Flaug suður og tók tíu vaktir á níu dögum á gjörgæsludeild
Þegar hjúkrunarfræðingurinn Arna Rut O. Gunnarsdóttir sá bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins auglýsta ákvað hún strax að skrá sig. Arna er fjögurra barna móðir, búsett á Akureyri og var beðin að koma sem fyrst til vinnu á gjörgæsludeild Landspítalans í Reykjavík. „Þetta var alveg svakalegt ástand, satt best að segja,“ segir hún um fyrstu vinnulotuna sem stóð í níu daga.
Nei þú vaktir mig ekki, en ég er reyndar nývöknuð,“ segir Arna Rut O. Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur þegar hún svarar í símann laust eftir hádegi. Það var þó hvorki leti né værukærð sem dró hana að rúminu á þessum tíma sólarhrings. Þvert á móti. Hún er í bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins, var á vakt á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi nóttina áður og flaug svo beint eftir hana heim til Akureyrar. Hún hafði því aðeins náð þriggja tíma dúr í rúminu sínu í fyrsta sinn í langan tíma. „Ég er búin að vinna tíu vaktir á níu dögum. Svo já, ég neita því ekki að ég er lúin. Ég þurfti aðeins að kúpla mig út og sjá börnin.“
Arna Rut er fædd, uppalin og búsett á Akureyri. Hún útskrifaðist úr hjúkrunarfræði árið 2008 og hóf þegar störf á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri. Tveimur árum síðar fór hún í framhaldsnám í svæfingahjúkrun sem hún lauk árið 2012. Næstu árin vann hún á svæfingadeild sjúkrahússins en einnig á gjörgæslunni þegar á þurfti að halda.
Í lok ársins 2018 lét hún af störfum á spítalanum og fór í árs leyfi. Er því lauk hafði hún gert upp hug sinn: Hún ákvað að skipta um starfsvettvang – að minnsta kosti tímabundið. Hún hóf störf hjá fjarskiptafyrirtækinu Tengir þar sem hún starfar enn í dag.
Nokkrir þættir urðu til þess að Arna hætti að vinna sem hjúkrunarfræðingur.
Hún og eiginmaður hennar, lögreglumaðurinn Ólafur Tryggvi Ólafsson, eiga fjóra syni. Sá yngsti er með litningagalla sem hefur áhrif á hann bæði líkamlega og andlega. Hann sefur mjög oft illa vegna verkja og Arna segir það oft hafa verið erfitt að mæta vansvefta til vinnu eða eiga ekki kost á að leyfa honum að sofa lengur eftir erfiða nótt. „Svo hafði ég tækifæri á annarri vinnu með meiri sveigjanleika og betri launum. Auðvitað spilaði það líka inn í.“
Arna var stödd ásamt fjölskyldu sinni á Tenerife í mars er ljóst varð að grípa þyrfti til mikilla aðgerða víða um heim vegna útbreiðslu nýju kórónuveirunnar, meðal annars á Íslandi. „Maðurinn minn er lögreglumaður og við erum því bæði menntuð til að vera í framlínusveitinni, eins og það er kallað núna. Það var þarna komið í ljós að margir sjúklingar þyrftu að fara á öndunarvélar og að smithættan væri mjög mikil. Þannig að okkur þótti líklegt að álag á sjúkrahúsið fyrir norðan myndi aukast verulega.“
Stuttu eftir að þau voru komin heim til Íslands sá Arna frétt um að stofnuð hefði verið bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins vegna faraldursins. „Ég skráði mig strax án mikillar umhugsunar. Svo lét ég pabba vita en hann er framkvæmdastjórinn í fyrirtækinu sem ég vinn hjá. Ég sagði honum að mér þætti siðferðislega rétt, ef það vantaði hjúkrunarfræðinga sem kynnu á öndunarvélar, að svara því kalli. Hann var auðvitað alveg sammála því. Verkefni í vinnunni minni gætu beðið um tíma.“
Þegar fólk skráir sig í bakvarðasveitina getur það valið hvar á landinu það býður fram starfskrafta sína og hvort að það vilji sinna COVID-smituðum sjúklingum eða ekki. Arna var tilbúin í hvað sem var, að vinna hvar sem væri og að sinna hverjum sem á þyrfti að halda. „Svo var hringt í mig mjög fljótlega og ég beðin að koma til vinnu fyrir sunnan.“
Nauðsynlegt var að þrefalda mönnunina á gjörgæsludeild Landspítalans þegar ákveðið var að fjölga rúmum úr sex í átján. „Maðurinn minn er líka í vaktavinnu svo að við urðum að undirbúa pössun fyrir börnin okkar á meðan ég færi suður og hann væri að vinna. Allir voru boðnir og búnir að hjálpa okkur. Það eru fleiri en við heilbrigðisstarfsfólk sem hafa svarað kallinu!“
Hringt var í Örnu á fimmtudegi og hún beðin að koma að vinna strax komandi helgi. „Þannig að það var bara pantað flug og ömmur og afar ræst út til að sinna börnunum.“
Arna segist ekki almennilega hafa vitað hvað hún væri að fara út í, hverju hún ætti von á. Hún hafi ekki hugsað mikið út í það. Hún vissi að á gjörgæslunni í Fossvogi væri annað tölvukerfi en hún átti að venjast á Sjúkrahúsinu á Akureyri og fleira í skipulagi og öðru var ólíkt fyrir sunnan. En það átti ekki eftir að koma að sök. Koma hennar til starfa var vel undirbúin, hún fékk strax símtöl frá deildarstjóra gjörgæslunnar og mannauðsteyminu. „Ég fann það frá fyrstu stundu að það var rosalega vel tekið á móti mér.“
Til stóð að Arna yrði í aðlögun á deildinni fyrstu tvær vaktirnar þar sem hún starfaði með reyndum gjörgæsluhjúkrunarfræðingi sem þekkti deildina. Hún fór því um leið í hlífðarfatnaðinn og inn á gólf til veikustu sjúklinganna. „En þetta var ótrúlega lítið mál, ég náði fljótt áttum. Það var búið að segja mér að vinnubrögðin væru í vöðvaminninu og það reyndist rétt. Ég skellti mér því beint í djúpu laugina og það gekk lygilega vel.“
Gjörgæsludeildinni var umturnað á fyrstu dögum Örnu í starfi. Hún stækkaði jafnt og þétt. Í hvert sinn sem hún mætti á vakt var búið að breyta, stækka og stúka af ný svæði frá því hún var á þeirri síðustu.
„En þetta var alveg svakalegt ástand, satt best að segja,“ segir hún. Sjúklingum á gjörgæslu og í öndunarvél hafði fjölgað hratt á fáum dögum. Og hún vann tíu vaktir á níu dögum. Álagið var það mikið að hún þurfti tvisvar sinnum að framlengja veru sína í Reykjavík og breyta flugmiðanum norður.
Hvíld á milli vaktalota var því kærkomin. En Arna ætlar aðeins að taka sér nokkurra daga hvíld. Hún mun vinna á gjörgæslunni alla páskana.
„Ég hef mjög gaman að því að vinna við bráðaaðstæður og vera í „action“ segir Arna. „Ég starfaði í lögreglunni í nokkur ár áður en ég byrjaði á gjörgæslu og fór svo í svæfingarnar því þar þarf sannarlega að geta haft hraðar hendur. Þannig að ég sæki dálítið í þetta krefjandi landslag.“
En hvernig er að vinna á gjörgæsludeild í miðjum þessum faraldri?
„Álagið er auðvitað mjög mikið,“ segir hún. „Bara það að vinna í þessum hlífðarbúningum, sem eru úr plasti, er erfitt. Manni verður svo heitt og svitnar en svo kólnar manni og verður kalt. Við reynum að vera ekki mikið lengur en þrjár klukkustundir í búningnum í einu, fáum þá afleysingu til að fara fram í smá stund og skipta í þurr föt ef þörf er á. Þetta er líkamlega erfitt ofan á allt annað. Stundum fær maður köfnunartilfinningu og verður að komast út. Við erum með maska og gleraugu eða plastskildi fyrir andlitunum að sinna sjúklingunum, svo við þekkjum illa hvert annað ef við skrifum ekki nafnið okkar á fötin með tússpenna. Ef sjúklingarnir eru ekki sofandi geta þeir ómögulega þekkt okkur í sundur svo það hlýtur að vera óþægilegt fyrir þá. Aðstandendur fá ekki að koma og vera hjá veikum ástvinum sínum og við starfsfólkið reynum að hitta sem fæsta utan vinnu. Þetta er allt svo óeðlilegt.“
Erfið og löng meðferð
Gjörgæsluhjúkrun er ein sú erfiðasta sem fyrirfinnst. Að fylgjast stöðugt með fólki í öndunarvél, vita hvernig eigi að bregðast við ef eitthvað kemur upp á er þó eitthvað sem Arna hefur mikla reynslu og þekkingu á. „Gjörgæslumeðferð er mjög flókin, ekki síður þegar sjúklingarnir eru smitaðir af COVID. Þetta er erfið meðferð og hún getur tekið langan tíma.“
Þegar fólk er í öndunarvél getur ýmislegt komið upp á sem þarf að bregðast við strax. Það þarf því nánast einn hjúkrunarfræðing á hvern þann sem er í slíkri vél. Sumir þola slönguna sem þrædd er ofan í öndunarveginn illa og fara að hósta. Þá er nauðsynlegt að hafa þjálfaðan hjúkrunarfræðing til taks til að aðstoða.
