Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn Sigurbergur Kárason
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Veikindi virðast minnka þegar samfélagið róast

Þegar ró færist yfir samfélagið vegna bankahruns eða samkomubanns virðast færri veikjast alvarlega. Mikið álag hefur verið á gjörgæslum Landspítala vegna COVID-19 og þó að farið sé að draga úr því mun starfsfólk ekki kveðja varnarbúningana í bráð.

Það er far­ið að róast tals­vert hjá okkur eftir mikið álag síð­ustu daga og vik­ur,“ seg­ir ­Sig­ur­bergur Kára­son, yfir­læknir gjör­gæslu­lækn­inga, á Land­spít­al­anum við Hring­braut í sam­tali við Kjarn­ann.

Starf­semin á deild­inni hefur verið tví­skipt að und­an­förnu. Ann­ars vegar er hópur sem sinnir sjúk­lingum með COVID-19 og hins ­vegar þeir sem sinna öðrum sem þurfa á gjör­gæslu­með­ferð að halda. COVID-smit­aðir liggja í sér­stöku rými og starfs­fólkið sem þeim sinnir er klætt í hlífð­ar­búnað frá toppi til táar. Með þessum aðgerðum er reynt að tryggja að ­sem fæstir í hópi starfs­manna verði útsettir fyrir smiti.
Auglýsing

Eftir stór­ar ­skurð­að­gerðir þurfa alltaf ein­hverjir á gjör­gæslu­með­ferð halda, til dæmis þeir ­sem geng­ist hafa undir hjarta­að­gerðir og kvið­ar­hols­að­gerð­ir. Í upp­hafi var ­stefnt að því að COVID-19 sjúk­lingum yrði sinnt á Land­spít­al­anum í Foss­vogi en fljót­lega eftir að álagið tók að aukast og það stefndi í að deildir sem helg­aðar voru þeim sjúk­ingum myndu fyllast, var ákveðið að færa nokkra þeirra nið­ur á Hring­braut. Alltaf hafði þó verið gert ráð fyrir því að til þessa gæti kom­ið eftir því sem far­sótt­inni myndi vinda fram eða ef sjúk­lingur þyrfti að fara í hjarta- og lungna­vél og starfs­fólkið því undir það búið.

Fjór­ir ­sjúk­lingar með COVID-19 hafa verið í gjör­gæslu­með­ferð á Hring­braut­inni. Tveir þeirra hafa losnað af önd­un­ar­vél en eru enn á gjör­gæslu. „Við sjáum núna að farið er að draga úr far­sótt­inni og við förum nú smám saman að trappa aftur upp­ hefð­bundna starf­sem­i,“ segir Sig­ur­berg­ur.

Færri þurfa hefð­bundna gjör­gæslu­með­ferð

Hann segir að á meðan far­aldr­inum hefur staðið hafi þeim fækkað sem þurfa á „hefð­bund­inn­i“ ­gjör­gæslu­með­ferð að halda. „Það er ekki fylli­lega skýrt af hverju það er en þetta virð­ist vera að ger­ast víðar en hér á landi. Þegar það róast allt í sam­fé­lag­inu virð­ist sem veik­indi minnki.“

Dregið hef­ur verið úr aðgerðum á spít­al­an­um, fyrir utan bráða­að­gerð­ir, og þar með hefur álag á gjör­gæsl­una minnkað að ein­hverju leyti. Þá hefur sótt­kví og ein­angrun vegna nýju kór­ónu­veirunnar einnig áhrif á útbreiðslu ann­arra bakt­ería og veira með­al­ ­fólks.

Sig­ur­berg­ur ­segir að það sama hafi gerst í banka­hrun­inu, um leið og hægð­ist á þjóð­fé­lag­in­u ­fækk­aði þeim sem þurftu gjör­gæslu­með­ferð. „Það á sér sjálf­sagt ýmsar skýr­ing­ar, ­meðal ann­ars þá að umferð minnkar og þá fækkar slysum, svo dæmi sé tek­ið.“

Felix Valsson (t.v.) og Sigurbergur Kárason á leið inn á stofu fyrir COVID-sjúklinga á gjörgæsludeildinni við Hringbraut.
Tómas Guðbjartsson

Í upp­hafi árs, þegar fréttir tóku að ber­ast af skæðum veiru­far­aldri í Kína, sperrt­i ­Sig­ur­bergur eyrun eins og flest­ir. Hann fylgd­ist náið með því hvernig ástand­ið ­þró­að­ist þar og þegar veiran tók að grein­ast í öðrum lönd­um. Það lá þó að hans mati ekki endi­lega í augum uppi í byrjun að um heims­far­aldur yrði að ræða. Vel tókst að hemja útbreiðslu SAR­S-far­ald­urs­ins árið 2003 og komið var í veg fyr­ir­ að hann breidd­ist út um allan heim.

Svína­in­flú­ensan árið 2009 varð útbreidd­ari en SARS en hins vegar var hægt að bólu­setja fyr­ir­ henni. Sig­ur­bergur var að vinna á gjör­gæslu­deild­inni í Foss­vogi er sú pest ­geis­aði. „Það var tals­vert öðru­vísi en núna. Þá ein­angr­uðum við sjúk­ling­ana eins og nú en starfs­fólkið þurfti ekki að verja sig með sama hætti og núna. Það ­fékk bólu­setn­ingu og hún virk­aði vel.“

Auglýsing

Það er að á­kveðnu leyti flókið að sinna sjúk­lingum með COVID-19. Til þess þarf fleiri ­starfs­menn en oft­ast undir hefð­bundnum kring­um­stæðum á gjör­gæsl­unn­i. „­Sjúk­dóm­ur­inn setur það starfs­fólk sem sinnir sjúk­lingum í hættu og þess vegna þarf það að vera í miklum hlífð­ar­bún­að­i,“ útskýrir Sig­ur­berg­ur. Það er með­ ­sér­staka grímu fyrir and­lit­inu eða gler­augu, í hlífð­arslopp og með hanska. „Þessi bún­aður gerir það að verkum að öll vinna í kringum sjúk­ling­inn verð­ur­ ­þyngri og erf­ið­ari og skipta þarf um áhöfn oft­ar.“

Sig­ur­berg­ur ­segir að eng­inn sjúk­lingur með stað­fest smit hafi þurft á aðgerð að halda á Land­spít­al­anum við Hring­braut en hins vegar hafi fólk með grun um smit farið í að­gerð. „Þá var ítr­asti við­bún­aður við­hafð­ur.“

Svo eru vissir þættir í gjör­gæslu­með­ferð­inni sem auka enn á smit­hættu, „sér­stak­lega þegar unnið er með önd­un­ar­veg­inn,“ segir Sig­ur­berg­ur. Þegar sjúk­lingar þurfa að fara í önd­un­ar­vél þarf að barka­þræða þá. „Þá er hætta á því að sá sem það ger­ir ­fái á sig mikið sýkla­magn. Eins þegar soga þarf í kok eða barka.“

Það þurfa margir starfsmenn að hugsa um hvern og einn COVID-sjúkling. Á myndinni er Sigurbergur lengst til vinstri.
Tómas Guðbjartsson

Sú lungna­bólga og önd­un­ar­bilun sem COVID-­sjúk­lingar fá er að sögn Sig­ur­bergs nokkuð frá­brugðin þeirri sem að jafn­aði er glímt við á gjör­gæslu. Þetta hef­ur ­kallað á aðeins aðrar áherslur en gjarnan er beitt. Sjúk­lingar með COVID-19 eru þannig oft lagðir á grúfu og útönd­un­ar­þrýst­ingi í önd­un­ar­vél­inni hald­ið til­tölu­lega háum til að bæta loft­skipti.

Grúfu­lega er ár­ang­urs­rík því þegar sjúk­lingar liggja á mag­anum opn­ast betur lungna­blöðr­ur aftan til í lung­unum sem hafa fallið saman meðan legið var á bak­inu og nýtast því betur til loft­skipta. Í þeirri stöðu skap­ast einnig betra hlut­fall milli­ ­loft­flæðis og blóð­flæðis í lung­un­um, að sögn Sig­ur­bergs. „Að leggja sjúk­ling í önd­un­ar­vél á grúfu er flókn­ara en það hljóm­ar. Margar slöngur eru tengdar við ­sjúk­ling­inn og það skap­ast aukin hætta á að þær tog­ist út og einnig geta blóð­rás og öndun orðið óstöðug. Þetta þýðir að það þarf hóp sam­taka starfs­manna til að sinna þessum snún­ing­um.“

Sjúk­ling­arn­ir eru hafðir á grúfu í um sextán tíma en svo færðir yfir á bakið í um átta ­klukku­tíma. Þessi aðferð er svo end­ur­tekin jafn­vel í nokkra daga.

Grúfu­lega er ekki aðeins notuð þegar sjúk­lingar með COVID eru komnir á gjör­gæslu. Hún hef­ur einnig komið að gagni á fyrri stigum sjúk­dóms­ins. 

Auglýsing

Enn er heim­sókn­ar­bann á gjör­gæslu­deildir Land­spít­al­ans og aðstand­endur geta því ekki heim­sótt ást­vini sína sem eru í með­ferð á deild­inni, hvort sem þeir eru smit­aðir af COVID eða dvelja þar af öðrum ástæð­um. „Fólk hefur sýnt því mik­inn skiln­ing,“ segir Sig­ur­berg­ur. „Að­stand­endur átta sig á að heim­sókn­ar­bannið er bæði til að verja þá sjálfa og starfs­fólk og sjúk­linga spít­al­ans.“

Hringt er ­reglu­lega í aðstand­endur og þeim gefnar upp­lýs­ingar um ástand og líðan ást­vina ­sinna. „Þetta fyr­ir­komu­lag hefur gengið vel satt að segja.“

Fram­haldið er óljóst

Sig­ur­berg­ur ­segir að und­ir­bún­ingur vegna yfir­vof­andi far­ald­urs hér á landi hafi hafist snemma á Land­spít­al­an­um. Spít­al­inn hafi því verið til­bú­inn að takast á við far­sótt­ina þegar hún kom hingað upp úr miðjum febr­ú­ar. „Ef þessi und­ir­bún­ing­ur hefði ekki átt sér stað þá hefðum við verið í erf­iðum mál­um. En það má auð­vit­að ­segja það sama um öll heil­brigð­is­kerfi heims­ins nú um stund­ir.“

„Það er heldur rólegra yfir vötnum núna en var fyrir rúmri viku síð­an,“ seg­ir ­Sig­ur­bergur um álagið á gjör­gæsl­unni við Hring­braut í augna­blik­inu. En áfram þarf að vera í við­bragðs­stöðu.

Næstu skref und­ir­bún­ings fel­ast einmitt í því; að halda áfram að verja sjúk­linga og ­starfs­menn spít­al­ans, þó að veru­lega hafi dregið úr fjölda smita. „Fram­hald­ið er nokkuð óljóst á þess­ari stundu. Mótefna­mæl­ingar munu von­andi varpa ljósi á hversu útbreitt sam­fé­lags­smitið er og hvernig við getum þá hagað okk­ar ­starf­semi hér á spít­al­anum með skyn­sam­legum hætti til að minnka líkur á smit­i.“

Sigurbergur segir að allt starfsfólkið haldi ró sinni þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður.
Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Sig­ur­berg­ur og aðrir starfs­menn gjör­gæslu­deilda eru ekki að fara að kveðja varn­ar­bún­að­inn nærri því strax. Bráð­lega verður farið að kalla fólk inn í aðgerðir á sjúkra­hús­inu, aðgerðir sem settar voru á bið á meðan far­ald­ur­inn stóð sem hæst. ­Leggja þurfi áherslu á að kom­ast að því hvort að þessir sjúk­lingar séu hugs­an­lega smit­aðir áður en þeir eru teknir í aðgerð­ir.

Heil­brigðs­starfs­fólk hefur und­an­farnar vikur verið undir gríð­ar­legu álagi vegna hins nýja sjúk­dóms. „Allir halda ró sinn­i,“ svarar Sig­ur­bergur spurður um hvernig starfs­fólki á spít­al­anum líði við þessar óvenju­legu aðstæð­ur. „Við erum ein­fald­lega að takast á við þetta sem verk­efni og fylgjum vissum reglum sem gilda og miða að því að verja okkur fyrir smiti. Það eru allir á varð­bergi gagn­vart smiti en ég held að ­fólk upp­lifi sig samt ekki í hættu eða finn­ist það óör­uggt. Allar starfs­stétt­ir á sjúkra­hús­inu hafa verið mjög sam­taka í þess­ari bar­áttu, starfsand­inn er mjög ­góður og okkur finnst þetta hafa gengið vel. Hér hefur ekki skap­ast alvar­leg­t krísu­á­stand en auð­vitað verið erfitt á tíma­bil­u­m.“

Sig­ur­berg­ur líkt og margir aðrir í sam­fé­lag­inu heldur því í lág­marki að hitta aðra en sína ­nán­ustu fjöl­skyldu. „Við erum svo heppin að vinna hér mörg saman svo að ég á í miklum sam­skiptum við mína sam­starfs­menn þó að við gætum þess að sjálf­sögðu að halda tveggja metra fjar­lægð okkar á milli þegar við hitt­umst á göng­un­um.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal