt!“
Hún segist hafa verið forvitinn krakki, ekki mjög ræðinn en þeim mun meira að hugsa. „Ég man eiginlega allt sem gerðist frá því að ég var eins og hálfs árs. Ég get útskýrt fyrir foreldrum mínum af hverju ég gerði eitthvað eða sagði eitthvað þegar ég var mjög ung.“
Í Lundi í Svíþjóð, þar sem Helga ólst upp, var nóg að gera fyrir ævintýraþyrsta krakka. Á sumrin fór hún út í skóg og kom ekki heim fyrr en síðdegis, búin að eignast nýja vini og uppgötva margt nýtt. „Ég var mjög sjálfstæð og líklega frekar frökk,“ segir hún um Svíþjóðarárin. „Það var mjög gott að vera barn í Svíþjóð. Þar var náttúran alltaf nálæg, skógarlundir um allt og gaman að fara í lautarferðir um helgar. Svíar eru duglegir að stunda útivist og hafa það huggulegt úti í náttúrunni, þeir kunna það svo sannarlega.“
Þegar fjölskyldan flutti aftur til Íslands árið 2003 hóf Helga nám í 6. bekk í Lindaskóla í Kópavogi. Íslenskan var þá ekki hennar sterkasta hlið. „Ég vissi ekki hvað fallbeyging var. Ég held að það hafi nánast liðið yfir kennarann þegar hann komst að því.“
Námið hafi því reynst nokkuð strembið og að auki var Helga til að byrja með ekki með á nótunum um allt sem var í gangi hjá börnum og unglingum í íslensku samfélagi. En það vildi henni til happs að hún eignaðist fljótt góða vini sem halda hópinn enn í dag.
Ekki undir pressu að verða læknir
Þó að það hafi verið nokkuð á brattann að sækja í íslenskunáminu setti Helga stefnuna alltaf á Menntaskólann í Reykjavík og metnaðurinn kom henni þangað að loknum grunnskóla. „Ég vissi að MR væri góður undirbúningur fyrir háskólanám. Ég vissi líka að mig langaði í vísindatengt nám og mér fannst læknisfræðin spennandi. En svo byrjuðu jarðfræðitímarnir í MR og þá fattaði ég að þar voru mörg áhugamál mín saman komin. Mamma og pabbi voru ekki að pressa á mig að verða læknir, þau hvöttu mig til að gera það sem ég hefði áhuga á. Það vill svo til að þau hafa sjálf mikinn áhuga á jarðfræði svo ég hef alltaf haft stuðning þeirra og getað rætt við þau um það sem ég er að fást við.“
Eftir að menntaskólanum lauk var Helga orðin ákveðin í því að fara í jarðvísindanám. Með þá vissu í farteskinu byrjaði hún á því að fara í leiðsögunám. Síðan hefur hún unnið töluvert sem jökla- og fjallaleiðsögumaður. Þá tók hún einnig meirapróf.
En það var áhugi á náttúrunni sem ýtti Helgu út í jarðfræðina. „Við fjölskyldan höfum ferðast mikið, bæði innanlands og til framandi staða í útlöndum.“
Helga hefur því aldrei komið til Alicante eins og margir Íslendingar en hún hefur hins vegar komið til Galapagos-eyja, eldfjallaeyjunnar Stromboli, Hawaii og Jan Mayen, svo dæmi séu tekin.
Áður en Helga hóf jarðvísindanámið var hún farin að lesa í landslag hvert sem hún kom og hafði skilning á þeim ferlum sem þar bjuggu að baki. Hvernig jöklar móta landið, hopa og skríða fram til skiptis. Hvernig eldsumbrot setja sterkan svip á allt okkar umhverfi. Og sérstaklega fannst henni samspil jökla og eldfjalla spennandi.
Hóf jarðfræðinám í Holuhraunsgosinu
Jarðfræðinámið lá vel fyrir Helgu og hún hóf það á áhugaverðum tímapunkti. Í fyrstu vikunni hófst eldgosið í Holuhrauni. „En síðan hefur ekkert eldfjall gosið og kannski kominn tími á það,“ segir hún og brosir. „Vísindalega séð er ég spennt fyrir næsta gosi en auðvitað vill maður alls ekki að það hafi slæm áhrif á samfélagið. Holuhraunið er gott dæmi um gos sem var spennandi vísindalega en staðsett vel inn í landi og skapaði litla hættu. Ég flaug yfir það nokkrum sinnum og fann hitann í gegnum flugvélina. Svo kom ég þangað ári eftir að því lauk og baðaði mig upp úr heitum læk sem rann tímabundið undan hrauninu.“
Allt sem var jökla- og eldfjallatengt í náminu höfðaði strax vel til Helgu. Þegar hún var að ljúka við BSc-námið var hún búin að ákveða að fara í meistaranám með áherslu á eldfjalla- og bergfræði. „Meginhluti megineldstöðva landsins er undir jökli svo þetta sameinaði allt það sem ég hafði mestan áhuga á.“
Á skrifstofu Helgu í náttúrufræðihúsinu Öskju hanga jarðfræðikort af Öræfajökli, hæsta fjalli Íslands. Sá jökull stendur hjarta Helgu nærri því hún ákvað að gera hann að viðfangsefni sínu í meistaranáminu og síðar í doktorsnáminu þar sem hún rannsakar einnig eldfjallið Beerenberg á Jan Mayen. Á skrifstofunni má svo einnig sjá sýnishorn af ýmsum bergtegundum; hrafntinnu, flikrubergi og lítinn hraunmola úr Holuhrauni.
Magnað að koma á jökul í fyrsta sinn
En hvað er það við jökla sem heillar?
„Jöklar eru þannig séð berg,“ svarar hún, „þeir eru úr ískristöllum. Mér finnst áhugavert hvað þeir breytast mikið, það er eins og þeir séu lifandi. Það er líka gaman að klifra í þeim. Þeir eru áberandi í landslaginu og komast ekki upp með mikið án þess að maður sjái hvað þeir eru að gera. Þeir móta landið af miklum krafti, mynda dali og slípa fjallshlíðar. Þetta allt finnst mér mjög áhugavert.“
Þó að Helga hafi víða ferðast með fjölskyldunni hafði hún ekki komið á jökul fyrr en hún hóf jarðfræðinámið. „Það er magnað og svolítið dramatískt að koma á jökul í fyrsta sinn.“
En skoðum aðeins fræðin, hvað Helga hefur rannsakað og hvað hún er að rannsaka núna.
Í meistaranáminu skoðaði hún hvernig kvikuhólf eru byggð upp undir Öræfajökli og hvort þau væru mörg. Hún skoðaði m.a. nýjasta gosið sem varð árið 1727 og er því fyrst til að rannsaka það gos. Einnig skoðaði hún önnur hraunlög í Öræfajökli í þeim tilgangi að bera saman uppbyggingu kvikukerfisins milli gosa. Að auki mun hún svo aldursákvarða eldri gosin. „Um leið og það er kominn aldur inn í jöfnuna getur maður séð hvernig kvikukerfi Öræfajökuls hefur þróast.“
Í doktorsnáminu fer hún út í meiri smáatriði og áfram er Öræfajökull viðfangið. Í upphafi þess fór hún með sýni til Frankfurt þar sem hún hafði aðgang að sérhæfðu tæki sem notað er til að skjóta leysigeisla á kristallana í hrauninu til að „sjá hvað þeir eru að segja,“ útskýrir Helga. Í þeirri vinnu greindi hún fimm gos sem orðið hafa í Öræfajökli og bjó í kjölfarið til hálfgert líkan af mögulegum kvikuhólfum.
En af hverju er svona mikilvægt að vita hvar kvikuhólfin eru?
Því þá er hægt að reyna að finna út hvar næsta gos gæti mögulega orðið í eldfjallinu og og þá er einnig hægt að bera sama dýpi skjálfta ef gosórói fer af stað. Helga hefur þegar komist að því að gosin fimm voru mismunandi en að mögulega hafi tvö þeirra komið upp úr sama kvikupokanum. Einnig er tilgangur verkefnisins að „skilja eldfjallið,“ segir Helga, „af hverju kvika stoppi á ákveðnu dýpi, hvort það séu einhverjir þröskuldar í skorpunni. Gamall hafsbotn jafnvel.“
Í doktorsnáminu mun hún einnig kafa djúpt í þessi fræði þar sem verkefnið snýst að hluta til um loftslagsmál. „Hugsanlega hefur þynning jökulsins á Beerenberg, sem og önnur eldfjöll undir jökli, komið eldgosum af stað,“ segir hún. „Við það að þessu jökulfargi sé lyft af jarðskorpunni og þar af leiðandi eldfjöllunum, er mögulegt að þrýstingi sé létt af kvikupokunum sem komi gosum af stað. Það verður áhugavert að sjá hvort rannsóknir mínar styðji þessa kenningu. Þessar upplýsingar gætu verið mikilvægar á komandi árum í kjölfar hamfarahlýnunar og áhrifa hennar á jökla enda eru stærstu eldstöðvar Íslands undir jökli.“
Goss að vænta í Öræfajökli
Öræfajökull byrjaði að rumska fyrir þremur árum svipað og Eyjafjallajökull gerði árið 1998. Sá síðarnefndi gaus svo árið 2010. „Það gæti orðið svipað með Öræfajökull, að hann láti aðeins finna fyrir sér, það tekur hann tíma að hita sig upp,“ segir hún og horfir á jarðfræðikortið á veggnum á skrifstofunni og bætir við: „Þetta er mjög lifandi land sem við búum í.“
Aðeins eru til heimildir um tvö síðustu gosin í Öræfajökli. Hann gaus síðast fyrir um þrjú hundruð árum og þar á undan árið 1362. Allt bendir til þess að hann hafi svo einnig gosið fyrir um 1.500 árum en aldur enn eldri gosa verður vonandi kunnur þegar Helga hefur lokið sínum rannsóknum.
Ekki saklaust eldfjall
Öræfajökull er ekki saklaust lítið eldfjall. Hann hefur sýnt hvers hann er megnugur og gæti gert það aftur. Gosinu 1727 fylgdi jökulhlaup og þrír menn týndu lífi.
Gosinu 1362 fylgdu enn meiri hörmungar. Það var stærsta sprengigos sem orðið hafði í Evrópu frá því Vesúvíus gaus árið 79 fyrir Krist. Í kjölfar þess var nafninu á héraðinu undir jökli breytt úr Litla-héraði í Öræfi enda lagði gosið byggðina í eyði. „Í dag líkist Öræfasveitin meira Litla-héraði,“ segir Helga og rifjar upp að nafn jökulsins hafi líka verið annað fyrir gos. Áður hét hann Knappafellsjökull, „sem er krúttlegt nafn og sakleysislegt. En þetta gos var skelfilegt og við verðum að vera viðbúin sambærilegu gosi einhvern tímann aftur.“
Helga, sem er vön fjallgöngum og jöklaferðum, segir sýnatökuferðirnar á Öræfajökul og eldfjöllin á Jan Mayen, allt annað en auðveldar. „Ég þarf að príla utan í klettum með bakpoka. Og það er ekki þannig að bakpokinn léttist eftir því sem líður á gönguna og ég borða meira af nestinu. Hann þyngist bara af grjóti. Í lok dags er ég kannski með þrjátíu kíló á bakinu.“
Eldfjöll eru að sögn Helgu jafn ólík og þau eru mörg og því er ekki hægt að yfirfara rannsóknarniðurstöður á einu þeirra yfir á önnur. „Það þarf að koma fram við hvert eldfjall eins og einstakling.“
Þegar hún talar um eldfjöllin og jöklana er engu líkara en að hún sé að lýsa manneskjum. Jöklarnir „hegða sér“ með ákveðnum hætti og eldfjöllin „fá í magann, hrækja og gubba“. Hún segir rannsóknirnar krefjast nákvæmni en einnig hugmyndaauðgi. Pælarinn Helga, sem man hvernig var að vera smábarn, er þar á heimavelli.
Hún hefur líka gaman að því að deila því sem hún er að gera með öðrum og stofnaði fyrir nokkrum mánuðum Instagram-reikning og er nú með tæplega 6.000 fylgjendur. Hún hefur mikinn áhuga á ljósmyndun og deilir þeim með fylgjendum sínum í bland við fróðleik um jarðfræði. Henni finnst skemmtilegt að útskýra og kenna og vandar sig við að miðla flóknum upplýsingum með þeim hætti að sem flestir skilji. Við færslurnar fær hún svo ýmsar fyrirspurnir víða að úr heiminum sem hún reynir að svara samviskusamlega.
Síðustu mánuði hefur hún verið í essinu sínu á Instagram enda margir forvitnir um skjálftavirknina á Reykjanesi.
Og aftur að þeim atburðum.
Frá því í janúar hafa jarðskjálftahrinurnar á Reykjanesinu komið í kippum. Sama má segja um landrisið sem er nú orðið 7-8 sentímetrar. Daglega þurfa Helga og félagar því enn að uppfæra hraunflæðilíkanið. „Virknin hefur nú færst vestar þannig að líkurnar aukast á því að mögulega verði gosið í sjó þegar að kvikan kemst að lokum upp á yfirborðið,“ segir hún þegar blaðamaður slær aftur á þráðinn til hennar í gær, nokkrum vikum eftir heimsóknina í Öskju.
Hún segir góðu fréttirnar þær að gosið yrði lítið, það yrði til dæmis að öllum líkindum minna en Holuhraunsgosið. „En miðað við söguna þá er ljóst að þarna mun gjósa aftur. En hvenær er svo allt annað mál. Kannski gerist það ekki einu sinni á minni ævi. Þarna er gliðnun og alls konar veikleikar í jarðskorpunni sem auðvelda kviku að koma upp á yfirborðið. Við höfum ekki miklar upplýsingar um hvernig síðustu gos á þessu svæði voru. Við vitum hvenær þau voru, það síðasta á þrettándu öld.
En við vitum líka að kvika er mjög löt. Hún hefur engan áhuga á að koma upp á yfirborðið ef svo má segja. Þess vegna velur hún alltaf auðveldustu leiðina. Þess vegna rýnum við í sprungur og landslag til að spá fyrir um hvert hraun myndi renna. Og það sem við getum sagt er að annað hvort verða einhverjir atburðir þarna núna eða þá að þessar hræringar eru upphaf að einhverju tímabili. Vegna þeirrar óvissu fylgjumst við náið með alla daga og veitum viðbragðsaðilum og sveitarstjórnum reglulega upplýsingar um stöðuna.“
Á léttari nótum segir Helga að fyrst gos sé yfirvofandi á annað borð væri kannski heppilegt að fá það núna í miðjum heimsfaraldri þegar umferð um Keflavíkurflugvöll er sama og engin.
Helga býr vel að því núna, þegar hún þarf að vinna heima, að hafa nýverið lokið mikilli sýnavinnu og getur því einbeitt sér að tölvunni. Það fer þó að koma að því að hún sjái tækin á rannsóknarstofunni í Öskju í hillingum. Hún vonast til að allt verði um garð gengið í sumar þegar komið verður að slíku tímabili í doktorsverkefninu.
Annað sem tengist vinnunni hefur einnig breyst. Til stóð að fara í rannsóknarleiðangur til Tenerife og La Reunion, eyju fyrir utan Madagaskar í Afríku. Af þessum ferðum verður ekki í bráð.
Rútínan raskast
Svo viðurkennir Helga fúslega að rútínan hafi aðeins farið úr skorðum eftir að vinnan færðist nær alfarið heim. Vinnutíminn hafi orðið óreglulegri og stundum sé erfitt að koma sér að einbeita sér og koma sér að verki. Eflaust tengja margir við þetta.
Helga er á undan áætlun með doktorsverkefnið og stefnir að því að ljúka því á þremur árum. Nema að eitthvað óvænt komi upp á. Sem hefur kannski gerst einmitt núna.
Úr rómantískri gamanmynd í hamfaramynd
Hún stendur þó ekki ein í ströngu jarðvísindanáminu því kærasti hennar, Daníel Þórhallsson, sem hún kynntist í jarðfræðinni í háskólanum, flutti til Hawaii síðasta sumar til doktorsnáms. Helga deilir fallegri minningu um það þegar hann flutti út: „Þetta var svolítið bíómyndamóment,“ segir hún og hlær. „Ég var á Jan Mayen við rannsóknir og átti að vera komin heim tímanlega til að kveðja hann. En ég tafðist þar út af þoku. Þegar ég loks komst heim þá var hann akkúrat kominn út á flugvöll á leið til Hawaii. Svo við kvöddumst á flugvellinum eins og í rómantískri gamanmynd.“
Daníel ákvað að koma heim til Íslands þegar ljóst var að það stefndi í ferðabann í Bandaríkjunum. Hann rétt náði að komast heim í gegnum Kanada áður en af því varð. „Hann var einmitt að klára sóttkví núna áðan,“ segir Helga sem hafði þar til þá ekki getað fagnað heimkomu hans með faðmlagi. „Hann hefur orðið að fylgja fyrirmælum tengdamóður sinnar og við því þurft að halda fjarlægð okkar á milli.“
Jöklarnir einstöku
Daníel deilir þó áfram athygli Helgu með jöklunum og eldfjöllunum. Þessum fyrirbærum sem hún getur engan veginn ímyndað sér Ísland án. „Jöklarnir eru svo einstakir. Og þeir eru svo mikilvægir. Þeir eru mikilvægir fyrir loftslagið okkar og núna eru breytingar á loftslagi að hafa vond áhrif á þá. Það erum svo við mennirnir sem berum ábyrgð á þeim breytingum. Núna verðum við að hjálpast að við að snúa þeirri þróun við.“
Tækifærið til þess er kannski einmitt núna.