Aðsend

Hikaði ekki „eina mínútu“ við að skrá sig í bakvarðasveitina

Þrátt fyrir að hafa glímt við flókin veikindi í nokkur ár skráði hjúkrunarfræðingurinn Kristín Bára Bryndísardóttir sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Hún hefur lagt á sig mikla sjálfsvinnu undanfarið sem er loks farin að skila árangri og þó að álagið á Landspítalanum sé gríðarlegt í augnablikinu óttast hún ekki bakslag. „Það er svo mikill skilningur, virðing og samtakamáttur til staðar, allir eru að vinna saman. Það gefur manni svo mikið.“

Kristín Bára Bryndísardóttir hjúkrunarfræðingur hefur að undanförnu verið að æfa sig í að treysta innsæi sínu og taka ákvarðanir út frá því. Þegar bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar var stofnuð, vegna faraldurs COVID-19 og fyrirséðs álags á sjúkrahúsum landsins, gerði hún einmitt það og hikaði ekki við að skrá sig þótt að hún sé í leyfi frá störfum vegna flókinna veikinda.

„Við tökum því sem svo sjálfsögðum hlut að vakna hvern dag, fá að draga andann og vera til. En það er ekki sjálfsagður hlutur. Ég veit það, því ég hef unnið á krabbameinsdeild Landspítalans,“ segir hún um þann lærdóm sem hún hefur dregið af sínum veikindum. „Og þegar það er heimsfaraldur þá hjálpar maður til. Það er bara þannig. Eitt sinn hjúkrunarfræðingur ávallt hjúkrunarfræðingur. Við erum öll í þessu saman.“

Auglýsing

Fljótlega eftir að Kristín Bára skráði sig í bakvarðasveitina var haft samband við hana og hún beðin að koma til starfa á Landspítalanum þar sem hún hóf fyrst störf að afloknu námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Í kjölfarið fékk hún sent efni til upprifjunar sem hún fer nú yfir til að undirbúa sig. Til stendur að hún sinni sjúklingum með COVID. Kallið getur komið á hverri stundu.

„Ég hikaði ekki við það í eina mínútu að skrá mig í bakvarðasveitina,“ segir Kristín í samtali við Kjarnann. „Ég hef unnið á Landspítalanum. Ég veit hvernig staðan var fyrir þennan faraldur. Ég veit hvað það er mikið álag á starfsfólkinu fyrir.“ 

Beint á Landspítala eftir útskrift

Eftir útskrift árið 2010 vann Kristín Bára í nokkur ár á krabbameinslækningadeild á Landspítalanum en breytti svo til og fór í sölu- og markaðsstarf. Haustið 2015 fór hún að eiga mjög erfitt með svefn og svaf ekki í tvo mánuði. Hún mætti samt alltaf til vinnu. „Ég hætti að sofa hreinlega, það gerðist nánast á einni nóttu.“ 

Kristín Bára fór haustið 2015 að eiga mjög erfitt með svefn. Ástandið átti eftir að vinda upp á sig.
Aðsend

Rúmlega tvítug hafði hún greinst með flogaveiki og næstu árin tók hún lyf vegna sjúkdómsins. Er svefnleysið hófst var hún búin að vera lyfjalaus og stöðug í mörg ár. „Að sofa ekki í svona langan tíma er beinlínis mannskemmandi,“ segir Kristín. „Þarna var ég að fá flog í svefni án þess að vita af því.“

Í janúar 2016 byrjaði hún aftur á flogaveikislyfjunum en „þá byrjaði ballið,“ segir hún. „Þegar eitt kerfi líkamans gefur sig þá fara önnur út af sporinu.“ Í kjölfarið fór hún að finna fyrir krónískum verkjum. Það hvarflaði þó ekki að henni að taka veikindaleyfi lengur en í nokkra daga.

Þá um sumarið ákvað hún að skipta um vinnu og færa sig yfir á heilsugæsluna í skólahjúkrun og ung- og smábarnavernd. Álagið var mikið, hún var að sinna sínu heimili, með tvo drengi og í fullri vinnu. Hafin var barátta sem átti eftir að standa í nokkur ár.

Tuska í andlitið

Kristín var að lokum greind með vefjagigt haustið 2016 eftir greiningarferli hjá Þraut. Þegar þarna er komið sögu var hún einnig búin að vera í eftirliti hjá hjartalækni vegna hjartsláttatruflana. Hún fékk ítrekað hraðsláttaköst og púlsinn átti það til að hækka upp úr öllu valdi án sýnilegs tilefnis. Eftir margvíslegar rannsóknir var niðurstaðan sú að svokallaður ofansleglahraðtaktur væri líklegasta orsökin. „Ég var þarna 34 ára og greind með nokkra sjúkdóma sem sagðir voru ólæknandi. Það var ákveðin tuska í andlitið.“

Auglýsing

Við tók sorgarferli. Hún fór úr því að vera í fullri vinnu og félagslega virk yfir í það að geta nær engu sinnt. Árið 2017 var af þessum sökum eitt það erfiðasta í hennar lífi. „Þá lenti ég á þessum vegg aftur og aftur.“

