Útgerðir telja það brot á mannréttindum sínum að herða lög um tengda aðila
Frumvarp sem á að endurskilgreina hvað teljist tengdir aðilar í sjávarútvegi hefur verið tekið út af þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19. Hagsmunasamtök útgerða gagnrýna frumvarpið harðlega, telja það langt umfram efni og að það gangi gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.
janúar 2019 hófst ferli. Þá skilaði Ríkisendurskoðun svartri stjórnsýsluúttekt um Fiskistofu. Eitt þeirra atriða sem verulegar athugasemdir voru gerðar við, og vakti mikla athygli, var að Fiskistofa kannaði ekki hvort að yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væri í samræmi við lög.
Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila má halda á meira en 12 prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar.
Skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort það takmark hafi náðst. En skýrsla Ríkisendurskoðunar ýtti málum aðeins áfram. Í henni var meðal annars lagt til að ráðast í endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem snúa að yfirráðum yfir aflaheimildum og ákvæðum sem fjalla um tengsl aðila „svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Drög að frumvarpi fæðast
Í mars 2019 var skipuð verkefnastjórn sem falið var þetta verkefni. Í henni sitja Sigurður Þórðarson, sem er formaður, Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs- og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Elliði Vignisson, sveitarstjóri, Hulda Árnadóttir, lögmaður og Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar.
Í nóvember 2019, í kjölfar Samherjamálsins, óskaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eftir því að verkefnastjórnin myndi skila þeim hluta vinnu sinnar sem snéri að tengdum aðilum fyrir 1. janúar 2020. Henni var skilað skriflega 30. desember 2019.
Tillögurnar voru fimm. Lagðar voru til breytingar á skilgreiningum á tengdum aðilum þannig að þær yrðu látnar ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra. Þá var lagt til að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja myndu leiða til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt væri fram á hið gagnstæða og að sérstaklega yrði skilgreint í lögunum hvað fælist í raunverulegum yfirráðum yfir öðru fyrirtæki. Einnig átti að skikka aðila sem ráða yfir meira en sex prósent af aflahlutdeild, sem eru örfá fyrirtæki, eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild til að tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna. Sama myndi eiga við þegar fram færu kaup í félagi sem ráði yfir aflahlutdeild eða við kaup á aflahlutdeild og áttu þau kaup ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu lægi fyrir. Að endingu átti að veita Fiskistofu auknar heimildir til afla gagna.
Í tillögunum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Þau mál yrðu áfram til skoðunar hjá nefndinni.
Allt á ís
Um miðjan febrúar var búið að breyta tillögunum í drög að frumvarpi, sem var lagt fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Þar var reyndar gengið aðeins lengra þar sem fósturbörn áttu líka teljast tengdir aðilar.
Eitt atriði í frumvarpsdrögunum, sem Kristján Þór var skrifaður fyrir, vakti þó harða gagnrýni. Í þeim var bráðabirgðaákvæði sem sagði að ef aflahlutdeild útgerða í eigu tengdra aðila, sem ekki töldust tengdir áður en að lögin tækju gildi, færi yfir áðurnefnd mörk þá myndi þeirri hinir sömu fá rúm sex ár, eða til loka ágúst 2026, til að koma sér undir kvótaþakið. Á meðan gætu viðkomandi veitt meiri fisk en lög heimiluðu þeim að gera og stungið ágóðanum af þeim veiðum óáreittir í eigin vasa.
Svo skall COVID-19 faraldurinn á og nýr veruleiki blasti við. Í þeim veruleika hefur lítið verið rætt um skilgreiningar á tengdum aðilum í sjávarútvegi og hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum um hámarkskvótaþak eða að endurskoða ákvæði um að sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að eiga 50 prósent í öðru til að teljast tengdir aðilar, á meðan að það hlutfall er til að mynda 25 prósent á fjármálamarkaði.
COVID-19 og aðrir þættir gerðu það að verkum að lokaskýrsla verkefnastjórnarinnar, sem átti að leggja fram tillögur í þessum málum, kom ekki út í mars 2020. Raunar hefur nefndin ekkert fundað undanfarna mánuði.
Nú er einnig svo komið að áformum um að leggja fram frumvarp, byggt á drögunum sem Kristján Þór kynnti í samráðsgáttinni í febrúar og var á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í vor, hefur verið frestað fram á haust.
Ólíkir hagsmunir og ólík markmið
Þegar drög að frumvörpum eru í samráðsferli þá geta hagsmunaaðilar og aðrir áhugasamir skilað inn umsögnum um þau. Tvær slíkar bárust. Önnur var frá Landssambandi smábátareigenda (LS), sem var í meginatriðum ánægt með frumvarpið en gerði smávægilegar athugasemdir. Sambandið vildi meðal annars að systkin yrðu einnig talin til tengdra aðila. Í umsögninni stendur orðrétt: „LS lítur svo á að frumvarpið muni gera leikreglur skýrari og upplýsingar um eignaraðild fyrirtækja ljósari, jafnframt að skerpa á ákvæðum um framkvæmd og inngrip Fiskistofu. LS styður þessi áform.“
Nokkrir hópar halda á þorra kvótans
Tíu stærstu útgerðir landsins halda samtals á tæplega 53 prósent af úthlutuðum kvóta, samkvæmt samantekt sem Fiskistofa birti fyrr í vikunni. Það er mjög svipuð staða og var uppi í september í fyrra. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki samkvæmt lögum um fiskveiðar.
Brim, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga eru fyrirferðamestu útgerðirnar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eigendur þeirra eiga í, á tæplega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Brim ersú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 prósent. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 44,65 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem var þangað til í gær forstjóri Brims og situr í stjórn félagsins. Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta. Samherji er með næst mesta aflahlutdeild, eða 7,02 prósent. Fyrirtækið er í eigu forstjórans Þorsteins Más Baldvinssonar, útgerðarstjórans Kristjáns Vilhelmssonar og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan, sem Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut í, er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er með 2,3 prósent af heildarkvóta til umráða. Samanlagt er þessi blokk með 16,5 prósent aflahlutdeild. Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,5 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 0,76 prósent af útgefnum kvóta. FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja rétt yfir ellefu prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.Hin umsögnin, sem hefur ekki vakið mikla opinbera athygli, kom frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), hagsmunagæsluarmi útgerðarfyrirtækjanna. Hún var ekki jafn jákvæð.
Í umsögninni, sem er skrifuð af Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, er frumvarpsdrögunum fundið flest til foráttu. Þar segir meðal annars um þá ætluðu breytingu að telja hjón, börn þeirra og sambúðarfólk sem tengda aðila líkt og er í lögum um fjármálafyrirtæki, að samtökin telji eðlilegt að reglur milli þessara tveggja geira séu ólíkar „enda búa ólíkir hagsmunir og ólík markmið að baki þeirri löggjöf sem snýr að stjórn fiskveiða og eftir atvikum lögum og reglum er varða t.a.m. verðbréfa- og fjármálamarkað.“
Reyni á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar
SFS kom því einnig á framfæri að samtökin telji mikilvægt að árétta að lög um stjórn fiskveiða, sem segja meðal annars að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, reyni „mjög á mörk bæði atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Því þarf að gæta meðalhófsreglunnar varðandi meðferð slíkra takmarkana.“
Þess meðalhófs finnst SFS ekki vera gætt í frumvarpsdrögunum og samtökin taka sérstaklega fram að bráðabirgðaákvæðið sem veitir sex ára aðlögunartíma leysi löggjafann ekki frá hinum stjórnarskrárvörðu réttindum útgerðanna. „Leggja þarf áherslu á að þau sjónarmið, sem birtast í lögunum og litið er til við mat á tengdum aðilum, séu skýr og beiting þeirra fyrirsjáanleg hverju sinni. Innleiðing matskenndra og óljósra heimilda mun hafa neikvæð og hamlandi áhrif á atvinnustarfsemi þeirra fyrirtækja sem eftirlitinu sæta.“
Varðandi auknar heimildir Fiskistofu til eftirlits með samruna stærri fyrirtækja og til að afla gagna, þá telja SFS þær hugmyndir vera „sérstakt áhyggjuefni“. Fiskistofa hafi borið fyrir sig skorti á mannauði til að framkvæma eftirlit samkvæmt gildandi ákvæði og að mati SFS verði ekki séð hvernig sú tillaga til breytinga sem nú liggi fyrir muni breyta eða bæta þá annmarka Fiskistofu. Í umsögninni segir: „Þá verður ekki framhjá því litið að viðskipti með aflaheimildir eru hluti af venjubundinni starfsemi fyrirtækja, þar sem skilvirkni er lykilatriði, þannig að tekjuöflun geti átt sér stað. Viðskipti með eignarhluti í fyrirtækjum, sem ákvæði samkeppnislaga og laga um fjármálafyrirtæki víkja að, eru af allt öðrum toga og hafa engin áhrif á starfsemi þeirra fyrirtækja sem hlutabréfin varða. Eðli þessara viðskipta er því allt annað. Af þeim sökum er ekki unnt að ætla, að hið sama geti um þau gilt.“
Að mati SFS eru ríkari heimildir til handa Fiskistofu til inngripa í rekstur útgerðarfyrirtækja ekki bara varhugaverðar, heldur mannréttindabrot. „Vert er að geta þess að í tillögunum er ekki gert ráð fyrir andmælarétti aðila eða kæruheimildum vegna þeirra nýmæla sem felast í tillögunni. Af þeim sökum getur nefnt ákvæði ekki staðið óbreytt, enda fær það hvorki staðið meginreglur stjórnsýsluréttar né 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.“
Telja öfuga sönnunarbyrði fara gegn mannréttindum
Ein meginbreytingin sem lögð var til í frumvarpsdrögunum var að í lög um stjórn fiskveiða myndi bætast ákvæði um að ef sami einstaklingur eða sömu einstaklingar stjórni tveimur eða fleiri aðilum skuli þeir aðilar teljast tengdir „nema sýnt sé fram á hið gagnstæða.“ Við það skapist raunverulegt eignarhald.
Tilgangur þessa er sú að þekkt er innan íslensks sjávarútvegs að til dæmis forstjóri einnar stórrar útgerðar sé stjórnarformaður í annarri á þess að forstjórinn kannist neitt við að vera tengdur stjórnarformanninum. Eða að stórt útgerðarfélag í eigu eins manns sé stærsti hluthafinn í öðru og að eigandinn af því fyrra sé bæði forstjóri og stjórnarmaður í því síðara, án þess að nokkur í þessu mengi sé talinn tengdur.
SFS gera miklar athugasemdir við þetta ákvæði, sem þau telja að feli í sér öfuga sönnunarbyrði og fari því gegn Mannréttindasáttmála Evrópu. Og segja að það eigi sér enga fyrirmynd í annarri löggjöf sem tengist atvinnurekstri.
Í lok umsagnarinnar ítrekar SFS að samtökin telji að frumvarpsdrögin séu heilt yfir umfram tilefni.