Bára Huld Beck Berenice Barrios Quiñones
Bára Huld Beck

Fordómar leynast víða í íslensku samfélagi

Íslenskt samfélag er oft mært fyrir að vera opið og fordómalítið – jafnréttissinnað og umburðarlynt. Þetta er þó ekki alveg svo einfalt og erfitt getur reynst að komast inn í íslenskt samfélag eins og mörg dæmi sýna. Kjarninn spjallaði við konu af erlendum uppruna sem segir farir sínar ekki sléttar þrátt fyrir að vera í forréttindastöðu.

Ber­en­ice Barrios Quiño­nes hefur búið á Íslandi í sex ár en nú stendur hún á tíma­mót­um. Hún er að breyta til og skipta um starf – fara frá Origo yfir til Advania – en hún hefur unnið heiman frá eins og svo margir aðrir í sam­fé­lag­inu und­an­farna mán­uði.

En þrátt fyrir að vera tækni­menntuð og með B.A.-gráðu í mark­aðs­fræði þá átti hún í miklum erf­ið­leikum með að finna starf við sitt hæfi þegar hún kom fyrst hingað til lands – og ein­ungis vegna þess að hún er ekki Íslend­ing­ur. Kjarn­inn ræddi við Ber­en­ice til fá inn­sýn inn í veru­leika hennar sem kona af erlendum upp­runa og reynslu­heim.

Auglýsing

Rann­sóknir sýna að konur af erlendum upp­­runa hafa oft haft lít­inn aðgang að íslensku sam­­fé­lagi og að erfitt geti verið fyrir þær að kynn­­ast inn­­­lendu fólki. Jafn­­framt geta þær síður nýtt menntun sína í störfum á Íslandi en karlar af erlendum upp­­runa og inn­­­lendir ein­stak­l­ing­­ar. Rann­­sókn­­irnar hafa jafn­framt sýnt að jafn­­vel þær konur sem eru í störfum þar sem þær geta nýtt sér­­þekk­ingu sína upp­­lifa oft nei­­kvæð við­horf sem hafa meðal ann­­ars áhrif á fram­­gang þeirra í starfi.

Ber­en­ice getur vissu­lega sam­samað sig við þessar rann­sóknir enda hefur hún upp­lifað ýmis­legt frá því hún flutti hingað til lands. Hún telur þó sjálfa sig til­heyra for­rétt­inda­hóp þar sem hún er gift íslenskum manni og á þar af leið­andi auð­veld­ara með að kom­ast inn í sam­fé­lagið að ein­hverju leyt­i. 

Fékk áhuga á Microsoft

Ber­en­ice er fædd í Mexík­ó­borg, höf­uð­borg Mexíkó, en flutt­ist með for­eldrum sínum í bæ í suð­ur­hluta lands­ins fimm ára göm­ul. Þar átti hún góð upp­vaxt­arár – nálægt skógi og í námunda við á eina. Hún lýsir þessum árum glöð í bragði og segir hún að barn­æska hennar hafi verið ynd­is­leg.

Þegar hún varð tví­tug flutti hún aftur til Mexík­ó­borg­ar. Hún er tækni­menntuð og byrj­aði í verk­fræði­námi á þessum tíma – en sá fljótt að hana lang­aði í annað nám. Hún ákvað að fara í mark­aðs­fræði sem hún kláraði síðan í háskól­anum þar í borg. Hún seg­ist hafa lagt áherslu í námi sínu á tækni enda hafi bak­grunnur hennar legið þar.

Þegar hún var í háskól­anum byrj­aði hún að vinna hjá banda­rísku tækni­fyr­ir­tæki og þar kvikn­aði áhug­inn á hug­bún­aði Microsoft. „Þar öðl­að­ist ég reynslu af að selja fyrir Microsoft og varð mjög góð í því. Og síðar fór ég að vinna fyrir fyr­ir­tækið sjálft en þar var ég í fimm ár,“ segir hún.

Hitti mynd­ar­legan ljós­hærðan mann

Ber­en­ice náði fljótt að vinna sig upp sem yfir­maður hjá stórum Microsoft sam­starfs­að­ila í Mexík­ó­borg og segir hún að henni hafi gengið mjög vel í starfi á þessum tíma.

Örlögin gripu þó í taumana og hitti hún eig­in­mann sinn, sem er íslenskur, á ráð­stefnu í Hou­ston í Banda­ríkj­unum þar hún var verð­launuð fyrir störf sín fyrir Microsoft. „Yf­ir­maður minn fór með mér út um kvöld­ið, vegna þess að ég hafði unnið til þess­ara verð­launa og við vildum halda upp á það, og fórum í Windows og Office-partý. Á milli tveggja mann­eskja sá ég þennan ljós­hærða, hávaxna, mynd­ar­lega mann,“ segir hún og hlær. Seinna um kvöldið rakst hún aftur á mann­inn og kom þá í ljós að hann væri íslenskur og töl­uðu þau saman allt kvöld­ið. Upp frá því hófst sam­band þeirra og sex mán­uðum síðar gift­ust þau. 

Berenice Barrios Quiñones flutti til Íslands árið 2014 og hefur gengið í gegnum ýmislegt á þeim tíma.
Bára Huld Beck

Treg­lega gekk að fá vinnu

Árið 2014 flutti Ber­en­ice til Íslands með son sinn úr fyrra sam­bandi og hefur hún því búið hér á landi í tæp­lega sex ár. Hún segir að ekki hafi verið heiglum hent að fá vinnu á þessum tíma.

„Það tók mig eitt ár að fá vinnu hér á Íslandi eftir að ég flutti. Ég fór í mörg atvinnu­við­töl en ég held að tvennt hafi spil­aði þarna inn í. Í fyrsta lagi að þrátt fyrir að við hefðum gift okkur í febr­úar þetta ár þá fór það ekki í gegnum kerfið fyrr en í maí og ég fékk ekki aðsetur hér á landi fyrr en í jan­úar árið eft­ir. Í öðru lagi lenti ég í því að þeir sem tóku atvinnu­við­tal við mig þóttu ég hafa of mikla reynslu og vera of hæf í mörg störf,“ segir hún og bætir því við að henni hafi staðið á sama um að vera talin of hæf í störf, hún hafi ein­ungis viljað fá vinnu. Hún hafi verið til­búin að vinna sig upp í fyr­ir­tæki og sanna sig – en til þess hafi hún þurft tæki­færi.

Að lokum var hún ráðin til Origo en Ber­en­ice segir að hún hafi ein­ungis fengið atvinnu­við­tal vegna þess að vinur eig­in­manns hennar mælti með henni þar. Þannig hafi hún náð að koma „fæti inn“ og þegar hún fór í atvinnu­við­talið þá hafi þeim lit­ist mjög vel á hana og ráðið hana.

Erfitt ferli að brjóta gler­þakið

Rúmu hálfu ári eftir að Ber­en­ice byrj­aði í vinn­unni fékk hún meira frelsi til að sinna sínum störfum og segir hún að á ein­ungis átta mán­uðum hafi hún stuðlað að því að gera Nýherja að Microsoft-­sam­starfs­að­ila árs­ins 2016. Við­ur­kenn­ing­una hlaut fyr­ir­tækið fyrir nýsköpun í þróun og sölu Microsoft lausna og inn­leið­ingu þeirra hjá við­skipta­vin­um.

Sama ár eign­að­ist hún sitt annað barn og tók hún hefð­bundið fæð­ing­ar­or­lof. Hún segir að launin hafi hækkað með árunum en þó hafi hún alltaf verið með lægri laun en eig­in­maður sinn sem starfar í sama geira. „Launin mín voru alltaf lægri fyrir nákvæm­lega sömu vinn­u.“

Auglýsing

Ber­en­ice segir að þetta ferli hafi tekið mikið á og verið erfitt. „Það hefur verið mjög erfitt að kom­ast í gegnum gler­þakið svo­kall­aða. Ég get rétt ímyndað mér hvernig það er fyrir aðra útlend­inga í öðrum geirum að kom­ast inn á vinnu­mark­að­inn sem ekki eiga íslenskan maka sem getur hjálpað til. Það eru margar erlendar konur á Íslandi vel mennt­aðar með mikla reynslu sem eiga erfitt með að nýta hana hér.“

Hún segir að hún hafi nú ekki kallað allt ömmu sína þar sem Mexíkó sé mjög karl­miðað land þar sem konur geta átt erfitt upp­drátt­ar. „Í ein­hverjum skiln­ingi þarftu að verða þessi klass­íska „tík“ til að hlustað verði á þig. Þú veist, til að öðl­ast virð­ingu. Fólk á það líka til að rugla bros­andi almenni­legri mann­eskju saman við ein­hverja sem ekki er alvara. Þetta þótti mér alltaf erfitt og það tók mig mörg ár að sanna mig í starfi en mér tókst það að lokum með því að biðja yfir­mann minn um raun­veru­legt tæki­færi til að gera það. Það tók mig mörg ár að öðl­ast það sjálfs­ör­yggi sem þurfti til að taka mér þetta pláss. Við konur eigum það til að efast um okkur sjálf­ar,“ segir hún.

Eins og að vinna í lottói að vinna með góðu fólki

Ber­en­ice segir að það sé eins og að vinna í lottói að finna fólk sem sé til­búið að taka áhættu og vera með opinn hug gagn­vart hinum ýmsu mögu­leik­um. „Það gerð­ist hjá Origo en yfir­maður minn þar gaf mér tæki­færi þrátt fyrir að ég væri af erlendum upp­runa og tal­aði ekki íslensku. Ég hafði þá reynslu sem þurfti á þessum tíma til að gera ákveðna hluti í fyr­ir­tæk­in­u,“ segir hún og bætir því við að sá yfir­maður hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að hækka laun hennar og veitt henni þann stuðn­ing sem hún átti skilið hjá fyr­ir­tæk­inu.

Nú er Ber­en­ice komin til Advania, eins og áður seg­ir, en þar mun hún sinna starfi deild­ar­stjóra Microsoft-­sölu og stefnu­mörk­un­ar. Þetta er splúnkuný deild búin til með það að sjón­ar­miði að gera heild­stæða stefnu þvert á fyr­ir­tækið þegar kemur að Microsoft. Hún seg­ist vera þakk­lát fyrir það traust sem henni er sýnt. „Ég er svo ánægð að þau hafi tekið þessa djörfu ákvörðun að ráða mig vegna hæfi­leika minna og reynslu. Ég mun verða yfir­maður tveggja kvenna í mínu teymi,“ segir hún. Nú séu nýir tímar framundan þar sem nýjum aðferðum verði beitt.

Þegar Ber­en­ice byrj­aði að vinna hér á landi var hún nán­ast eina konan sem sinnti þessu starfi en segir hún að þetta hafi breyst til muna.

„Mér hefur verið sagt hér á Íslandi að það yrði erfitt fyrir mig að fá yfir­manns­stöðu vegna þess að ég er af erlendum upp­runa og vegna þess að ég tala ekki tungu­mál­ið. Og einnig vegna þess að ég er kona,“ segir Ber­en­ice. Þannig hefur íslenskan verið ákveðið vanda­mál fyrir hana en þó ekki bein­línis í starfi þar sem enskan er iðu­lega notuð í tækni­heim­in­um.

Þurfa að lifa við óvið­eig­andi brand­ara og athuga­semdir

Það versta við það að vera útlend­ingur á vinnu­mark­aði hér á landi er að sögn Ber­en­ice þessir lúm­sku for­dóm­ar. Þeir lýsa sér í óvið­eig­andi brönd­urum og athuga­semd­um. Hún segir að brand­arar um „vegg­inn“ hafi til að mynda ekki fallið í góðan jarð­veg hjá henni enda hafi sonur henn­ar, sem er á ung­lings­aldri, orðið fyrir áreiti fyrir að vera frá Mexíkó. Þar hefði fólk verið að vísa í vegg­inn sem Banda­ríkja­for­seti ætlar að byggja milli Banda­ríkj­anna og Mexíkó. Hún bað vinnu­fé­laga sína um að hætta að segja óvið­eig­andi brand­ara um þessi mál­efni og urðu þeir við þeirri bón.

