Keir Starmer, nýkjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins, óskaði þess á unglingsaldri að foreldrar hans hefðu gefið honum annað og algengara nafn eins og til dæmis Dave eða Pete. Keir er enda eilítið sérkennilegt nafn, en það var nafnið sem drengurinn fékk í upphafi sjöunda áratugarins.
Foreldrarnir, einarðir vinstrimenn sem voru til heimilis í suðurhluta Lundúna, nefndu son sinn í höfuðið á Keir Hardie, sem var einn stofnenda Verkamannaflokksins og fyrsti þingflokksformaður hans í upphafi 20. aldar. Það var því ef til vill ekki við öðru að búast en að sonurinn erfði nokkuð af stjórnmálaskoðunum þeirra.
Nú leiðir hann vinstrið í breskum stjórnmálum, þessi 57 ára gamli lögfræðingur, sem fyrst tók sæti á þinginu í Westminster árið 2015 eftir að hafa áður risið hátt í starfi sem mannréttindalögmaður og síðar saksóknari hins opinbera. Hann hefur fengið aðalstitil fyrir störf sín í þágu laga og réttlætis, Sir Keir, sem hann kýs raunar að nota ekki.
Starmer hlaut rúm 56% atkvæða í formannskjöri Verkamannaflokksins, en valið stóð á milli hans og þeirra Lisu Nandy og Rebeccu Long-Baily í kosningu flokksmanna, sem 490 þúsund manns tóku þátt í.
Í myndskilaboðum sem Starmer sendi frá sér á laugardag eftir að kjör hans var staðfest lofaði hann að leiða uppbyggilega stjórnarandstöðu og sagðist vonast til þess að Verkamannaflokkurinn gæti á ný þjónað landinu í ríkisstjórn, helst strax árið 2024 þegar næstu kosningar eiga að fara fram.
Flokkurinn beið sem kunnugt er afhroð í þingkosningum á síðasta ári og hefur ekki verið með færri þingmenn í neðri málstofu breska þingsins síðan í síðari heimsstyrjöld. Verkefnið sem bíður er því ærið.
Þykir líklegur til að sækja inn að miðju
En hvert mun Starmer leiða Verkamannaflokkinn? Sjálfur talar hann um hann ætli að leiða flokkinn inn í „nýtt tímabil“ og ýmsir álitsgjafar um bresk stjórnmál telja að flokkurinn muni nú feta veginn aftur inn að miðju eftir að hafa verið færst rækilega til vinstri undir forystu Jeremys Corbyn, án mikils árangurs. Í formennskubaráttunni undanfarna mánuði sagðist Starmer ætla að sameina flokkinn, en einnig halda í róttækni síðustu fjögurra ára.
Hann lýsir Corbyn sem vini, jafnt sem kollega, en Starmer hefur verið í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins undir stjórn Corbyns, frá 2016 sem skuggaráðherra Brexit-mála, en áður hafði hann reyndar sagt sig úr skuggaráðuneytinu í mótmælaskyni við stefnu Corbyns. Vinnusambandi þeirra er lýst sem þokkalegu og þeir spjalla víst gjarna um gengi Arsenal í enska boltanum. Starmer hefur þó verið á skjön við Corbyn og aðra í flokksforystunni í veigamiklum málum, eins og til dæmis hvað Brexit varðar.
Á ársfundi Verkamannaflokksins árið 2018 lagði hann til að flokkurinn beitti sér fyrir því að það yrði haldin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um útgönguna, þar sem val um að vera áfram í Evrópusambandinu yrði á kjörseðlinum. Sjálfur sagðist hann ætla að berjast fyrir því að vera áfram. Áhrifamenn innan flokksins vilja sumir rekja slæmt gengi Verkamannaflokksins í ýmsum verkamannakjördæmum sem snerust til Íhaldsflokksins í síðustu kosningum til þessarar stefnu sem Starmer mótaði.
Eftir útreiðina sem Verkamannaflokkurinn fékk í kosningunum, sem snerust jú að miklu leyti um hvort Boris Johnson fengi umboð kjósenda til þess að „koma Brexit í verk“, sagðist Starmer loks vera búinn að sætta sig við að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið.
Baðst strax afsökunar á gyðingaandúð
Fyrsta skrefið í átt að því að sameina Verkamannaflokkinn tók Starmer eiginlega um leið og hann tók við embætti á laugardag, en þá lýsti hann því yfir að hann ætlaði að úthýsa gyðingaandúð algjörlega úr Verkamannaflokknum.
„Við þurfum að takast heiðarlega á við framtíðina. Gyðingaandúð hefur verið smánarblettur á flokknum okkar. Ég hef séð sorgina sem hún hefur haft í för með sér í svo mörgum samfélögum gyðinga. Fyrir hönd Verkamannaflokksins, þá biðst ég forláts,“ sagði Starmer áður en hann hét því að „rífa eitrið út með rótum.“ Árangurinn af vinnu sinni segist hann ætla að meta með hliðsjón af því hversu margir gyðingar snúa aftur í flokkinn.
It’s the honour and privilege of my life to be elected as Leader of the Labour Party.
— Keir Starmer (@Keir_Starmer) April 4, 2020
I will lead this great party into a new era, with confidence and hope, so that when the time comes, we can serve our country again – in government. pic.twitter.com/F4X088FTYY
Starmer hefur áður tekið afstöðu gegn gyðingaandúð innan flokksins og gerði það meðal annars í nóvember, þegar verulega gustaði um Corbyn fyrir að neita að biðjast afsökunar á gyðingaandúð í flokknum.
Málefnið stendur honum nærri, en tengdafaðir hans er pólskur innflytjandi af gyðingaættum og sagði Starmer við blaðið New Statesman, sem fjallaði ítarlega um feril hans og líf í lok síðasta mánaðar, að honum sárni þegar fólk segi að hann hafi ekki talað nógu opinskátt gegn gyðingahöturum.
Öðruvísi leiðtogi en Corbyn
Starmer er stundum gagnrýndur fyrir að vera flatur stjórnmálamaður, hreint út sagt leiðinlegur og óspennandi karakter sem muni eiga erfitt með að heilla kjósendur. Hann viðurkennir fúslega að hann sé afar ólíkur forvera sínum í embætti flokksformanns, en Corbyn var einmitt talið það til tekna að mikið af fólki hóf þátttöku í innra starfi Verkamannaflokkinn er hann var formaður.
„Það eru margar leiðir til þess að veita fólki innblástur,“ sagði Starmer í viðtali við Andrew Neil á BBC fyrir skemmstu. Hann sagðist þannig ekki vera leiðtogi sem héldi innblásnar ræður fyrir fólk svo allir heilluðust með, heldur leiðtogi sem byggði í kringum sig teymi fólks sem vildi takast á við það verkefni að breyta bæði flokki sínum og landi.
Starmer hefur verið Arsenal-aðdáandi frá unga aldri, á ársmiða á Emirates-völlinn og þegar hann á lausan tíma er hann líklegur til þess að sitja fyrir framan sjónvarpið að reyna að finna fótboltaleik til þess að horfa á, samkvæmt því sem vinir hans sögðu blaðamanni New Statesman. Starmer kom aðeins inn á stöðu fótboltaliðsins í viðtali sínu við blaðið og á orðum hans mátti skilja að bæði Arsenal og Verkamannaflokkurinn þyrftu að takast á við mikið uppbyggingarstarf. Ef til vill sambærilegt.
Skuggaráðuneyti skipað
Í gær sáust kannski fyrstu stóru merkin um í hvaða átt Starmer mun stefna með uppbyggingu sína á Verkamannaflokknum, er hann skipaði skuggaráðuneyti sitt. Þar koma kunnugleg nöfn aftur á fremri bekkina, eftir að hafa verið sett til hliðar í valdatíð Corbyns.
Einn þeirra er til dæmis Ed Miliband, fyrrverandi flokksleiðtogi, sem verður nú skuggaráðherra viðskipta- orku- og iðnaðarmála. Fáir yfirlýstir stuðningsmenn Corbyns halda stöðum sínum í skuggaráðuneyti Starmers, en þó einhverjir, samkvæmt frétt Guardian. Heilt yfir þykir skipan skuggaráðuneytisins bera þess vott að nú muni Verkamannaflokkurinn horfa inn að miðju á ný, „mjúka vinstrið“ sé komið með yfirhöndina.
Starmer sagðist í gær stoltur af teyminu sem hann hefði valið sér, sem samanstendur af 17 konum og 15 körlum. Hann sagði þau endurspegla breiddina í flokknum og myndu nú ganga í það verk að hjálpa ríkisstjórninni að bregðast við heimsfaraldrinum og að því loknu byggja flokkinn upp til kosningasigurs.