Alltaf stefndi hún að því að ná heilsu en í þeim tilgangi að komast aftur til vinnu. Markmiðið var ekki að ná heilsu til að líða betur. Hún segist að þessu leyti vera dæmigerður harður Íslendingur, alin upp við það að sýna engan aumingjaskap. Kristín var þess vegna lengi að sætta sig við að fara í veikindaleyfi. Hún var send í endurhæfingu hjá Þraut og spurði hvort það væri ekki upplagt að stunda vinnu samhliða henni. „Ég var í afneitun og náði ekki að taka þessu alvarlega.“

Um leið og endurhæfingunni lauk fór hún aftur að vinna sem endaði með því að hún fékk flogaköst á daginn, eitthvað sem hún hafði ekki áður fengið. Mígreni bættist svo ofan á allt saman. Þá setti taugalæknirinn niður fótinn og sagði að hún yrði að fara í langt veikindaleyfi.

Kristín Bára ásamt sonum sínum, Bóasi Myrkva og Pétri Arnari. Heimiliskötturinn Eygló á sinn sess innan fjölskyldunnar.
Aðsend

Í byrjun árs 2018 lét hún til leiðast, fór í leyfi frá störfum og hóf endurhæfingu á Reykjalundi um sumarið. „Á þessum tíma þá gerðist eitthvað,“ segir hún. „Fyrst átti ég mjög erfitt með þetta, fannst ég ekki nógu veik til að vera á Reykjalundi. Fannst ég vera að taka pláss frá öðrum. Og síðan átti ég mjög erfitt með að vera hjúkrunarfræðingur hinum megin við borðið. Ég þurfti að yfirstíga fordóma og hörku í minn eigin garð.“

Eftir að Kristín fór að taka veikindunum alvarlega fór hún að einbeita sér að hlutum sem voru nærandi fyrir hana. „Ég fór af stað inn í þetta verkefni með það markmið að ná heilsu fyrir mig og mína fjölskyldu.“

Nú eru fimm ár frá því að hún veiktist. „Ég fór mjög djúpt í þetta sorgarferli, í reiðina, afneitunina og alls konar tilfinningar. Mér leið stundum eins og ég væri í frjálsu falli og hefði enga fallhlíf, ég beið bara eftir því að einhver myndi grípa mig.“

Um leið og Kristín fór að einbeita sér að því sem nærði hennar líkama og sál fór líðanin að batna.
Aðsend

Með því að gera það sem nærði líkama og sál fór hugarfarið smám saman að breytast og líðanin sömuleiðis. „Ég fór að einbeita mér að því sem ég gat gert í stað þess sem ég get ekki gert.“

Öll hennar veikindi mátti rekja til vandamála í taugakerfinu. „Það fékk mig til að pæla í hvernig ég gæti unnið með taugakerfið mitt. Það var ójafnvægi í því. Ég var að lifa alltof streitumiklu lífi þó að mér hafi aldrei fundist ég sérstaklega stressuð. Streitan bjó innra með mér, hún var krónísk og ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég lenti á þessum vegg. Streitan var að keyra mig í kaf. Það tekur tíma að vinda ofan af því. Ég hef þurft að endurforrita heilann. Búa til nýjar taugabrautir og deyfa þær gömlu sem þjóna mér ekki lengur.“

Og þessi vinna er enn í gangi. Henni lýkur ekki þó að líðanin hafi batnað. „Ég er loksins núna farin að finna ávinninginn af allri þessari sjálfsvinnu.“

Í lok síðasta árs fór Kristín Bára í kennaranám í jóga nidra og núna er hún í kennaranámi í qigong.
Aðsend

Kristín hefur stundað jóga í mörg ár en í lok síðasta árs lét hún verða af því að fara í kennaranám í jóga nidra og núna er hún í kennaranámi í qigong. Hún hlakkar til að fá tækifæri til að miðla sinni þekkingu á þessu sviði til annarra og mun fara af stað með námskeið þegar nær dregur sumri.

Eitt af því sem Kristín hefur sérstaklega einbeitt sér að í bataferlinu er að staldra við og pæla í því af hverju hún geri það sem hún gerir, bregðist við hlutum eins og hún gerir og þar fram eftir götunum. „Hvaðan koma hugsanir mínar? Trú á það sem virkar og virkar ekki? Ég hef komist að því, og það var það mikilvægasta, að hugsanir mínar eru ekki sannleikurinn. Við erum ekki hugsanir okkar, við erum svo miklu meira. Við erum alltof mikið á sjálfstýringu í stað þess að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvernig við ætlum að lifa lífinu. En það kemur að því að sjálfstýringin virkar ekki lengur og þá neyðumst við til þess að líta inn á við.“

Kristín Bára hefur stundað jóga í mörg ár. Núna er hún orðin jóga nidra kennari.
Aðsend

Nánast allir sem missa heilsuna fara í gegnum sorgarferli. „Það besta sem ég gerði var að ná valdi á sjálfri mér aftur. Ég varð svo varnarlaus og háð öðrum en um leið og ég tók valdið til mín og fór að taka ábyrgð á minni líðan og minni heilsu þá breyttist svo margt. Það er miklu einfaldara að kenna öðrum og öðru um. En ég er lifandi dæmi um það að þótt maður eigi við heilsufarsvandamál að stríða sem virðast stundum óyfirstíganleg þá hefur maður vald til að gera alls konar hluti sem hjálpa manni að líða betur.“

Það getur verið átak að hefja sjálfsvinnu og því mælir Kristín með því að byrja smátt. „Það er erfitt að innleiða góða vana jafnvel þó að maður viti hvað gerir manni gott. Til að byrja með fannst mér gott að gefa sjálfri mér eitt loforð á dag. Byrja daginn á því að taka fimm djúpa andardrætti, þakka fyrir það sem þú hefur í stað þess að einblína á það sem þér finnst vanta. Svo getur maður bætt smám saman ofan á það.“

Eitt af því sem Kristín er að æfa sig í er að hlusta á innsæið sitt, að taka ekki ákvarðanir út frá fortíð eða framtíð. „Allt sem við þurfum er innra með okkur sjálfum, við þurfum ekkert annað til að líða betur.“

Í heimsfaraldri þurfum við að standa saman og hjálpast að, bætir hún við. Það sé sannað að það að gefa af sér hafi góð áhrif á líðan.

Til að byggja sig upp hefur Kristín Bára gengið á fjöll og segist hafa komið sjálfri sér á óvart. Hún geti meira en hún hélt.
Aðsend

Hún óttast ekki að fá bakslag við það að fara aftur að vinna í þessu mikla álagi sem fylgir faraldrinum. Í fyrsta lagi þurfi þátttakendur í bakvarðasveitinni ekki að binda sig í lengri tíma og því geti hún stjórnað vinnunni og álaginu. „En það er líka svo mikill skilningur, virðing og samtakamáttur til staðar, það eru allir að vinna saman. Það gefur manni svo mikið.“

Samstaða er að sögn Kristínar í eðli hjúkrunarfræðinga. „Enginn fer í þetta starf án mikillar ástríðu og hugsjónar. Álagið er oft gríðarlegt og launin í engu samræmi við það. Þetta er oft á tíðum ótrúlega andlega og líkamlega erfitt starf og mjög slítandi. Þetta er ein ástæðan fyrir því að þessi starfsstétt er útsettari fyrir kulnun en flestar aðrar.“

Hjúkrun geti þó verið ótrúlega gefandi starf, að geta hjálpað fólki, verið með því og leitt í gegnum erfiðustu tímabil lífsins. „En starfið getur líka tekið mikið frá manni, sogið til sín alla orku ef maður nær ekki endurheimt inn á milli vegna óhóflegs álags.“

Auglýsing

Kristín er hrærð og þakklát vegna þeirra viðbragða sem hjúkrunarfræðingar hafa fengið síðustu daga og vikur. Daglega les hún færslur á samfélagsmiðlum þar sem fólk er að dásama stéttina og hennar góða starf. „Þetta er svo fallegt og ég veit að allir hjúkrunarfræðingar kunna að meta þetta en eins og gefur að skilja þá lifa þeir sem eru í eldlínunni núna, í sjóðandi heitum varnargöllum heilu vaktirnar, ekki á hrósi einu saman.“

„Hjúkrunarfræðingar eru magnaðir. Það hef ég alltaf vitað, enda unnið sem slíkur og orðið vitni að öllu því merkilega sem þetta veigamikla starf felur í sér. Ég hef oft reynt að koma mikilvægi þessarar fagstéttar í orð en aldrei tekist. Það eru einfaldlega ekki til nægilega stór orð.“

Eitt af því sem Kristín er að æfa sig í er að hlusta á innsæið sitt, að taka ekki ákvarðanir út frá fortíð eða framtíð. „Allt sem við þurfum er innra með okkur sjálfum, við þurfum ekkert annað til að líða betur.“
Aðsend

Kristín Bára segir að ástandið nú um stundir sé vitaskuld erfitt fyrir marga.  Fólk sé veikt og margir kvíðnir og hræddir um ástvini sína. Svo hafi margir einnig misst vinnuna. „Í stóra samhenginu þá held ég að þetta sé harkaleg áminning fyrir okkur mannkynið að  snúa okkur aftur að grundvallaratriðunum, því sem raunverulega skiptir máli,“ segir hún.

„Neysla okkar var farin upp úr öllu valdi, við vorum jafnvel gráðug á köflum. En hvað þurfum við raunverulega? Nú þurfum við að hugsa um það. Og þetta verður til þess að við þurfum að líta inn á við. Við getum ekki lengur hlaupið frá sjálfum okkur, það er að minnsta kosti hægara sagt en gert núna á tímum samkomubanns,“ segir hún og hlær. „Eina leiðin út er inn. Til lengri tíma gæti eitthvað gott og fallegt komið út úr þessu öllu. Það er undir okkur sjálfum komið.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal