Síðustu tvö stórafmæli Margrétar Þórhildar drottningar hafa verið með öðru sniði en vaninn er á Amalienborg. Árið 2010 sá Eyjafjallajökull til þess að fæstir þeirra gesta sem boðið hafði verið til sjötugsafmælis drottningar gátu mætt i veisluna og nú, tíu árum síðar, varð kórónufaraldurinn til þess að afmælisveislunni var aflýst. Í bæði áðurnefnd skipti hafði fjölda fólks verið boðið til veislu.
Til stóð að veislan vegna áttræðisafmælis Margrétar Þórhildar yrði sérlega vegleg. Ekki síst vegna þess, ef marka má orð drottningar sjálfrar, að líklega hefði þetta orðið síðasti stóri afmælisfagnaður hennar. En kórónufaraldurinn kom í veg fyrir þetta allt saman. 12. mars, daginn eftir að Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti að ákveðið hefði verið að loka Danmörku, barst tilkynning frá Amalienborg. Þar sagði einfaldlega að þeim fjölmörgu viðburðum sem fyrirhugaðir hefðu verið vegna afmælisins, og spannað allt sumarið og fram á haust, væri hér með aflýst. Þeir fjölmörgu Danir sem höfðu hlakkað til að geta glaðst með þjóðhöfðingjanum höfðu skilning á þessari ákvörðun, þótt hún ylli vonbrigðum. Víða um land hafði undirbúningur vegna fyrirhugaðrar heimsóknar drottningar staðið um margra mánaða skeið en faraldurinn gerði þann undirbúning að engu.
17. mars flutti drottningin útvarps- og sjónvarpsávarp til þjóðarinnar. Að þjóðhöfðinginn ávarpi þjóðina, fyrir utan hið hefðbundna áramótaávarp, er mjög sjaldgæft. Svo sjaldgæft að það gerðist síðast 5. maí 1945 (befrielsesdagen) þegar Þjóðverjar, sem höfðu hersetið Danmörku, lýstu yfir uppgjöf sinni. Í ávarpinu, sem var stutt, sagði drottningin að allir yrðu að sýna ábyrgð og fara að fyrirmælum stjórnvalda, annað væri ábyrgðarleysi.
Veggteppin
Á tímamótum í lífi danska þjóðhöfðingjans hafa jafnan borist góðar gjafir. Bæði svokallaðar „prívat“ gjafir og gjafir til hirðarinnar. Í valdatíð Margrétar Þórhildar ber líklega hæst gjöfina á fimmtugsafmæli hennar árið 1990. Þar höfðu fjölmörg fyrirtæki og stofnanir tekið höndum saman og fengið einn þekktasta listamann Dana, Bjørn Nørgaard til að gera uppdrætti að 17 stórum gobelin veggteppum sem prýða skyldu veggi Riddarasalarins Í Kristjánsborgarhöllinni í Kaupmannahöfn. Það tók listamanninn tólf ár að gera uppdrættina en teppin voru ofin á tveimur þekktustu vefstofum Frakklands, Manufactures des Gobelins og Manufacture de Beauvais. Þótt gefendur verksins hefðu talið sig hafa tímann fyrir sér varðandi gjöfina höfðu þeir ekki áttað sig á hve tímafrekt verkið reyndist. Eins og áður sagði tók það listamanninn tólf ár að gera uppdrættina, vefnaðarvinnan tók ellefu ár en samtals unnu 60 vefarar við gerð teppanna. Verkinu lauk ekki fyrr en árið 2000 og 12. apríl það ár (þegar drottningin var rétt að verða sextug) voru teppin afhjúpuð og drottningin ánafnaði þau dönsku þjóðinni. Veggteppin, sem eru samtals um það bil 300 fermetrar þykja miklar gersemar, en á þeim er sögð saga Danmerkur síðastliðin eitt þúsund ár.
Ástæður þess að veggteppin urðu fyrir valinu var sú að árið 1926, þegar verið var að leggja síðustu hönd á gerð Riddarasalarins, var tómahljóð í danska ríkiskassanum og engir peningar til veggskreytinga. Þá var brugðið á það ráð að taka veggteppi úr Rósenborgarhöllinni í Kaupmannahöfn og hengja þau upp tímabundið, eins og það var orðað, í nýju höllinni Kristjánsborg. Þessu „tímabundna“ ástandi lauk árið 2010.
Gullstólarnir
Vorið 2007 mætti þingmaðurinn Svend Auken gömlum manni sem var að rogast með gylltan borðstofustól niður tröppurnar á Kristjánsborgarhöllinni. „Hvert ert þú að fara með þennan stól?“ spurði þingmaðurinn. Gamli maðurinn svaraði „á bálið“. Þessi gamli maður var hinn 84 ára gamli Ejnar Pedersen, einn þekktasti húsgagnasmiður og framleiðandi Danmerkur. Stóllinn sem hann hélt á var einn hinna svonefndu gullstóla hirðarinnar. Gullstólarnir eru veislustólar hirðarinnar, veikbyggðir gullbronsaðir pinnastólar.
Upphaf gullstólanna hjá hirðinni má rekja til loka nítjándu aldar. Þá voru keyptir sex stólar, málaðir með gullbronsi. Árið 1929 voru keyptir 1.012 gullbronsaðir stólar, 212 var komið fyrir á Amalienborg og 800 í Kristjánsborgarhöll. Flestir gætu kannski ímyndað sér að 1.012 stólar myndu duga, jafnvel í fjölmennustu boðum. En það var aldeilis ekki svo, árið 1994 voru keyptir 710 nýir stólar til viðbótar þeim sem fyrir voru. Veislustólarnir orðnir 1722 talsins. Fyrir utan Amalienborg og Kristjánsborg eru stólarnir ennfremur í höllinni á Fredensborg.
Eins og áður sagði eru gullstólarnir svonefndu veikbyggðir pinnastólar, fremur litlir. Það sem verra er, þeir þykja óþægilegir „óttaleg hænsnaprik“ sagði danskur þingmaður einhverju sinni í viðtali.
Hugmynd húsgagnasmiðsins
Árið 2007 voru 13 ár í áttræðisafmæli Margrétar Þórhildar. Ejnar Pedersen, gamli mublusmiðurinn sem Svend Auken þingmaður mætti á tröppum Kristjánsborgar þá um vorið hafði lengi látið „hænsnaprikin“ fara í taugarnar á sér. Þegar hann var að rogast með stólinn áðurnefnda niður hallartröppurnar hafði hann fengið hugmynd. Hún var sú að hanna og smíða nýja veislustóla fyrir Margréti Þórhildi. Ejnar Pedersen var, ásamt bróður sínum Lars Peder Pedersen, stofnandi og eigandi eins þekktasta húsgagnaverkstæðis Danmerkur, PP Møbler. Fyrirtækið var stofnað árið 1953, það hefur frá upphafi verið fjölskyldufyrirtæki og á verkstæðinu í Allerød hafa mörg af þekktustu húsgögnum þekktra danskra hönnuða verið framleidd í áratugi. Til að hanna nýjan stól fyrir drottninguna fékk Ejnar Pedersen til liðs við sig þekktan húsgagnahönnuð, Søren Ulrik Petersen og í samvinnu þeirra varð til nýr stóll. Þeir kynntu sér hvaða hugmyndir Margrét Þórhildur hefði í þessum efnum. Drottningin gerði þrjár kröfur varðandi stólinn ef til þess kæmi að hann yrði einn góðan veðurdag veislustóll í höllinni: hann yrði úr dönskum viði, smíðaður í Danmörku af dönskum smiðum og hönnunin dönsk.
Eins og áður var nefnt eru gullstólar hirðarinnar veikbyggðir og þegar verið er að undirbúa veislu hefur þótt nauðsynlegt að yfirfara þá stóla sem nota skal til að þeir detti ekki í sundur þegar tignir gestir setjast.
Langur undirbúningstími
Að smíða og fullklára 400 vandaða stóla er ekki hrist fram úr erminni. Það vissi Ejnar Pedersen vel. Vandaðir stólar kosta líka sitt og Ejnar Pedersen ræddi þau mál við Friðrik krónprins og hofmarskálkinn á Amalienborg. Þeir voru sammála um leita leiða til að fjármagna kaupin, án þess að pyngja drottningar kæmi þar við sögu. Yrði gjöf í tilefni tímamótanna. Niðurstaða þremenningana var að leita til nokkurra danskra stórfyrirtækja. Ejnar Pedersen sagði krónprinsinum og hofmarskálknum að hann sjálfur gæti ekki, af augljósum ástæðum, tekið að sér að tala við hugsanlega gefendur. Þremenningarnir urðu sammála um að krónprinsinn skyldi ræða við drottninguna og leita álits hennar varðandi kaupin. Niðurstaðan varð að starfsfólk hallarinnar leitaði til sex fyrirtækja og kannaði hvort þau myndu vilja heiðra drottninguna með því að punga út fyrir stólunum. Nokkrir danskir fjölmiðlar fullyrða að drottningin hafi sjálf haft samband við tvö þessara fyrirtækja. Fyrirtækin, þar á meðal LEGO, Hempel, og Carlsberg, tóku beiðninni vel og ákveðið var að hvert fyrirtæki legði fram eina milljón króna í þessu skyni. Þessi ákvörðun lá fyrir snemma árs 2018. PP Møbler gaf alla hönnunar- og undirbúningsvinnuna, en þar hafði sonur stofnandans tekið við stjórninni af öldruðum föður sínum.
Afhentir í febrúar
Frá upphafi var miðað við að nýju stólarnir yrðu tilbúnir þegar Margrét Þórhildur byði til veislu á áttræðisafmælinu. Um miðjan febrúar voru stólarnir formlega afhentir Margréti Þórhildi. Fulltrúar gefendanna voru viðstaddir og þar var líka Ejnar Pedersen ásamt nokkrum starfsmönnum PP Møbler. Allir voru sammála um að stólarnir væru einstaklega vel heppnaðir: fallegir, traustir og þægilegir.
Efnið er kirsjuberjatré, liturinn gráhvítur og setan fléttuð úr dimmrauðum borða. Ejnar Pedersen sagði blaðamönnum sem viðstaddir voru afhendingu stólanna að hann hlakkaði ákaflega til að fylgjast með útsendingu sjónvarpsins frá veislunni og sjá hvernig stólarnir tækju sig út. Það átti hinsvegar ekki fyrir honum að liggja.
Veislunni aflýst og meistarinn dó
Eins og áður var getið aflýsti drottningin öllum veisluhöldum vegna áttræðisafmælisins. Ejnar Pedersen sá því fram á að bið yrði á hann fengi að sjá stólana í sjónvarpinu. Það kæmi önnur veisla, þótt síðar yrði. Það er örugglega rétt en þá situr Ejnar Pedersen ekki við sjónvarpið því hann lést 31. mars. Kórónuveiran lagði hann að velli.