Bára Huld Beck Blaðamannafundur – Aðgerðir vegna COVID-19 þann 21. mars 2020

Hæfi ráðherra ekki sérstaklega metið í tengslum við aðgerðapakkana

Ekki hefur þótt tilefni innan ráðuneytanna til að meta sérstaklega hæfi ráðherra í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til vegna COVID-19 faraldursins.

Ekki hafa komið upp álitaefni varðandi hagsmunatengsl eða hæfi ráðherranna ellefu í sambandi við aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins. Þetta kemur fram í svörum ráðuneytanna við fyrirspurnum Kjarnans. Spurt var hvort sérstakt hagsmunamat hefði farið fram vegna aðgerðanna. 

Rík­­is­­stjórnin kynnti fyrsta aðgerða­­pakk­ann í Hörpu þann 21. mars síðastliðinn. Heild­­ar­á­hrif þeirra voru sögð vera 230 millj­­arðar króna en beinu nýju fram­lögin vegna hans voru lík­­­ast til um þriðj­ungur þeirrar upp­­hæð­­ar. Sumt þar voru verk­efni sem þegar lágu fyr­ir, til dæmis í fjár­­­fest­ingu, önnur mið­uðu að því að fella niður gjöld sem væru hvort eð er ekki að fara að skila sér nema að litlu leyti, eins og afnám gist­in­átt­­ar­skatts, og sum voru ein­fald­­lega tekju­öfl­un­­ar­­leiðir fyrir rík­­is­­sjóð, eins og það að heim­ila úttekt á sér­­­eign­­ar­­sparn­aði sem yrði þá skatt­lagður sam­hliða.

Stóru beinu aðgerð­­irnar sner­ust um hina svoköll­uðu hluta­­bóta­­leið, frestun opin­berra gjald­daga, auk­innar fyr­ir­greiðslu fyrir fyr­ir­tæki hjá banka við­kom­andi og því að ráð­­ast í fjár­­­fest­ing­­ar­átak, aðal­­­lega í hefð­bundnum innviðum sem útheima margar vinn­u­­manna­hend­­ur.

Auglýsing

Með brú­ar­lán­um mun ríkið gang­ast í ábyrgð fyr­ir helm­ingi bankalána til fyr­ir­tækja sem hafa orðið fyr­ir að minnsta kosti 40 prósent tekju­falli vegna áhrifa far­ald­urs­ins. Áætlað var að heild­ar­lána­fjár­hæð yrði um 70 millj­arðar króna og því rík­is­ábyrgð af 35 millj­örðum. Gerðu stjórn­völd ráð fyr­ir að allt að helm­ing­ur lána myndi ekki end­ur­greiðast, sem hefði í för með sér að 17,5 millj­arða króna kostnaður félli á ríkið.

Alþingi samþykkti níu dögum síðar sex þing­mál sem hljóðuðu upp á tæp­lega 26 millj­arða króna aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. All­ar breyt­inga­til­lög­ur stjórn­ar­and­stöðunn­ar voru felld­ar.

Mánuður leið og þann 21. apríl kynnti ríkisstjórnin aðgerðapakka 2.0. Í honum var boðað að lokunarstyrkir yrðu greiddir til fyrirtækja sem þyrftu að loka vegna lögboðs stjórnvalda í tengslum við baráttuna við útbreiðslu COVID-19, einkareknir fjölmiðlar myndu fá hundruð milljónir króna í sértæka styrki og framlínustarfsmenn myndu skipta með sér bónusgreiðslu upp á einn milljarð króna fyrir þeirra framlag í baráttunni sem nú stendur yfir.

Ráðist yrði í margháttaðar aðgerðir til að mæta stöðu námsmanna, meðal annars með sumarnámi og sumarstörfum, og í aðgerðir til að styðja við nýsköpun og sprotastarfsemi. 

Stjórnvöld mátu heildarumfang aðgerðanna nálægt 60 milljörðum króna.

Ríkisstjórnin kynnti þriðja aðgerðapakkann þann 28. apríl eða viku síðar. Hann var hugsaður til að mæta vanda þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir miklu tekjutapi vegna faraldursins og var sérstaklega horft til ferðaþjónustunnar. Búast má við að aðgerðirnar kosti á bilinu 40 til 60 milljarða króna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Bára Huld Beck

Ekki þörf á sérstöku hagsmunamati

Í svari forsætisráðuneytisins kemur fram að engin álitaefni hafi komið upp um hagsmunatengsl eða hæfi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í aðkomu að undirbúningi þessara aðgerða.

„Stjórnsýslulög mæla fyrir að ráðherrar komi ekki að málum þar sem þeir eigi verulegra hagsmuna að gæta og samkvæmt siðareglum skulu þeir gæta þess að forða árekstrum milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna eða fjölskyldu og gæta þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf þeirra. Slíkt mat er því ávallt í gangi,“ segir í svarinu. 

Samkvæmt fjármála- og efnahagsráðuneytinu er ekki þörf á sérstöku hagsmunamati í tengslum við almennar aðgerðir sem byggja á lögum sem Alþingi setur. Þá er bent á að hagsmunir alþingismanna séu skráðir í sérstakri hagsmunaskrá. Samkvæmt henni hefur Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taka til.

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram það sama og hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu að ekki sé þörf á sérstöku hagsmunamati í tengslum við almennar aðgerðir sem byggja á lögum sem Alþingi setur. Opinber skráning hagsmunatengsla ráðherra, eins og annarra þingmanna, sé á vef Alþingis í sérstakri hagsmunaskrá. Samkvæmt stjórnsýslulögum beri starfsmönnum að gæta að hæfi sínu og vekja athygli á því, eftir atvikum við næsta yfirmann, verði þeir að segja sig frá máli vegna hæfis. Ekki hafi komið upp sérstök álitaefni um hagsmunatengsl eða hæfi einstakra starfsmanna við undirbúning aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. 

Í hagsmunaskrá Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra eru trúnaðarstörf ráðherrans það eina sem er tiltekið en hann er formaður veiðifélags Tungufljóts og varaformaður AECR sem eru alþjóðleg samtök stjórnmálaflokka sem aðhyllast Evrópu- og alþjóðasamstarf sem og hugmyndir um einstaklingsfrelsi, þingræði og virðingu fyrir fullveldi þjóðríkja.

Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.
Bára Huld Beck

Um starfsmenn ráðuneytanna gilda stjórnsýslulög

Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu byggir aðgerðapakkinn á lögum um almennar aðgerðir frá Alþingi og því sé hann ekki háður sérstöku hagsmunamati. Hagsmunir alþingismanna og þar með ráðherra sé skráður í sérstaka hagsmunaskrá. Um starfsmenn ráðuneytisins gildi stjórnsýslulög. Samkvæmt hagmundaskrá hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taka til.

Þá kemur fram hjá heilbrigðisráðuneytinu að hæfi einstakra starfsmanna í stjórnsýslunni sé samkvæmt stjórnsýslulögum. Samkvæmt lögunum beri starfsmönnum sjálfum að gæta að hæfi sínu og vekja athygli á því, eftir atvikum við næsta yfirmann, verði þeir að segja sig frá máli vegna hæfis. „Engin slík álitamál hafa komið upp varðandi starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins. Sama máli gegnir um heilbrigðisráðherra en mat á hæfi ráðherra byggir einnig á þeirri meginreglu að ráðherra gæti sjálfur að hæfi sínu.“ Fram kemur í hagsmunaskrá þingmanna að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taka til.

Í 2. grein siðareglna ráðherra um hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra segir:

Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.

Ráðherra upplýsir um fjárhagsleg hagsmunatengsl eða önnur slík tengsl sem valdið geta hagsmunaárekstum með því að fylla út eyðublað á vegum skrifstofu Alþingis, sbr. reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings. Forsætisráðherra getur í samráði við ríkisstjórn ákveðið að kalla með skipulögðum hætti eftir frekari upplýsingum um hagsmunatengsl ráðherra sem birtar yrðu almenningi.

Ráðherra beitir sér fyrir því innan ráðuneytis og þeirra stofnana sem undir það heyra að tekið sé á hagsmunaárekstrum strax og þeir koma upp og hann fær vitneskju þar um. Þá skal hann beita sér fyrir því að starfsfólk sé sér meðvitað um mögulega hagsmunaárekstra og leiðir til að koma í veg fyrir þá.

Samkvæmt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu mæla hæfisreglur stjórnsýsluréttar fyrir um að ráðherrum sé almennt óheimilt að koma að meðferð mála þar sem þeir eiga sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Hver og einn ráðherra gæti sjálfur að hæfi sínu en ef vafamál koma upp láti ráðherrar vita af hugsanlegum hagsmunaárekstrum og feli starfsfólki ráðuneytisins að setja staðgengil í sinn stað. Þá fjalli siðareglur ráðherra um það sama, meðal annars um að ráðherra skuli forðast árekstra á milli almannahagsmuna og eigin hagsmuna.

„Hvað varðar þau mál sem fyrirspurnin lýtur að þá er aðgerðum ríkisstjórnarinnar ætlað að hafa almenn og víðtæk áhrif. Aðgerðirnar eru vel kynntar á opinberum vettvangi og um þær fjallað víða meðal annars við þinglega meðferð. Ekki hafa komið upp sérstök álitaefni um hagsmunatengsl eða hæfi ráðherra eða einstakra starfsmanna ráðuneytisins við undirbúning aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar.“

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vekur jafnframt athygli á að opinber skráning hagsmunatengsla ráðherra, eins og annarra þingmanna, sé á vef Alþingis. Þar kemur fram Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eigi hlut sem nemur 25 prósent eða meira af hlutafé eða stofnfé í Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. og Hitaveitu Syðra-Langholts ehf.. Hann sitji jafnframt að skólanefnd Menntaskólans að Laugarvatni og sé fulltrúi Hrunamannahrepps í stjórn Heilsuþorp Flúðir ehf..

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Svandís Svavarsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.
Bára Huld Beck

Ekki komið upp álitaefni um hagsmunatengsl eða hæfi

Í svari frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram fyrir hönd ráðherranna beggja, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að opinber skráning hagsmunatengsla ráðherra, eins og annarra þingmanna, sé á vef Alþingis. Um hæfi einstakra starfsmanna í stjórnsýslunni fari samkvæmt stjórnsýslulögum og beri starfsmönnum að gæta að hæfi sínu og vekja athygli á því, eftir atvikum við næsta yfirmann, verði þeir að segja sig frá máli vegna hæfis.

„Ekki hafa komið upp sérstök álitaefni um hagsmunatengsl eða hæfi einstakra starfsmanna við undirbúning aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu,“ segir í svarinu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur samkvæmt hagsmunaskránni enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taka til. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tiltekur að hann hafi verið háseti á makrílveiðum í ágúst 2010 og í júlí 2012 um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA 11. Útgerðin hafi verið Samherji hf..

Svarið frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu er stutt og laggott en í því segir að mat á hæfi ráðherra sé hluti af hefðbundnu verklagi. Það eigi jafnt við um COVID-19 mál sem önnur. Fram kemur í hagsmunaskráningu þingmanna að Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafi farið í launalaust leyfi sem aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands.

Í svari félagsmálaráðuneytisins er samkvæmt bæði stjórnsýslulögum og siðareglum ráðherra almennt óheimilt að koma að meðferð mála þar sem þeir eiga sérstaka og verulegra hagsmuna að gæta. Það hafi ekki komið upp sérstök álitaefni um hagsmunatengsl eða hæfi einstakra starfsmanna eða ráðherra í félagsmálaráðuneytinu við undirbúning aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt hagsmunaskráningunni hefur Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra enga fjárhagslega hagsmuni sem reglurnar taka til.

Hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kemur fram að samkvæmt siðareglum ráðherra skuli ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Þá fari um hæfi einstakra starfsmanna í stjórnsýslunni samkvæmt stjórnsýslulögum og skuli ráðherra sjálfur gæta að hæfi sínu. 

„Hvorki hafa komið upp álitaefni um hagsmunatengsl eða hæfi umhverfis- og auðlindaráðherra né einstakra starfsmanna ráðuneytisins við undirbúning aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar, enda um almennar aðgerðir að ræða sem Alþingi hefur samþykkt. Eins og fram kemur á vef Alþingis hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson enga fjárhagslega hagsmuni sem reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna þingmanna taka til,“ segir í svari frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiInnlent