Aðsend

Hélt lengi í vonina um að hitta þau síðar á önninni

Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir, íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri, saknar nemenda sinna. Þegar samkomubann var sett á hélt hún í vonina um að hitta þau síðar á önninni en sú verður ekki raunin. „Mér finnst mjög merkilegt hvað skólafólki á Íslandi hefur tekist vel upp, bæði starfsfólki skólanna og nemendum,“ segir hún um fjarnámið sem þó hentar ekki öllum.

Sá lærdómur sem við munum draga af þessu verður vonandi sá að hægt er að miðla námsefni á marga vegu. Það þarf ekki endilega að gerast inni í kennslustofu og samkvæmt niðurnjörvaðri stundarskrá. Það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. 

Þetta segir Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri. Hún vonar að á síðustu mánuðum hafi öllum orðið ljóst hversu mikilvæg góð mennta- og heilbrigðiskerfi eru og að framlínufólkið sem í þeim starfar verði héðan í frá metið að verðleikum og meiri virðing fyrir því borin. „Við höfum ótrúlega aðlögunarhæfni og gátum brugðist mjög hratt við þegar líf okkar flestra breyttist. Og þó að það hafi verið snúið fyrir marga að fara úr staðkennslu í fjarkennslu tókst okkur, bæði kennurum og nemendum, vel til.“

Kolbrún Ýrr gekk sjálf í Menntaskólann á Akureyri. Hún ætlaði sér ekki að flytja norður að loknu háskólanámi fyrir sunnan en þegar staða losnaði í hennar gamla skóla blossaði upp áhugi á að prófa að kenna við hann. Með meistarapróf í bæði íslenskum fræðum og kennslufræðum í farteskinu flutti hún því norður á ný. „Ég ætlaði að vera hér í eitt til tvö ár en þetta er sjötta árið,“ segir hún í samtali við Kjarnann.


Auglýsing

Þegar Kolbrún mætti til vinnu í haust var hún að koma úr eins árs barneignarleyfi. Síðasta skólaár var nokkuð sérstakt í MA því tveir árgangar voru útskrifaðir samtímis þar sem verið var að breyta úr fjögurra ára framhaldsskólanámi í þriggja ára. „Þannig að þegar ég kom svo til vinnu í haust þá hafði nemendafjöldinn í skólanum minnkað mikið en að öðru leyti hófst skólaárið með hefðbundnum hætti.“

Vorönnin í Menntaskólanum á Akureyri hefst nokkru seinna en í öðrum framhaldsskólum eða um miðjan janúar og var því aðeins rétt hálfnuð er samkomubannið skall á. „Við vorum því komin styttra á veg í kennslunni en margir aðrir skólar.“

Gjörbreytti ekki allri kennslunni

Þegar samkomubann var svo sett á um miðjan mars og öll kennsla í framhaldsskólum færðist yfir í fjarkennslu var Kolbrún undir það búin andlega að ákveðnu leyti. „Þetta kom mér ekkert á óvart eins og kannski sumum.“

Stutt var þá í páskaleyfi og hún undirbjó fjarkennsluna í fyrstu ekki langt fram í tímann. „Ég hélt alltaf í vonina að ég gæti hitt þau síðar á önninni. Þess vegna ákvað ég að gjörbreyta ekki öllu skipulagi námsins fyrst eftir samkomubann. Ég fór heim með bækur, vinnutölvu og það sem ég þurfti. En þetta gerðist svo bara sjálfkrafa. Að maður fór að hugsa þetta öðruvísi,“ lýsir Kolbrún. „Eftir páska fór ég og sótti skrifborðsstólinn minn því ég var búin að sitja á hörðum eldhússtól og fann að það væru ekki alveg bestu aðstæðurnar!“


Kolbrún Ýrr í tómri kennslustofu sinni í Menntaskólanum á Akureyri
Aðsend

Kolbrún á fjögur börn og voru þau tvö elstu í skertu skólastarfi í samkomubanninu. Þau þurftu sitt næði til að vinna sína heimavinnu, dóttirin inni í sínu herbergi, stundum í fjarkennslustundum, og sonurinn, sem var annan hvern dag í skólanum, lærði við borðstofuborðið. „Heimilið varð eins og lítill vinnustaður. Við reyndum að dreifa okkur um húsið svo allir gætu fengið vinnufrið. Þannig að ég flutti mig inn í svefnherbergi þar sem ég sat við fjarkennsluna með rimlarúm yngsta barnsins við hliðina á mér,“ segir hún og hlær. „Þetta voru eiginlega fyndnar aðstæður. En svona var þetta.“

Eftir páskafrí var allt fyrirkomulagið farið að slípast til. Þá var hún búin að átta sig á því að líklega myndi hún ekki hitta nemendur sína aftur í kennslustofunni þetta skólaárið. Hún tók vinnutarnir um helgar til að skipuleggja kennslu komandi viku. Þó að hún hafi notað ákveðin verkfæri fjarkennslunnar áður hafi það krafist aukins undirbúnings að kenna allt í gegnum netið .

Við kennsluna hefur Kolbrún haft þann háttinn á að hitta nemendur sína í kennslustund á netinu reglulega en mun sjaldnar en stundataflan segir til um. „Það myndi einfaldlega ekki ganga upp að hitta þau algjörlega samkvæmt stundaskránni. Það væri of mikið fyrir þau.“


Auglýsing

Kolbrún segist almennt ekki nota kennslustundir til að „messa yfir“ nemendum heldur til verkefnavinnu. Því fyrirkomulagi hélt hún í fjarkennslunni. Hún boðaði þá til umræðutíma á netinu um smásögur, Njálu og fleira og einnig til þátttöku í spurningakeppni upp úr námsefninu. Einnig sendi hún þeim svokallaðar talglærur, glærur upp úr námsefninu sem hún talar inn á, og setti þeim svo fyrir verkefni sem þau gátu spurt út í í kennslustundum.

Stór hluti nemenda við Menntaskólann á Akureyri er alla jafna á heimavist og margir þeirra búa annars staðar á landinu. „Ég veit að sumum fannst erfitt að fara heim. Það er ekki nóg með það að þau séu ekki að mæta í skólann, þau eru ekki einu sinni í bænum og hafa ekki getað hitt bekkjarfélagana.“

Misjafnar aðstæður

Aðstæður nemenda heima fyrir eru einnig mjög misjafnar. Sumir segjast lítinn frið fá til að vinna. „Og það er örugglega mjög flókið fyrir marga. Það eru ekki til endalaust margar tölvur á hverju heimili. Á tímabili voru kannski báðir foreldrar að vinna heima líka og systkini. Allir þurftu svo að mæta á fundi   á netinu á ákveðnum tímum og skila sínu. Þetta er svolítið flókið í framkvæmd.“

Að auki segir Kolbrún það mjög misjafnt hversu vel nemendur ráði við sjálfstæð vinnubrögð. „Margir eru að tækla þetta mjög vel á meðan aðrir eru í rauninni að gera lítið.“ Það sama er þó uppi á teningnum í kennlustofunni. „En þar get ég gengið á milli þeirra og ýtt við þeim og hvatt þau áfram. Auðvitað geri ég það með einhverjum leiðum rafrænt en það er ekki alveg sambærilegt.“


Margar lausnir eru til fjarnáms. Kolbrún notaði m.a. forritið Zoom í fjarkennslustundum.
Aðsend

Einhverjir nemendur Kolbrúnar hafa nánast blómstrað í þessu breytta námsumhverfi. Því þótt samfélagið sem skapast í kennslustofu sé mikilvægt þá fylgir því líka ákveðin truflun. „Við erum svo rosalega ólík. Það hentar mörgum að fá að skipuleggja sitt eigið nám upp að vissu marki á meðan aðrir þurfa meira utanumhald.“

Ánægjulegt var að sjá að nemendur sem voru óvirkir í kennslustofunni gekk vel í fjarnáminu. „Það kemur mér á óvart hvað þau halda sér flest vel við efnið þrátt fyrir allt. Mér finnst þau hafa verið mjög dugleg.“

Nemendum líður misjafnlega

Kolbrún bað nemendur sína að lýsa líðan sinni og hvernig þeim gengi í fjarnáminu. „Það er vaxandi kvíði í samfélaginu og í skólanum eru nemendur sem voru kvíðnir áður en faraldurinn skall á. Og í kvíða er einangrun ekki að hjálpa,“ segir hún.

Nemendum hennar líður misjafnlega. „Sumir sögðust vera mjög einmana og þrá ekkert heitar en að koma aftur í skólann.“

Líkt og hjá mörgum hefur orðatiltækið enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur verið Kolbrúnu ofarlega í huga upp á síðkastið. „Nemendur sem voru kannski komnir með skólaleiða áttuðu sig á því eftir að allt fór yfir í fjarnám hvað skólinn er stór partur af þeirra lífi.“


Í fjarnámi er meiri hætta á því að nemendur einangrist.
EPA

Það sama eigi við um hana sjálfa. „Ég viðurkenni að stundum getur reynt á að vera kennari í kennslustofu en ég sakna þeirra mikið núna. Ég vissi það áður en það er alveg skýrt núna að ég er kennari af því að ég nýt þess að eiga í samskiptum.“

Þegar hún lítur í baksýnisspegilinn finnst henni fjarkennslan almennt hafa gengið vel, „furðulega vel,“ segir hún. „Mér fannst yfirfærslan úr staðnámi í fjarnám gerast hratt og nokkuð örugglega. Mér finnst mjög merkilegt hvað skólafólki á Íslandi hefur tekist vel upp, bæði starfsfólki skólanna og nemendum. Það er líka merkilegt að verða vitni að því að stéttir þar sem konur eru í meirihluta hafi staðið í framlínu þessa faraldurs. Þetta afhjúpar líka forgangsröðunina í samfélaginu. Þetta eru sömu stéttir og hafa hvað mest þurft að berjast fyrir bættum kjörum.“

Viðhorf vonandi að breytast

Kolbrún telur mögulegt að viðhorf til þessara lykilstétta hafi breyst. „Ef þú tekur allt í einu eftir því að þú getur ekki lifað lífinu án kennara og heilbrigðisstarfsmanna þá kannski áttar þú þig á virði þessara starfa. Að án leik- og grunnskólakennara hefði heilbrigðisstarfsfólkið okkar ekki getað unnið vinnuna sína. Og án góðra framhalds- og háskólakennara hefði ekki verið hægt að mennta þessa góðu lækna og hjúkrunarfræðinga.“


Auglýsing

Öll lokaprófin í Menntaskólanum á Akureyri verða rafræn og Kolbrún mun því ekki hitta nemendur sína meira þessa önnina. „En ég er heppin því ég er Menntskælingur og við hittumst  á fimm ára fresti. Og þeir nemendur sem eru að útskrifast núna munu einmitt fagna að fimm árum liðnum líkt og ég. Þannig að ég mun hitta þau á fimm ára fresti út lífið. Ég þarf ekki að kveðja þennan hóp.“

Hún segist hlakka mikið til þess að mæta til kennslu í skólabyggingunni næsta haust og hitta nemendur augliti til auglitis. „Ég vona að það komi ekki önnur bylgja faraldursins svo að þetta verði mögulegt. En ef þannig fer þá erum við að minnsta kosti betur undirbúin fyrir fjarnám.“


Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal