Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn Sigurbergur Kárason

Veikindi virðast minnka þegar samfélagið róast

Þegar ró færist yfir samfélagið vegna bankahruns eða samkomubanns virðast færri veikjast alvarlega. Mikið álag hefur verið á gjörgæslum Landspítala vegna COVID-19 og þó að farið sé að draga úr því mun starfsfólk ekki kveðja varnarbúningana í bráð.

Það er farið að róast talsvert hjá okkur eftir mikið álag síðustu daga og vikur,“ segir Sigurbergur Kárason, yfirlæknir gjörgæslulækninga, á Landspítalanum við Hringbraut í samtali við Kjarnann.

Starfsemin á deildinni hefur verið tvískipt að undanförnu. Annars vegar er hópur sem sinnir sjúklingum með COVID-19 og hins vegar þeir sem sinna öðrum sem þurfa á gjörgæslumeðferð að halda. COVID-smitaðir liggja í sérstöku rými og starfsfólkið sem þeim sinnir er klætt í hlífðarbúnað frá toppi til táar. Með þessum aðgerðum er reynt að tryggja að sem fæstir í hópi starfsmanna verði útsettir fyrir smiti.
Auglýsing

Eftir stórar skurðaðgerðir þurfa alltaf einhverjir á gjörgæslumeðferð halda, til dæmis þeir sem gengist hafa undir hjartaaðgerðir og kviðarholsaðgerðir. Í upphafi var stefnt að því að COVID-19 sjúklingum yrði sinnt á Landspítalanum í Fossvogi en fljótlega eftir að álagið tók að aukast og það stefndi í að deildir sem helgaðar voru þeim sjúkingum myndu fyllast, var ákveðið að færa nokkra þeirra niður á Hringbraut. Alltaf hafði þó verið gert ráð fyrir því að til þessa gæti komið eftir því sem farsóttinni myndi vinda fram eða ef sjúklingur þyrfti að fara í hjarta- og lungnavél og starfsfólkið því undir það búið.

Fjórir sjúklingar með COVID-19 hafa verið í gjörgæslumeðferð á Hringbrautinni. Tveir þeirra hafa losnað af öndunarvél en eru enn á gjörgæslu. „Við sjáum núna að farið er að draga úr farsóttinni og við förum nú smám saman að trappa aftur upp hefðbundna starfsemi,“ segir Sigurbergur.

Færri þurfa hefðbundna gjörgæslumeðferð

Hann segir að á meðan faraldrinum hefur staðið hafi þeim fækkað sem þurfa á „hefðbundinni“ gjörgæslumeðferð að halda. „Það er ekki fyllilega skýrt af hverju það er en þetta virðist vera að gerast víðar en hér á landi. Þegar það róast allt í samfélaginu virðist sem veikindi minnki.“

Dregið hefur verið úr aðgerðum á spítalanum, fyrir utan bráðaaðgerðir, og þar með hefur álag á gjörgæsluna minnkað að einhverju leyti. Þá hefur sóttkví og einangrun vegna nýju kórónuveirunnar einnig áhrif á útbreiðslu annarra baktería og veira meðal fólks.

Sigurbergur segir að það sama hafi gerst í bankahruninu, um leið og hægðist á þjóðfélaginu fækkaði þeim sem þurftu gjörgæslumeðferð. „Það á sér sjálfsagt ýmsar skýringar, meðal annars þá að umferð minnkar og þá fækkar slysum, svo dæmi sé tekið.“

Felix Valsson (t.v.) og Sigurbergur Kárason á leið inn á stofu fyrir COVID-sjúklinga á gjörgæsludeildinni við Hringbraut.
Tómas Guðbjartsson

Í upphafi árs, þegar fréttir tóku að berast af skæðum veirufaraldri í Kína, sperrti Sigurbergur eyrun eins og flestir. Hann fylgdist náið með því hvernig ástandið þróaðist þar og þegar veiran tók að greinast í öðrum löndum. Það lá þó að hans mati ekki endilega í augum uppi í byrjun að um heimsfaraldur yrði að ræða. Vel tókst að hemja útbreiðslu SARS-faraldursins árið 2003 og komið var í veg fyrir að hann breiddist út um allan heim.

Svínainflúensan árið 2009 varð útbreiddari en SARS en hins vegar var hægt að bólusetja fyrir henni. Sigurbergur var að vinna á gjörgæsludeildinni í Fossvogi er sú pest geisaði. „Það var talsvert öðruvísi en núna. Þá einangruðum við sjúklingana eins og nú en starfsfólkið þurfti ekki að verja sig með sama hætti og núna. Það fékk bólusetningu og hún virkaði vel.“

Auglýsing

Það er að ákveðnu leyti flókið að sinna sjúklingum með COVID-19. Til þess þarf fleiri starfsmenn en oftast undir hefðbundnum kringumstæðum á gjörgæslunni. „Sjúkdómurinn setur það starfsfólk sem sinnir sjúklingum í hættu og þess vegna þarf það að vera í miklum hlífðarbúnaði,“ útskýrir Sigurbergur. Það er með sérstaka grímu fyrir andlitinu eða gleraugu, í hlífðarslopp og með hanska. „Þessi búnaður gerir það að verkum að öll vinna í kringum sjúklinginn verður þyngri og erfiðari og skipta þarf um áhöfn oftar.“

Sigurbergur segir að enginn sjúklingur með staðfest smit hafi þurft á aðgerð að halda á Landspítalanum við Hringbraut en hins vegar hafi fólk með grun um smit farið í aðgerð. „Þá var ítrasti viðbúnaður viðhafður.“

Svo eru vissir þættir í gjörgæslumeðferðinni sem auka enn á smithættu, „sérstaklega þegar unnið er með öndunarveginn,“ segir Sigurbergur. Þegar sjúklingar þurfa að fara í öndunarvél þarf að barkaþræða þá. „Þá er hætta á því að sá sem það gerir fái á sig mikið sýklamagn. Eins þegar soga þarf í kok eða barka.“

Það þurfa margir starfsmenn að hugsa um hvern og einn COVID-sjúkling. Á myndinni er Sigurbergur lengst til vinstri.
Tómas Guðbjartsson

Sú lungnabólga og öndunarbilun sem COVID-sjúklingar fá er að sögn Sigurbergs nokkuð frábrugðin þeirri sem að jafnaði er glímt við á gjörgæslu. Þetta hefur kallað á aðeins aðrar áherslur en gjarnan er beitt. Sjúklingar með COVID-19 eru þannig oft lagðir á grúfu og útöndunarþrýstingi í öndunarvélinni haldið tiltölulega háum til að bæta loftskipti.

Grúfulega er árangursrík því þegar sjúklingar liggja á maganum opnast betur lungnablöðrur aftan til í lungunum sem hafa fallið saman meðan legið var á bakinu og nýtast því betur til loftskipta. Í þeirri stöðu skapast einnig betra hlutfall milli loftflæðis og blóðflæðis í lungunum, að sögn Sigurbergs. „Að leggja sjúkling í öndunarvél á grúfu er flóknara en það hljómar. Margar slöngur eru tengdar við sjúklinginn og það skapast aukin hætta á að þær togist út og einnig geta blóðrás og öndun orðið óstöðug. Þetta þýðir að það þarf hóp samtaka starfsmanna til að sinna þessum snúningum.“

Sjúklingarnir eru hafðir á grúfu í um sextán tíma en svo færðir yfir á bakið í um átta klukkutíma. Þessi aðferð er svo endurtekin jafnvel í nokkra daga.

Grúfulega er ekki aðeins notuð þegar sjúklingar með COVID eru komnir á gjörgæslu. Hún hefur einnig komið að gagni á fyrri stigum sjúkdómsins. 

Auglýsing

Enn er heimsóknarbann á gjörgæsludeildir Landspítalans og aðstandendur geta því ekki heimsótt ástvini sína sem eru í meðferð á deildinni, hvort sem þeir eru smitaðir af COVID eða dvelja þar af öðrum ástæðum. „Fólk hefur sýnt því mikinn skilning,“ segir Sigurbergur. „Aðstandendur átta sig á að heimsóknarbannið er bæði til að verja þá sjálfa og starfsfólk og sjúklinga spítalans.“

Hringt er reglulega í aðstandendur og þeim gefnar upplýsingar um ástand og líðan ástvina sinna. „Þetta fyrirkomulag hefur gengið vel satt að segja.“

Framhaldið er óljóst

Sigurbergur segir að undirbúningur vegna yfirvofandi faraldurs hér á landi hafi hafist snemma á Landspítalanum. Spítalinn hafi því verið tilbúinn að takast á við farsóttina þegar hún kom hingað upp úr miðjum febrúar. „Ef þessi undirbúningur hefði ekki átt sér stað þá hefðum við verið í erfiðum málum. En það má auðvitað segja það sama um öll heilbrigðiskerfi heimsins nú um stundir.“

„Það er heldur rólegra yfir vötnum núna en var fyrir rúmri viku síðan,“ segir Sigurbergur um álagið á gjörgæslunni við Hringbraut í augnablikinu. En áfram þarf að vera í viðbragðsstöðu.

Næstu skref undirbúnings felast einmitt í því; að halda áfram að verja sjúklinga og starfsmenn spítalans, þó að verulega hafi dregið úr fjölda smita. „Framhaldið er nokkuð óljóst á þessari stundu. Mótefnamælingar munu vonandi varpa ljósi á hversu útbreitt samfélagssmitið er og hvernig við getum þá hagað okkar starfsemi hér á spítalanum með skynsamlegum hætti til að minnka líkur á smiti.“

Sigurbergur segir að allt starfsfólkið haldi ró sinni þrátt fyrir þessar óvenjulegu aðstæður.
Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Sigurbergur og aðrir starfsmenn gjörgæsludeilda eru ekki að fara að kveðja varnarbúnaðinn nærri því strax. Bráðlega verður farið að kalla fólk inn í aðgerðir á sjúkrahúsinu, aðgerðir sem settar voru á bið á meðan faraldurinn stóð sem hæst. Leggja þurfi áherslu á að komast að því hvort að þessir sjúklingar séu hugsanlega smitaðir áður en þeir eru teknir í aðgerðir.

Heilbrigðsstarfsfólk hefur undanfarnar vikur verið undir gríðarlegu álagi vegna hins nýja sjúkdóms. „Allir halda ró sinni,“ svarar Sigurbergur spurður um hvernig starfsfólki á spítalanum líði við þessar óvenjulegu aðstæður. „Við erum einfaldlega að takast á við þetta sem verkefni og fylgjum vissum reglum sem gilda og miða að því að verja okkur fyrir smiti. Það eru allir á varðbergi gagnvart smiti en ég held að fólk upplifi sig samt ekki í hættu eða finnist það óöruggt. Allar starfsstéttir á sjúkrahúsinu hafa verið mjög samtaka í þessari baráttu, starfsandinn er mjög góður og okkur finnst þetta hafa gengið vel. Hér hefur ekki skapast alvarlegt krísuástand en auðvitað verið erfitt á tímabilum.“

Sigurbergur líkt og margir aðrir í samfélaginu heldur því í lágmarki að hitta aðra en sína nánustu fjölskyldu. „Við erum svo heppin að vinna hér mörg saman svo að ég á í miklum samskiptum við mína samstarfsmenn þó að við gætum þess að sjálfsögðu að halda tveggja metra fjarlægð okkar á milli þegar við hittumst á göngunum.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal