Konurnar sem sitja við ríkisstjórnarborðið eru almennt vinsælli á meðal almennings en karlarnir sem þar sitja með þeim, en samkvæmt nýrri könnun sem Gallup birti í gær eru fjórir vinsælustu ráðherrarnir í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur konur. Mest er ánægjan með störf Katrínar sjálfrar, svo Lilju Alfreðsdóttur og þá Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur og Svandísar Svavarsdóttur, áður en fyrsti karlinn kemst á blað.
Svipað var uppi á teningnum í könnun sem Maskína birti í apríl í fyrra, en þá skipuðu konur sér í efstu þrjú sætin þegar almenningur var spurður út í ánægju sína með frammistöðu einstaka ráðherra í starfi.
Kannanirnar tvær eru ekki að öllu leyti eins hvað aðferðafræði og úrtak varðar, en spyrja þó í grunninn sama hópinn, íslensku þjóðina, að sömu spurningunni, hversu ánægð eða óánægð hún er með störf þeirra sem sigla þjóðarskútunni.
Mest ánægja með störf Katrínar
Þjóðin er ekki ánægðari með neinn ráðherra en Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og formann Vinstri grænna. Rúmlega 59 prósent landsmanna eru ánægð með störf Katrínar samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar frá Gallup, en 21 prósent óánægð.
Í könnun Maskínu frá því í fyrra, sem tekið skal fram að er ekki fyllilega sambærileg, mældist ánægja með störf Katrínar 38,6 prósent, mun minni en hún mælist nú. Einnig mældist töluvert meiri óánægja með störf Katrínar þá, eða 34,4 prósent þeirra sem svöruðu könnun Maskínu fyrir rúmu ári síðan sögðust óánægð með verk forsætisráðherrans.
Katrín hefur lengi verið einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins og notið vinsælda þvert á flokka. Í skoðanakönnun sem var gerð árið 2015 naut hún mest trausts alls forystufólks í stjórnmálum, en þá sögðust um sex af hverjum tíu treysta henni, sem er einmitt svipað hlutfall þjóðarinnar og segist ánægt með störf hennar nú.
Umtalsvert meiri ánægja er með störf Katrínar á meðal þjóðarinnar en hinna leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna um þessar mundir, en 43 prósent landsmanna eru ánægð með störf Bjarna Benediktssonar og 39 prósent með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar, samkvæmt könnun Gallup. Þeir eru þó vinsælustu karlarnir við ríkisstjórnarborðið.
Framsókn nýtur lítillar hylli en Lilja er áfram vinsæl
Mennta- og menningarmálaráðherrann Lilja Dögg Alfreðsdóttir fór með himinskautum í mælingu Maskínu á vormánuðum 2019 og var þá sá ráðherra sem langflestir voru ánægðir með, eða heil 67,6 prósent aðspurðra. Einungis 9,6 prósent óánægja mældist með störf hennar í þeirri könnun.
Í könnun Gallup nú segjast nærri 54 prósent vera ánægð með störf Lilju, en rúm 17 prósent eru óánægð með hennar verk, sem gerir hana að óumdeildasta ráðherra ríkisstjórnarinnar, samkvæmt könnuninni.
Þegar mælingin í fyrra fór fram var enn mikið rætt um Klausturmálið, en Lilja var ein fjölmargra sem núverandi þingmenn Miðflokksins töluðu illa um yfir drykkjum þann 20. nóvember 2018. Varð hún meðal annars að þola grófar kynferðislegar athugasemdir frá samþingmanni sínum Bergþóri Ólasyni. Viðbrögð hennar í kjölfarið vöktu mikla athygli, en hún fór í Kastljósviðtal og lýsti orðum þeirra sem sátu og rausuðu á Klaustri sem algjöru ofbeldi, sem hún væri ofboðslega ósátt við.
Á sviði stjórnmálanna hefur ekki allt gengið upp sem Lilja hefur ætlað sér undanfarin misseri.
Fjölmiðlafrumvarp hennar situr til dæmis enn fast í þingnefnd og hefur mætt yfirlýstri andstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þá mælist Framsóknarflokkurinn nú með sitt minnsta fylgi frá síðustu kosningum, eða einungis 6,4 prósent, samkvæmt könnun MMR sem birt var fyrr í vikunni.
Einnig hafa gjörðir Lilju ekki alltaf fallið í kramið hjá samráðherrum hennar. Skýrt dæmi um það núna nýlega var þegar hún lét hafa eftir sér í hlaðvarpsþætti ViðskiptaMoggans að sennilega yrði ekki hægt að opna fyrir óheft flæði fólks til og frá Íslandi fyrr en búið væri að finna upp bóluefni við kórónuveirunni.
Aðrir ráðherrar hlupu til og sögðu ekkert hafa verið ákveðið um slíkt, enda væri þar um meiriháttar stefnubreytingu að ræða sem yrði kynnt með formlegum og viðeigandi hætti.
Lilja er talin líkleg til þess að gefa kost á sér í formannsembætti Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar á næsta ári og hefur hvorki sagt af eða á um hvort svo verði.
Tæpur helmingur ánægður með verk Þórdísar og Svandísar
Nær jafnar í þriðja og fjórða sæti yfir vinsælustu ráðherrana eru þær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, en um 46 prósent ánægja mælist með störf þeirra í könnun Gallup.
Þórdís Kolbrún var næstvinsælasti ráðherrann í könnun Maskínu í fyrra og mældist þar 43,2 prósent ánægja með störf hennar og er hún því svipuð nú. Þórdís Kolbrún er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og óumdeildasti ráðherra hans, en einungis rúm 18 prósent svarenda í könnun Gallup sögðust óánægðir með störf Þórdísar Kolbrúnar.
Munar töluverðu á henni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem um 28 prósent segjast óánægð með, og þeim Bjarna Benediktssyni og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem 35 prósent eru óánægð með. 62 prósent sögðust óánægð með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ánægja með störf Svandísar hefur vaxið gríðarlega frá mælingunni í fyrra, en þá sögðust aðeins 19,9 prósent vera ánægð með frammistöðu hennar sem heilbrigðisráðherra.
Einungis mældist minni ánægja með störf tveggja ráðherra í mælingu Maskínu þá, þeirra Kristjáns Þórs og Sigríðar Á. Andersen, sem var þá reyndar þegar búin að segja af sér sem dómsmálaráðherra vegna Landsréttarmálsins.
Mögulega hefur kórónuveirufaraldurinn aukið vinsældir Svandísar, en sem heilbrigðisráðherra hefur hún undanfarna mánuði tekið og kynnt ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir sem almennt hafa fallið ágætlega í kramið.
Mælingar hafa sýnt að öllum meginþorra almennings þóttu þær ráðstafanir hóflegar og í takti við tilefnið, þó að einnig hafi hluti þjóðarinnar talið að ýmist væri of mikið eða of lítið gert til þess að bregðast við.
Dómsmálin virðast ekki líklegt til vinsælda
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er nýjasti og um leið yngsti ráðherra ríkisstjórnarinnar, 29 ára gömul. Hún tók við sem dómsmálaráðherra í lok síðasta sumars eftir að Þórdís Kolbrún hafði lengt starfstitil sinn enn frekar með því að fylla skarð Sigríðar Á. Andersen tímabundið.
Áslaug Arna er rétt fyrir neðan miðjan ráðherrahópinn hvað vinsældir varðar, en 37 prósent landsmanna segjast ánægðir með störf hennar. Á móti kemur eru næstum því jafnmargir sem segjast óánægðir, samkvæmt könnun Gallup.
Frá því að Áslaug Arna tók við embætti hefur ýmislegt verið á döfinni á hennar málefnasviði. Eitt hennar fyrstu verka var að takast á við mikla ólgu vegna langvarandi deilna innan lögreglunnar og gerð starfslokasamnings við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra í kjölfarið. Síðan þá hefur hún skipað Sigríði Björk Guðjónsdóttur í embættið.
Málefni flóttafólks hafa einnig verið í umræðunni og sennilega bakað Áslaugu Örnu nokkrar óvinsældir. Nú er til meðferðar á Alþingi frumvarp hennar um breytingar á útlendingalögum, sem Rauði krossinn á Íslandi hefur sagt fela í sér verulega afturför og réttindaskerðingu fyrir fólk á flótta.
Fjórir karlar reka lestina í ánægjumælingunni
Hér að ofan hefur verið fjallað um hvernig konurnar í ráðherraliðinu koma út í samanburði við mælingu Maskínu í fyrra. Þegar horft er til karlanna eru þeir Bjarni og Sigurður Ingi vinsælastir, en nær 43 prósent segjast ánægð með störf Bjarna og 39 prósent með störf Sigurður Inga, sem áður segir.
Báðir rísa þeir nokkuð mikið frá mælingu Maskínu í fyrra, en þá voru einungis 25 prósent sem sögðust ánægð með frammistöðu Bjarna og 27,8 prósent voru ánægð með Sigurð Inga.
Ekki er jafn mikil ánægja með hina karlana í ráðherraliðinu, en svo sem ekki sérlega mikil óánægja heldur, ef frá er talin sú megna óánægja sem mælist með störf Kristjáns Þórs í könnun Gallup nú.
Þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra falla þó langt niður ánægjulistann, miðað við könnun Maskínu í fyrra. Þar voru þeir tveir þeir karlar sem mest ánægja mældist með, en nú hafa Bjarni og Sigurður Ingi skotið þeim ref fyrir rass.
Mæld ánægja með frammistöðu þeirra í starfi er þó áfram á svipuðu róli, en um 35 prósent eru ánægð með störf þeirra, sem er litlu meira en í mælingu Maskínu í fyrra. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra er á svipuðu róli og þeir Guðmundur Ingi og Guðlaugur Þór og er ánægjan með hann töluvert meiri nú en í könnun Maskínu í fyrra, þegar hún mældist rúm 22 prósent.