Ég var að koma af vaktinni,“ segir Ásta Marteinsdóttir, sjúkraliði og lögfræðinemi. Vaktin var á smitsjúkdómadeild Landspítalans í Fossvogi sem er nú alfarið lögð undir COVID-sjúklinga. „Dagurinn var nokkuð góður. Álagið var minna en dagana á undan. En dagarnir eru reyndar flestir góðir á deildinni þó að það sé erfitt að vinna í gallanum. Þannig að ég er alveg vel þreytt eftir hverja vakt.“
Gallann ættu allir Íslendingar að vera farnir að þekkja: Græn hlífðarföt, gleraugu, andlitsgrímur og hanskar. „Einkennisbúningur“ framlínufólksins okkar í kórónuveirufaraldrinum.
Ásta vinnur á þrískiptum vöktum. Í fyrradag var hún til dæmis á kvöldvakt á spítalanum en mætti svo beint á morgunvaktina í gær. „Þannig að ég fékk svona sex eða sjö tíma til að sofa,“ segir hún. „Ég var ennþá þrútin í andlitinu eftir síðustu vakt þegar ég setti á mig grímuna í morgun.“
Gríman sem framlínufólkið þarf að bera til að forðast smit við störf sín er strekkt mjög þétt upp að vitunum. Það getur verði óþægilegt, sérstaklega til lengdar. Fólki verður heitt innan undir öllum hlífðarbúnaðinum og það svitnar. Sjúkraliðar á smitsjúkdómadeildinni eru yfirleitt ekki í göllunum lengur en einn og hálfan tíma í einu. Að þeim tíma loknum fara þeir út af sjúkrastofunum og úr búningunum en eru svo mættir aftur inn á gólf í þeim tvisvar eða þrisvar í viðbót á hverri vakt.
Planið hjá Ástu var upprunalega að verða snyrtifræðingur. Hún hóf nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og þar kviknaði áhuginn á sjúkraliðun. Ákvörðunina um að leggja snyrtifræðina á hilluna má rekja til kennara í skólanum. Áður en hún gat hafið nám í snyrtifræði þurfti hún að taka grunnáfanga og einn af þeim var í líffæra- og lífeðlisfræði. „Þann áfanga kenndi Karen Júlía Júlíusdóttir og hún kveikti mikinn áhuga hjá mér fyrir klínísku starfi. Og svo ákvað ég að taka sjúkraliðann.“
Ásta útskrifaðist sem sjúkraliði og stúdent síðasta vor frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Námið lá vel fyrir henni og hún var með hæstu einkunn á sjúkraliðabrautinni og semidúx skólans.
Síðasta sumar starfaði hún á bráða- og lyflækningadeild Landspítalans en í haust hóf hún nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún segir það lengi hafa staðið til enda telur hún sjúkraliðamenntunina koma að góðu gagni í framtíðarstarfi sem lögfræðingur. „Ég á eftir að sjá hvert lögfræðin tekur mig en það eru mörg svið innan hennar þar sem hægt verður að nýta þekkingu af sjúkraliðun.“
Laganámið gekk frá upphafi vel og Ásta náði mjög góðum einkunnum. „En svo kom kórónuveiran,“ segir hún, „og það var óskað eftir sjúkraliðum í bakvarðasveitina. Ég skráði mig strax en sagðist ekki getað byrjað fyrr en eftir lokaprófin í vor.“
Og nú standa lokaprófin yfir. En Ásta er ekki að þreyta þau.
„Eftir að ég skráði mig í bakvarðasveitina kom tölvupóstur frá Háskólanum í Reykjavík þar sem fram kom að þeir sem væru búnir að ná viðunandi árangri í verkefnum og prófum til þessa á önninni gætu fengið það metið. Í stað lokaprófa og einkunnar myndi þá standa „staðist“. Ég sá að ef ég myndi ekki þurfa að liggja yfir undirbúningi fyrir lokapróf hefði ég meiri tíma og breytti umsókninni minni í bakvarðasveitina og sagðist geta komið strax til starfa.“
Skortur var á sjúkraliðum á spítalanum fyrir faraldur COVID-19 og því fékk Ásta símtal strax daginn eftir. Hún var beðin að koma til vinnu sem fyrst. Fyrsta dag aprílmánaðar var hún því mætt á vakt á smitsjúkdómadeildina í Fossvogi.
„Ég fékk tvær vaktir í aðlögun og fylgdi þá reyndum sjúkraliða eftir,“ segir Ásta. „Ég þekki þessa vinnu vel, hún er ekki ósvipuð þeirri sem ég hef sinnt áður á spítalanum – fyrir utan þennan galla auðvitað.“
Hún viðurkennir að fyrst þegar hún mætti inn á sjúkrastofu til sjúklinga, klædd varnarbúnaði frá hvirfli til ilja, hafi hún orðið andstutt og hugsað hvað hún væri eiginlega búin að koma sér út í. „En þessi hræðsla gufaði fljótt upp. Óttinn við að vera að setja sig í hættulegar aðstæður hvarf. Ég treysti gallanum mínum og aðlagaðist ástandinu mjög fljótt.“
En hvað fellst í starfi sjúkraliða?
„Sjúkraliðar sinna nærhjúkrun með áherslu á að uppfylla grunnþarfir sjúklinganna,“ útskýrir Ásta. „Störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða skarast oft en þeir vinna líka mjög náið saman. Á smitsjúkdómadeildinni og víðar á spítalanum vinna hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði saman í teymi. Við erum hönd í hönd í gegnum þetta allt saman. Við setjum okkur markmið í hjúkruninni og skipuleggjum hvernig við ætlum að framkvæma hana.“
Sjúkraliðar eru því ávallt í mikilli nánd við sjúklinginn. Þeir sjá um böðun, að sjúklingar borði og fleira en einnig hafa þeir stöðugt eftirlit með þeim.
Í starfinu þurfa sjúkraliðar að fylgjast vel með lífsmörkum, þekkja byrjun á þrýstingssárum og framkvæma alls konar rannsóknir, svo sem hjartalínurit og taka þvagsýni.
Stór hluti af starfi sjúkraliða fellst svo í að hlúa að líðan sjúklingana, tala við þá og hughreysta. Fólk sem þarf að leggjast inn á spítala líður oft illa andlega og ekki síst núna þegar það er með nýjan sjúkdóm sem getur verið lífshættulegur. „Fyrst þegar sjúklingar leggjast inn á deildina þá líður mörgum þeirra ekki vel,“ segir Ásta.
Allt heilbrigðisstarfsfólkið er með grímur fyrir vitum og gleraugu fyrir augunum. „Og það getur verið vont fyrir sjúklinga að geta ekki séð brosið mitt og almennilega greint svipbrigðin mín. Það skiptir máli þegar maður þarf að ná persónulegum tengslum. En við höfum verið að reyna að hugsa í lausnum og núna límum við mynd af okkur framan á búninginn þannig að fólk getur þá séð hvernig við lítum út undir grímunni. Sjúklingarnir geta þá líka þekkt okkur í sundur – svo að við séum ekki öll bara grænar geimverur.“
Hefur meiri tíma til að tala við sjúklingana og vera hjá þeim
Fjölgað hefur töluvert í starfsliðinu á smitsjúkdómadeildinni frá því að faraldurinn skall á enda þarf fleiri til að sinna COVID-smituðum, m.a. vegna þess að skipta þarf starfsliðinu upp í hópa til að fara inn á stofurnar. „Það sem mér finnst hafa breyst frá því að ég vann á spítalanum síðasta sumar er að þó að ég framkvæmi öll þau verkefni sem ég ber ábyrgð á þá hef ég meiri tíma í nærveru, þetta spjall. Þetta skiptir sjúklingana enn meira máli núna en áður því að þeir geta ekki fengið fjölskyldu og vini í heimsókn. Þannig að við höfum meiri tíma til að tala við fólk og vera hjá því og reyna þannig að koma í veg fyrir vanlíðan.“
Hún segir það sína upplifun að það rói fólk og geri því lífið örlítið léttara. „Mér finnst þetta hjálpa. Og ég verð að segja að núna finnst mér nógu vel mannað til að maður geti sinnt öllum sjúklingum vel. Þannig að mér líður vel í mínu starfi og finnst ég ná að gera það sem ég á að gera og ætla mér.“
Spurð hvort að vinnan á spítalanum muni skerða námslánin segist Ásta sannarlega vona að svo verði ekki. „Ef bakvörður sem hleypur til í ástandi sem þessu, kemur til aðstoðar í faraldri, þarf svo að endurgreiða hluta námslána sinna eða fær þau ekki, þá er það eitthvað sem þarf heldur betur að skoða.“
Ásta segist lítið annað gera þessa dagana en að vinna og vera með fjölskyldu sinni, manni sínum Marinó Flóvent Marinóssyni og tíu ára dóttur sinni Evu Rós. Hún mun í sumar þegar álag vegna COVID-19 minnkar starfa sem sjúkraliði á bráðalyflækningadeild og að því loknu tekur lögfræðinámið aftur við.
Sjúkraliðar aldrei fengið vaktaálagsauka
Það mætti segja að himinn og haf séu á milli þess sem lögfræðingur getur haft í laun og þess sem sjúkraliði hefur. Kjarabarátta sjúkraliða hefur verið áberandi síðustu ár og skortur á slíku fagfólki viðvarandi á sama tíma.
Kjarasamningar voru loks samþykktir fyrr á þessu ári og eiga umsamdar launahækkanir samkvæmt þeim að taka gildi í þrepum til ársins 2022. Ásta segir að í hinum nýja samningi sé kveðið á um að þegar unnið er undir miklu álagi, eins og sjúkraliðar og annað heilbrigðisstarfsfólk gerir þessa mánuðina, sé heimild til sérstakrar greiðslu af þeim sökum.
„Mér finnst að það eigi hiklaust að virkja þessa heimild núna,“ segir Ásta, „sjúkraliðar hafa aldrei fengið vaktaálagsauka eins og sumar aðrar stéttir heilbrigðisstarfsfólks. Núna hefur verið tekin ákvörðun um að framlengja álagsauka til hjúkrunarfræðinga sem er ekkert annað en eðlilegt og skiljanlegt. En sjúkraliðar fá ekkert slíkt og mér finnst vanta rökin fyrir því að skilja okkur eftir.“
Hún bendir einnig á að sjúkraliðar vinna þrískiptar vaktir og ekki er hægt að vinna í 100 prósent starfi án þess að brjóta reglur um hvíldartíma á milli vakta. „Hjúkrunarfræðingar fengu álagsauka með þessum rökum og þeim að fjölga þyrfti í þeirra hópi á spítalanum. Allt þetta á líka við um sjúkraliða.”
Ásta segir að langar vaktir í búningnum heita séu erfiðar og hún sé þreytt eftir þær. „En peppið frá samfélaginu er gífurlega gefandi. Manni líður pínulítið eins og íþróttamanni með stuðningsmenn á hliðarlínunni. Að finna þennan stuðning er virkilega hvetjandi. Sama gildir um allt samstarfsfólkið, við erum öll í sama liðinu og erum dugleg að styðja og hvetja hvert annað áfram. En það skal segjast eins og er að það vantar upp á þessa hvatningu frá stjórnvöldum og að hún skili sér í bættum kjörum.“