Sjúklingur í öndunarvél er algjörlega háður því að stöðugt sé fylgst með honum, segir Arna. Hann fær ýmis lyf í æð, meðal annars verkjalyf og svæfingarlyf, og er með slöngu ofan í hálsinn sem tengd er öndunarvélinni. „Það er fylgst með hverjum andardrætti og stillingar á svæfingavélinni endurmetnar stöðugt eftir ástandi sjúklings. Og það er ekki þannig að allir sjúklingar séu það djúpt sofandi að þeir hreyfi sig ekki neitt. Dýpt svæfingar og verkjastillingar er stýrt eftir ástandi hvers sjúklings. Stundum eru þeir létt sofandi og geta opnað augun, fundið óþægindi frá slöngunni og þá þarf að tala við þá og róa niður. Það er margt sem getur komið skyndilega upp á.“
Snúa sjúklingum á grúfu
Af því að um nýjan sjúkdóm er að ræða er ýmislegt verið að prófa í meðferð sjúklinganna sem þykir hafa gefið góða raun annars staðar. Læknar leita stöðugt til kollega sinna erlendis eftir nýjustu upplýsingum, m.a. um hvaða lyf virðast vera að hjálpa. Eitt af því sem gert hefur verið töluvert af á gjörgæslunni er að snúa sjúklingum í öndunarvél á grúfu snemma í ferlinu. „Það eru allir að prófa sig áfram og reyna að finna sem bestu meðferð fyrir sjúklingana,“ segir Arna.
Arna hefur verið í vinnunni á gjörgæsludeildinni þegar sjúklingar með COVID í öndunarvél hafa farið að sýna góð batamerki og verið teknir úr henni. En hún hefur líka verið í vinnunni þegar dauðsföll hafa orðið á deildinni. „Góðu tíðindin eru þau að við höfum náð að útskrifa fólk af gjörgæslunni. Og mér skilst að okkur gangi betur í því en mörgum öðrum þjóðum. Svo það er vissulega gleðilegt.“
Þakkar stuðninginn
Mikið álag er á hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki almennt. En núna er það gríðarlegt, miklu meira en venjulega, segir Arna. „Það er erfitt að sjá að í sumum löndum í kringum okkur er verið að borga álagsauka en það er ekki gert hér. Þó að kjaramál hjúkrunarfræðinga séu mikið í fréttum þessa dagana og við finnum fyrir miklum stuðningi víða þá höfum við ekki samþykkt kjarasamninga í mörg ár. Það er ekki eins og við höfum verið að ýta kjaramálum okkar að sérstaklega núna, eins og sumir virðast halda, þetta er ástand sem hefur verið viðvarandi lengi.“
Hún segir alla hjúkrunarfræðinga mjög þakkláta fyrir stuðning almennings síðustu daga og vikur en á sama tíma séu margir reiðir að sá stuðningur virðist ekki skila sér til þeirra sem fara með valdið. Líkt og allir vonar hún að nú verði það ljóst öllum sem vilja sjá hversu mikilvægt starf hjúkrunarfræðinga er. Tími sé kominn til að borga laun í samræmi við það.
Í gegnum árin hefur Arna notið þess að koma til Reykjavíkur til að hitta vini og ættingja, fara út að borða, á kaffihús og að versla. Dvölin fyrir sunnan núna er alls ólík því sem hún á að venjast. „Bara það að fara að kaupa í matinn er eitthvað sem maður setur spurningarmerki við. Ég vil ekki fá sýkingu og bera hana inn á gjörgæsluna. Það eina sem ég hef að gera er að vinna og vinna svo aðeins meira. Sofa svo á milli.“
Spurð hvort það komi til greina að halda áfram að starfa við hjúkrun eftir að faraldrinum lýkur segist Arna telja það ólíklegt. „Nei, ég held að þetta verði bara tímabundið að svo stöddu. Það getur auðvitað verið að ég snúi alfarið aftur til starfa í heilbrigðiskerfinu seinna og ég vona það, því þetta er það sem ég hef ástríðu fyrir að gera, kann og hef sérþekkingu í.
Ég sakna þess oft að starfa sem svæfingahjúkrunarfræðingur og vera hluti af grænu fjölskyldunni á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ég vona að þróunin verði þannig að hjúkrunarfræðingar með sérfræðimenntun verði nýttir meira og betur í íslenska heilbrigðiskerfinu líkt og gert er í nágrannalöndunum. Það hefur sýnt sig að það eykur skilvirkni og starfsánægju og dregur úr kostnaði. Það er ýmislegt sem mætti breyta og bæta.“
Þegar Arna er fyrir sunnan að vinna saknar hún fjölskyldunnar fyrir norðan en veit að synirnir fjórir eru í góðum höndum hjálpsamra ættingja.
„Undir venjulegum kringumstæðum þegar ég eða maðurinn minn erum að heiman hafa synirnir takmarkaðan skilning á fjarveru okkar, hvort sem hún stafar af vinnu eða öðru,“ segir hún. „Hins vegar er áberandi núna að þeir eru mjög áhugasamir og sýna þessu mikinn skilning, átta sig á mikilvægi starfa okkar og alvarleika ástandsins, enda höfum við rætt þetta mjög opinskátt og haldið þeim vel upplýstum. Þeirra tilvera er mjög óvenjuleg þessa dagana eins og flestra.“