„Þetta er eitt­hvað sem við þurfum að lifa við á hverjum ein­asta deg­i,“ segir hún.

Berenice með eiginmanni sínum, Sigurði Friðriki Péturssyni, og fjölskyldu.
Bára Huld Beck

Ber­en­ice rifjar upp atvik þar sem hún varð fyrir for­dómum hér á landi en það var fyrir um ári síðan þegar hún fór með fjöl­skyld­unni í bak­arí í versl­un­ar­mið­stöð­inni Firð­inum í Hafn­ar­firði. Eig­in­maður hennar og eldri sonur brugðu sér frá og var hún ein með yngri syn­inum þegar gömul kona fór til hins stutta og spurði hann hvar móðir hans væri og hvort það væri í lagi með hann – en þá var hann tveggja og hálfs árs gam­all. Litli er líkur föður sínum og segir Ber­en­ice að konan hafi efast um að hann væri sonur hennar vegna lit­ar­háttar henn­ar.

Atvik sem þessi segir Ber­en­ice særa sig enda sé um að ræða for­dóma sem séu rót­grónir í sam­fé­lag­inu. Þetta sé ein­ungis eitt lítið dæmi af fjöl­mörg­um. „Mér leið mjög illa eftir þetta atvik. Að fólk haldi að ég ræni barni ein­ungis vegna þess að ég lít ekki út eins og það er hræði­leg­t.“

Langar stundum að flytja í burtu

Ber­en­ice segir að þótt þetta atvik hafi verið slæmt þá særi það hana meira þegar fólk sem hún vinnur með eða þekkir hana sýni for­dóma, jafn­vel án þess að gera sér grein fyrir því. Öll þessi litlu atvik safn­ast saman eins og drop­arnir sem hola stein­inn, segir hún.

Þá komi iðu­lega fyrir að hún fái slæma afgreiðslu í búðum og á veit­inga­stöðum vegna þess að hún lítur ekki út fyrir að vera íslensk. „Ég er stundum svo þreytt á þessu. Mað­ur­inn minn segir þá við mig að ég sé sterk kona sem ráði við þetta og ég er sam­mála því – en þrátt fyrir það þá langar mig svona einu sinni til tvisvar á ári að flytja í burtu. Þá hugsa ég með mér: Hvað er ég eig­in­lega að gera hér?“

Ber­en­ice hefur nú dvalið á Íslandi í sex ár og þegar hún er spurð út í það hvort henni finn­ist að eitt­hvað hafi breyst á þessum tíma varð­andi for­dóma eða þá upp­lifun að vera útlend­ingur í íslensku sam­fé­lagi þá svarar hún um hæl: „Nei, ég hef ekki orðið vör við mikla breyt­ing­u.“

Auð­vitað séu ekki allir Íslend­ingar for­dóma­fullir og bendir hún á að margir hópar innan sam­fé­lags­ins vinni að því að skapa betra aðstæður fyrir útlend­inga. En hvað sem því líður þá sé samt eitt aðal­verk­efnið að kom­ast yfir tungu­mála­örð­ug­leik­ana. Hún segir að mik­il­vægt sé í fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lagi að hafa upp­lýs­ingar aðgengi­legar á fleiri tungu­málum en íslensku. „Ef upp­lýs­ingar eru ein­ungis á íslensku þá er verið að segja að útlend­ingar séu ekki vel­komnir til lands­ins eða partur af sam­fé­lag­inu. Ég hef þurft að láta í mér heyra varð­andi þetta á vinnu­staðnum mínum og berj­ast fyrir því að fá fundi á ensku lík­a.“ Hún bendir á að margir ef erlendu bergi brotin búi og starfi á Íslandi og að ef þetta fólk fái ekki sömu upp­lýs­ingar og þeir inn­lendu sé því haldið frá því að vera hluti af hópn­um.

Auglýsing

„Ég er samt stolt af því að segja að margt hefur breyst á gamla vinnu­staðnum mín­um, Origo, síðan ég byrj­aði vegna þess að ég lét í mér heyra. Núna eru allar til­kynn­ingar einnig á ensku,“ segir hún. Það erf­iða sé þegar ekki er hlustað á fólk af erlendum upp­runa, það fái ekki sömu tæki­færi og aðrir og sé skilið útund­an.

Konur af erlendum upp­runa mæta iðu­lega hindr­­unum

Eins og áður segir þekkir Ber­en­ice vel til þess að búa í karl­mið­uðu sam­fé­lagi en hún lýsir Mexíkó einmitt þannig. Hún segir að almennt séð sé Ísland lengra komið í jafn­rétt­is­bar­átt­unni.

Helsta vanda­málið sem hún seg­ist rekast á er að hún er dekkri á hör­und en Íslend­ing­ar. Hún vísar í til­tölu­lega nýút­komna skýrslu eftir Unni Dís Skapta­dóttur og Krist­ínu Lofts­dótt­­ur, pró­­fess­ora í mann­fræði við HÍ. Kjarn­inn fjall­aði um skýrsl­una þegar hún kom út í febr­úar síð­ast­liðnum en þar kemur fram að huga þurfi betur að ákveðnum þáttum til að bæta stöðu kvenna af erlendum upp­­runa.

Erlendar konur mæta, sam­kvæmt skýrsl­unni, ákveðnum hindr­­unum gegn því að fá verða virkir þátt­tak­endur í íslensku sam­­fé­lagi, meðal ann­­ars varð­andi það að læra íslensku og að fá menntun sína metna. Ólíkir hópar kvenna af erlendum upp­­runa verða jafn­framt fyrir for­­dómum og verða margar hverjar fyrir mis­­munun á ýmsum svið­um, svo sem á vinn­u­­mark­aði og á hús­næð­is­­mark­aði.

Ber­en­ice segir að þegar hún var atvinnu­laus og að leita sér að vinnu hafi hún fundið fyrir því við­horfi að hún ætti að fara að vinna við þrif eða á leik­skóla þrátt fyrir menntun og reynslu. Hún hafi aftur á móti ekki haft nokkurn áhuga á því og þrátt fyrir að hægt sé að hlæja að ein­kenni­legum athuga­semdum og ábend­ingum þá sé erfitt að takast á við þessi við­horf. Þarna sjái hún mun á Mexíkó og Íslandi en hún segir að útlend­ingar séu mun meira vel­komnir þar en hér.

Öryggið það sem heldur í

Þrátt fyrir að hugsa stundum um að flytja í burtu þá líður fjöl­skyld­unni vel hér. „Við værum alveg til í að flytja til Mexíkó en þegar ég hugsa um börnin mín þá hætti ég við. Ég get ekki bara hugsað um hvað henti mér best heldur hvað henti þeim best. Ég þarf að hugsa sem móðir og það er það flókna í stöð­unni. Ef ég væri að hugsa um starfs­frama minn þá væri ég þegar flutt og í frá­bæru starfi með góð laun. Mér gekk mjög vel í Mexíkó á sínum tíma sem ein­stæð móðir en þetta snýst ekki um það. Ég verð að taka ákvarð­anir út frá öðru vegna þess að ég er móð­ir. Ég verð að hugsa um þeirra vel­ferð, öryggi og heilsu. Það heldur okkur hér á land­i,“ segir hún og bætir við glettin að ekki skemmi fyrir að Ísland sé gull­fal­legt.

Eins og Ber­en­ice segir þá spilar öryggið á Íslandi stóra rullu í því að fjöl­skyldan búi hér enn. Eldri sonur hennar er næstum því fjórtán ára gam­all og segir hún að hann kunni mjög vel við það að búa á Íslandi. Hann hafi einu sinni orðað það þannig við hana: „Ég vil ekki glata frels­inu, mamma.“ Hún segir það hafa verið ákveðið áfall fyrir hana að heyra þessi orð – og að hún fái enn gæsa­húð við til­hugs­un­ina. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu mikil breyt­ing þetta væri fyrir hann. Þannig er nefni­lega mál með vexti að börn á því svæði sem hún bjó fara aldrei út ein­söm­ul. Þau eru til að mynda, að hennar sögn, alltaf keyrð á milli staða.

Fólk af erlendum upp­runa þarf tæki­færi til að taka þátt í sam­fé­lag­inu

Þegar Ber­en­ice er spurð út í það hvað stjórn­völd ættu að gera til að bæta líf fólks af erlendum upp­runa þá stendur ekki á svör­um. Í fyrsta lagi ættu stjórn­mála­menn að eiga meira sam­tal við erlent fólk sem býr hér og vera vissir um að sem flestir skilji þá. Hún segir að auð­vitað eigi allir að læra íslensku en það sé erfitt fyrir marga. Allir reyni þó sitt besta. En á meðan þurfi að ná til þessa fólks og þá þurfi fleiri tungu­mál en íslensk­una.

Í öðru lagi eigi að gefa útlend­ingum tæki­færi til að taka meira þátt í sam­fé­lag­inu með ýmsum hætti. Og það mik­il­væg­asta af öllu, að mati Ber­en­ice, er að vera almenni­legur og hlý­legur við náung­ann – hægt sé að kom­ast langt á því; að heilsa, að muna nöfn og almennt að við­ur­kenna til­vist allra í kring.

„Þarna skiptir jafn­rétti máli. Hvernig kemur þú fram við fólkið í kringum þig? Er svo erfitt að muna hvað það heitir eða að bera virð­ingu fyrir því?“ spyr Ber­en­ice.

Þetta verður að vera skýrt: Engin mis­munun

Jafn­framt finnst henni áríð­andi að stjórn­endur fyr­ir­tækja hér á landi gefi út sér­staka yfir­lýs­ingu til þess að útskýra og greina frá gildum þeirra. Mik­il­vægt sé að stefna þeirra sé skýr: Að þau sætti sig ekki við ras­isma eða for­dóma – eða hvers kyns mis­mun­un. Enn­fremur þurfi að vera ein­lægur ásetn­ingur að ráða fólk af mis­mun­andi upp­runa til að auka fjöl­breytni í fyr­ir­tækjum – og ekki ein­ungis á borði heldur líka í orði. For­svars­menn fyr­ir­tækja þurfi að vera hug­rakk­ir.

Þá bendir hún á mannauðs­stjórar í íslenskum fyr­ir­tækjum geti tekið sér­stakt próf á net­inu sem mælir ákveðna for­dóma eða slag­síðu hjá þeim. Þá sé alla­vega hægt að við­ur­kenna vand­ann þrátt fyrir að hann sé oft lúmskur og erfitt sé að koma auga á hann.

„Kannski losnum við aldrei við þessa slag­síðu í ákveðnum aðstæðum en þá er fólk alla­vega með­vitað um þetta. Þá er hægt að taka með í reikn­ing­inn þessa ómeð­vit­uðu for­dóma,“ segir hún.

Telur sig heppna

Ber­en­ice vill taka það enn og aftur fram að hún sé í ákveðnum for­rétt­inda­hóp hér á Íslandi – hún eigi íslenskan mann sem auð­veldi henni að kom­ast inn í sam­fé­lag­ið. Margar aðrar konur af erlendum upp­runa búsettar á Íslandi eigi erfitt upp­dráttar í sam­fé­lag­inu. Hún sé jafn­framt heppin að geta unnið við það sem hún er menntuð til og með reynslu í.

Dæmin sýna að erlendar konur fá ekki vinnu við sitt hæfi vegna þess að menntun þeirra er ekki tekin til greina – og þurfa þær því oft og tíðum að vinna við lág­launa­störf. „En ef ég get látið rödd mína heyr­ast fyrir þær allar og tjáð mig um þessi óþægi­legu mál þá er það þess virði. Og ég mun gera það fyrir mig og fyrir þær,“ segir hún að lok­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal