Mynd: 123rf.com

Útgerðir telja það brot á mannréttindum sínum að herða lög um tengda aðila

Frumvarp sem á að endurskilgreina hvað teljist tengdir aðilar í sjávarútvegi hefur verið tekið út af þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19. Hagsmunasamtök útgerða gagnrýna frumvarpið harðlega, telja það langt umfram efni og að það gangi gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

jan­úar 2019 hófst ferli. Þá skil­aði Rík­is­end­ur­skoðun svartri stjórn­sýslu­út­tekt um Fiski­stofu. Eitt þeirra atriða sem veru­legar athuga­semdir voru gerðar við, og vakti mikla athygli, var að Fiski­stofa kann­aði ekki hvort að yfir­ráð tengdra aðila í sjáv­ar­út­vegi yfir afla­hlut­deild­um, eða kvóta, væri í sam­ræmi við lög.

Umrædd lög eru skýr. Þau segja að eng­inn hópur tengdra aðila má halda á meira en 12 pró­sent af heild­ar­afla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla sam­þjöppun í sjáv­ar­út­vegi á meðal þeirra fyr­ir­tæki sem fá að vera vörslu­að­ili fiski­mið­anna, sem eru sam­kvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóð­ar­inn­ar. 

Skiptar skoð­anir hafa verið uppi um hvort það tak­mark hafi náðst. En skýrsla Rík­is­end­ur­skoð­unar ýtti málum aðeins áfram. Í henni var meðal ann­ars lagt til að ráð­ast í end­ur­skoðun á lögum um stjórn fisk­veiða sem snúa að yfir­ráðum yfir afla­heim­ildum og ákvæðum sem fjalla um tengsl aðila „svo tryggja megi mark­visst eft­ir­lit með sam­­­þjöppun afla­heim­ilda“. 

Drög að frum­varpi fæð­ast

Í mars 2019 var skipuð verk­efna­stjórn sem falið var þetta verk­efni. Í henni sitja Sig­­urður Þórð­­ar­­son, sem er for­­mað­­ur, Bryn­hildur Bene­dikts­dótt­ir, sér­­fræð­ingur á skrif­­stofu sjá­v­­­ar­út­­­vegs- og fisk­eldis í atvinn­u­­vega- og nýsköp­un­­ar­ráðu­­neyt­inu, Elliði Vign­is­­son, sveit­­ar­­stjóri, Hulda Árna­dótt­ir, lög­­­maður og Oddný G. Harð­­ar­dótt­ir, alþing­is­­mað­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Auglýsing

Í nóv­­em­ber 2019, í kjöl­far Sam­herj­­a­­máls­ins, óskaði Krist­ján Þór Júl­í­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, eftir því að verk­efna­stjórnin myndi skila þeim hluta vinnu sinnar sem snéri að tengdum aðilum fyrir 1. jan­úar 2020. Henni var skilað skrif­­lega 30. des­em­ber 2019. 

Til­lög­urnar voru fimm. Lagðar voru til breyt­ingar á skil­­grein­ingum á tengdum aðilum þannig að þær yrðu látnar ná til hjóna, sam­­búð­­ar­­fólks og barna þeirra. Þá var lagt til að ákveðin stjórn­­un­­ar­­leg tengsl milli fyr­ir­tækja myndu leiða til þess að fyr­ir­tækin eru talin tengd nema sýnt væri fram á hið gagn­­stæða og að sér­stak­lega yrði skil­greint í lög­unum hvað fælist í raun­veru­legum yfir­ráðum yfir öðru fyr­ir­tæki. Einnig átti að skikka aðila sem ráða yfir meira en sex pró­­sent af afla­hlut­­deild, sem eru örfá fyr­ir­tæki, eða 2,5 pró­­sent af krókafla­hlut­­deild til að til­­kynna til Fiski­­stofu áætl­­aðan sam­runa. Sama myndi eiga við þegar fram færu kaup í félagi sem ráði yfir afla­hlut­­deild eða við kaup á afla­hlut­­deild og áttu þau kaup ekki til fram­­kvæmda nema sam­­þykki Fiski­­stofu lægi fyr­ir. Að end­ingu átti að veita Fiski­­stofu auknar heim­ildir til afla gagna.

Kristján Þór Júlíusson er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Mynd: Bára Huld Beck

Í til­­lög­unum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarks­afla­hlut­deild né kröfu um hlut­­fall meiri­hluta­­eignar í tengdum aðil­­um. Þau mál yrðu áfram til skoð­unar hjá nefnd­inn­i. 

Allt á ís

Um miðjan febr­úar var búið að breyta til­lög­unum í drög að frum­varpi, sem var lagt fram til kynn­ingar í sam­ráðs­gátt stjórn­valda. Þar var reyndar gengið aðeins lengra þar sem fóst­ur­börn áttu líka telj­ast tengdir aðil­ar.

Eitt atriði í frum­varps­drög­un­um, sem Krist­ján Þór var skrif­aður fyr­ir, vakti þó harða gagn­rýni. Í þeim var bráða­birgða­á­kvæði sem sagði að ef afla­hlut­deild útgerða í eigu tengdra aðila, sem ekki töld­ust tengdir áður en að lögin tækju gildi, færi yfir áður­nefnd mörk þá myndi þeirri hinir sömu fá rúm sex ár, eða til loka ágúst 2026, til að koma sér undir kvóta­þak­ið. Á meðan gætu við­kom­andi veitt meiri fisk en lög heim­il­uðu þeim að gera og stungið ágóð­anum af þeim veiðum óáreittir í eigin vasa. 

Auglýsing

Svo skall COVID-19 far­ald­ur­inn á og nýr veru­leiki blasti við. Í þeim veru­leika hefur lítið verið rætt um skil­grein­ingar á tengdum aðilum í sjáv­ar­út­vegi og hvort nauð­syn­legt sé að breyta lögum um hámarks­kvóta­þak eða að end­ur­skoða ákvæði um að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki þurfi að eiga 50 pró­sent í öðru til að telj­ast tengdir aðil­ar, á meðan að það hlut­fall er til að mynda 25 pró­sent á fjár­mála­mark­að­i. 

COVID-19 og aðrir þættir gerðu það að verkum að loka­skýrsla verk­efna­stjórn­ar­inn­ar, sem átti að leggja fram til­lögur í þessum mál­um, kom ekki út í mars 2020. Raunar hefur nefndin ekk­ert fundað und­an­farna mán­uði.

Nú er einnig svo komið að áformum um að leggja fram frum­varp, byggt á drög­unum sem Krist­ján Þór kynnti í sam­ráðs­gátt­inni í febr­úar og var á þing­mála­skrá rík­is­stjórn­ar­innar í vor, hefur verið frestað fram á haust. 

Ólíkir hags­munir og ólík mark­mið

Þegar drög að frum­vörpum eru í sam­ráðs­ferli þá geta hags­muna­að­ilar og aðrir áhuga­samir skilað inn umsögnum um þau. Tvær slíkar bár­ust. Önnur var frá Lands­sam­bandi smá­bát­ar­eig­enda (LS), sem var í meg­in­at­riðum ánægt með frum­varpið en gerði smá­vægi­legar athuga­semd­ir. Sam­bandið vildi meðal ann­ars að systkin yrðu einnig talin til tengdra aðila. Í umsögn­inni stendur orð­rétt: „LS lítur svo á að frum­varpið muni gera leik­reglur skýr­ari og upp­lýs­ingar um eign­ar­að­ild fyr­ir­tækja ljós­ari, jafn­framt að skerpa á ákvæðum um fram­kvæmd og inn­grip Fiski­stofu. LS styður þessi áform.“

Nokkrir hópar halda á þorra kvótans

Tíu stærstu útgerðir lands­ins halda sam­tals á tæp­lega 53 pró­sent af úthlut­uðum kvóta, samkvæmt samantekt sem Fiskistofa birti fyrr í vikunni. Það er mjög svipuð staða og var uppi í sept­em­ber í fyrra. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki sam­kvæmt lögum um fisk­veið­ar.

Brim, Sam­herji og Kaup­fé­lag Skag­firð­inga eru fyr­ir­ferða­mestu útgerð­irn­ar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eig­endur þeirra eiga í, á tæp­lega 43 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta.

Brim ersú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 pró­sent. Útgerð­ar­fé­lag Reykja­vík­ur, sem á 44,65 pró­sent hlut í Brim beint og í gegnum dótt­ur­fé­lag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 pró­sent af öllum afla­heim­ild­um. Útgerð­ar­fé­lag Reykja­víkur er að uppi­stöðu í eigu Guð­mundar Krist­jáns­son­ar, sem var þangað til í gær for­stjóri Brims og situr í stjórn félagsins. Til við­bótar heldur útgerð­ar­fé­lagið Ögur­vík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 pró­sent af úthlut­uðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 pró­sent af úthlut­uðum kvóta.

Sam­herji er með næst mesta afla­hlut­deild, eða 7,02 pró­sent. Fyr­ir­tækið er í eigu for­­­­­stjór­ans Þor­­­­­steins Más Bald­vins­­­­­son­ar, útgerð­­­­­ar­­­­­stjór­ans Krist­jáns Vil­helms­­­­­sonar og Helgu S. Guð­­munds­dótt­­ur, fyrr­ver­andi eig­in­­kona Þor­­steins Más. ­Út­gerð­­­­­ar­­­­­fé­lag Akur­eyr­­­­­ar, sem er í 100 pró­­­­­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­­­­­sent kvót­ans og Sæból fjár­­­­­­­­­fest­inga­­­­­fé­lag heldur á 0,64 pró­­­­­sent hans. Síld­­­­­ar­vinnslan, sem Sam­herji á beint og óbeint 49,9 pró­sent hlut í, er svo með 5,2 pró­sent afla­hlut­deild og Berg­ur-Hug­inn, í eigu Síld­ar­vinnsl­unn­ar, er með 2,3 pró­sent af heild­ar­kvóta til umráða. Sam­an­lagt er þessi blokk með 16,5 pró­sent afla­hlut­deild.

Kaup­­­­fé­lag Skag­­­­firð­inga á FISK Seafood, sem heldur á 5,5 pró­­­­sent heild­­­­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­­­­sent í Vinnslu­­­­stöð­inni í Vest­­­­manna­eyjum sem er með 4,5 pró­sent heild­­­­ar­afla­hlut­­­­deild. Þá á Vinnslu­stöðin 48 pró­sent hlut í útgerð­ar­fé­lag­inu Hug­inn í Vest­manna­eyj­um, sem heldur á 0,76 pró­sent af útgefnum kvóta. FISK á til við­bótar allt hlutafé í Soff­an­­­­ías Cecils­­­­son, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­­­­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­­­­ar­kvóti þess­­­­ara þriggja rétt yfir ell­efu pró­sent, og er því undir 12 pró­­­­sent mark­inu þótt þeir yrðu skil­­­­greindir með öðrum hætti.

Hin umsögn­in, sem hefur ekki vakið mikla opin­bera athygli, kom frá Sam­tökum fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), hags­muna­gæslu­armi útgerð­ar­fyr­ir­tækj­anna. Hún var ekki jafn jákvæð. 

Í umsögn­inni, sem er skrifuð af Heiðrúnu Lind Mart­eins­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra SFS, er frum­varps­drög­unum fundið flest til for­áttu. Þar segir meðal ann­ars um þá ætl­uðu breyt­ingu að telja hjón, börn þeirra og sam­búð­ar­fólk sem tengda aðila líkt og er í lögum um fjár­mála­fyr­ir­tæki, að sam­tökin telji eðli­legt að reglur milli þess­ara tveggja geira séu ólíkar „enda búa ólíkir hags­munir og ólík mark­mið að baki þeirri lög­gjöf sem snýr að stjórn fisk­veiða og eftir atvikum lögum og reglum er varða t.a.m. verð­bréfa- og fjár­mála­mark­að.“

Reyni á eign­ar­rétt­ar­á­kvæði stjórn­ar­skrár­innar

SFS kom því einnig á fram­færi að sam­tökin telji mik­il­vægt að árétta að lög um stjórn fisk­veiða, sem segja meðal ann­ars að nytja­stofnar á Íslands­miðum séu sam­eign íslensku þjóð­ar­inn­ar, reyni „mjög á mörk bæði atvinnu­frels­is- og eign­ar­rétt­ar­á­kvæða stjórn­ar­skrár­inn­ar. Því þarf að gæta með­al­hófs­regl­unnar varð­andi með­ferð slíkra tak­mark­ana.“

Þess með­al­hófs finnst SFS ekki vera gætt í frum­varps­drög­unum og sam­tökin taka sér­stak­lega fram að bráða­birgða­á­kvæðið sem veitir sex ára aðlög­un­ar­tíma leysi lög­gjafann ekki frá hinum stjórn­ar­skrár­vörðu rétt­indum útgerð­anna. „Leggja þarf áherslu á að þau sjón­ar­mið, sem birt­ast í lög­unum og litið er til við mat á tengdum aðil­um, séu skýr og beit­ing þeirra fyr­ir­sjá­an­leg hverju sinni. Inn­leið­ing mats­kenndra og óljósra heim­ilda mun hafa nei­kvæð og hamlandi áhrif á atvinnu­starf­semi þeirra fyr­ir­tækja sem eft­ir­lit­inu sæta.“

Varð­andi auknar heim­ildir Fiski­stofu til eft­ir­lits með sam­runa stærri fyr­ir­tækja og til að afla gagna, þá telja SFS þær hug­myndir vera „sér­stakt áhyggju­efn­i“. Fiski­stofa hafi borið fyrir sig skorti á mannauði til að fram­kvæma eft­ir­lit sam­kvæmt gild­andi ákvæði og að mat­i SFS verði ekki séð hvernig sú til­laga til breyt­inga sem nú liggi fyrir muni breyta eða bæta þá ann­marka Fiski­stofu. Í umsögn­inni seg­ir: „Þá verður ekki fram­hjá því litið að við­skipti með afla­heim­ildir eru hluti af venju­bund­inni starf­semi fyr­ir­tækja, þar sem skil­virkni er lyk­il­at­riði, þannig að tekju­öflun geti átt sér stað. Við­skipti með eign­ar­hluti í fyr­ir­tækj­um, sem ákvæði sam­keppn­islaga og laga um fjár­mála­fyr­ir­tæki víkja að, eru af allt öðrum toga og hafa engin áhrif á starf­semi þeirra fyr­ir­tækja sem hluta­bréfin varða. Eðli þess­ara við­skipta er því allt ann­að. Af þeim sökum er ekki unnt að ætla, að hið sama geti um þau gilt.“

Auglýsing

Að mati SFS eru rík­ari heim­ildir til handa Fiski­stofu til inn­gripa í rekstur útgerð­ar­fyr­ir­tækja ekki bara var­huga­verð­ar, heldur mann­rétt­inda­brot. „Vert er að geta þess að í til­lög­unum er ekki gert ráð fyrir and­mæla­rétti aðila eða kæru­heim­ildum vegna þeirra nýmæla sem fel­ast í til­lög­unni. Af þeim sökum getur nefnt ákvæði ekki staðið óbreytt, enda fær það hvorki staðið meg­in­reglur stjórn­sýslu­réttar né 1. mgr. 6. gr. Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.“

Telja öfuga sönn­un­ar­byrði fara gegn mann­rétt­indum

Ein meg­in­breyt­ingin sem lögð var til í frum­varps­drög­unum var að í lög um stjórn fisk­veiða myndi bæt­ast ákvæði um að ef sami ein­stak­lingur eða sömu ein­stak­lingar stjórni tveimur eða fleiri aðilum skuli þeir aðilar telj­ast tengdir „nema sýnt sé fram á hið gagn­stæða.“ Við það skap­ist raun­veru­legt eign­ar­hald. 

Mannréttindadómstóll Evrópu starfar á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu. Honum er ætlað að tryggja að aðildarríki virði réttindi sáttmálans.
Mynd: EPA

Til­gangur þessa er sú að þekkt er innan íslensks sjáv­ar­út­vegs að til dæmis for­stjóri einnar stórrar útgerðar sé stjórn­ar­for­maður í annarri á þess að for­stjór­inn kann­ist neitt við að vera tengdur stjórn­ar­for­mann­in­um. Eða að stórt útgerð­ar­fé­lag í eigu eins manns sé stærsti hlut­haf­inn í öðru og að eig­and­inn af því fyrra sé bæði for­stjóri og stjórn­ar­maður í því síð­ara, án þess að nokkur í þessu mengi sé tal­inn tengd­ur.

SFS gera miklar athuga­semdir við þetta ákvæði, sem þau telja að feli í sér öfuga sönn­un­ar­byrði og fari því gegn Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Og segja að það eig­i ­sér enga fyr­ir­mynd í annarri lög­gjöf sem teng­ist atvinnu­rekstri.

Í lok umsagn­ar­innar ítrekar SFS  að sam­tökin telji að frum­varps­drögin séu heilt yfir umfram til­efn­i. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar