Margrét Linda Kristjánsdóttir Halldór Björgvin Ívarsson

Fjarnámið hefur reynst mörgum nemendum erfið glíma

Væntumþykja, umburðarlyndi og sveigjanleiki hafa verið lykilstef í fjarkennslu Halldórs Björgvins Ívarssonar, kennara við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. „Það er eins með nemendur og okkur flest að þetta ástand dregur úr okkur, það tæmir tankinn. Flestir mínir nemendur hafa verið að halda sjó mjög vel, hafa staðið sig virkilega vel og eiga hrós skilið fyrir flotta frammistöðu í þessu nýja námsumhverfi og þessum nýju aðstæðum.“

Ég hef það bærilegt, miðað við allt,“ segir Halldór Björgvin Ívarsson, kennari við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Hann er þó léttur í bragði. „Ég er staddur í útibúi FMOS í Kópavoginum,“ segir hann hlæjandi. „Útibúið“ er heimili hans. Þar situr hann á skrifstofu sinni að fara yfir verkefni og setja saman ný. „En ég er í sömu stöðu og flestir í þessu ástandi, að vinna að því að komast í gegnum þetta. Þetta er langhlaup og tekur þannig séð á, bæði í vinnunni sem og öðru.“

Það á einnig við um nemendur hans. Flestir hafa „haldið mjög góðum sjó“ í sínu námi eftir að samkomubann var sett á og fjarnám tók við. En svo eru það aðrir sem eiga erfitt. Finnst erfitt að fóta sig í þessum nýja veruleika, gengur verr en áður að koma sér að verki og hafa dregist aftur úr í náminu. „Það er líka rétt að hafa í huga að við erum ekki bara í fjarnámi heldur í fjarnámi í þessum aðstæðum þannig að það er að fleiru að huga en náminu,“ minnir Halldór á. „Nemendur eru að velta fyrir sér vinnu í sumar, í fjölskyldum þeirra hafa verið veikindi og þeir sjálfir hafa þurft að vera í sóttkví. Það er því ýmislegt sem fléttast inn í þetta. Fjarkennsla í eðlilegu árferði væri annars konar en núna.“


Auglýsing

Halldór ólst upp á Djúpavogi og gekk þar í grunnskóla, „en við skulum ekkert ræða neitt um árangurinn þar,“ bætir hann við og hlær. Við tók nám í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu þaðan sem hann varð stúdent vorið 1993. Eftir stutt námshlé lá leiðin svo í Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á bæði sagnfræði og stjórnmálafræði. „Og síðan hef ég verið að kenna.“

Fyrsti kennsluvetur Halldórs hófst í Varmárskóla í Mosfellsbæ haustið 1998. Samhliða kennslunni tók hann kennsluréttindi utan skóla frá Háskólanum á Akureyri. Í Varmárskóla starfaði hann í fjórtán ár, síðan í nokkur ár í Árbæjarskóla og eina önn í Breiðholtsskóla . Frá vorinu 2017 hefur hann svo kennt við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Góður andi í skólahúsinu

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ tók til starfa árið 2009 í gömlu skólahúsi að Brúarlandi en flutti inn í nýja og glæsilega byggingu 2014. „Þegar ég mætti í atvinnuviðtalið og gekk í fyrsta skipti inn í bygginguna fann ég strax að það var góður andi í húsinu.“

Halldór kennir fyrst og fremst sögu en þessa önn er hann einnig með áfanga í áhugaljósmyndun og hluta úr tölvuáfanga. Í ljósmyndaáfanganum bað hann nemendur sína að mynda eitthvað í tengslum við fjarnámið. Margrét Linda Kristjánsdóttir, einn nemenda hans, ákvað að myndefnið skyldi verða kennarinn sjálfur og má mynd hennar sjá hér efst í greininni.

„Skólaárið byrjaði vel eins og öll önnur skólaár,“ rifjar Halldór upp. „Ég mætti eftir sumarið fullur tilhlökkunar, með bros á vör og gleði í hjarta, að hitta nemendur og takast á við verkefnin.“ Vorönnin fór einnig vel af stað í Mosfellsbænum en fljótlega fóru að berast fréttir utan úr heimi af veirufaraldri sem breiddist hratt út. „Svo kom samkomubannið og þá breyttist allt.“

Viku áður en samkomubannið var tilkynnt taldi hann sig vita í hvað stefndi. Viðbrögð yfirvalda í Wuhan í Kína og á Ítalíu gáfu tóninn fyrir það sem mögulega var í vændum. „Það var viðbúið að okkar viðbrögð yrðu sambærileg. Þannig að ég var búinn að undirbúa mig ágætlega og hafði til dæmis tekið fjarkennsluæfingar með nemendunum í skólanum.“


Svona birtist Halldór nemendum sínum. Í áfanganum áhugaljósmyndum var eitt verkefnið að taka mynd sem tengdist fjarnáminu.
Emese Erzebet Jozsa.

Halldór segist ágætlega tölvuvæddur og það að fara inn í netheima hafi ekki reynst honum  stórkostlega flókið skref. Í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ eru allir nemendur með tölvur í kennslustundum, annað hvort sínar eigin eða fá þær að láni hjá skólanum og þeir því vanir allri tölvuvinnu.

Föstudaginn 13. mars var tilkynnt að samkomubann yrði sett á eftir helgina og að öllum framhaldsskólum og háskólum lokað. „Þessa helgi voru flestir kennarar á haus,“ segir Halldór. „Og það var nánast unnið allan sólarhringinn.“

Mikilvægt að fara vel af stað


Eins og gengur og gerist í nýjum aðstæðum var ýmislegt prófað í því að miðla kennsluefninu og vinna verkefni. Að mati Halldórs skipti miklu máli að fara vel af stað og  gefa góðan tón strax frá upphafi.

Misjafnt er hvaða leiðir kennarar fóru í fjarkennslunni en Halldór ákvað að kenna áfram eftir stundaskrá, rétt eins og hann hafði gert í kennslustofunni vikurnar á undan. Í samskiptum við nemendur valdi hann að nota forritið Discord sem hentar meðal annars vel til hópavinnu. Forritið er auk þess þekkt í tölvuleikjaheiminum og margir nemendur kunna því á það. „Oft var það þannig  að þau voru að kenna mér eitt og annað sem snýr að þessu forriti. Svo voru þau einnig að hjálpa mér við að kenna öðrum nemendum á það.“


Auglýsing

En hvernig er kennslustund í fjarkennslunni hjá Halldóri?

Hann reynir að vera mættur tímanlega við sína tölvu og þegar tíminn byrjar eru nemendurnir flestir sestir við og „komnir inn“. Þá býður Halldór öllum góðan daginn, eins og vera ber, og kennslan hefst.  Spjallað er um verkefnin, sum vinna nemendur hver fyrir sig en í öðrum er hópnum skipt upp og 3-4 vinna saman. Við það nýtast kostir Discord-forritsins vel.  „Ég flakka svo á milli hópanna  og tek stöðuna,“ útskýrir Halldór.

Ekki sama tenging og inni í kennslustofu

Umræður eru stór þáttur í sögukennslu. Halldór segir að við núverandi aðstæður nái hann ekki alveg sömu tengingu við nemendur og inni í kennslustofunni. „Þau eru misjafnlega frökk að tjá sig í gegnum netið, sumum finnst það óþægilegt. Umræðurnar í gegnum netið virka betur í minni hópum. En segja má að það sama eigi við í kennslustofunni .“

Flestum nemendum fannst tilhugsunin um að fara í fjarnámið frekar spennandi að sögn Halldórs. Fyrir einhverja þeirra var þetta þægilegra og betra og þegar til greina kom eftir 4. maí, er fyrstu skref voru stigin í afléttingu samkomubanns,  að færa kennsluna aftur að einhverju leyti inn í skólann vildi meirihluti nemenda ljúka önninni í fjarnámi.

Og það var lendingin. Nemendunum býðst hins vegar að hitta Halldór og aðra kennara í skólanum ef þeir kjósa.


Halldór lagði ýmislegt á sig til að fjarkennslustundirnar kæmu sem best út. Hann kom m.a. upp svokölluðum grænskjá bak við sig á heimaskrifstofunni. Þannig gat hann sett ýmsan bakgrunn til að lífga upp á kennsluna.
Halldór Björgvin

Vel getur verið að sögn Halldórs að runnið hafi upp fyrir mörgum að undanförnu hversu mikið samfélag skóli er. „Er ekki einhvers staðar sagt að enginn viti hvað átt hefur fyrir en misst hefur? Ég fann það líka á sjálfum mér, það var mjög gott að mæta aftur í skólann 4. maí og hitta samstarfsfólkið og þá nemendur sem þangað hafa komið. Við starfsmenn höfum verið að hittast á fjarfundum en það kemur aldrei í staðinn fyrir að setjast niður og spjalla saman augliti til auglitis. Mikill hluti af því sem við lærum í skóla er ekki í bókum eða á netinu heldur liggur í samskiptunum.“

Nemendur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ eru flestir á framhaldsskólaaldri en margir eru þó eldri, stundum nemendur sem ekki hafa fundið sína fjöl í öðrum skólum. „Nemendum líður misjafnlega með þeta allt saman. Staða þeirra  heima fyrir er líka ólík. Flestum hefur gengið mjög vel að tækla þetta verkefni, öðrum hefur reynst það erfitt.“

Að fóta sig í nýjum aðstæðum

Halldór á í reglulegum samskiptum við hvern og einn nemanda í gegnum netið en svo hefur hann líka hringt í þá sem eiga í erfiðleikum í fjarnáminu. „Þeim finnst erfitt að halda utan um námið, vinna verkefnin og segja að fjarnámið eigi ekki við þá. Ég held að það sé staðreynd, og ástæðulaust að fela það eitthvað, að það verða nemendur sem falla út af þessu ástandi. Það nást ekki allir í land.“

Að hans mati ætti það ekki að koma mikið á óvart að sumum nemendum hafi reynst erfitt að fóta sig í þessum nýju kringumstæðum. „Það er stórt skref fyrir marga að færast úr staðnámi yfir í fjarnám og reynist mörgum hverjum erfið glíma.“

Ástæða er að sögn Halldórs til að hafa áhyggjur af því að einhverjir missi flugið og skili sér ekki í skólana í haust. „Við þurfum öll að vera meðvituð um það og reyna að komast að því hvaða nemendur eru í þeirri hættu og halda eins vel utan um þá og við mögulega getum.“ Það er þó hans von og tilfinning að flestir eigi eftir að skila sér í námið í haust. Þó að önnin fari ef til vill ekki í sögubækurnar fyrir framúrskarandi námsárangur hjá sumum þá sé mikilvægt að horfa á stóru myndina.

 „Þetta er langhlaup. Það er eins með nemendur og okkur flest að þetta ástand dregur úr okkur, það tæmir tankinn. Flestir mínir nemendur hafa verið að halda sjó mjög vel, hafa staðið sig virkilega vel og eiga hrós skilið fyrir flotta frammistöðu í þessu nýja námsumhverfi og þessum nýju aðstæðum.“  Kom til dæmis í ljós þegar Halldór tók saman mætingu fyrir fjarnámsvikurnar fram að páskafríi að í einum áfanganum var hún að meðaltali betri en fyrir fjarnámið.  Fyrirkomulagið hentar því klárlega mörgum.


Í einum áfanga Halldórs var mæting nemenda betri í fjarnámi en í staðnáminu.
EPA

Í sumar ætlar Halldór að fara yfir það sem hann hefur lært, hvað hefur reynst vel og hvað betur hefði mátt fara í kennslunni. „Ég á eftir að fara í góða naflaskoðun þegar skólaárinu lýkur og gera upp þessa reynslu. Skoða hvort að það sé eitthvað sem ég geti heimfært yfir í staðnámið. Ég sé til dæmis fyrir mér að þetta samskiptaform geti gagnast nemendum sem ná af einhverjum ástæðum ekki að sinna staðnámi reglulega.“

Vorönninni fer senn að ljúka. Önn sem á eftir að vera í minnum höfð í ár og áratugi jafnvel. Þegar allir pökkuðu saman í skólunum og settust við tölvurnar heima. Héldu áfram. Að minnsta kosti flestir. Bæði kennarar og nemendur hafa lagt mikið á sig, eins og Halldór lýsir. „Þetta hefur í hreinskilni sagt reynt mikið á margt fólk,“ segir hann og rifjar upp orð Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra sem sagði í viðtali nýverið  að inn í þetta dæmalausa verkefni, að halda uppi skólastarfi í miðjum veirufaraldri, hafi verið farið með „ákveðinni væntumþykju, umburðarlyndi og sveigjanleika.“

Þetta er einmitt málið, segir Halldór. „Þetta er það sem kennarar hafa reynt að tileinka sér í þessum aðstæðum. Ráðherrann hitti þarna naglann á höfuðið.“

 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal